Raforkukerfið þarf ekki aðeins að framleiða nægilega orku til að mæta þörfum samfélagsins heldur þarf sveigjanleiki kerfisins að vera nægur til að mæta breytilegri þörf fyrir raforku, hvort sem er innan sólarhringsins og vikunnar eða milli árstíða. Sveigjanleikinn þarf einnig að vera nægilegur til að mæta reglubundnu viðhaldi ásamt óvæntum bilunum í kerfinu þannig að tryggt sé að unnt sé að afhenda öllum viðskiptavinum þá orku sem þeir óska eftir á hverjum tíma.
Sveigjanleiki núverandi kerfis Landsvirkjunar er ekki nægjanlegur til að mæta þörfum viðskiptavina fyrirtækisins og nauðsynlegt er að setja upp meira afl í virkjunum til að auka hann. Á nýliðnum vetri voru vinnslumet ítrekað slegin í kerfi Landsvirkjunar þegar vinnslan fór í fyrsta sinn yfir 1900 MW og við þær aðstæður var afl í raun upp urið í kerfinu. Hætt er við að á komandi vetri geti orðið aflskortur í kerfinu sem leitt getur til þess að grípa þurfi til skerðinga hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar jafnvel þótt nægilegt vatn verði í miðlunarlónum.
Við þetta bætist að á næstu árum og áratugum má búast við enn meiri þörf fyrir sveigjanleika í raforkukerfinu samhliða orkuskiptum í samfélaginu sem og mögulega uppsetningu vindorkugarða hér á landi.
Arðsemin byggir á aflaukningunni
Til þess að bregðast við þessum aðstæðum skoðar Landsvirkjun nú möguleika á stækkun virkjana á Þjórsársvæði, en nú í vor gerði Alþingi breytingar á lögum sem einfalda leyfisferli slíkra verkefna. Eftir breytinguna þurfa þessi verkefni ekki að fara í gegnum Rammaáætlun en þau fara engu að síður í gegnum ferli mats á umhverfisáhrifum eins og við á sem og skipulagsferli. Þrátt fyrir þessa einföldun á leyfisveitingaferlinu munu slík verkefni taka mörg ár í undirbúningi og framkvæmd og á meðan er hætt við að upp geti komið aðstæður þar sem skortur verður á afli í raforkukerfi landsins.
Arðsemi slíkra verkefna byggir eingöngu á því afli eða sveigjanleika sem þau bæta við kerfið og verðlagning á markaði verður að taka mið af því. Sú litla orkuvinnsla sem bætist við í kerfinu samfara þessum stækkunum skiptir litlu máli í þessu sambandi og hún er ekki forsenda fyrir því að ráðast í slík verkefni. Það er því misskilningur að þessi verkefni séu ekki arðbær án aukins rennslis til virkjananna. Þvert á móti þurfa þau að vera arðsöm án aukins rennslis til virkjananna og í þau verður ekki ráðist án þess að sú arðsemi sé tryggð.
Kjalölduveita ekki forsenda stækkunar
Kjalölduveita hefur verið nefnd til sögunnar í þessum samhengi og tengd við stækkanir virkjana á Þjórsársvæðinu. Kjalölduveita er vissulega mjög hagkvæm framkvæmd sem myndi auka rennsli til allra virkjana Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu og þar með auka orkuvinnslu á svæðinu. Umhverfisáhrif veitunnar tengjast fyrst og fremst minnkuðu rennsli í fossa í Efri-Þjórsá en hún hefur ekki áhrif á Þjórsárver þrátt fyrir þrálátar fullyrðingar þess efnis.
Kjalölduveita er hins vegar ekki á dagskrá hjá Landsvirkjun að svo stöddu. Verkefnið er í ferli í Rammaáætlun og bíður afgreiðslu þar. Mögulegt aukið rennsli frá Kjalölduveitu er því ekki forsenda fyrir stækkun virkjana á Þjórsársvæði og ekki er gert ráð fyrir því við mat á arðsemi verkefnanna.
Höfundur er framkvæmdastjóri vatnsafls hjá Landvirkjun.