Það er flókið mál að semja fjárlög. Hlutverk þeirra sem ákveða hverjir fá styrk frá hinu opinbera er ekki öfundsvert, þar sem sjaldan er hægt að komast að niðurstöðu þar sem allir verða sáttir.
Þó ríkir töluverð sátt um nokkur grundvallaratriði í þessum málum. Þrátt fyrir að túlkunin sé breytileg eftir stjórnmálaflokkum eru flestir þeirra sammála um að rekstur ríkisins eigi að vera sjálfbær þegar til lengri tíma er litið, að ekki eigi að magna upp hagsveiflur og að peningurinn úr ríkiskassanum fari til þeirra sem mest þurfa á honum að halda.
Það verður ekki séð að nýleg ákvörðun Alþingis um að fella niður virðisaukaskatt á starfsemi tengdri byggingarframkvæmdum og viðhaldi húsnæðis í ár uppfylli neitt þessara skilyrða, sama hvernig þau eru túlkuð. Þvert á móti má búast við að að hún stuðli ekki að sjálfbærni fyrir ríkissjóð og magni upp framleiðsluspennuna í ár, auk þess sem líklegt er að efnafólk muni fyrst og fremst græða á henni. Ákvörðunin er einfaldlega slæm hagstjórn.
Allir vinna
Endurgreiðslurnar munu eiga sér stað í gegnum átak sem ber heitið „allir vinna“ , en því var fyrst komið á í kjölfar fjármálahrunsins til að auka eftirspurn eftir slíkri starfsemi og koma í veg fyrir svarta atvinnu. Á þeim tíma hafði byggingargeirinn hrunið, en störfum þar fækkaði um helming á milli áranna 2008 og 2010.
Með átakinu átti eftirspurn eftir þjónustu þeirra sem vinna við uppbyggingu og viðhald húsnæðis að aukast, þar sem hún yrði ódýrari. Þannig yrði hægt að tryggja byggingargeiranum fleiri verkefni en annars og draga úr framleiðsluslakanum sem hafði myndast vegna hrunsins.
Endurgreiðslan virðist hafa borið árangur. Fyrirtæki í byggingarstarfsemi hættu að skila tapi og byrjuðu að skila milljarðahagnaði þegar átakið var virkt á tímabilinu 2010-2015. Á sama tíma jukust tekjur þeirra um meira en helming og störfum geiranum fjölgaði um rúman fjórðung.
Vegna góðs árangurs ákvað ríkisstjórnin að endurtaka leikinn í fyrra, þegar búist var við hruni í byggingariðnaðinum þar sem kreppa var yfirvofandi vegna heimsfaraldursins.
En slíkt hrun kom sem betur fer ekki. Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu jókst hagnaður fyrir skatt hjá fyrirtækjum í byggingarstarfsemi um 9 prósent að raunvirði á milli áranna 2019 og 2020. Vissulega fækkaði starfsmönnum í greininni um 6 prósent á tímabilinu, en sú fækkun er varla sambærileg 43 prósent fækkuninni í fjölda starfsmanna í greininni eftir fjármálahrunið.
Innspýting í þegar þanið hagkerfi
Síðan þá hafa horfur í greininni batnað enn frekar, en í september voru starfsmenn í greininni orðnir fleiri en þeir voru áður en heimsfaraldurinn skall á. Þar að auki er búist við að horfurnar batni enn frekar á næstu mánuðum með aukinni fjárfestingu í uppbyggingu íbúða.
Í upphaflega fjármálafrumvarpinu sem var lagt fram í lok nóvember var því lagt upp með að „allir vinna“ átakið yrði ekki framlengt í ár, þar sem ekki sé þörf á því þessa stundina.
Í minnisblaði til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fór fjármálaráðuneytið ítarlega yfir helstu rök gegn því að framlengja átakið í ár. Þar benti ráðuneytið sérstaklega á síðustu hagspár Seðlabankans og Hagstofu, en þær gera ráð fyrir að framleiðsluspenna myndist í þjóðarbúinu á þessu ári, sem þýðir að landsframleiðslan verði umfram sitt jafnvægisgildi. „Um væri að ræða innspýtingu á fjármagni í hagkerfið sem er nú þegar þanið,“ segir ráðuneytið.
Hagspárnar gera einnig ráð fyrir umtalsverðum vexti í íbúðafjárfestingu, sem búist er við að muni halda áfram að aukast á næstu árum. Ráðuneytið bætir svo við í minnisblaði sínu að fátt bendi til verkefnaskorts varðandi endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis, en letjandi áhrif COVID-19 á ferðalög til útlanda hafi haft hvetjandi áhrif á sumarbústaðaframkvæmdir.
Tóku frekar ráðleggingum Samtaka iðnaðarins
Líkt og við var að búast mótmæltu Samtök iðnaðarins, sem bera hag af framlengingu átaksins, þessum áformum með umsögn sem þau sendu til efnahags- og viðskiptanefndar. Samkvæmt henni átti átakið sinn þátt í því að milda niðursveifluna í byggingariðnaði á síðasta ári, en nauðsynlegt sé að framlengja það um að minnsta kosti eitt ár þar sem enn væri slaki í atvinnugreininni.
Af einhverjum ástæðum tók meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar frekar mark á ráðleggingum samtakanna heldur en fjármálaráðuneytisins og ákvað hún því að mæla með því að „allir vinna“ átakið yrði framlengt. Þessa framlengingu samþykkti Alþingi svo á milli jóla og nýárs.
Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2011 til 2013 og var formaður þeirra frá 2014 til 2020. Hún varði ákvörðun meirihluta nefndarinnar á Alþingi í síðustu viku með sömu röksemdarfærslu og samtökin nefndu, en hún sagði að enn væri slaki til staðar í byggingariðnaði, sem hefði jafnan þurft að bera mjög þungar byrðar í samdráttarskeiðum hérlendis. Enn fremur sagði Guðrún að það væri „óyggjandi“ að átakið myndi skila sér í ávinningi fyrir ríkissjóð vegna minni svartrar atvinnustarfsemi.
Er slaki í byggingariðnaði?
Staðhæfing Guðrúnar og Samtaka iðnaðarins um að slaki mælist enn í byggingariðnaði byggir ekki á sterkum grunni.
Samtökin benda á að enn séu fleiri atvinnulausir í greininni en í venjulegu árferði, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Ef rýnt er í fleiri hagtölur virðist þó sem að sú staða sé líklega ekki tilkomin vegna slaka í atvinnugreininni, heldur vandamála við að leiða saman rétt störf við rétt starfsfólk.
Mynd hér að neðan sýnir heildarveltu í byggingu húsnæðis eftir tveggja mánaða tímabilum frá 2008 til 2021. Samkvæmt henni hefur veltan verið töluverð á síðustu mánuðum, en hún var svipuð í haust og í miðju hagvaxtarskeiði árið 2017, þrátt fyrir að tekið sé tillit til verðbólgu. Veltan er einnig meiri nú að raunvirði en hún var undir lok góðærisins sumarið 2008.
Sama staða blasir við þegar afkoma fyrirtækja í byggingariðnaði er skoðuð. Hagnaður fyrir skatta jókst árið 2020 hjá fyrirtækjum sem sjá um byggingu húsnæðis og annarra mannvirkja, en stóð í stað hjá fyrirtækjum sem sjá um viðhald húsnæðis og aðra sérhæfða byggingarstarfsemi.
Að vísu minnkaði fjöldi starfsmanna í greininni lítillega eftir að heimsfaraldurinn skall á, en þeim er tekið að fjölga aftur. Líkt og myndin hér að neðan sýnir var meðalfjöldi starfsmanna í hverjum mánuði í fyrra meiri heldur en á uppgangsárunum 2015-2017 og litlu minni en þegar hagsveiflan náði síðast hámarki sínu árin 2018 og 2019.
Ein leið til að mæla framleiðsluspennu í atvinnugreinum er með því að athuga laus störf í greininni. Mikill fjöldi lausra starfa bendir til aukinnar framleiðsluspennu, þar sem það er merki um að fyrirtæki vilji auka við sig vinnuafl. Samkvæmt tölum Hagstofu er hlutfall lausra starfa í byggingariðnaði nú tvöfalt hærra en það var í ársbyrjun 2019. Eitt af hverjum tíu störfum í greininni var laust undir lok síðasta sumars, en á sama tíma voru einungis 3,6 prósent allra starfa í hagkerfinu laus.
Því er niðurstaða Samtaka iðnaðarins um að að framleiðsluslaki sé til staðar í greininni undarleg, þar sem meirihluti hagtalna bendir í aðra átt. Í miklum slaka væri að minnsta kosti óeðlilegt að finna marga starfsmenn, mörg laus störf, mikla veltu og góða afkomu.
Hætta á freistnivanda
Framlengingin á „allir vinna“- átakinu er ekki ókeypis, heldur er búist við að afkoma ríkisins versni um sjö milljarða króna vegna hennar. Þessir sjö milljarðar eru dýrkeyptir, þar sem ríkisstjórnin hefur einsett sér að draga jafnt og þétt úr afkomuhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls hins opinbera á næstu fjórum árum í framlagðri fjármálstefnunni sinni.
Ákvörðun stjórnvalda að láta undan þrýstingi frá Samtökum iðnaðarins og framlengja ívilnandi aðgerðir – þrátt fyrir að efnahagsleg rök hníga gegn því – sýna hversu erfitt það mun reynast að framfylgja þessari stefnu þegar draga á úr mótvægisaðgerðum. Með verri hagstjórn munu líkurnar aukast á að hið opinbera þurfi annað hvort að hækka skatta eða draga úr opinberum útgjöldum annars staðar til að ná markmiði sínu.
Líkt og fjármálaráð hefur bent á í áliti um framlagða fjármálastefnu freistast stjórnmálamenn oft til að horfa of stutt til framtíðar og eyða því umfram efni í stað þess að taka á undirliggjandi vandamálum. Sömuleiðis eru hagsmunaaðilar ekki líklegir til að taka tillit til hagsmuna heildarinnar þegar þeir berjast um opinber útgjöld, þeir hugsa frekar um sína sneið heldur en kökuna sjálfa.
Þessi vandamál verða þó líklegri til að eiga sér stað þegar fjárlög, sem eru bara til eins árs, eru samþykkt á undan fjármálastefnu hennar, sem lítur til lengri tíma. Fjármálastefnan hefur enn ekki verið afgreidd af hálfu Alþingis enda þótt fjárlögin séu það, en til þess að koma í veg fyrir freistingar stjórnmálamanna til að fara ógætilega með fjármál hins opinbera hefði hún átt að liggja til grundvallar þegar fjárlögin voru rædd.
Furðuleg forgangsröðun
Fjárhæðirnar sem ríkið verður af vegna framlengingar átaksins koma því ekki úr neinu tómarúmi, heldur mun aðgerðin auka skuldsetningu hins opinbera og leiða til þess að erfiðara verður að framfylgja fjármálastefnu næstu ára.
Sjö milljarðar króna er heldur enginn smápeningur. Til að setja upphæðina í samhengi er hún jöfn framlagi ríkisins í fyrra fyrir byggingu nýs Landspítala. Sömuleiðis hefði upphæðin dugað til að fjármagna rekstur Háskóla Íslands í fimm mánuði eða til að tvöfalda framlag ríkisins til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu. Einnig hefði ríkisstjórnin getað sleppt því að auka útgjöld og frekar aukið kaupmátt skattgreiðenda með því að hækka persónuafslátt um 27 þúsund krónur á mann á ári í stað þess að halda verkefninu áfram.
Í ofangreindum verkefnum myndi ávinningurinn dreifast nokkuð vítt um samfélagið. Þeir sem hagnast mest á áframhaldandi skattaafslætti á uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis eru aftur á móti færri. Fyrst og fremst verða það fyrirtæki sem standa að jafnaði vel fjárhagslega og svo einstaklingar sem kaupa þjónustu þeirra, en þeirra á meðal eru tekjuháir einstaklingar sem vilja endurinnrétta íbúðina sína eða gera upp sumarbústaðinn sinn.
Framlenging „allir vinna“- átaksins er furðuleg forgangsröðun í núverandi ástandi. Að minnsta kosti er hægt að hugsa um margar betri leiðir til að verja þessum fjárhæðum en með þensluaðgerðum á uppgangstíma sem auka skuldir og gagnast fáum.
Höfundur er ritstjóri Vísbendingar.