Bílaleigur kaupa meira en 40% af öllum nýskráðum bílum á Íslandi. Hvergi í heiminum er hlutfallið svona hátt.
Ástæðan er einföld: Ísland er ferðaþjónustuland með veikar almenningssamgöngur.
Ferðamenn fá skýr skilaboð um það strax við komuna á Leifsstöð hversu snubbótt almenningssamgöngukerfið er: inni á flugvellinum eru engar merkingar um að það gangi strætisvagnar á Íslandi! Eða eins og upplýsingafulltrúi Strætó bs orðaði það: „Þetta er eini flugvöllur Evrópu sem ég veit um þar sem er ekki bent á almenningssamgöngur.“
Bílaleigubílar virðast vera augljósi kosturinn fyrir ferðamenn, sá samgöngumáti sem flestir þeirra velja.
Þetta er vandamál út af fyrir sig því allir bílar treysta á kolefnisfreka innviði og hafa slæm umhverfisáhrif. Loftslagsvandinn kallar á að við fækkum bílum og keyrum minna.
En þetta er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þess að aðeins brotabrot af bílaflota bílaleigufyrirtækja gengur fyrir hreinni orku. Það eru viðskiptalegar ástæður fyrir þessu: hagkvæmast að kaupa og leigja út litla og ódýra bensínbíla og lítil eftirspurn meðal ferðamanna eftir bílum sem þarf að stinga reglulega í samband á flakkinu um landið.
Bílaleigubílar eru 7,3% af bílaflota Íslands en valda 10,6% af losun vegna samgangna á landsvísu. Bílarnir fara svo á eftirmarkað og gefur auga leið að þetta hefur gríðarleg áhrif á það, mörg ár fram í tímann, hvernig bílafloti landsmanna er samansettur.
Það er ekki raunhæft nema hið opinbera stígi inn: styðji af miklu meiri krafti við uppbyggingu hleðsluinnviða, m.a. við Keflavíkurflugvöll og við hótel og gististaði víða um land, og beiti skattaívilnunum jafnt sem tímasettum kvöðum, ákveði að innan ákveðins árafjölda þurfi hlutfall hreinorkubíla í heildarinnkaupum eða heildarflota fyrirtækjanna að vera orðið mun hærra en nú er.
Með skipulegum aðgerðum og innviðauppbyggingu af þessu tagi getum við bæði gert Ísland að vistvænna ferðaþjónustulandi og hraðað rafbílavæðingu almenna bílaflotans.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett markmið um 21% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum fyrir árið 2030. Til samanburðar hafa t.d. Finnar einsett sér að draga úr losun frá innanlandssamgöngum um 50% á sama tímabili og Svíar um 70%.
Uppbygging almenningssamgangna og breyttar ferðavenjur eru forsenda alvöru árangurs í loftslagsmálum. Við verðum að gera eftirsóknarvert, einfalt og þægilegt, bæði fyrir Íslendinga og ferðamenn, að ferðast um landið án þess að eiga eða leigja bíl.
En rafvæðing bílaleiguflotans skiptir líka máli – og gæti orðið lykillinn að því að draga hraðar úr losun frá vegasamgöngum næstu árin heldur en núverandi ríkisstjórn hefur boðað. Kýlum á þetta.
Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.