Guðrún Sif Friðriksdóttir
Þegar ég starfaði hjá UN Women í Líberíu og Suður-Súdan spurðu vinir og vandamenn stundum hvort ég óttaðist ekki um öryggi mitt. Þetta var nokkuð eðlileg spurning enda vissi fólk að ég vann að verkefnum sem tengdust ofbeldi gegn konum sem var, og er, stórt vandamál í báðum þessum löndum. Það var því frekar írónískt að ég svaraði alltaf, af fullri einlægni að, nei, ég óttaðist aldrei um eigið öryggi á nokkurn hátt.
Ég sem hin hvíta, auðuga, Sameinuðu Þjóða starfskona hafði öruggt húsnæði, vinnustað og samgönguleiðir og hafði því ekki mikið að óttast. Til viðbótar sendi hvítleiki minn út þau skilaboð að ég væri í góðri valdastöðu og að því að beita mig ofbeldi myndu fylgja afleiðingar. Ég ferðaðist því um Monróvíu og Júba, höfuðborgir Líberíu og Suður-Súdan, frá heimili til vinnu, til veitingastaða og skemmtistaða og heim aftur ætíð full öryggiskenndar. Þó að ég vilji helst ekki skilgreina öryggi sem forréttindi get ég ekki lýst líðan minni öðruvísi en að ég hafi gert mér grein fyrir forréttindastöðu minni. Ég vissi það allt of vel í gegnum starf mitt að slíka öryggiskennd höfðu líklegast ekki ýkja margar konur í Monróvíu og Júba.
Dæmið um hina hvítu Sameinuðu Þjóða starfskonu er kannski frekar ýkt, enda hafsjór á milli mín og venjulegra líberískra og suður-súdanskra kvenna hvað valdastöðu varðar. En valdastöður, eða hugmyndir um valdastöður, eru hinsvegar mikilvægar og konur víða um heim reyna að nýta þær sér til verndar. Sem dæmi um slíkt er að í Búrúndí, þar sem ofbeldi gegn konum er gríðarlegt, leggja ungar konur og stúlkur mikið upp úr því að vera vel til hafðar. Ef einhverjir fjármunir eru til staðar er þeim eytt í sápu, húðolíu, fatnað og hárfléttun. Þetta kann að hljóma sem óþarfa prjál fyrir konur og stúlkur sem hafa lítið á milli handanna og mögulega ýmislegt þarfara að eyða fjármunum í. Þetta er hinsvegar ein leið til verndar gegn ofbeldi. Hugmyndin er að senda út þau skilaboð að stúlkurnar/konurnar komi af vel stæðum fjölskyldum sem hafi bæði fjárhagsleg og félagsleg efni til þess að beita aðgerðum verði stúlkurnar/konurnar beittar ofbeldi.
Nú er það ekki svo að auðugar, valdamiklar konur séu öruggar gagnvart því að verða beittar ofbeldi á götum úti. Langt í frá, og ég efast raunar um að nokkur kona hafi komist hjá áreiti og/eða ofbeldi á götum úti einhverntímann á lífsleiðinni.
Nú er það ekki svo að auðugar, valdamiklar konur séu öruggar gagnvart því að verða beittar ofbeldi á götum úti. Langt í frá, og ég efast raunar um að nokkur kona hafi komist hjá áreiti og/eða ofbeldi á götum úti einhverntímann á lífsleiðinni. Hvítleiki minn var til dæmis langt í frá nægur til að vernda mig á götum og í almenningssamgöngum Indlands. Hinsvegar finnst mér mikilvægt að huga að því að sumar konur eru berskjaldaðari en aðrar og að taka eigi tillit til þess þegar hugað er að öryggi borga. Almennt eru vændiskonur, götustúlkur og aðrar konur sem ekki eru með sterkt félagsnet einna helst berskjaldaðar fyrir ofbeldi. Einnig mætti nefna farandverkakonur, flóttakonur og konur sem verða fyrir fordómum vegna kynhneigðar eða vegna þess að þær brjóta viðmið um staðalímyndir kvenna, með vinnu sinni eða áhugamálum.
Konur eru ekki einsleitur hópur og vert er að huga sérstaklega að varnarlausari hópum kvenna sem stafar ógn af ofbeldi í sínu daglega lífi í borgum heimsins svo borgirnar verði öruggar fyrir konur - allar konur.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.