Snemma í morgun birtist grein eftir Friðrik Jónsson, formann BHM, hér á Kjarnanum, „Af kynjuðum kostum“. Í greininni fullyrðir Friðrik að „mýkt“ og „gæska“ kvenna sé aðeins lærð hegðun, sem samfélagið leggist á eitt um að „þroska“ í konum og stúlkum vegna þess að þessir kostir séu frábærir, ómetanlegir og nauðsynlegir. Friðrik segir að verðmætamat samfélagsins sé aftur á móti „rammskakkt“ sem leiði til þess að hefðbundin kvennastörf, mjúku störfin, séu vangreidd, og látið eins og vangreiðslan sé náttúrulögmál.
Tilefni skrifa formanns BHM er hinn svokallaði kvennafrídagur og einnig ný skýrsla frá forsætisráðuneytinu, „Verðmætamat kvennastarfa“ en í henni eru reifaðar tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.
Ýmsir sérfræðingar voru kallaðir til af nefndinni sem vann skýrsluna til að útskýra hvers vegna konur í hefðbundnum kvennastörfum væru „vangreiddar“ og einnig til að koma með tillögur um aðgerðir til úrbóta. Af einhverjum ástæðum var ekki óskað eftir vitnisburði eða tillögum frá Eflingu, þrátt fyrir að Efling sé stærstu samtök vangreiddra láglaunakvenna, og stutt sé síðan að láglaunakonur félagsins hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum hafi lagt niður störf til að knýja á um „endurmat“ á „sögulega vanmetnum kvennastörfum“ (mjúku störfunum) með sérstakri leiðréttingu á þeim launum sem ómissandi konur í umönnunarstörfum fá fyrir sitt vinnuafl. Með eftirtektarverðum árangri, alla vega í þeirra eigin röðum.
Ég sendi fyrir hönd Eflingar í byrjun október inn umsögn í samráðsgátt Alþingis vegna fyrrnefndrar skýrslu. Í umsögninni er rakið hvernig konur þjappast í störf á vissum sviðum þar sem lökustu laun á vinnumarkaði eru greidd. Farið er yfir að vandinn sem „vangreiddar“ konur takast á við sé fyrst og fremst stéttavandi, en þriðjungur starfandi kvenna er í þjónustu og umönnunarstörfum, sem eru ömurlega illa borguð. Bent er á að mikil vöntun sé í skýrslunni á viðurkenningu á stéttaskiptingu sem áhrifamiklum þætti í efnahagslegri kúgun á fjölmennum hópi kvenna á íslenskum vinnumarkaði.
Einnig er bent á að einungis sé lítið verkefni eftir til að ná því sem jafnlaunavottun eigi að geta skilað, en stéttbundinn launamunur sé mjög raunverulegur vandi vegna kynjaskipts vinnumarkaðar; því sé vænlegast til árangurs að grípa til sérstakra ráðstafana með því að lyfta sérlega lágt launuðum kvennastörfunum í launastiganum. Farið er yfir að tillögur hópsins, leið greiningar, fræðslu og tilraunaverkefna, séu ómarkvissar og seinfarnar, nokkurs konar „meðferð,“ frekar en raunverulega árangursríkar aðgerðir. Í umsögninni er lagt til að fara leið Eflingar frá því í kjarasamningunum á opinbera markaðnum og notast við sérstaka leiðréttingu fyrir afgerandi kvennastéttir. Ef það yrði gert myndi samstundis vera hægt að bæta verulega kjör arðrændasta hópsins á íslenskum vinnumarkaði, kvenna í „kvennastörfum“.
Í greininni frá því í morgun lætur formaður BHM sem hann skilji femínískar fullyrðingar um að samfélagslegar kröfur geri það að verkum að konur sem hópur og „stétt“ verði fyrir nokkurskonar samfélagslegri hæningu svo þær eyði ævinni í að sýna mýkt og gæsku, þá þætti sem eru samkvæmt Friðriki grundvallarþættir til að samfélagið okkar virki („Enda eru þetta frábærir hæfileikar og ómetanlegir, hvort sem það er innan heimilis eða á vinnumarkaði. Raunar eru þeir beinlínis nauðsynlegir til að sinna flestum störfum samfélagsins.“). En hann sjálfur vill þó ekki tileinka sér hina kvenlegu mildi og miskunsemi þegar að því kemur að reikna út virði vinnuafls allra „mýkstu“ kvennanna í samfélaginu.
Staðreyndin er sú að reikniformúla formannsins er þannig úr garði gerð að hún tryggir að þær konur sem þurfa allra mest á „leiðréttingu“ að halda, ófaglærðar verkakonur, arðrændustu manneskjur íslensks vinnumarkaðar, munu alltaf enda á botninum. Vegna þess að þær eru ekki menntaðar, en mikilvægasta viðfangsefni á íslenskum vinnumarkaði er samkvæmt Friðriki að „meta menntun til launa.“ Þó að það skapi ójöfnuð og þrátt fyrir að nú þegar sé tímakaup háskólamenntaðra karla 112% hærra en tímakaup grunnskólamenntaðra kvenna og munurinn á reglulegum heildarlaunum fullvinnandi verkakvenna og karlkyns stjórnenda um 156%.
Samkvæmt formúlu formanns BHM er aðeins sanngjarnt að þær ófaglærðu konur sem gæta barna og aðstoða gamalt fólk, þessi fjölbreytti og magnaði hópur kvenna alls staðar að úr heiminum, verði áfram arðrændar. Þrátt fyrir að þessar konur séu augljóslega þjóðfélaginu algjörlega ómissandi, nauðsynlegastar allra, ekki vegna mýktar og gæsku, heldur vegna þess að án þeirra er það nútímasamfélag sem við byggjum og sú verðmætaframleiðsla sem skapar hagvöxtinn ekki möguleg. Hvers vegna má áfram arðræna þær? Jú, vegna þess að þær eru ómenntaðar. Kapítalisminn þarf óþverrandi uppsprettu ódýrs kven-vinnuafls, og til að tryggja að uppsprettan þorni ekki er notast við ýmis „náttúrulögmál“; eðlislæga mildi kvenna sem þurfa ekki annað en gleðina yfir því að annast annað fólk sem umbun, eða, þegar það náttúrulögmál verður sífellt hallærislegra, „náttúrulögmálið“ um að arðrán á ómenntuðum konum sé afsakanlegt og ekki bara afsakanlegt heldur í raun samfélagslega eftirsóknarvert; hvað annað en hótunin um láglauna-líf getur fengið fólk til að mennta sig?
Láglaunakonur, ómissandi manneskjur samfélagsins okkar, eiga ekki að þurfa að fara í harðar verkfallsaðgerðir til að ná fram samfélagslegri viðurkenningu á grundvallarmikilvægi síns vinnuafls. Þær eiga heldur ekki að sætta sig við ómarkvissa „meðferð“ sem kannski, kannski ekki, skilar þeim nokkrum auka þúsundköllum í vasann.
Láglaunakonur í umönnunarstörfum eða þjónustustörfum eiga ekki að þurfa að bíða eftir því að háskólamenntaðir reiknimeistarar ákveði að kannski séu þær mögulega dálítið mikilvægar. Þær eiga ekki að þurfa að bíða eftir því að vitundarvakningin verði nógu mikil hjá valdhöfum („meðferðin“ nógu árangursrík) að þeir skilji að samræmt ofur-arðrán vinnumarkaðarins á ómissandi láglaunakonum til að kynda ofna félagslegrar endurframleiðslu er ein ógeðslegasta sönnun sem hægt er að hugsa sér á feðraveldi nútímans.
Nei, ómissandi og ómenntaðar láglaunakonur Íslands eiga skilið að samstundis verðir ráðist í að bæta kjör þeirra með markvissum og róttækum aðgerðum. Menn hafa getað, og geta enn, falið sig á bak við ýmiss konar „náttúrulögmál“ til að koma í veg fyrir eða tefja að slíkt verði gert. En þeirra er þá skömmin, og sigurinn; hann verður okkar, hinna ómenntuðu og ómissandi verkakvenna.
Höfundur er formaður Eflingar.