Í desember næstkomandi (30. nóvember til 11. desember) fer alþjóðlega loftslagsráðstefnan í París fram. Miklar vonir eru bundnar við að þjóðir heimsins skuldbindi sig til þess að bregðast tafarlaust við óumdeilanlegum merkjum um að hlýnun jarðar og mengun af mannavöldum sé að gera jörðina ólífvænlega á stórum svæðum.
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, segir loftslagsráðstefnuna líklega mikilvægasta fund mannkynssögunar, og hafa ýmsir sérfræðingar og stjórnmálamenn á erlendum vettvangi lagt svipað mat á hlutina.
Hvers vegna skiptir þessi fundur svona miklu máli? Í stuttu máli þykir nú orðið mögulegt að ná fram skuldbindingum frá stórum og smáum þjóðum, um að taka þetta málefni eins alvarlega og það á skilið, og samþykkja að draga úr losun og ráðast í stórfelldar breytingar á innviðum samfélaga, með það að markmiði að gera þau sjálfbærari þegar kemur að orku.
Svo dæmi sé nefnt, sem sýnir hversu stórar breytingar gætu verið framundan á næstu árum, þá er nærtækt að horfa til rammaáætlunar Evrópusambandsins (ESB) frá því fyrr á þessu ári. Í janúar kynnti ESB rammaáætlun um loftslags- og orkumál til ársins 2030 en hún felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um fjörutíu prósent frá því sem losunin var árið 1990. Jafnframt er tilgreint að 27 prósent af orkunotkun skulu koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Framtíðarsýnin er að orkukerfi ESB verði sjálfbærara, öruggara og samkepnishæfara. Miðað við áætlunina þá skal ESB ná markmiðum sínum í minnkun á útblæstri og orkunýtni eftir árið 2020.
Ísland tekur þátt í fundinum, og hafa stjórnvöld sagt að þau muni leggja sitt af mörkum.
Í þessum efnum snýst árangurinn oftar en ekki um sértækar lausnir á vandamálum, meðal annars með þróun nýrrar tækni til þess að nýta vistvæna orku en einnig í gegnum lög og reglur.
Eins og við blasir dugar ekki að horfa á þetta sem eitthvað málefni sem getur beðið. Vandamálið er oft stórt til þess. Því miður er staðan á Íslandi þannig að engin heildstæð áætlun, með pólitískri leiðsögn, er til. Ekki liggur fyrir hvað eigi að gera til þess að ná markmiðum. Það er það sem þarf þó óhjákvæmilega að gera.
Þrír punktar verða nefndir hér sérstaklega, en augljóslega mættu þeir vera mun fleiri (Stundum er gott að tala um fáa hluti í einu!).
Borgarsamfélögin áhrifamikil
1. Borgarsamfélög eru sérstaklega áhrifamikil í alþjóðlegum markmiðum eins og þessum sem að er stefnt á Lofslagsráðstefnunni í París, og mikill árangur getur náðst með því að fá þau til þess að breyta innviðum og samfélagsgerðinni. Höfuðborgarsvæðið er augljóslega það sem nefna má sérstaklega á Íslandi, enda búa þar um 70 prósent íbúa. Það svæði er skelfilega óhagkvæmt og gamaldags bílaborgarbragur einkennir það að mörgu leyti, eins og tölur um bílafjölda á íbúa staðfesta, og einnig mikla dreifingu byggðar í samanburði við önnur borgarsamfélög erlendis. Í gegnum lög og reglur mætti draga úr losun, t.d. með því að ýta undir rafvæðingu bílaflotans, setja upp vegtolla til þess að fólk noti frekar almenningssamgöngur, og með þéttingu byggðar. Töluverð umræða hefur verið um það síðastnefnda og margt jákvætt hefur gerst hvað það varðar, eins og framtíðaráform um byggðarþróun í Reykjavík bera með sér. En hlutirnir gerast of hægt hvað hin atriðin varðar. Almannahagsmunirnir verða að ráða för, engir aðrir hagsmunir.
Halldór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sagði á fundi Landsvirkjunar 22. maí, þar sem loftslagsmál voru til umræðu, að hann skildi ekki hvers vegna ekki væri búið að rafvæða bílaflotann. „Það á að vera löngu búið að því“ sagði hann, og vísaði meðal annars til þess að höfuðborgarsvæðið væri í góðri stöðu til þess að gera þetta, meðal annars vegna góðra innviða raforkukerfis og vistvænnar orkuframleiðslu í landinu. „Vilji er allt sem þarf“ sagði Halldór.
Hafið - Leysist deilan um kvótakerfið?
2. Miklir hagsmunir eru í húfi þegar kemur að skipaumferð í íslenskri lögsögu, og útgerðarfyrirtækin eiga sérstaklega mikið undir því að finna hagkvæmar lausnir sem draga úr olíunotkun skipa og minnka þar með útblástur við veiðar á hafi úti. Mikil þróun á sér stað í þessum efnum, en betur má ef duga skal. Það sem veldur mörgum áhyggjum eru vísbendingar um súrnun sjávar og að hún geti ógnað lífríki í sjónum. Doktor Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur hjá Veðurstofu Íslands, nefndi þetta atriði sérstaklega, á fyrrnefndum fundi Landsvirkjunar, sem atriði sem nauðsynlegt væri að rannsaka betur. Það sem hann hefði séð væri virkilega ógnvænlegt. „Kannski leysast deilurnar um kvótakerfið af sjálfu sér þegar fiskurinn er meira og minna horfinn,“ sagði Halldór meðal annars.
Lífstílsbreyting áhrifamest
3. Margt smátt gerir eitt stórt, er stundum sagt. Þegar kemur að viðfangsefninu sem tengist sjálfbærni samfélaga og aðgerðir til þess að draga úr mengun, þá á þetta svo sannarlega við. Fólkið sjálft mun ráða því hversu vel það mun ganga að ýta undir betra og vistvænna samfélag. Alveg eins og í fyrsta punktinum hér, þá beinast spjótin að borgarsamfélögunum. Heilbrigður lífstíll, þar sem fólk velur að nota hjól, labba eða hlaupa, frekar en að nota bíl, er líklega áhrifamest af öllu sem hægt er að gera. Ef það gera það bara nógu margir! Það sama má segja um betri nýtingu á matvælum og notkun vistvænna umbúða. Til marks um alþjóðlega þróun í þessum efnum þá eru Frakkar búnir að banna að henda mat. Stórmarkaðir og fyrirtæki verða nú að fara með mat sem ekki selst til góðgerðarsamtaka, eða leggja hann til í dýrafóður. Markmiðið er síðan að skylda fólk til þess að gera slíkt hið sama, sem á að ýta undir að fólk nýti mat betur, en ógnvænlegt er hversu miklum mat fólk hendir, í mörgum tilvikum án þess að opna umbúðirnar.
Til þess að eitthvað jákvætt gerist í þessum efnum, þá þarf vel útlistaðar áætlanir með tímasettum markmiðum og sértækum lausnum á aðkallandi vandamálum. Stjórnmálamenn, bæði á Alþingi og einnig í sveitarfélögum, skulda almenningi framtíðarsýn í þessum efnum. Það er mikið í húfi og þegar allt er saman tekið þá virðist risastór lífstílsbreyting handan við hornið sem nauðsynlegt er að búa sig vel undir og umfram allt; taka virkan þátt í.