Í myndinni Fylki (e. Matrix) fer lífið fram í sýndarveruleika sem er stjórnað af vélum. Til þess að brjótast úr sýndarheiminum og berjast gegn skuggameisturunum þarf að taka rauða pillu, en ef þú vilt lifa áhyggjulaus án vitneskju um að lífið þitt sé lygi getur þú tekið bláa pillu. Síðasti texti fjallaði um þá sem vilja berjast gegn ríkjandi kerfi, þá sérstaklega hægri-öfgamenn, en hvað með það fólk sem tekur bláu pilluna og spilar með kerfinu?
Hvort sem það er trúin á réttlátan heim (e. Just world fallacy), hryggleysi eða miðjumoð sem knýr leikmenn þá er klárt mál að það er best að spila með. Það er best að kjósa bjartsýna Framsókn, mæta á grillkvöld með hægrikörlum og ljóðaupplestur með vinstriliði. Sagan er ekki skrifuð af mikilmennum, heldur bókmenntafræðingunum þeirra. Hættu að reyna að vera merkileg mín kæra lesönd, samþykktu að fljóta í gegnum lífið sem andarungi í straumþungri á.
Því nú þegar við erum komin á stoppistöð sögunnar þá er ekki lengur þörf á öfgafullum aðgerðum til þess að ná fram umbótum. Mótmæli hægja á umferð, öfgar í stjórnmálum drepa stemninguna, gagnrýnin hugsun á ekki heima annarsstaðar en í markaðsgreiningu og nú flokka flestir þannig að hnatthlýnun hlýtur að reddast. Treystum bara þeim sem stjórna til þess að redda þessu fyrir okkur. Við erum nefnilega öll á sama báti, þrátt fyrir að einhverjir fái milljarð á ári.
Hvor pillan er skárri? Sú sem dregur þig úr helli Platóns og sýnir þér plasthafið í kringum hann eða pillan sem lamar þig? Hvora pilluna myndir þú taka? Hefur þú val? Lesandi ég verð að játa að ég á ekki efni á rauðu pillunni, því þegar ég er orðinn stór þá verða jöklarnir horfnir og Reykjavík sokkin undir sæ. Ég vil ekki þurfa að pæla í því, heldur vil ég huga að hnattreisu og hvaða rafmynt ég mun fjárfesta í næst.
Kannski ætti maður samt að reyna að kasta upp bláu pillunni einhvern tímann, áður en það er of seint.
Höfundur er nemi.