Fyrir ekki löngu síðan sátum við konan mín fyrir framan sjónvarpið á heimili okkar í Þýskalandi og horfðum á áttafréttir, eins og við gerum flest kvöld. Rútínan var nokkuð svipuð og vanalega: COVID, Úkraína, loftslagsbreytingar, ESB og einhver gamall og merkilegur Þjóðverji féll frá. Það sem skar sig úr var frétt um hagvöxt. Þýska hagkerfið óx um 2,7% árið 2021.
2,7% voru smá vonbrigði, en kom þó ekki á óvart. Þýskaland er bæði háðara alþjóðlegum aðfangakeðjum en flestar aðrar þjóðir, auk þess sem neytendur í Þýskalandi eiga það til að troða koddann sinn fullan af sparifé og sofa á honum þegar óveðursmerki eru á lofti. Með öðrum orðum, útflutningur náði ekki 30.000 feta hæð og einkaneysla þjáðist meira en sjúkdómurinn gaf til kynna.
Örvunarskammtur þýska hagkerfisins
Innan um þessi vonbrigði eru þó ansi magnaðar fréttir. 0,5 prósentustig hagvaxtarins mátti rekja beint til afkomu eins fyrirtækis. Áætlað er að þegar síðustu baunirnar hafa verið taldar hafi tekjur fyrirtækisins árið 2021 verið í kringum 17 milljarðar evra,en á gengi dagsins eru það um 2,45 billjónir króna. Til samanburðar var landsframleiðsla Íslands árið 2020 í kringum 2,9 billjónir króna. Með öðrum orðum, verðmætasköpun okkar allra lögð saman var sambærileg verðmætasköpun eins fyrirtækis sem rétt skreið yfir núllið í fyrsta skipti árið 2020.
Mynd 1 – Tekjur BioNTech og landsframleiðsla Íslands
Fyrirtækið er að sjálfsögðu BioNTech. BioNTech er til húsa í tilgerðarlitlu atvinnuhúsnæði í Gullnámu 12 í borginni Mainz. Þetta er ekki grín. Höfuðstöðvar fyrirtækisins sem bar ábyrgð á 0,5% af verðmætasköpun Þýskalands árið 2021 eru staðsettar an der Goldgrube 12. Frekar viðeigandi. Gullnáman, þar sem gullnáman BioNTech er staðsett, er eins og áður sagði, í borginni Mainz. Sem margir kannast við en fæstir þekkja. Lítil borg þar sem um 250 þúsund manns búa.
Skuldlaus bær
Fyrirtækjaskattar í Þýskalandi eru svipaðir og heima. Þeir skiptast í tekjuskatta (15.8%) og útsvar sem er óþarflega flókið, að þýskum sið. Útsvarið virkar þannig að grunnprósenta (3,5%) er margfölduð með tölu sem hvert sveitafélag velur fyrir sig. Í það minnsta verður að margalda grunnprósentuna með 2 og í tilfelli Mainz er þessi tala 4,4. Það þýðir það að BioNTech greiddi u.þ.b. 31% í tekjuskatt árið 2021.
Fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2021 nam hagnaður BioNtech 7 milljörðum evra og endar líklega nær 10 milljörðum þegar sveittir bókarar fyrirtækisins klára að telja síðustu baunirnar.
Mynd 2: Hagnaður BioNTech, 2020Q1 – 2021Q3
Útsvarið rennur að mestu til bæjarfélagsins Mainz. BioNTech er reyndar líka með verksmiðju og rekstur í hinni undurfögru Marburg en Mainz fær þó hluta refsins, einn milljarð evra árið 2021. Á næsta ári reiknar borgin með um hálfum milljarði í viðbót. Heildarskuldir Mainz námu um 1,2 milljörðum evra árið 2021 og má því segja að Mainz, sem var þokkalega skuldsett bæjarfélag áður, sé nú tæknilega skuldlaust. Allavega gæti það verið það ef það myndi nota þessa peninga til að greiða niður skuldir.
Borgarstjórn Mainz hefur nú þegar lofað að nota hvalrekan vel. Til að mynda ætlar hún að lækka útsvarið í borginni úr 15,4% í 11% og allir sem reka fyrirtæki í bænum græða og bærinn verður samkeppnishæfari fyrir vikið. BioNTech örvar því ekki bara ónæmiskerfi heldur líka efnahag heimabæjar síns og Þýskalands.
Krónur vanmeta raunverulegt framlag BioNTech
Oft heyrir maður fólk bölva gráðugum lyfjafyrirtækjum. Stundum á slíkt rétt á sér. Á tímabili fengu bóluefnaframleiðendur að heyra það, gráðug svín. Allir sem græða eru vondir, sérstaklega ef varan bjargar mannslífum. Einhverjir kölluðu jafnvel á opnun uppskriftabókar BioNTech, réttast væri að taka af þeim einkaleyfið; allir áttu að fá sér BioNTech en BioNTech átti ekki að fá borgað fyrir fjárfestinguna, áhættuna.
Þegar faraldurinn skall á var BioNTech ekki með hugann beint við á bólufeni. Markmiðið var að nota þessa nýju tækni, sem kallast mRNA og ég skil ekki, til þess að bæta meðferð krabbameinssjúkra. Þegar faraldurinn gerði sér leið úr lungum kaupmanna í Wuhan til bílahlutaframleiðenda í München ákvað BioNTech samt að reyna að nota þessa tækni í að bjarga okkur út úr COVID. Líklega spiluðu hugsjónir stærstan þátt ákvörðunar hjónanna og stofnenda BioNTech, Uğur Şahin og Özlem Türeci, þó trygging á langtímafjármögnun félagsins hafi eflaust einnig spilað sinn þátt.
BioNTech græddi mest á því að finna upp efnið og leyfa Pfizer að framleiða og selja það. BioNTech samdi samt um að fá að framleiða og selja efnið sjálft á vissum svæðum. BioNTech, í samstarfi við Pfizer, framleiddi 3 milljarða skammta árið 2021.
Ég rissaði nokkrar forsendur niður á blað og fann út að 3 milljarðar skammta duga í þrjár sprautur fyrir 750 milljónir einstaklinga. Miðað við einfaldar forsendur um dánartíðni smitaðra má gefa sér að hægt sé að forða 30 til 90 milljónum manna frá óhugnanlegum dauðdaga með þessum skömmtum.
Pfizer græddi um 9 til 10 milljarða evra á þessum skömmtum og með góðu móti má því segja að BioNTech hafi grætt á bilinu 15 til 50 þúsund krónur fyrir hvert mannslíf sem fyrirtækið bjargaði. Bilið er stórt og kannski vanmet ég það aðeins (ólíklegt samt) en meira að segja ef raunverulegur gróði á hvert mannslíf nemur 100 þúsundum króna þá er það ekki mikill peningur fyrir mannslíf.
Þessir trylltu kapítalistar ætla samt ekki að láta það duga að bjarga milljónum mannslífa fyrir nokkra þúsundkalla á líf. Þeir ætla núna að taka þennan gróða og fjárfesta honum í að framleiða enn meira bóluefni og reyna að bjarga lífum krabbameinssjúkra.
Kapítalismi er ekki alltaf fallegur. Sérstaklega ekki kumpánakapítalismi. En bóluefnasagan er áminning þess að hann á það til að búa til ansi mikil verðmæti. Vissulega spilaði þáttur ríkisins sinn þátt, aldalöng fjárfesting í rannsóknum og bein framlög til frumkvöðla hjálpaði. En drifkraftur metnaðarfullra einstaklinga var þó jafningurinn á bjúgunum.
Þökk sé börnum tyrkneskra innflytjenda í Þýskalandi, sem nýttu sér snilli sína og heilbrigt félagslegt markaðshagkerfi, er það sjaldan að maður Pizer-BioNTech og endar í gröfinni.