Nýr veruleiki fyrir vinnandi fólk er það sem einkenndi árið 2021. Sóttkví, sóttvarnir, einangrun, samkomutakmarkanir og hlutabótaleið eltu okkur frá árinu 2020 og úrræði sem við héldum flest að myndu aðeins vara í vikur eða mesta lagi mánuði drógust á langinn. Heilt yfir gögnuðust þau úrræði sem stjórnvöld buðu upp á í þessu fyrsta heila ári faraldursins (og vonandi eina). En það er alveg jafn ljóst að margir supu seyðið af ástandinu. Á meðan ýmsir nutu skattalækkana, kauphækkana og almennrar kaupmáttaraukningar þurftu aðrir að draga saman seglin, endurfjármagna, ganga á séreignasparnað eða grípa til annarra ráðstafana til að halda sjó. Atvinnuleysið er þegar þetta er ritað komið niður í 4,9% en það hefði verið saga á næsta bæ fyrir örfáum árum að við skyldum fagna slíkum tölum. Þessi prósenta þýðir að rúmlega 10 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá og það er ekki ásættanlegt.
Um leið og fjallað er um atvinnuleysi heyrast raddir um að erfitt sé að fá fólk í vinnu. Um hinn vestræna heim kveður við sama sönginn; að atvinnurekendur geti ekki rekið fyrirtæki sín vegna skorts á starfsfólki á meðan atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Um þetta er ýmislegt að segja en það eru vísbendingar um ákveðin valdaskipti á vinnumarkaði. Covid-faraldurinn og kreppan sem honum fylgdi afhjúpaði nefnilega ýmis einkenni á vinnumarkaði 21. aldarinnar.
Fjölmargt starfsfólk fann fyrir því að sú tryggð sem það hafði sýnt sínum vinnustað árum og jafnvel áratugum saman var eftir allt lítils virði. Um leið og þrengdi að voru atvinnurekendur tilbúnir að losa sig við fólk og nýta jafnvel kreppuna til að reyna að þrýsta niður kjörum. Ráðningastyrkir voru nýttir til að segja fólki upp og bjóða því síðan endurráðningu á verri kjörum, ekki meðan gengið er í gegnum tímabundna erfiðleika, heldur til frambúðar. Enn fremur fór efsta lag samfélagsins létt með að breyta sínum störfum, loka sig af, sinna börnum og fjölskyldu ef á þurfti að halda og forðast þannig stærstu ógnina á tímum heimsfaraldurs: Annað fólk. Launafólkið sem skapar verðmæti samfélagsins og viðheldur gagnverki þess sat hins vegar eftir grímuklætt með fjölmörg ný verkefni á sínu borði til að tryggja sóttvarnir og fylgja lögum og reglum. Afgreiðslufólk stóð vaktina, bílstjórar komu vörum milli staða, kennarar kenndu börnum með breyttum hætti, starfsfólk hjúkrunarheimila varð að eina félagsskap vistmanna sinna, heilbrigðisstarfsfólk sinnti þeim covid-veiku sem enginn annar mátti nálgast og svo mætti áfram telja. Þannig hélst samfélagið gangandi í gengum heilt ár af heimsfaraldri. En þegar kemur að því að skipta gæðunum innan samfélagsins þá fær efsta lagið sem sest við tölvuna þegar hentar eða hringir inn fyrirskipanir um uppsagnir mest, en þau sem vinna störfin og setja líf sitt og heilsu í hættu á hverjum degi minnst og sum ekki nóg til að ná endum saman.
Það var í þessu samhengi sem fjölmargir atvinnurekendur og stjórnmálamenn kvörtuðu undan því að fólk fengist ekki til vinnu. Í huga sumra þeirra var sem atvinnulaust fólk væri hilluvara hjá Vinnumálastofnun og það mætti kippa einstaklingi úr hvaða hillu sem er og senda inn í hvaða starf sem er, hvar á landinu sem er. Um þetta snerist verkalýðsbarátta 20. aldarinnar að stórum hluta: Að atvinnulaust fólk væri aldrei sett í þá stöðu að þurfa að undirgangast slíka mannfjandsamlega duttlunga.
En staðan á vinnumarkaði hefur kennt okkur ýmislegt annað. Það skiptir gríðarlegu máli þegar í harðbakkann slær að vera með öfluga verkalýðshreyfingu sem getur beitt sér fyrir vinnandi fólk og almenning allan. Það er alveg ljóst að án hennar hefði orðið almenn kjaraskerðing hér á landi á síðasta ári. Í upphafi faraldursins var ákall um að endursemja um kjarasamninga, skerða réttindi og frysta laun, auk þess sem það var hávær krafa að frysta eða jafnvel lækka atvinnuleysistryggingar. Niðurstaðan var hins vegar sú að kjarasamningar héldu, atvinnuleysistryggingar voru hækkaðar og lengt í því tímabili sem fólk fær tekjutengdar bætur. Þetta gerði að verkum að almennur kaupmáttur óx, sem aftur var lykilþáttur í efnahagslegri viðspyrnu. Um þetta er nú nokkuð góður samhljómur.
Þegar harðnar á dalnum eða eðlilegar breytingar verða á lífsleiðinni skiptir líka öllu máli að hafa byggt upp réttindi; til lífeyrisgreiðslna vegna aldurs eða örorku, sjúkragreiðslna, fæðingarorlofs, atvinnuleysistrygginga, fræðslustyrkja og svo margs annars. Megnið af þessum réttindum eru kjarasamningsbundin, þ.e. fólk aflar þeirra í gegnum ráðningarsambönd. Það hefur færst í vöxt að fólk sé lausráðið, tímabundið ráðið eða jafnvel verkefnaráðið. Það fólk hefur orðið hvað verst úti í faraldrinum, þegar verkefnin eru hreinlega ekki til staðar lengur til dæmis vegna samkomutakmarkana. Að vera giggari er nefnilega ekki eins eftirsóknarvert og margir vilja að láta, því það er erfitt að vita hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Á sama tíma er verið að dásama þetta fyrirkomulag í blaðagreinum og jafnvel bókum. Það sé svo frábært að vera „sjálfs síns herra“, geta ráðstafað tíma sínum að vild og vera engum háð. Vissulega getur það átt við í þeim tilvikum þegar viðkomandi hefur einhverja mjög eftirsóknarverða hæfni umfram aðra, en í flestum tilvikum er giggið verra. Fólk er ekki með fastar tekjur, getur því ekki gert ráðstafanir fram í tímann, getur ekki tekið húsnæðislán og varla gert leigusamninga. Enginn uppsagnarfrestur og aðeins lágmarksréttindi til atvinnuleysisbóta. Það er ábyrgðahluti að tala gegn atvinnuöryggi og réttindum vinnandi fólks og heimsfaraldurinn og aukið öryggisleysi ætti að vera víti til varnaðar.
Þau verðmæti sem við höfum byggt upp síðustu áratugi eiga stöðugt undir högg að sækja og ein svæsnasta birtingamynd þess skaut upp kollinum á árinu þegar flugfélagið Play ákvað að gera kjarasamninga við gult stéttarfélag, langt undir þeim samningum sem höfðu gilt í flugi. Samningarnir eru gerðir án aðkomu þeirra sem eiga að vinna eftir þeim og hefur flugfélagið neitað að semja við lýðræðislega starfandi félag flugfreyja og -þjóna. Í fjárfestakynningum er því fjálglega lýst að samkeppnisforskot flugfélagsins felist einkum í því að halda launakostnaði undir því sem áður hefur þekkst í flugi. Að stofna og semja við gul stéttarfélög (sem eru undir áhrifavaldi atvinnurekenda eða beita sér ekki í kjarabaráttu) er gamalt trikk í bók þeirra sem vilja vega að hinni skipulögðu verkalýðshreyfingu. Að gera slíkt á íslenskum vinnumarkaði er ósjálfbært til lengdar og mun flugfélagið eiga erfitt uppdráttar.
Það er varla hægt að gera upp árið 2021 án þess að nefna Alþingiskosningar sem fram fóru í september. ASÍ beitti sér í aðdraganda kosninganna fyrir málum sem snerta launafólk og allan almenning og lúta að afkomu fólks, húsnæðismálum, heilbrigðismálum, menntun og jöfnuði. Átakið fór fram undir yfirskriftinni Það er nóg til, sem er svo sannarlega yfirskrift við hæfi hér í auðlindaríku landi þar sem lífsgæði teljast almennt góð. Við höfum nefnilega allar forsendur til að byggja upp samfélag raunverulegs jöfnuðar þar sem enginn þarf að líða skort. Flestir stjórnmálaflokkar tóku undir þessar áherslur okkar að hluta til eða í heild. Þess vegna voru ákveðin vonbrigði að sjá myndum prýddan stjórnarsáttmála þar sem mikið er um óljós fyrirheit en nánast ekkert um útfærslur. Sem dæmi má nefna að fulltrúar allra stjórnmálaflokka lýstu yfir stuðningi við aukinn framlög til almenna íbúðakerfisins, en þegar kom að því að setja fyrirætlanirnar á blað urðu fögru orðin að því að „horft“ yrði til áframhaldandi uppbyggingar. Þó eru líka jákvæð teikn í fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega yfirlýsingar sem lúta að því að vaxa út úr kreppunni fremur en að beita niðurskurðarhnífnum. En nýtt fjárlagafrumvarp og fjármálastefna eru þó ekki alveg í takti við þau fyrirheit.
Eitt er víst og það er að ASÍ mun fylgja eftir þeim málefnum sem varða almannahag af þunga á árinu 2022. Hér verður horft til ríkisfjármálanna og öllum tilraunum til að einkavæða innviði og þjónustu til að fegra bókhald ríkisins verður mótmælt harðlega. Við munum fylgja eftir okkar mikilvægustu málaflokkum á borð við menntamál, velferðarmál og heilbrigðismál. Við krefjumst uppbyggingar, ekki niðurbrots.
Kjarasamningar losna á næsta áriá mun ráða úrslitum hvernig tekist hefur að verja kaupmáttinn fram að samningum. Húsnæðismálin og einkum húsnæðiskostnaður verður í forgrunni enda stór hluti útgjalda hvers heimilis. Árið 2022 verður árið þar sem við bindum enda á þá samfélagstilraun að leyfa markaðsöflunum að maka krókinn á kostnað fólks sem hefur ekki val um annað en að koma sér þaki yfir höfuð. Gróðaöflinn seilast nefnilega í launaumslögin okkar hver mánaðamót til að sækja það sem við höfum áunnið okkur með þrotlausri baráttu.
Það mun mæða á nýskipaðri ríkisstjórn að bretta upp ermar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna í upphafi ársins 2022 til að tryggja áframhaldandi kjarabætur og eflingu lífsgæða fyrir þorra almennings. Eitt er víst að hreyfingin mun ekki draga af sér að verja það sem áunnist hefur; verja velferð okkar allra og sækja fram um bætt réttindi, betri kjör og aukin lífsgæði á nýju ári.
Höfundur er forseti ASÍ.