Í síðustu grein fjallaði ég um meðhöndlun ASÍ á stefnumótunarvinnu í skattkerfismálum og á vinnu við lagabreytingar vegna launaþjófnaðar. Eins og ég rakti þá voru vinnubrögðin í þessum málum óviðunandi, og afurðirnar því miður eftir því.
Langalvarlegasta dæmið um það hvernig ASÍ undir stjórn nýs forseta hefur sniðgengið ekki aðeins Eflingarfélaga og fulltrúa þeirra heldur einnig lýðræðisleg og heiðarleg vinnubrögð hlýtur þó að vera vinnan við svokallaða „Grænbók um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál“. Grænbók þessi var heiti sem ríkisstjórnin bjó til utan um tilraunir sínar til að endurlífga Salek-verkefnið í tengslum við undirritun Lífskjarasamningana árið 2019. Salek-verkefnið, sem var stærsta hugsjón Gylfa Arnbjörnssonar og átti að skrifa nafn hans með gylltu letri á spjöld Íslandssögunnar, gengur út á að afnema sjálfstæðan samningsrétt stéttarfélaga og taka af þeim verkfallsvopnið um leið og ákvörðun launa verður alfarið miðstýrð í gegnum nefnd sérfræðinga. Nýlegt dæmi þar sem má sjá fegurð Salek-hugmyndafræðinnar í framkvæmd var þegar norska ríkisstjórnin bannaði fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir verkafólks í olíuiðnaði í júlí 2022, en þetta er dæmi um þær heimildir sem íslenska ríkisstjórnin myndi öðlast með innleiðingu „norræns vinnumarkaðsmódels“ eins og það er kallað. Samningaviðræður og kjarabarátta í þeirri mynd sem við þekkjum myndi heyra sögunni til. Sú atburðarás sem leiddi til þess að ríkisstjórnin taldi sig hafa heimild til að setja inn ákvæði um vinnu við svokallaða Grænbók í yfirlýsingu sína vegna Lífskjarasamninga hefur aldrei verið skýrð fyrir mér þrátt fyrir fjölda fyrirspurna. Út frá þeim frásögnum og gögnum sem fyrir liggja er ekki hægt að álykta annað en að Alþýðusambandið hafi á laun gert samkomulag við ríkisstjórnina um að fallast á endurlífgun Salek-verkefnisins sem skilyrði þess að ríkisstjórnin styddi við samningana með margumræddum aðgerðapakka sínum.
Ég er ekki að segja frá þessari atburðarás í fyrsta sinn í þessari grein, heldur rakti ég hana í ítarlegri kynningu sem ég hélt fyrir trúnaðarráð Eflingar í mars 2021 og fór auk þess í viðtal á Sprengisandi þar sem þetta var rætt. Ég vil þó taka skýrt fram að áður en ég fór og ræddi um þess atburði í fjölmiðlum þá hafði ég margítrekað reynt að fá fram svör á vettvangi ASÍ. Hvað eftir annað spurði ég spurninga á fundum Miðstjórnar Alþýðusambandsins og leitaði skýringa á því hvernig það mætti vera að ASÍ teldi sig geta skikkað Eflingarfélaga til stuðnings við Grænbókina, verkefni sem þeir höfðu aldrei verið spurðir um. Erfitt er að skilja siðferðið eða rökhugsunina í því að talað væri um að Eflingarfélagar eða fulltrúar þeirra hefðu gefið „loforð“ um að taka þátt í slíku, þegar þeir höfðu aldrei gefið slíkt loforð hvað þá fengið minnstu kynningu eða upplýsingar um þetta verkefni þegar Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir. Jafnframt sætir furðu það mikla vald sem þáverandi aðalhagfræðingi Alþýðusambandsins, Henný Hinz, var veitt í þessu máli. Henný átti að sjá um að tryggja fylgispekt sambandsins við loforðið um Grænbókarvinnuna, en hún náði þó ekki að ljúka því verkefni. Rúmu ári eftir undirritun Lífskjarasamninganna var hún ráðin til starfa hjá forsætisráðuneytinu, að því er virðist til að vinna að áframhaldandi framgangi Salek-verkefnisins, og er hún í dag nánasti ráðgjafi Katrínar Jakobsdóttur um vinnumarkaðsmál. Með ráðningu hennar í forsætisráðuneytið áttu sér stað eins konar stólaskipti milli hennar og Höllu Gunnarsdóttur sem fór úr ráðuneytinu til að taka við stöðu framkvæmdastjóra ASÍ við hlið Drífu Snædal. Er það ágætis dæmi um „hringekjuna“ milli starfa hjá félagasamtökum, ráðuneytum og ríkisstofnunum sem meðlimir fagmenntunar- og sérfræðingastéttarinnar hafa aðgang að á sinni framabraut og þar sem verkalýðshreyfingin er oft einn viðkomustaðurinn. Ég ræði nánar um hringekjuna í næstu grein.
Skýrslur Gylfa í fullu gildi
Fleira var furðulegt í sambandi við meðhöndlun ASÍ á Grænbókarmálinu. Má þar nefna þegar Drífa Snædal lagði til í tölvupósti til forsetateymis ASÍ þann 17. nóvember 2020 að hún myndi senda inn til forsætisráðuneytisins, sem svar við beiðni ráðuneytisins um afstöðu hreyfingarinnar til Salek og Grænbókarvinnu, skýrslur og gögn um efnið sem unnin voru í tíð Gylfa Arnbjörnssonar. Lét Drífa þessi gögn fylgja með í tölvupóstinum, algjörlega eins og þau komu af kúnni. Það að Drífa hafi látið sér koma það til hugar árið 2020, aðspurð um hug íslensku verkalýðshreyfingarinnar til Salek, að senda forsætisráðuneytinu margra ára gamla afstöðu Gylfa Arnbjörnssonar segir allt sem segja þarf um þá fullkomnu samfellu sem ríkir milli valdatíða Gylfa og Drífu og þá algjöru undirgefni Alþýðusambandsins við Salek-hugmyndafræðina sem aldrei hefur tekist að binda endi á.
Í deilunum um Grænbókina kristölluðust skýrt mörg þau atriði sem einkenna vinnubrögð íslensku verkalýðshreyfingarinnar. Þessum vinnubrögðum hefur ekki verið breytt á síðustu 4-5 árum heldur hafa þau, ef eitthvað er, fest sig í sessi í tíð Drífu Snædal. Eitt einkennið er undirgefni við boðvald fagmenntunar- og sérfræðingastéttarinnar, sem er gefin heimild til að höndla að eigin vild með nánast hvaða stefnumótunaratriði sem er, óháð vilja eða afstöðu félagsfólks í hreyfingunni og fulltrúa þeirra. Störf efnahags- og skattanefndarinnar sem ég sagði frá í síðustu grein endurspeglar sama vanda. Annað einkennið er ótrúleg klíku- og útskúfunarmenningu sem þrífst á meðal kjörinna fulltrúa innan ASÍ. Það síðarnefnda sást vel í því þegar Halldóra Sveinsdóttir, einn helsti fjandmaður Eflingar á vettvangi hreyfingarinnar og ástríðufull stuðningskona Salek, lét boða til leynifundar meðal formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins í lok janúarmánaðar 2021. Á þennan fund var öllum formönnum SGS félaganna boðið nema mér (sem á þeim tíma var einnig varaformaður Starfsgreinasambandsins), Vilhjálmi Birgissyni og Aðalsteini Árna Baldurssyni formanni Framsýnar á Húsavík. Tilgangur fundarins var að þétta raðirnar í kringum óbreytt ástand í Alþýðusambandinu og Drífu Snædal, sem nýtur mikillar hylli í þessum hópi frá þeim dögum þegar hún var framkvæmdastjóri SGS, herða á útskúfuninni gegn mér, Eflingu og Vilhjálmi Birgissyni, og auðvitað á endanum að styðja við áframhald á leynilegri innleiðingu ríkisstjórnarinnar í félagi við ASÍ á Salek-verkefninu.
„Við erum ekki að fara að slá af okkar grunnprinsippum“
Eitt af því sem gerir ástfóstur Alþýðusambandsins við Salek-hugmyndafræðina enn undarlegra en ella er að samtök atvinnurekenda hafa æ minni áhuga á slíku samstarfi. Í tíð Gylfa Arnbjörnssonar var mikil heiðríkja í samskiptum atvinnurekenda við hreyfinguna, en atvinnurekendur voru auðvitað hrifnir af baráttulatri verkalýðsforystu og hugmyndafræði um að stéttabarátta borgaði sig ekki. Eftir að Halldór Benjamín Þorbergsson tók við sem framkvæmdastjóri SA árið 2017 hefur þar hins vegar verið innleidd mikil óbilgirnis- og harðlínustefna þar sem öll gömul heiðursmannasamkomulög eru virt að vettugi, og hvert tækifærið er nýtt til að láta reyna á réttindi sem áður var sátt um. Dæmi um þetta eru prófmál frá síðustu misserum þar sem Icelandair, með dyggum stuðningi og ráðgjöf SA, hefur ítrekað riðið á vaðið í að grafa undan áður tryggum grundvallarréttindum. Þannig tók Icelandair upp á því að segja flugfreyjum upp störfum í miðri kjaradeilu sumarið 2020, sem gekk í augljóst berhögg við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Tilgangur þessarar aðgerðar, sem SA studdi opinberlega, var augljóslega ekki bara sá að knésetja flugfreyjur heldur að opna á nýja lagaframkvæmd í kjaradeilum sem tæki gildi yfir allan vinnumarkaðinn. Þar er auðvitað í bakgrunninum sár gremja SA yfir árangusríkum verkfallsaðgerðum Eflingarfélaga, nokkuð sem gengur gegn öllum þeim hugmyndum um stéttasamvinnu og afnám verkfallsaðgerða sem höfðu ráðið áratugum saman og atvinnurekendur höfðu skiljanlega bundið miklar vonir við.
Miðstjórn Alþýðusambandsins hafði fjallað um uppsögn flugfreyjanna og samþykkt ákvörðun um að sækja málið fyrir Félagsdómi af fullum þunga. Í viðtali í byrjun september 2020 sagði forseti ASÍ að í þessu máli skipti það „öllu máli að verkalýðshreyfingin standi í lappirnar og segi nei“ og fullyrti: „Við erum ekki að fara að slá af okkar grunnprinsippum“ þrátt fyrir vísanir Icelandair í einhverskonar neyðarástand í rekstri fyrirtækisins vegna kórónaveirukreppunnar. Þessi afstaða forsetans var hins var orðin allt önnur aðeins tveimur vikum síðar. Í stað þess að fylgja málssókninni eftir, og fá staðfestingu á því að uppsagnirnar væri ólöglegar, ákvað ASÍ skyndilega í samráði við Magnús Norðdahl lögfræðing sambandsins að ganga til viðræðna við SA og Icelandair um að fara allt aðra leið. Þar var svo sannarlega „slegið af grunnprinsippum“. Var þessi stefnubreyting gerð í kjölfar þess að Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hringdi í Drífu Snædal. Bogi Nils fékk sínu framgengt hratt og örugglega og skilaði það sér í sameiginlegri yfirlýsingu SA, ASÍ, Flugfreyjufélagsins og Icelandair sem birt var 17. september 2020. Ég, sem á þessum tíma var 2. varaforseti ASÍ, fékk vitneskju um smíði þessarar yfirlýsingar kvöldið áður en hún var svo borin undir miðstjórn ASÍ. Var þess þannig gætt að upplýsingum um þessa stefnubreytingu væri haldið frá mér fram á síðustu stundu, á meðan forseti ASÍ gaf formönnum annarra stéttarfélaga tækifæri til að glöggva sig á málinu með því að senda þeim gögn og halda þeim upplýstum.
Unnið með ríkisstjórninni að frystingu launahækkana
Ég hef nú rakið nokkur dæmi um þau vinnubrögð og hugmyndafræðilegu afstöðu sem Drífa Snædal stóð vörð um á vettvangi Alþýðusambandsins, í krafti embættis síns sem forseti sambandsins. Nefna mætti mörg önnur dæmi en ég læt eitt til viðbótar nægja, en það eru þau vinnubrögð sem áttu sér stað af hálfu Alþýðusambandsins í Covid19-kreppunni. Í Covid19-kreppunni sáu atvinnurekendur sér leik á borði – eins og ávallt – til að skara eld að eigin köku á kostnað verkafólks. Í hinu ógnvænlega ástandi sem skapaðist í öllu þjóðfélaginu vegna faraldursins kom upp talsvert óðagot og uppnám, sérstaklega vegna hruns í ferðaþjónustunni. Litu atvinnurekendur á þetta sem tækifæri til að reyna að koma sér hjá því að standa við launahækkanir Lífskjarasamningsins. Áhlaupið sem gert var haustið 2020 af hálfu Samtaka atvinnulífsins að efndum Lífskjarasamningsins var stórkostlegt. Á undangengnum mánuðum höfðu einnig verið talsverð skoðanaskipti og átök innan verkalýðshreyfingarinnar um það hvort og þá hvernig ætti að bregðast við Covid19-kreppunni, með hliðsjón af kjarasamningum. Afstaða mín og Eflingar í því máli var frá byrjun skýr: Það kom ekki til greina að gefa eftir svo mikið sem brot af þeim launahækkunum sem um samdist í Lífskjarasamningum og kostuðu meðal annars langar og strangar samningaviðræður og verkfallsaðgerðir.
Þá áttuðu glöggir sig fljótlega á því að aðgerðir stjórnvalda í kórónaveirukreppunni myndu skila sér ríkulega til bæði auðvaldstéttarinnar og eignamikillar millistéttar, líkt og til dæmis Þórður Snær Júlíusson fjallaði um í ítarlegum úttektum á vef Kjarnans og í fyrirlestri fyrir trúnaðarráð Eflingar í desember 2020. Aðgerðir Seðlabankans sem leiddu til aukinnar útlánagetu bankanna sem og ítrekaðar vaxtalækkanir leiddu til fasteignabólu og aukningar á bæði ráðstöfunartekjum og eiginfjárstöðu þeirra sem eiga verðmiklar fasteignir. Örlátir ríkisstyrkir voru greiddir til fyrirtækja, jafnvel þeirra sem nýlega höfðu greitt út feiknalegar arðgreiðslur til eigenda. Á sama tíma neyddust margir Eflingarfélagar, sérstaklega sá stóri hópur sem starfar í umönnunarkerfunum, til að taka á sig stóraukið vinnuálag, smithættu og erfiðleika í vinnu sinni, svo ekki sé minnst á þann stóra hóp verkafólks sem þurfti að komast af á smánarlega lágum atvinnuleysisbótum. Erfitt var að sjá hvaða rök væru fyrir því að Eflingarfélagar og annað verka- og láglaunafólk tækju á sig kjaraskerðingar vegna kórónaveirufaraldursins á meðan hóparnir fyrir ofan þá í lífskjarastiganum höfðu aldrei haft það betra.
Seint í mars 2020 var haldinn fundur í svokallaðri samninganefnd ASÍ þar sem Drífa lýsti fyrirliggjandi áætlun um „frystingu“ á launahækkunum Lífskjarasamningsins sökum kórónaveiru-kreppunnar. Fram kom að sérfræðingar Alþýðusambandsins hefðu tekið þátt í vinnu við að teikna upp þessa áætlun með fulltrúum opinberu stéttarfélaganna (BHM og BSRB), ríkisstjórninni og Samtökum atvinnulífsins. Vinna við tillögur um „frystingu“ þeirra launahækkana sem Eflingarfélagar fengu í gegn vorið 2019 með verkfallsaðgerðum hafði þannig verið sett af stað af hálfu ASÍ og rædd við aðra aðila vinnumarkaðarins án nokkurs samráðs við Eflingu. Einörð andstaða mín, Ragnars Þórs og Vilhjálms Birgissonar varð til þess að þessar hugmyndir um „frystingu“ með stuðningi ASÍ urðu aldrei að veruleika. Ágangur Samtaka atvinnulífsins hætti þó ekki og ágerðist mjög haustið 2020 þegar kom að endurskoðun Lífskjarasamninganna. Þá sýndi stjórn Eflingar algjöra einingu og samstöðu, kom saman með stuttum fyrirvara þann 25. september 2020 og lýsti skýrri afstöðu sinni: að hafna öllum hugmyndum um frystingu eða aðrar kjaraskerðingar. Að endingu fór það svo að hugmyndir ASÍ unnar í samvinnu við valdastéttina um frystingu urðu undir og allar hækkanir Lífskjarasamningsins hafa haldið sér ósnertar, ekki bara hækkanir um fyrirframákveðnar krónutölur heldur einnig hækkun samkvæmt svokölluðum hagvaxtarauka sem kom til framkvæmdar þann 1. maí 2022. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með ummælum forseta ASÍ um þess atburði nú næstum tveimur árum síðar, þar sem hún hefur talað um að „standa í lappirnar“. Drífa ætlaði sér ekki að standa í lappirnar og það hefði ekki verið gert nema vegna ítrekaðra háværra mótmæla annarra, ekki síst Eflingarfélaga, innan Alþýðusambandsins gegn hugmyndum hennar.
Íhald og sérfræðingar gegn umbreytingaöflum
Hér hefur verið farið yfir nokkur af þeim stóru málum sem tekist var á um í samstarfi Eflingar við Alþýðusamband Íslands á síðustu fjórum árum. Eins og fram kemur þá snerist þessi ágreiningur ekki aðeins um afstöðu til málefna – því auðvitað er skoðanamunur eðlilegur – heldur líka um vinnubrögð, heiðarleika og gagnsæi. Alþýðusambandið hefur fallið á of mörgum prófum um öll þessi atriði. Sú upplifun af Alþýðusambandinu sem hér hefur verið lýst er engan veginn bundin við mig eða aðra fulltrúa Eflingar. Aðrir eru á sama máli og hafa tjáð sig opinberlega í þá veru, sér í lagi Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson. Vorið 2020 sögðu þeir báðir af sér úr embættum á vettvangi ASÍ, Vilhjálmur sem varaforseti og Ragnar Þór sem miðstjórnarmaður, vegna ósættis um vinnubrögð varðandi „frystingu“ hækkana Lífskjarasamningsins sem rædd var hér að framan. Í mars 2022 skrifaði Vilhjálmur pistil þar sem hann gerði upp við tíma sinn sem varaforseti, og rakti þar atburði tengt því máli og fleira. Ragnar Þór skrifaði um svipað leyti hreinskiptna grein um „skuggahliðar verkalýðshreyfingarinnar“ þar sem hann ræddi m.a. um hópinn kringum Halldóru Sveinsdóttur, sem ræktar þá útskúfunarmenningu fjarri sviðsljósinu sem undantekningarlaust er beitt gegn aðkomufólki í hreyfingunni. Í framhalds-grein skrifaði Ragnar Þór um „hatramma valdabaráttu“ sem kraumar undir niðri, valdabaráttu „sem á rætur sínar að rekja til Salek hópsins“ eins og Ragnar Þór orðaði það. Lýsingar Ragnars og Vilhjálms eru sannleikanum samkvæmar.
Lýðræðisbyltingin sem lét á sér standa
Í bók sinni um sögu Alþýðusambandsins sem út kom árið 2013 skrifaði Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur um hinar misheppnuðu tilraunir til hallarbyltinga í Dagsbrún á tíunda áratugunum sem ég minntist á í síðustu grein. Sumarliði skrifaði um tímabilið eftir það: „Almennt má segja að frá 1995 hafi lítið farið fyrir andófi innan verkalýðshreyfingarinnar, að minnsta kosti fram að „hruni“ 2008.“ Það er rétt hjá Sumarliða að Hrunið markaði þáttaskil, sem eins og ég nefndi í síðustu grein hafði djúp áhrif á mig, Ragnar Þór og Vilhjálm – en talsvert minni, ef nokkur, á Alþýðusamband Íslands. Sumarliði nefnir þá til sögunnar kosninguna í VR árið 2009 þegar Kristinn Örn Jóhannesson var kjörinn formaður, en bætir við: „Annars hafa ekki verið miklar umræður um það hvernig auka mætti lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar, samanborið við þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu almennt eftir „hrun“. Það verkefni bíður framtíðarinnar.“ Bók Sumarliða kom út eins og áður segir árið 2013. Nú níu árum síðar er ljóst að sú framtíð sem hann nefnir er runnin upp. Verkefnið um lýðræðisvæðingu Alþýðusambandsins og aðildarfélaga þess er hafið. Þetta gerðist ef til vill fyrr og óvæntar en Sumarliði bjóst við árið 2013 en á móti má segja að það hafi gert hægar og treglegar en margur hefði haldið árið 2018. Eins og hér hefur verið rakið þá hefur grimm andstaða Alþýðusambandsins undir forsæti Drífu Snædal verið afgerandi þáttur í að tefja framgang þess verkefnis.
Ítalski byltingarmaðurinn Antonio Gramsci skrifaði fræga tilvitnun, sem má lesa í byrjun síðustu greinar, um það ástand þegar hið gamla er dautt en hinu nýja er meinað að fæðast. Þá framkallast hin margvíslegustu sjúklegu einkenni. Þeir ýmsu sjúkleikar og raunar tryllingur sem fylgt hefur tilraunum mínum og Eflingarfélaga til að krefjast umbóta innan félagsins okkar hafa vart fram hjá nokkru mannsbarni á síðustu árum. Minna hefur farið fyrir umræðum um þessa baráttu milli hins gamla og nýja innan ASÍ. Það litla sem fram hefur komið frá fyrrum forseta ASÍ hefur gengið út á að setja allan skoðana- og áherslumun í sem persónulegastan og lágkúrulegastan búning. Ég deili ekki áhuga fyrrum forsetans á því að fella dóma um persónuleika eða samskiptahætti annarra einstaklinga í verkalýðshreyfingunni, en ég tel það hins vegar réttmætt að gagnrýni á áherslur og vinnubrögð komi fram opinberlega þegar allar leiðir til að sætta ágreining og miðla málum innan stofnana hreyfingarinnar hafa brugðist. Ég tel að félagsfólk í Eflingu og öðrum aðildarfélögum Alþýðusambandsins eigi rétt á því að fá sannverðuga mynd af atburðum. Þessi og síðasta grein eru hugsaðar til þess. Í næstu greinum verður skyggnst dýpra, leitast við að greina sjúkdóminn nánar og sjónum beint til framtíðar.
Höfundur er formaður Eflingar.