Á Íslandi höfum við þrjá þjóðgarða sem samtals þekja um 15% af flatarmáli landsins. Markmið þeirra er meðal annars að vernda náttúru- og menningarminjar, leyfa náttúrunni að þróast eftir sínum eigin lögmálum en um leið gefa almenningi kost á að njóta hennar með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru til verndunar vistkerfa, lífríkis, jarðminja og menningarminja svo eitthvað sé nefnt. Hugmyndir eru uppi um að fjölga þjóðgörðum og koma á fót miðhálendisþjóðgarði sem umhverfisráðherra dreymir um. Er það skynsamlegt og tryggja þjóðgarðar að passað sé upp á viðkvæma náttúru landsins? Hér verður sagt frá nýlegri vega- og stígagerð í Jökulsárgljúfrum innan Vatnajökulsþjóðgarðs sem fær mann til að efast um að svo sé. Vatnajökulsþjóðgarður státar af því að hafa verið samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO og mætti því ætla að stjórnendum hans væri sérlega umhugað að vanda vel til verka við allar sínar framkvæmdir.
Vegagerð í Vesturdal
Sumarið 2020 vakti undirrituð athygli almennings á vegagerð sem þá stóð yfir í Vesturdal við Hljóðakletta, innan Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði. Þar var Vegagerðin að leggja háan veg og há og mikil bílastæði í algjöru ósamræmi við viðkvæmt landslag svæðisins og þá staðreynd að í Vesturdal var einstakt tjaldsvæði, gert frá náttúrunnar hendi. Vatnajökulsþjóðgarður og þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum brugðust við fréttinni og vörðu framkvæmdina og það gerði einnig Vegagerðin . Í kjölfarið kærði SUNN (Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi) framkvæmdina og í framhaldinu var hún stöðvuð.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fundaði þann 10. ágúst 2020 í Jökulsárgljúfrum og bókaði þá eftirfarandi um vegagerðina í fundargerð:
„Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs styður þá niðurstöðu Vegagerðarinnar að stöðva vegaframkvæmdir í Vesturdal í Jökulsárgljúfrum í tengslum við kæru SUNN (Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi) til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Kæran snýr að framkvæmdum við að lagfæra núverandi aðkomuveg að Vesturdal og bílastæði við upphaf gönguleiðar um Hljóðakletta.
Stjórn felur svæðisráði norðursvæðis, framkvæmdastjóra og þjóðgarðsverði svæðisins að vinna að lausn málsins með fulltrúum Vegagerðarinnar, sveitarfélagsins Norðurþings og SUNN þar sem markmiðið er að ná sameiginlegri niðurstöðu og sátt um vegaframkvæmdir sem valdi sem allra minnstum áhrifum á einstaka náttúru og ásýnd svæðisins í Vesturdal.“
Með þessari bókun stjórnar batt undirrituð vonir við að Vatnajökulsþjóðgarður myndi vinda ofan af þessari skelfilegu framkvæmd, fá fagaðila að málinu, setjast niður með þeim aðilum sem málið vörðuðu og finna á því farsællega lausn. Til þess hefði verið nauðsynlegt að byrja á því skoða málin heildstætt, skoða stefnu þjóðgarðsins fyrir Vesturdal, Hljóðakletta og Rauðhóla, hver markmið þjóðgarðsins væru fyrir þau svæði til framtíðar, verndun þeirra og nýtingu og hvernig best væri að stýra um þau umferð til að uppfylla þau markmið.
Slík stefna og vinna við hana er grundvöllur að þeirri uppbyggingu sem á síðan að gera, þ.m.t. vegagerð, stærð og staðsetningu bílastæða, salerna, göngustíga og fleira. SUNN óskaði eftir því að fá að koma að því að ræða slíka stefnu, markmið og leiðir en Vatnajökulsþjóðgarður vildi aðeins fá SUNN til að samþykkja eða hafna nýrri hönnun Vegagerðarinnar af veginum og bílastæðum í Vesturdal og við Hljóðakletta. Það vildi SUNN ekki enda var ekki að sjá að tillagan byggði á neinni sýn eða stefnu um svæðið. Þar sýndu samtökin meiri metnað fyrir einstakri náttúru Vesturdals en Vatnajökulsþjóðgarður. Nú er vegagerð í Vesturdal að ljúka og var framkvæmt eftir nýju hönnun Vegagerðarinnar.
Eitthvað ávannst við þetta brölt undirritaðrar sumarið 2020 en því miður er skaðinn í Vesturdal alltof mikill og dalurinn verður aldrei sá sami, því miður. Margir velunnarar dalsins hafa haft samband við undirritaða vegna þessara framkvæmda og sumir þeirra sagst ekki treysta sér til að koma aftur í Vesturdal eftir meðferð Vatnajökulsþjóðgarðs og Vegagerðarinnar á þessu viðkvæma svæði.
Bílastæði á Langavatnshöfða
Samhliða vegagerð í Vesturdal var lagður vegur upp á Langavatnshöfða en það er höfðinn sem gnæfir yfir Vesturdal, Hljóðakletta og Rauðhóla. Við enda vegarins er bílastæði og frá því á að koma, samkvæmt skipulagi, gönguleið að útsýnisstað yfir svæðið. Hvorki er búið að merkja fyrir né gera þá gönguleið þrátt fyrir margra ára undirbúningstíma og þá staðreynd að þetta er annað sumarið sem bílastæðið er í notkun.
Vegurinn og bílastæðið á Langavatnshöfða voru til þess gerð að draga úr bílaumferð í Vesturdal og voru þau gerð að frumkvæði Vatnajökulsþjóðgarðs sem vildi jafnframt að bílastæðið myndi ekki sjást frá helstu ferðamannastöðum svæðisins. Árið 2010 sendi Vegagerðin inn könnun á matskyldu fyrir þessa framkvæmd til Skipulagsstofnunar. Þar segir Vegagerðin um bílastæðið:
„Bílastæðið verður vestan í Langavatnshöfða og bílar sem verður lagt þar munu ekki sjást frá Vesturdal, Hljóðaklettum eða Rauðhólum.“ (bls. 8).
Skipulagsstofnun úrskurðaði að vegtengingin og bílastæðið á Langavatnshöfða þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Sá úrskurður byggir m.a. á því sem Vegagerðin heldur fram um bílastæðið á Langavatnshöfða en í úrskurðinum segir Skipulagsstofnun:
„Áhrif á landslag. Fram kemur að í samráði við þjóðgarðsyfirvöld hafi verið lögð áhersla á að draga úr sjónrænum áhrifum veganna og bílastæðanna og staðsetning valin þannig að bílastæðin sjáist ekki frá mikilvægum ferðamannastöðum í þjóðgarðinum. (bls. 2).
Þar segir einnig:
„Skipulagsstofnun ítrekar mikilvægi þess að Vegagerðin og aðrir sem að framkvæmdinni koma viðhafi þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem kynnt hafa verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum.“ (bls. 5).
Skemmst er frá því að segja að bílastæðið á Langavatnshöfða er nánast upp á háhöfðanum og sjást bílarnir vel af gönguleiðum á og við Rauðhóla en sjást ekki úr Vesturdal og Hljóðaklettum. Það er óásættanlegt að Vegagerðin hafi ekki staðið við að leggja bílastæðið þannig að það sæist ekki frá Rauðhólum. Hitt er þó enn verra að Vatnajökulsþjóðgarður skuli ekki ganga eftir því að farið sé að þeim óskum sem hann sjálfur kemur fram með og þeim tilmælum sem Skipulagsstofnun lagði upp með í úrskurði sínum. Hvergi er að finna að þessi breyting á staðsetningu bílastæðisins hafi verið samþykkt á formlegan hátt. Af hverju hefur Vatnajökulsþjóðgarður ekki meiri metnað en þetta fyrir að varðveita einstaka náttúru og landslag Jökulsárgljúfra?
Stígagerð í Jökulsárgljúfrum
Kannski er skýringin á metnaðar- og aðgerðarleysi Vatnajökulsþjóðgarðs gagnvart staðsetningu bílastæðisins á Langavatnshöfða og vegagerðinni í Vesturdal sú að þeim finnist svona rask ekkert tiltökumál og algjör óþarfi að láta eitthvað sem heitir náttúruvernd þvælast fyrir. Það má og glöggt sjá á þeirra eigin framkvæmdum við stígagerð í Jökulsárgljúfrum sumarið 2020, en þá réð Vatnajökulsþjóðgarður verktaka til að ryðja þar þrjá stíga með vinnuvél. Þær framkvæmdir sýna ótrúlega vankunnáttu Vatnajökulsþjóðgarðs á stígagerð og algjört virðingarleysi gagnvart gróðri og annarri náttúru svæðisins. Þá sýna þær framkvæmdir einnig skilningsleysi þjóðgarðsins á að gestir koma í þjóðgarð til að njóta náttúruskoðunar, útivistar og hreyfingar í óspilltri náttúru sem fær að þróast eftir sínum eigin lögmálum, en ekki til að ganga, hjóla eða ríða eftir stígum þar sem umhverfi stíganna er allt í sárum vegna framkvæmda þjóðgarðsins.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að í reglugerð nr. 300/2020 um Vatnajökulsþjóðgarð segir í 31. grein að
„mannvirkjagerð, vega-, stíga- og slóðagerð og hverskonar efnistaka innan marka þjóðgarðsins sé einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn.“
Þar segir einnig að gera skuli
„...deiliskipulag fyrir allar framkvæmdir innan þjóðgarðsins.“
Í 20 gr. reglugerðarinnar segir ennfremur að innan Vatnajökulsþjóðgarðs sé
„...óheimilt að valda spjöllum eða raski á náttúru, s.s. lífríki, jarðmyndunum eða landslagi, menningarminjum og mannvirkjum.“
Og er þar m.a. átt við
„... lífríki, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, plöntur, trjágróður, gróðurþekju, landslag, landslagsheildir, jarðmyndanir, vatn,...“
Af þessum þremur stígum sem Vatnajökulsþjóðgarður ákvað að láta ryðja með vinnuvél sumarið 2020 er einn þeirra alveg nýr og liggur frá nýju bílastæði á Langavatnshöfða, um 1,6 km leið að Rauðhólum. Annar stígurinn var lítið farin reiðleið frá Ási, austan Ásbyrgis, sem lá í grónum troðningi en á nú einnig að vera hjólastígur, um 4,5 km. Þriðji stígurinn er hluti af stikaðri gönguleið sem hlykkjast um skóginn í Ásbyrgi, suður frá tjaldsvæðinu og inn á gamlan íþróttavöll, af þeirri leið voru ruddir 1,5 km ásamt því að ruddur var stígur í gegnum íþróttavöllinn. Samtals voru því ruddir 7,6 km af stígum sumarið 2020. Enginn þessara þriggja stíga eru samkvæmt deiliskipulagi og a.m.k. einn þeirra er ekki samkvæmt gildandi stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá er mér einnig til efs að við framkvæmdirnar hafi verið hugað að því hvort að á framkvæmdasvæðinu væri að finna sjaldgæfar eða friðlýstar plöntur eða hvort þar væru hreiður fugla þegar framkvæmdirnar áttu sér stað en allir stígarnir eru í vel grónu landi með blómgróðri, lynggróðri, fjalldrapa, loðvíði, gulvíði og birkikjarri.
Ekki er hér ætlunin að fjalla nánar um skort á heildarsýn í stígagerð á svæðinu, skipulagsleysi, skringilega forgangsröðun framkvæmda, einkennilega legu stíganna eða þá staðreynd að sami stígur eigi að vera bæði reiðleið og hjólastígur eða jafnvel reiðleið, hjólastígur og göngustígur. Haustið 2020 auglýsti Vatnajökulsþjóðgarður nýja hjólaleið í Jökulsárgljúfrum en tveir af þessum stígum koma þar einmitt við sögu. Þar er þess og getið að halda eigi áfram með frekari endurbætur á hjólaleiðum innan þjóðgarðsins í sumar. Spurning hvort þar verði viðhöfð samskonar vinnubrögð og sumarið 2020 og verður nú lýst.
Verktakinn var látinn ryðja um 160-180 cm breiða stíga þar sem öllum gróðri, svarðlagi og hluta af jarðvegi var rutt úr stígunum og aðeins ber moldin skilin eftir. Við langvarandi þurrka og hlýindi, eins búið er að vera á Norðausturlandi í sumar, rýkur moldin upp úr stígunum þegar farið er um þá en í rigningartíð verða svona niðurgrafnir moldarstígar að drullusvaði. Efninu sem mokað var upp var ýmist dreift yfir gróna skorninga milli þúfna við hlið stíganna, sturtað í stórar hrúgur eða hóla meðfram stígunum eða því ekið langar leiðir utan stíga til að fela það inni í víðirunnum og birkikjarri. Og þegar ég tala um hrúgur af gróðri, svarðlagi og jarðvegi er ég ekki að tala um eina til tvær hjólbörur heldur hrúgur á stærð við nokkrar stórar heyrúllur eða rúllubagga eins og sjást víða á túnum um þessar mundir.
Meðfram lengsta stígnum (4,5 km) voru taldar yfir 100 hrúgur sem standa í 1-10 m fjarlægð frá stígnum og verður ekki hróflað við nema með öflugri vinnuvél, aldeilis góð viðbót við landslag Jökulsárgljúfra. Upp úr sumum hrúgunum standa svo birki- og víðihríslur sem urðu á vegi vinnuvélarinnar. Og ef þeim myndi svo detta í huga að dreifa úr hrúgunum með vinnuvél yfir gróið landið í kring yrðu spjöllin enn meiri. Á einum stígnum hafði komið upp mikið af stórgrýti og liggur það nú eins og hráviði út um allt meðfram þeim stíg.
Við framkvæmdirnar hefur gróður umhverfis stígana verið kaffærður með efninu. Þar sem efninu hefur verið sturtað í hrúgur utan stíga eða ekið með það langar leiðir til að fela hrúgurnar inni í víðirunnum og birkikjarri má sjá utanvegaslóðir af dauðu lyngi, fjalldrapa, eini, gulvíði og loðvíði eftir vinnuvélina. Rétt er að taka fram að búið er að bera möl og trjákurl í stíginn í Ásbyrgi en það varla endast lengi og kantar hans og umhverfi er allt í sárum eins og að framan er lýst. Það er með ólíkindum að Vatnajökulsþjóðgarður skuli láta vinna stíga með þessum hætti.
Jökulsárgljúfur tilheyra sveitinni Kelduhverfi en þar liggja slóðar frá flestum bæjum suður í vel gróna heiðina og eru þeir nýttir til smölunar. Við gerð þeirra var oftast farið með litla ýtu sem sléttaði leiðina en passað var uppá að ýta efninu ekki út fyrir. Þetta er líka hægt að gera með dráttarvél og tætara eins og þegar jafnað er fyrir girðingum. Mikilvægt er halda svarðlaginu í stígnum því það bindur jarðveginn. Fyrir um 20 árum gerðu Skógrækt ríkisins, þá eigandi Ásbyrgis og Náttúruvernd ríkisins, þá umsjónaraðili þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum um 3 km langan stíg í austurhluta Ásbyrgis sem nú er kallaður Skógarstígur. Áður en stígurinn var gerður var leiðin valin af kostgæfni og trjágróður grisjaður frá. Stígurinn var sléttaður með vél en engu efni var ýtt út fyrir hann, hvorki gróðri, svarðlagi, jarðvegi né grjóti. Raskið var því eingöngu bundið við stíginn sjálfan. Því miður kaus Vatnajökulsþjóðgarður ekki að nota þessa aðferð við stígagerðina sumarið 2020 og skilur nú svæðið allt eftir í sárum. Vegagerðin gengur þó frá efni sem fellur til við vegagerð með sómasamlegum hætti.
Svona er opinberu fé varið í Vatnajökulsþjóðgarði „í þágu náttúruverndar og innviðauppbyggingar“ í dag. Það upplýsist hér með að verktakinn sem sá um framangreinda stígagerð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð í Jökulsárgljúfrum sumarið 2020 er verktakafyrirtækið Garðvík á Húsavík. Þjóðgarðurinn hefur greinilega verið ánægður með þeirra störf við stígagerðina miðað umfang þeirra verkefna sem þeir vinna að í Jökulsárgljúfrum í sumar.
Snemma í vor var athygli fulltrúa náttúruverndarsamtaka í svæðisráði Norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs vakin á þessari stígagerð. Í framhaldinu var farin vettvangsferð og óskað eftir að málið yrði tekið fyrir á fundi í svæðisráði. Miklar tafir urðu á því að fundur yrði haldinn en það varð úr þann 29. júní s.l. og var þá lögð fram bókun sem fjallar aðeins um einn stíg af þremur . Þar var ennfremur óskað eftir því að Landgræðslan yrði fengin til að koma að málinu og skera þjóðgarðinn úr snörunni. Lítið eða ekkert hefur gerst síðan þá.
Að lokum
Vatnajökulsþjóðgarður hefur með þessum framkvæmdum valdið óþörfum og óafturkræfum spjöllum á náttúru og landslagi í Jökulsárgljúfrum og lítið aðhafst til að bæta úr því. Af þessum dæmum sést ennfremur hversu þunglamaleg og óskilvirk stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs er. Þrátt fyrir lög, reglugerðir, samþykkta stjórnunar- og verndaráætlun, stjórn, svæðisráð og framkvæmdastjóra þá virðast þjóðgarðsverðir hafa nokkuð frjálsar hendur um framkvæmdir á sínu svæði enda sjá þeir alfarið um eftirlitið með sjálfum sér. Hvað ætli UNESCO finnist um þessi vinnubrögð?
Því er næst að spyrja hæstvirtan umhverfisráðherra hvort að svona vinnubragða megi vænta við framkvæmdir á öllum þeim svæðum sem hann hefur friðlýst á undanförnum árum og þeim svæðum sem hann dreymir um að friðlýsa?
Væri ég spurð í dag hvort ég styddi stofnun miðhálendisþjóðgarðs myndi svarið vera einfalt NEI, ekki miðað við þessa reynslu. Það þarf eitthvað að stokka upp í þessu kerfi ef á að vera hægt að treysta því að unnið sé að heilindum að náttúruvernd í þjóðgörðum Íslands í dag.
Höfundur er íbúi í Kelduhverfi og starfaði sem landvörður í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum sumrin 1987-1993 og þjóðgarðsvörður á sama stað árin 1994-2008.