Tækifæri í aukinni vistvænni orku eru augljós, eins og dæmi sanna, einkum þessi misserin þegar stríð geisar og orkuskortur ríkir í Evrópu. Samt er engin framtíðarsýn stjórnvalda um nýtingu vindorku hér á landi, nema ef vera skyldi í þágu Landsvirkjunar?
Um raforku gilda sömu lögmál eins og um hverja aðra vöru á markaði. Munurinn er sá að flutningur raforku er háður eftirlitsskyldri starfsemi Landsnets og dreifiveitna m.a. um arðsemi þeirra að tilteknu hámarki. Virkjunaraðili greiðir tengigjöld sem hækkar ekki álögur til almennings. Um virkjunarleyfi vindorku gilda ákvæði raforkulaga, m.a. um að fyrir liggi skipulag sveitarfélags, mat á umhverfisáhrifum og tengisamningur við Landsnet. Þá þarf framkvæmdaleyfi sveitarfélags. Flóknara er það nú ekki.
Fyrrverandi umhverfisráðherra VG barðist með oddi og egg fyrir þeirri vafasömu lagatúlkun að vindorka félli undir s.k. rammaáætlun, að það væri ríkisins að ákveða hvar vindur væri virkjaður og hvar ekki, en ekki sveitarfélaga eins og stjórnarskráin gerir þó ráð fyrir. Ráðherrann taldi vindinn vera landsvæði þar sem er að finna orkuauðlind. En vindur er alls staðar. Það þarf að vernda víðernin var þá sagt. Víðerni á hálendi Íslands eru að stórum hluta þjóðlendur og með þær fer forsætisráðherra. Aðeins örbrot þessa lands hefur verið friðlýst sem víðerni. Engin stefna er um friðlýsingu víðerna á Íslandi frekar en um virkjun vindorku. Eina friðlýsta víðernið á Íslandi er land í eigu einkaaðila, Drangar á Ströndum. Til sanns vegar má færa að Ísland geymi stóran hluta af óspilltustu víðernum vestur Evrópu sem sé mikilvægt að vernda. Ég tek undir það. Þar verður að sjálfsögðu ekki virkjuð vindorka nema að ígrunduðu máli. Það þarf samt enga rammaáætlun til. Þjóðlendum verður ekki haggað án samþykkis forsætisráðherra samkvæmt þjóðlendulögum. Raforkulögin, afstaða sveitarfélags, skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum tryggja fullkomlega það sem rammaáætlun er ætlað að vernda innan sem utan þjóðlendu. Ekkert bendir til að núverandi umhverfisráðherra sé að fatta þetta, svo það sé nú sagt, ekki frekar en meirihluti umhverfis og samgöngunefndar Alþingis ef marka má nýjustu fréttir þaðan um Búrfellslund í rammaáætlun að tillögu nefndarinnar, NB í þágu Landsvirkjunar, Búrfellslundur er innan þjóðlendu. Pólitíkin og stjórnsýslan hindra hins vegar virkjun vindorku á samkeppnismarkaði utan þjóðlendu í stað þess að fara bara að gildandi lögum.
Hin tilfinningaríka afstaða gegn vindorkuverum hefur tafið uppbyggingu vindorkugarða í a.m.k. sjö ár, svo ég taki dæmi að undirbúningi vindorkuvers vestur í Dölum, utan víðernis, fjarri alfaraleið manna og ferðum fugla. Það tók Skipulagsstofnun tæp tvö ár að afgreiða matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum virkjunarkostsins. Átti að taka fjórar vikur. Eftir að stofnunin hafði verið kærð fyrir slóðaskap í málsmeðferð var matsáætlun loks samþykkt á þeim bæ. Næst neitaði Skipulagsstofnun Dalabyggð um staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi vegna virkjunarinnar, tafði þar með málið enn frekar í fleiri mánuði, vegna þess að fyrirhuguð virkjun væri ekki í rammaáætlun og vísaði loks á innviðaráðherra, sem tók undir þvæluna og sökk í fen fáránleikans og neitaði líka að staðfesta skipulagið, vegna þess „að virkjunin er ekki í rammaáætlun að mati Skipulagsstofnunar.“ Orkustofnun var á öndverðu meiði. Leitað hefur verið álits Umboðsmanns alþingis á þessari vægast sagt óvenjulegu stjórnsýslu.
Fyrirsjáanlegar frekari tafir á málsmeðferð fyrir virkjunarkostinn í Dölunum má ætla 4 til 7 ár, fangi menn ekki skynsemi sína. Tafirnar yrðu enn meiri fyrir aðra virkjunarkosti í vindi utan þjóðlendu, ætli menn að fella vindorkukosti undir vald ríkisins í rammaáætlun, þar sem sveitarfélög ættu að ráða för samkvæmt stjórnarskrá. Rammaáætlun varðar fyrst og fremst virkjunarkosti í jarðvarma og vatnsafli og er mikilvæg þess vegna. Það á ekki við um vindorku. Það er af og frá. Landsnet hefur líka ruglast í ríminu og neitað að hefja viðræður um tengisamning við virkjunaraðilann fyrir vestan. Ástæðan er óvissa um rammaáætlun. Sú ákvörðun Landsnets var kærð til Orkustofnunar í júlí í fyrra og er þar enn til skoðunar, skoðunar sem eðlilega ætti að taka tvær til þrjár vikur. Kannski er nýr Orkumálastjóri enn ekki búinn að ná áttum.
Það er annars alveg makalaust hvað íslensk stjórnsýsla er óburðug og bernsk. Hún ræður ekki við einföldustu verkefni. Getur ekki tekið afstöðu, dregur lappirnar, faglega ófær um að taka rökstudda kæranlega afstöðu sem bera mætti eftir atvikum undir dómstóla. En þetta er svo sem ekkert einsdæmi. Því miður.
Höfundur er lögfræðingur.