Síðasta heila ár þessa kjörtímabils er eftirminnilegt. Borgarstjórnarfundir geta verið 12 tíma langir. Borgarfulltrúar eru 23 og flokkarnir 8. Við Sjálfstæðismenn lögðum fram fjölmargar tillögur sem flestar voru felldar, en einstaka tillögur fengu þó brautargengi. Stundum sjá menn ljósið.
Á árinu voru teknar í notkun fyrstu „snjöllu gangbrautirnar“, en þær lýsa upp þá sem ganga yfir þá líkt og á sviði. Ljósin kvikna þegar gengið er yfir. Þessi tækni eykur öryggi þeirra sem ganga yfir á einfaldan hátt. Við lögðum þetta til vorið 2019 og það var samþykkt samhljóða í borgarstjórn. Nú eru fyrstu ljósin komin upp og sjá má dæmi um það á nýrri gangbraut milli Melaskóla og Hagaskóla. Annað lítið dæmi um hugmynd sem ekki var slegin af borðinu er tillaga um bætt aðgengi að ströndinni vestast í vesturbænum. Strandlengjan við Ánanaust og Eiðsgranda er meira en kílómeter að lengd. Hún er með miklum sjóvarnargarði, en aðgengi fólks að sjónum og fallegu útsýninu er lítið og erfitt yfirferðar. Við erum borgin við sundin, en þessi strönd hefur verið óaðgengileg fólki um nokkurn tíma. Ég lagði til í skipulagsráði að þetta yrði bætt og samþykkt var að vinna að því. Þegar komið er niður fyrir varnargarðinn blasir við falleg sjávarsýn og kyrrð. Sólarlagið er fallegt á sumarkvöldum á þessum stað. Í Lissabon er aðgengi að sjónum víða stallað í bergi sem flæðir að við sjávarflóð út á fjöru. Það færi vel að hafa slíkan stað við Ánanaust. Þó átök séu líklegust til að rata í fjölmiðla eru mér ekki síður eftirminnileg þau mál sem ná að miða okkur áfram í átt að betri borg.
Breytingar í borginni
Í síðustu kosningum náðum við því markmiði að Sjálfstæðisflokkurinn yrði stærsti flokkurinn í borginni á ný, en hann hafði ekki verið það frá því 2006. Hitt markmiðið sem var að fella meirihlutann tókst, en mörgum að óvörum tók Viðreisn saman við Samfylkinguna um samstarf. Við höfum leitt stjórnarandstöðuna með málefnalegri gagnrýni en líka með uppbyggilegum tillögum. Á síðasta fundi borgarstjórnar lögðum við til formlegan samráðsvettvang borgarinnar við aðila vinnumarkaðarins um húsnæðis- og samgöngumál. Ljóst er að næstu kjarasamningar munu snúast um kaupmátt og verðbólgu. Húsnæði er þar mjög stórt atriði, enda hefur húsnæðisverð verið drifkraftur verðbólgunnar á kjörtímabilinu. Leiðin út úr höfrungahlaupinu er fólgin í því að tryggja nægt framboð af byggingarlóðum. Það er sú leið sem við höfum bent á. Samtök iðnaðarins og verkalýðshreyfingin hafa tekið undir okkar sjónarmið. Seðlabankinn hefur jafnframt bent á að brjóta þurfi nýtt land undir byggingar og viðskiptabankarnir sáu sig knúna til að leiðrétta borgarstjóra um lánamál. Við vildum leiða þessi mál í formlegan farveg í stað þess að borgin sé að munnhöggvast við aðila á markaði. Því miður var málinu vísað frá.
Á árinu var farið að huga að næsta kjörtímabili og kosningunum og þegar þetta er skrifað hefur borgarstjóri ekki ákveðið hvort hann ætli að halda áfram. Umræða um mögulegt prófkjör fór snemma af stað hjá okkur Sjálfstæðismönnum og voru ýmsar útfærslur ræddar. Ég var eini frambjóðandinn fyrir síðustu kosningar sem fór í gegnum prófkjör. Öðrum var stillt upp á lista af kjörnefnd. Ég var spurður um hvort ég ætlaði áfram og svaraði því til að ég gerði það að óbreyttu. Nú hef ég hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að það sé best að láta þetta kjörtímabil duga og kveð núna sáttur eftir eftirminnilegan og viðburðaríkan tíma. Framundan eru kosningar þar sem kosið verður um breytingar. Ég er viss um að borgarbúar vilji opna Reykjavík og breyta um kúrs.
Reykjavík 2050
Í lok ársins er við hæfi að horfa fram á við. Flest bendir til þess að Ísland verði áfram eftirsóttur staður til að búa á og til að ferðast til. Ný mannfjöldaspá Hagstofunnar var birt núna í desember og nær hún til 2070. Samkvæmt miðspánni verða Íslendingar 453 þúsund árið 2050. Það er fjölgun upp á 85 þúsund manns á 28 árum. Ef háspáin rætist verða Íslendingar 538 þúsúnd árið 2050 og hefur þeim þá fjölgað um 170 þúsund. Rétt er að rifja upp að heildarfjöldi á Íslandi var um 170 þúsund árið 1960.
Reykjavíkurborg hefur gert ráð fyrir hóflegri vexti en raunin hefur verið. Vanmetið þörfina fyrir húsnæði og samgöngubætur. Fyrstu vísbendingar um þetta koma fram þegar fjölgun á höfuðborgarsvæðinu er borin saman við fjölgun á landsbyggðinni, en frá árinu 2019 hefur fimm ára meðaltal verið hærra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hærra húsnæðisverð er önnur vísbending, en skýrasta dæmið er þó minna framboð af húsnæði, en það hefur dregist saman um 70% á síðustu tveimur árum. Ísland er bara eyja í landfræðilegum skilningi. Við erum hluti af EES-svæðinu, en þar búa 453 milljónir íbúa. Við erum með öðrum orðum innan við 0,1% af EES svæðinu hvað mannfjölda varðar. Á Íslandi eru laun með hæsta móti, kaupmáttur mikill og þjónustu góð. Samkvæmt lögmálum osmósunnar leitar vatnið þangað sem styrkur efnablöndu er meiri. Það er með öðrum orðum líklegt að fólk muni áfram leita hingað í leit að vinnu og framtíð. Síðan bætist það við að fæðingartíðni á Íslandi er ein sú hæsta í Evrópu.
Nýsamþykkt aðalskipulag gildir til 2040. Þar er gert ráð fyrir frekar hóflegum vexti og er gert ráð fyrir að byggðar verði 1 þúsund íbúðir á ári. Á árinu sem er að líða eru aðeins 450 lóðir afhentar. Það er langt undir viðmiði borgarinnar sjálfrar. Þetta er meðal annars vegna þess að ekki er byggt á nýju landi, en eingöngu byggt á þéttingarreitum sem taka langan tíma í þróun. Borgin þarf að horfa lengra fram í tímann og skipuleggja nýtt land til að vera sá valkostur sem henni ber að vera. Ef við trúum því að það sé gott og öruggt að búa á Íslandi munum við sjá kröftugan vöxt. Þegar húsnæðisáætlun borgarinnar er skoðuð er ljóst að borgin er engan veginn tilbúin að bregðast við slíkum vexti. Hér er því verk að vinna. Það sem þarf að gera er að skipuleggja Keldur, Úlfarsárdal, BSÍ-reitinn og Laugarnestangann. Auk þess verða Ártúnshöfði og Skeifan mikilvægir þéttingarreitir, en nýju svæðin sem við höfum lagt til að verði byggð eru lykilatriði til að ná jafnvægi á markaði. Sama er að segja um samgöngurnar. Það er furðuleg staðreynd að Sundabraut sé ekki inn á aðalskipulaginu eins og það er núna. Nýsamþykkt.
Sundabraut er arðbær framkvæmd og jafnframt talin fjárhagslega sjálfbær. Þegar borin er saman bæting umferðar í Ártúnsbrekku vegna Sundabrautar annars vegar og borgarlínu hins vegar kemur í ljós að Sundabraut bætir umferð í Ártúnsbrekku 20X meira. Hún er því forgangsverkefni sem þarf að koma á kortið og í gagnið. Reykjavík er borgin við sundin. Sundabraut tengir tanga og nes og er hluti af hringtengingu með Sæbraut. Í dag erum við með enga slíka tengingu. Madríd, London og París eru landluktar borgir sem hafa hringvegi í kringum sig svo fólk þurfi ekki að alltaf að aka í gegnum borgirnar. Sundabraut virkar eins og hringtenging og léttir á álaginu.
Sumir segja að það sé langt í að sjálfkeyrandi bílar verði að veruleika. Tíu ár segja sumir. En tíu ár er mjög stuttur tími í borgarþróun. Nú er einmitt rétti tíminn til að undirbúa borgina undir framtíðina. Á sama hátt og við vorum fljót að tileinka okkur nýja fjarskiptatækni eigum við að tileinka okkur nýja samgöngutækni. Orkuskipti eru að verða að veruleika í bílum og síðan flugvélum og bátum. Þessi þróun verður hraðari á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Á sama tíma er sjálfvirknivæðing sem mun lækka kostnað í samgöngum, en jafnframt létta á umferð og bæta öryggi. Þetta er ekkert minna en bylting. Almenningssamgöngur framtíðarinnar verða fjölbreyttar og snjallar. Þær verða sjálfvirkar og aðeins og hluta til línulegar.
Gleðilegt nýtt ár.
Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík