Nýr frystitogari, Baldvin Njálsson GK 400, kom til landsins í lok nóvember. Nesfiskur í Garði á Reykjanesi gerir skipið út. Smíði skipsins hófst árið 2019 og stjórnendur fyrirtækisins hafa upplýst að fjárfestingin fari yfir 5 milljarða króna. Þegar smíði hófst var heimilt að veiða 272 þúsund tonn af þorski. Nú, þegar skipið er komið til landsins, er heimilt að veiða rúmlega 220 þúsund tonn. Samdrátturinn nemur tæpum 20% á tveimur árum.
Niðursveifla í ráðlögðum þorskafla hefur áhrif
Það er ekki nýtt að leyfileg heildarveiði á þorski sveiflist á milli ára. En eftir breytingar á svokallaðri aflareglu, hefur frá árinu 2009 verið góður stígandi í ráðlagðri veiði. Nú slær tímabundið í bakseglið, en stofninn er engu að síður stór og veiði úr honum mun aukast á komandi árum, þó ekki sé útlit fyrir að það verði strax. Þetta leiðir hugann að nýja frystitogaranum, Baldvini Njálssyni. Augljóslega hefur það nokkur áhrif á greiðslugetu fyrirtækisins þegar samdráttur verður í þorskveiði. Í tilfelli þess skips nemur samdrátturinn tæpum 1.000 tonnum. Þetta gæti staðið undir veiði í um það bil sex vikur. Að sjálfsögðu verða fyrirtæki í sjávarútvegi að aðlaga sig að óvæntum breytingum í lífríki hafsins. En þetta sýnir hversu mikilvægt það er að sjávarútvegsfyrirtæki séu vel rekin og fjármögnuð. Þau þurfa að takast á við náttúruna og duttlunga hennar á hverju ári.
Loks fannst loðnan
Árin 2019 og 2020 var ekki heimilt að veiða loðnu við Ísland. Tap þjóðarbúsins vegna þess nam tug milljörðum króna. Þarna á það sama við og í tilfelli Baldvins Njálssonar, mörg uppsjávarfyrirtæki hafa verið að fjárfesta fyrir tugi milljarða á undanförnum árum, bæði í skipum og vinnslum. Þessi fyrirtæki urðu að sæta því að engar tekjur komu frá loðnuveiði tvö ár í röð. Að sjálfsögðu er þetta ekki aðeins á annan veginn; þegar loðnan gaf sig í sumar veiddist hún á besta tíma og úr varð verðmæt loðnuvertíð. Og það sama mun gerast í þorskinum þegar fram líða stundir.
Saga sjávarútvegs við Ísland geymir fleiri dæmi um hrun fiskistofna með miklum efnahagslegum afleiðingum. En þó er sjávarútvegur enn í dag ein öflugasta stoð efnahagslegrar hagsældar þjóðarinnar. Hann stóð af sér netbóluna, hrun bankakerfisins og kórónuveiruna. Það var ekki tilviljun, það er beint samhengi milli þess hvernig veiðum við Ísland er háttað og þess hversu sterk og sveigjanleg atvinnugreinin er. Af þeim þjóðum heims sem stunda einhvern sjávarútveg að ráði, má fullyrða að það er hvergi eins vel staðið að honum og gert er á Íslandi. Víða er vel gert, en hvergi betur.
Öflugar hafrannsóknir eru grunnforsenda verðmætasköpunar
Einn af lykilþáttunum í kerfinu eru rannsóknir í hafinu sem hvíla á herðum Hafrannsóknastofnunar. Áskoranir á næstu árum í sjávarútvegi tengjast breytingum í umhverfi, svo sem breytingum á loftslagi, vistkerfi sjávar og útbreiðslu fiskistofna. Þá eru öflugar rannsóknir nauðsynlegar til að fylgjast með þeim breytingum sem eiga sér stað á íslenskum hafsvæðum og krefjast grunnrannsókna og aukinnar vöktunar, til dæmis breytingar á loðnustofninum. Svo þetta sé mögulegt þurfa stjórnvöld að gera bragarbót. Þess sér því miður ekki stað í frumvarpi til fjárlaga þar sem hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðs nemur 97 milljónum króna. Það er rétt að taka undir að gæta skal aðhalds í útgjöldum úr sameiginlegum sjóðum. En í tilfelli Hafrannsóknastofnunar skal á það bent, að vandaðar rannsóknir eru forsenda þess að auðlindin í hafinu verði nýtt á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þá má bæta því við að fiskveiðistjórnunarkerfið hvílir á vísindalegri nálgun við nýtingu. Útgjöld til hafrannsókna geta því skilað margföldum ávinningi. Og um það eru mörg dæmi.
Laxinn tekur flugið
Ísland er að stimpla sig rækilega inn sem framleiðandi á hágæða laxi. Útflutningsverðmæti á laxi er komið í tæpa 33 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins og er það um 33% aukning á milli ára á föstu gengi. Á nokkuð skömmum tíma hefur tekist að skapa mikilvægar tekjur fyrir þjóðarbúið – og það sem meira er um vert, þá aukast verulega atvinnutekjur og verðmæt störf á svæðum á landsbyggðinni sem hafa átt undir högg að sækja. Þessi auknu umsvif sjást greinilega í tölum af vinnumarkaði. Af öllum atvinnugreinum er hlutfallsleg fjölgun launþega í ár hvergi meiri en í fiskeldi, en aukningin er ríflega 13% á milli ára. Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur á fyrstu 9 mánuðum ársins. Það þarf því að hlúa áfram að þessari atvinnustarfsemi og styðja við frekari uppbyggingu, í sátt við náttúru og samfélag. Og það er eins með laxeldi og sjávarútveg, ef engin er fjárfestingin eru engin framleiðslutæki. Nú ber svo við að það eru Norðmenn sem sjá sér hag í því að fjárfesta í íslensku fiskeldi. Þeim fjárfestingum ber að fagna og þær eru af hinu góða. Norðmenn eru fremstir þjóða í laxeldi í sjó og af þeim má margt læra.
Mikilvægt að halda sjó í pólitísku umróti
Heilt yfir var góður gangur í íslenskum sjávarútvegi í ár, þrátt fyrir að ekki vantaði áskoranir. Nýting auðlinda er í eðli sínu mjög pólitískt mál og því má alltaf gera ráð fyrir að tekist sé á um fiskveiðistjórnunarkerfið, með einum eða öðrum hætti, á vettvangi stjórnmála. Og það var að einhverju leyti til umræðu í kosningum til þings í haust. Það er ærið verkefni fyrir atvinnugreinina að halda sjó í slíku umróti. En það er mikilvægt. Verkefni atvinnugreinarinnar fólust því í að halda verðmætasköpun áfram, ásamt því að vinna meðal annars að frekari samdrætti í olíunotkun, enn betri umgengni við auðlindina, markaðsmálum og nýjum kjarasamningi sjómanna. Margt gekk þar vel, á meðan önnur verkefni taka lengri tíma. Í þeim verður áfram unnið á komandi ári.