Nú, í byrjun árs 2022 er ég í ákaflega undarlegri stöðu gagnvart hugmynd minni að Heimskautsgerðinu sem er að rísa við Raufarhöfn. Sú hugmynd tók á sig mynd þegar ég var að gera líkan að Edduheimum í kringum árið 2003.
Líkanið var gert í Straumi þar sem ég var með vinnustofu, en við Sverrir Örn Sigurjónsson vinur minn mynduðum saman Víkingahringinn ehf. á þessum sömu árum.
Líkanið var um 10fm með öllum þeim útskýringum, nöfnum og tengingum milli heima sem ég gat upphugsað eftir að hafa lesið skrif Snorra, vitanlega hið mikla kvæði Völuspá og rit annarra því tengdu. Þetta er efniviður sem mér hefur verið hugleikinn alla mína starfstíð.
Morgunblað birti umfjöllun þann 5. desember s.l. þar sem blaðamaður talar við dóttur mína Gunnhildi Hauksdóttur og við Guðnýju Hrund Karlsdóttur, sem veitir félagi um Heimskautgerðið formennsku. Þar lætur sú síðarnefnda í veðri vaka þáttur minn sé minniháttar. Að stjórn hafi ítrekað reynt að leita sátta og hafi þurft að kalla til verkfræðinga og aðra hönnuði svo verkið gæti orðið að veruleika, og vilja þess vegna ekki samþykkja að ég sé höfundur verksins, og virðist vilja gera lítið úr hugverki mínu.
Ég vil árétta að verkið er byggt á líkani og teikningum frá mér, er mitt hugverk og það hefur aldrei staðið á mér að veita ráðgjöf um verkið. Það hefur hinsvegar aldrei verið haft samband við mig.
Tilurð Heimskautsgerðisins
Lengi hafði vafist fyrir mér hvernig forfeður okkar hugsuðu hina níu heima, Álfheima eða Vanaheima, Jötunheima, Dvergheima eða Svartálfsheima, Niflheim, Múspellsheim, Hel og Miðgarð.
Í völuspá eru miklar upplýsingar og innan Edduheima er að finna alla heimana sem lýst er í Eddunni og mannvirki með nöfnunum úr skrifum Snorra. Það má lengi velta fyrir sér orðum og örnefnum Norðurlanda sem vísa í forna tíma, leika sér með merkingu þeirra með hliðsjón af Eddukvæðum og norrænum, og norður evrópskum sögum og þjóðtrú. Lengi má leika sér að því að ímynda sér menningu og tímatal með vísanir í forn mannvirki um norræn og keltnesk lönd.
Eitt af því sem sérstaklega vakti athygli mína í Völuspá var hið óútskýrða Dvergatal. Það skýtur allt í einu upp kollinum mikil runa af dverganöfnum sem mér þótti svolítið útúr kú. Ég fór í það að rannsaka betur hvað var þar á seyði og tókst að safna saman sjötíu og tveimur dverganöfnum. Þegar betur var að gáð sá ég að þessi nöfn pössuðu ótrúlega vel inní árið. Einu dvergarnir sem fengu hlutverk voru voru Suðri, Norðri, Austri og Vestri, sem voru sagðir halda uppi himinhvolfinu. Norðri við sólstöður að vetri, Suðri á sólstöðum að sumri og síðan Vestri og Austri á jafndægrum að vori og hausti. Nöfn einsog Svásuðri, Glói og Bjartur eru yfir sumardverga og nafn einsog Vorkaldur þarf ekki að útskýra. Síðan eru nöfn eins og Frosti, Fjörkaldur og Dvalinn, greinilega vetrartákn. Þannig varð úr að ég bjó til og útsetti nokkrar útgáfur af dvergatali þar sem allir dvergar Eddunnar eiga sinn ákveðna stað í árhringnum, oftast um sex daga tímabil fyrir hvern dverg. En þarna er komin hugmyndin að baki Heimskautsgerðisins.
Raufarhöfn
Erlingur B. Thoroddsen heitinn, þáverandi hótelstjóri á Raufarhöfn kom í heimsókn að Straumi einmitt þegar ég var um það bil að ljúka við stóra líkanið af Edduheimum. Það fór vel á með okkur og sú heimsókn varð til þess að hann bauð mér í heimsókn. Hann vildi að ég kæmi með hugmynd að mannvirki til að efla ferðamennsku til Raufarhafnar. Hann hafði reyndar hugsað sér að búa til sólúr úti í höfða þar sem vitinn stendur. Hann taldi vitann tilvalinn sem bendi. Hann vildi fá mig til að hugsa upp sólar-, eða tímahringinn í kringum vitann. Þetta var ágætishugmynd útaf fyrir sig en ekki það sem varð úr.
Á fundnum okkar bar ég undir hann mannvirki sem ég hafði þegar lagt grunn að í Edduheimum, sem ég kallaði þá Svartálfahringinn eða Dvergahringinn. Ég rissaði upp fyrir hann skissu af verkinu sem síðar varð Heimskautsgerðið, eða Arctic Henge. Erlingur sá strax hvað ég var að fara og bað mig um líkan af gerðinu, sem ég útbjó sérstaklega, ásamt fjölda teikninga, og kom síðar með til Raufarhafnar. Guðný Hrund Karlsdóttir sem þá var sveitarstjóri, var strax jákvæð gagnvart hugmyndinni. Fyrir norðan var svo stofnaður félagsskapur um Heimskautsgerðið árið 2004.
Við Erlingur ákváðum að betri staðsetning fyrir verkið væri uppi á hæð fyrir ofan Raufarhöfn sem Erlingur kallaði Melrakkaás. Þar sá ég að sjóndeildarhringurinn er hreinn í allar áttir og því auðvelt að leika sér að sólarljósi, tunglferlinu og norðurljósaleik. Erlingur þekkti vel aðstæður á Melrakkaheiði og hafði hugsað sér gönguleiðir um heiðina. Þannig varð úr að staðsetning fyrir verkið var valin í samvinnu okkar á milli.
Að halda sig við og virða hugverkið
Heimskautsgerðið sem er að rísa á Melrakkasléttu fyrir utan Raufarhöfn er aðeins beinagrindin af verkinu sem upprunalega hugmynd mín snýst um. Reyndar hef ég gert fleiri en eitt líkan af þessu mannvirki og hef ég lagt mikið í hugmyndavinnu um hvern einasta stein sem þarna hefur risið og á eftir að rísa ef verkið klárast einsog hugverkið gerir ráð fyrir.
Ég hef enn ekki skrifað hér hvað á að koma inn í hringinn, en ég er búin að hugsa upp öll mannvirki þar inn. T.d. hásæti sólar í suðaustur og hásæti tungls til norðvesturs. Svo verður að nefna hinn eiginlega Dvergastein, og vitaskuld hinn eiginlega táknhring dverga, tímatalið sjálft, sem er hringurinn um gerðið þar sem hver steinn er tileinkaður Dverganöfnum og árstíðum. Ég er með hugmyndir um Norðurljósastein sem á að endurukasta norðurljósum með þar til gerðum stálspeglum og með hugmyndir um frumefnatákn fyrir gerðið, fyrir vatn, eld loft og jörð. Þetta á ég allt til og uppteiknað í skissum og fullunnum teikningum og líkönum og er enn að.
Verkefnið fór af stað og Erlingur hafði þar umsjón yfir verkinu á meðan hann lifði, og fjarri sé það mér að gera lítið úr hans þætti, enda var hann góður drengur og mikill hugsjónamaður og sannarlega frumkvöðull. Guðný Hrund fékk teikningar mínar og töluvert síðar fékk Víkingahringurinn Tækniþjónustu Vestfjarða til liðs við okkur og liggja teikningar þeirra um burðarvirkið fyrir.
Í öllu þessu ferli er sorglegt að aðstandendur verksins fyrir norðan hafi fundið hjá sér þörf til að eigna sér þessa hugmynd mína og vilja gera sem minnst úr mínu hugverki. Aðstandendur hafa hægt og rólega reynt að má út aðkomu mína. Gott dæmi um það er t.a.m. bæklingur sem kom út fyrir fáum árum þar sem mín er ekki getið. Teikningar mínar eru notaðar til útskýringa um verkið á skilti við veginn sem leiðir upp að gerðinu. En þar er mín hvergi getið sem höfundar. Mín er stundum getið sem einskonar ráðgjafa við gerð verksins en látið í veðri vaka að það sé Erlingur heitinn sem sé höfundur verksins, t.a.m. á vefsíðum og í kynningarefni um verkið.
Líkanið sem ég afhenti Erlingi er nú til sýnis á Hótel Norðurljós, á Raufarhöfn, reyndar töluvert skemmt og laskað, ég mundi vilja fá það til mín til að gera við það, og þykir miður að hafa það laskað til sýnis.
Þessi framgangur er undarlegur og ekki veit ég hvaða hvatar eru þar að baki, hvort það er fjárhagslegur hvati, að þeim svíði að borga Víkingahringnum höfundarlaun, eða hvort þau vilja breyta verkinu og þynna út hugverkið. Það er ýmislegt sem bendir til þess. T.d. létu þau gera gönguleið upp að verkinu sem þau vilja kalla Bifröst, en hafa aldrei borið það undir mig. Bifröst hefur ekki með tímatal dverga að gera og það var gert þegjandi og hljóðlaust án minnar vitundar.
Þá gætu verið tilfinningalegar ástæður að baki því að vilja eigna Erlingi hugverkið. T.d. mætti nefna að ég hef fengið fregnir að ekkja Erlings hefur tekið sig til og látið gera platta með nafni Erlings heitins og látið setja beint á verkið. Ég sé sjálfur ekkert athugavert við að verkið rísi til heiðurs Erlingi, og til til minningar um hann heitinn, en það er ótækt að klastra platta beint á verkið, heldur ætti það þá að vera til hliðar við verkið. En stjórn gerðisins hefur ekki séð neitt athugavert við þessa aðgerð, enda hentar það þeim líklega ágætlega sem liður í því að gera sem minnst úr höfundavinnu minni.
Sáttaleiðir
Í áðurnefndri blaðagrein nefnir Guðný Hrund að þau hafi þrautreynt sáttaleiðir. Ég ítreka, hefur aldrei verið haft samband við mig, hvorki símleiðis né skriflega og ég kem því af fjöllum þegar hún nefnir að hafa reynt sáttaleiðir. Stjórn Heimskautsgerðisins virðist hafa reist um sig þagnarmúr, hefur ekki svarað neinu, hvorki þegar lögfræðingar Myndstefs hafa reynt að biðja um fundi, né heldur skrifum dóttur minnar, en hún hefur ítrekað reynt að hafa samband fyrir mína hönd og reynt að fá stjórn til að viðurkenna að þetta sé höfundarverk mitt og reynt að fá þau til að lagfæra merkingar og fara eftir höfundarvinnu minni við áframhaldandi gerð verksins.
Í greininni nefnir Guðný að vart sé hægt að tala um sáttaumleitanir þegar sáttin væri að annar aðilinn, í þessu tilfelli höfundur verksins, vill að gert sé samkvæmt sínum vilja. Sem er auðvitað það eina rétta. Það er ekki hægt að kaupa hönnun á höfundarverki og breyta því svo eftir hentugleika og reyna að má út höfundinn. Hún nefnir að hún hafi fengið til liðs við sig aðra verkfræðinga og hönnuði, mér leikur hugur á að vita hvaða fólk það er, ef það eru aðrir og fleiri en Tækniþjónusta Vestfjarða. Það liggur eftir mig urmull af teikningum og hugmyndavinnu varðandi verkið sem ég hef deilt og mun halda áfram að deila svo verkið geti risið og orðið að því sem það á að vera.
Rétt er að nefna að það liggur fyrir samningur um kaup á hönnun sem sjálf Guðný Hrund undirritar. Þar er tiltekið að hönnunin er keypt af mér, hönnuði og Víkingahringnum ehf. Þar eru tilteknar höfundagreiðslur, og allt er það bundið í samning.
Það var vitað þegar lagt var upp með verkið að það yrði flókið og dýrt í framkvæmd. En farið var af stað og grindin af verkinu er komin upp og hefur verið Raufarhöfn og norðurlandi til sóma, enda hefur því verið deilt um heim allan á samfélagsmiðlum og fólk gert sér ferð inn á Raufahöfn til að bera verkið augum og jafnvel látið gifta sig þar.
Það er mér afar þungbært að aðstandendur verksins vilji sölsa undir sig hugmynd mína og gera lítið úr og breyta hugverki mínu. En það er ótækt að vinna með aðstandendum þegar svona er farið að.
Það verður að ná sáttum og allra fyrsta skrefið í því er að stjórn heimskautsgerðisins viðurkenni skýlaust að þarna er um mitt höfundarverk að ræða og að virða beri höfunda- og sæmdarrétt minn. Við eigum jú sameiginlegt markmið, og það er að verkið rísi fullklárað.
Höfundur er íslenskur listamaður, búsettur í Danmörku.