Margir muna eftir því þegar bronsstyttan af óttalausu stúlkunni (e. The Fearless Girl) birtist fyrst, hnarreist með hendur á mjöðmum andspænis hinum þekkta naut skúlptúr á Wall Street - fjármálahverfi New York borgar. Styttan var sett upp 7. mars 2017 í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna degi síðar. Litla stúlkan stóð óttalaus, á móti valdafreka nautinu, í miðri fjármálaborg Bandaríkjanna, sem tákn fyrir valdeflingu kvenna.
Það er hins vegar minna rætt um það að styttan var liður í markaðsherferð State Street Global Advisors. Sjóðs með rúmlega 2.500 milljarða Bandaríkjadali í stýringu, til að vekja athygli á nýjum vísitölusjóði (SHE Gender Diversity Index ETF) þeirra. Sjóðurinn átti að koma til móts við aukna eftirspurn markaðarins eftir jafnréttis tengdum fjárfestingarkostum og möguleikum til að fjárfesta með kynjagleraugum. Vísitölusjóðurinn samanstendur af rúmlega 200 fyrirtækjum sem eru sögð vera með hátt hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum. Þá er vísitölusjóðurinn sagður fylgja vísitölu State Street að mestu leyti (um 80%) og fjárfesta í svipuðum hlutföllum og samsetning vísitölunnar segir til um. Fyrirtæki eru valin eftir matskenndri nálgun State Street sem gert er grein fyrir í útgáfulýsingu vísitölusjóðsins.
En þrátt fyrir ógagnsæja aðferðafræði „kynjagleraugnasjóðs” State Street, þá hlaut óttalausa stúlkan strax mikil viðbrögð um allan heim og vakti athygli markaðarins á fjárfestingum með kynjagleraugum. Frá þeim tíma hafa eignir í stýringu s.k. kynjagleraugnasjóða á skráðum markaði aukist frá því að vera 900 milljón Bandaríkjadalir í það að vera um 11 milljarðar Bandaríkjadalir í byrjun árs 2021, og áætlað að verði um 20 milljarðar Bandaríkjadalir í skráðum kynjagleraugnasjóðum við lok árs 2022. Þá eru að lágmarki ein billjón (e. trillion) Bandaríkjadalir í eigu stofnanafjárfesta í stýringu um heim þar sem kynjagleraugu voru sett upp við mat á fjárfestingunni.
Vöxtur fjárfestinga í kynjagleraugnasjóðum
Fjárfestar og þátttakendur á markaði gera í vaxandi mæli kröfu um að fjárfest sé með samfélagslega ábyrgum hætti og hafa ábyrgar fjárfestingar vaxið um 40% á alþjóðavísu á hverju ári frá árinu 2016. Í dag eru rúmlega þrjátíu og fimm þúsund milljarðar Bandaríkjadali í samfélagslega ábyrgri eignastýringu (e. Socially Responsible Investing), þar á meðal fjárfestingum sem taka mið af umhverfisþáttum, samfélagsþáttum og stjórnarháttum fyrirtækja (svonefndar UFS fjárfestingar eða ESG investing á ensku sem stendur fyrir Environmental, Social og Governance). Það eru því um 36% af öllum eignum í stýringu á Bandaríkjamarkaði, Kanada, Evrópu, Japan, Ástralíu og Nýja Sjálandi, sem fjárfest er með ábyrgum hætti. Þar af hafa fjárfestingar með kynjagleraugum vaxið hvað mest og hraðast.
Heimild: Global Impact Investing Network
Yngri kynslóðir þrýsta á breytingar
Fjárfestahegðun er almennt að breytast á alþjóðamörkuðum, ekki aðeins vegna innleiðinga á nýjum lögum víðs vegar um heiminn um svokallaða kynjakvóta í stjórnum og reglum sem gera stofnana fjárfestum skylt að horfa til ófjárhagslegra þátta á borð við jafnrétti, mannréttindi og umhverfismál - heldur jafnframt vegna nýrra kynslóða fjárfesta sem vilja í meira mæli fjárfesta með ábyrgum hætti.
Samkvæmt skoðanakönnun eignastýringar Fidelity hafa 77% þeirra sem fæddir eru á árunum 1981 til 1996 og tilheyra hinni s.k. aldamótakynslóð (e. Millennials) og 72% einstaklinga sem eru fæddir á árunum 1965 til 1980 og teljast til X-kynslóðar (e. Generation X), fjárfest með ábyrgum hætti og í jafnrétti. Þá fjárfestir um þriðjungur aldamóta kynslóðar ávallt með ábyrgum hætti. Á Bandaríkjamarkaði eru um 80 milljón manna sem tilheyra aldamótakynslóðinni. Er áætlað að þessi kynslóð hafi fjárfest rúmlega 50 milljörðum Bandaríkjadölum í ábyrgum fjárfestingarsjóðum (e. Sustainable funds) á árinu 2020 samanborið við um 5 milljarða Bandaríkjadali á árinu 2015, skv. skýrslu MSCI. Það kemur kannski ekki á óvart, enda eru aldursforsetar aldamótakynslóðar komnir yfir fertugt og margir þeirra farnir að þéna vel. Því til viðbótar munu færast um 30 billjónir Bandaríkjadala til yngri kynslóða á næstu áratugum frá foreldrum þeirra, eftirstríðsára/barna-bombu kynslóðinni (e. Baby boomers). Eignastýringar eru sagðar tapa yfirleitt um 70-80% þeirra eigna sem erfast milli kynslóða - sem er fyrirséð að verði færðar frá gamaldags eignastýringu og fjárfest á nýjan leik eftir öðrum áherslum og samfélagslegum gildum.
Lífeyrissjóðir þrýsta á breytingar
Stærstu lífeyrissjóðir heims sem eru í Japan, Noregi og Bandaríkjunum, fjárfesta markvisst með ábyrgum hætti með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna (e. Sustainable Development Goals), þannig að fjármunir sjóðsfélaga njóti í senn góðrar ávöxtunar og hafi jákvæð samfélagsleg áhrif. Lífeyrissjóður japanska ríkisins, sem er stærsti lífeyrissjóður heims með um 1.500 milljarða Bandaríkjadali (e. $1,48 trillion) í stýringu, hefur til að mynda verið virkur þátttakandi í útboðum á samfélagslegum- og grænum skuldabréfum, sem m.a. eru útgefin af alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðabankann.
Þá hafa stærstu lífeyrissjóðir Bandaríkjanna sett sér fjárfestingarstefnu um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar, þ.m.t. lífeyrissjóður kennara í Kaliforníu ríki (CalSTRS) og lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Kaliforníu ríki (CalPERS), með samtals um 550 milljarða Bandaríkjadali í stýringu, og verið virkir þátttakendur í umræðum um jafnréttismál og hvatt til lagabreytinga á borð við kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem nýlega voru innleidd í Kaliforníu ríki (Senate Bill No. 826). Hafa sjóðirnir hiklaust kosið gegn tilnefningu einstaklinga (karla) í stjórnir fyrirtækja þar sem sem kynjahlutföll eru skökk (hallar á hlut kvenna).
Landsbanki Ástralíu (e. National Australian Bank, NAB) var fyrst meðal fyrirtækja til að standa að jafnréttis-skuldabréfaútgáfu á árinu 2017 sem nemur 500 milljónum áströlskum dölum, og á að stuðla að auknu kynjajafnrétti í atvinnulífi Ástralíu. Þá eru tækifæri í því fyrir fjárfestinga- og framtakssjóði að nálgast erlent fjármagn og alþjóðamarkaði með sérstökum jafnréttissjóðum sem fjárfesta einungis í jafnréttissinnuðum fyrirtækjum eða jafnréttis vísitölum. Til að mynda tilkynnti lífeyrissjóður japanska ríkisins (e. Japan's Government Pension Investment Fund) að sjóðurinn myndi fjárfesta markvisst í vísitölum sem tengdar eru þáttum á borð við jafnrétti og framgangi kvenna í atvinnulífinu.
Kauphallir í lykilstöðu til að ýta undir jafnrétti
Hundrað tuttugu og níu kauphallir á alþjóðamörkuðum, þar með talin Kauphöll Íslands, hafa skuldbundið sig í gegnum samstarfsvettvang um sjálfbærar kauphallir (Sustainable Stock Exchange Initiative, SSE), til að ýta undir ábyrgar fjárfestingar og kynjajafnrétti með því að varpa ljósi á tækifærin sem felast í því að fjárfesta í konum og efla þátttöku þeirra á vinnumörkuðum. Hefur samstarfsvettvangurinn m.a. gefið út leiðbeiningar um það hvernig kauphallir geta stuðlað að auknu kynjajafnrétti á mörkuðum. Voru leiðbeiningarnar nýlega uppfærðar þar sem sérstaklega er bent á möguleika kauphalla til áhrifa með því að hvetja til þróunar á vörum og þjónustu sem ýta undir kynjajafnrétti og vekja athygli á jafnréttismálum. Þá jafnframt að vera góð fyrirmynd og fá markaðsaðila í lið mér sér í þeim tilgangi að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna um kynjajafnrétti fyrir 2030.
Styttan af óttalausu stúlkunni var flutt frá nautinu á Wall Street að kauphöllinni í New York, NYSE í desember 2018. Var hún færð nálægt þeim stað sem nautinu var upphaflega komið fyrir 29 árum fyrr, í desember 1989. Hafði listamaðurinn plantað nautinu ólöglega undir stóru jólatré við kauphöllina - sem gjöf til New York borgar, og tákn fyrir betri tíma og hækkanir á fjármálamörkuðum eftir hrunið 1987. Borgin tók jólagjöfinni ekki fagnandi og færði freka nautið í burtu.
Núna fær litla stúlkan hins vegar að standa í friði andspænis kauphöllinni í New York, hnarreist og óttalaus sem fyrr, sem tákn um bjartari tíma í átt að kynjajafnrétti á kauphallar mörkuðum um heim.
Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri GemmaQ.