Í liðinni viku var skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að endurskoða beinan húsnæðisstuðning til einstaklinga i formi húsnæðisbóta, vaxtabóta, sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga og skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar. Sá sem skipar starfshópinn er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, og sá sem veitir honum formennsku er Eygló Harðardóttir, sem var ráðherra húsnæðismála á árunum 2013 til 2016.
Samhliða skipaði Sigurður Ingi annan hóp til að endurskoða húsaleigulög með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Formaður þess hóps er eiginmaður þingmanns Framsóknarflokksins.
Stuðningskerfi sem þarfnast endurskoðunar
Tilgangur þessara starfshópa er að bregðast við skýrslu annars starfshóps, sem skilaði í vor skýrslu með tillögum um umbætur á húsnæðismarkaði. Í henni kom fram að hópurinn hefði orðið „sammála um að húsnæðisstuðningi skuli fyrst og fremst beina að tekju- og eignalágum einstaklingum og fjölskyldum. [...] Núverandi stuðningskerfi bera að vissu leyti merki um stöðnun og þarfnast endurskoðunar í heild sinni.“
Skýrsluhöfundar sögðu ljóst er að staða leigjenda út frá húsnæðisöryggi og byrði húsnæðiskostnaðar væri lakari en þeirra sem eiga eigin íbúð. „Aðgerða er þörf sem miða að því að auka húsnæðisöryggi leigjenda og lækka byrði húsnæðiskostnaðar hjá efnaminni leigjendum.“
Gerist ekki í tómarúmi
Með öðrum orðum er verið að bregðast við því að ríkjandi húsnæðisstuðningskerfi, og ríkjandi umgjörð í kringum leigumarkað, eru langt frá því að þjóna þeim tilgangi sem slík kerfi eiga að þjóða og því að leigjendur búa bæði við lítið húsnæðisöryggi og búa við það íþyngjandi greiðslubyrði að það skerðir lífsgæði þeirra verulega umfram þá sem eiga húsnæði. Um er að ræða ansi stóran hóp. Nýlegt svar sem barst við fyrirspurn á Alþingi sýndi að á Íslandi hafi næstum 100 þúsund þeirra 308 þúsund einstaklinga sem eru 18 ára og eldri aldrei átt húsnæði. Þegar horft er á fullorðið fólk undir fimmtugu þá kemur í ljós að um helmingur hópsins hefur aldrei átt þakið yfir höfuð sér.
Svona lagað gerist ekki í tómarúmi. Það er ekki afurð einhverrar náttúrulegrar þróunar.
Kerfið er afleiðing pólitískra ákvarðana.
Niðurlagning félagslegs húsnæðiskerfis og 90 prósent lán
Nokkrar slíkar ákvarðanir leika lykilhlutverk í mótun þeirrar stöðu sem er uppi. Sú fyrsta var niðurlagning félagslega íbúðakerfisins með lögum sem tóku gildi árið 1999. Á þeim tíma voru rúmlega ellefu þúsund félagslegar íbúðir í kerfinu.
Með þeirri ákvörðun voru allir þeir sem áður bjuggu í félagslegu kerfi færðir inn í almennt kerfi. Þeir þurftu að taka lán á sömu kjörum og aðrir sem þar voru en höfðu meira á milli handanna eða keppa við þá um takmarkað magn leiguíbúða. Þeir sem sátu í félagslegu íbúðunum akkúrat á þessum tíma fengu að kaupa eignirnar á lágu verði og þegar óumflýjanleg ruðningsáhrif á húsnæðismarkaði urðu gátu þeir selt þær með hagnaði. Þess vegna reyndist þessi aðgerð sértæk tilfærsla á fjármunum til afmarkaðs hóps. Fjallað er um þessa ákvörðun í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið. Þar segir að nefndin hafi flokkað ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi endurskipulagningu húsnæðismarkaðar og hækkun hámarkslánshlutfalls Íbúðalánasjóðs sem ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna.
Næsta ákvörðun var að hækka veðhlutfall almennra lána Íbúðalánasjóðs úr 65 í 90 prósent. Það var gert vegna kosningaloforðs Framsóknarflokksins þess efnis í aðdraganda kosninga 2003. Breytingin varð að lögum í desember 2004. Sá ráðherra sem lagði fram frumvarpið var Árni Magnússon úr Framsóknarflokki. Samstarfsflokkur Framsóknar í ríkisstjórn var Sjálfstæðisflokkurinn.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið sagði orðrétt um aðgerðina: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“
Tilfærsla tugmilljarða til ríkari hluta þjóðarinnar
Eftir hrun hafa líka verið teknar nokkrar ákvarðanir sem hafa haft mikil áhrif á húsnæðismarkað. Þær voru grundvallaðar sem viðbragð við afleiðingum þeirra ákvarðana sem tíundaðar eru hér að ofan.
Þar ber helst að nefna hina svokölluðu „Leiðréttingu“. Hún var tvíþætt. Annars vegar var ákveðið að greiða 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði til hluta þeirra landsmanna sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009.
Samtals fór 67,5 prósent heildarupphæðarinnar til þeirra 30 prósent Íslendinga sem voru með hæstar tekjur. Efsta tekjutíundin fékk 30 prósent upphæðarinnar. Sá helmingur þjóðarinnar sem átti minnstu hreinu eignirnar fékk 28 prósent leiðréttingarinnar, eða 20,2 milljarða króna. Sá helmingur sem átti mestar eignir fékk 72 prósent hennar, eða 52 milljarða króna. Þau 20 prósent Íslendinga sem áttu mestar hreinar eignir fengu samtals 22,7 milljarða króna í leiðréttingu, eða tæplega þriðjung hennar. Alls 1.250 heimili sem borguðu auðlegðarskatt árið 2013, langríkasta fólk landsins, fengu samtals 1,5 milljarða króna í þennan ríkisstyrk.
Samandregið var um aðgerð að ræða sem færði peninga úr ríkissjóði að mestu til þeirra hópa landsmanna sem höfðu háar tekjur eða áttu miklar eignir.
Þessum hluti „Leiðréttingarinnar“ var hrint í framkvæmd vegna þess að að Framsóknarflokkurinn hafði lofað peningamillifærslunni í aðdraganda kosninga 2013, og unnið stórsigur fyrir vikið. Sjálfstæðisflokkurinn kyngdi þessu fyrir ríkisstjórnarsetu og stóð að aðgerðinni með samstarfsflokknum.
Húsnæðisstuðningur fyrir tekjuháa
Hinn hluti „Leiðréttingarinnar“ snýr að heimild til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán. Þegar þetta úrræði var kynnt átti það að gilda fram á mitt ár 2017. Sú heimild var svo framlengt fram á mitt sumar 2019. Hún var framlengt aftur skömmu áður en þeim tímamörkum var náð, og þá út árið 2021. Í fyrra var hún svo framlengd í tvö ár í viðbót. Auk þess hafa verið gerðar viðbætur við verkið á borð við „Fyrstu fasteign“.
Lengi hefur verið uppi rökstuddur grunur um að þorri þess skattaafsláttar sem fæst með því að nota séreignarsparnað til að niðurgreiða húsnæðislán hafi líka lent hjá ríkasta hópi landsmanna. Sérfræðingahópurinn sem vann grunnvinnuna að þessum aðgerðum gaf það meira að segja skýrt til kynna í skýrslu sinni sem birt var 2013. Þar stóð orðrétt: „Almennt eru tekjur þeirra sem spara í séreignarlífeyrissparnaði mun hærri en hinna sem ekki gera það.“
Á meðal þeirra sem sátu í þeim hópi voru Sigurður Hannesson, nú framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem var formaður hans og Lilja Alfreðsdóttir, nú varaformaður Framsóknarflokksins og sitjandi ráðherra.
Eðlisbreyting á kerfinu
Ljóst er að þessi spá hefur gengið eftir. Tekjuhærri eru mun líklegri til að spara séreign og mun líklegri til að nýta hana í að borga skattfrjálst niður húsnæðislán.
Í umfjöllun sem birtist í mánaðaryfirliti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fyrr á þessu ári kom fram að alls hafi 32,8 milljarðar króna fengist í skattaívilnun vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði. Af þeirri upphæð fóru 28 milljarðar króna, 85 prósent heildar upphæðarinnar, til tekjuhæstu 30 prósent einstaklinga. Á árinu 2020 fór næstum helmingur alls skattaafsláttarins til þeirra tíu prósent landsmanna sem voru fyrir ríkastir, alls um 2,2 milljarðar króna. Ef sama hlutfall heildar upphæðarinnar hefur farið til þessarar ríkustu tíundar þá hefur þessi hópur, sem þarf sannarlega ekki á ríkisstuðningi að halda, fengið rúmlega 15 milljarða króna frá 2014.
Á sama tíma hefur vaxtabótakerfið, sem stendur tekjuháum og eignamiklum ekki til boða, nánast verið aflagt.
Skroppið saman um 75 prósent
Beinn stuðningur ríkisins til heimila með húsnæðislán var 9,1 milljarður króna á árinu 2013, árið áður en „Leiðréttingin“ var innleidd. Hann var allur veittur í gegnum vaxtabótakerfið.
Þar fyrir utan eru tveir þriðju hlutar hans nú veittir í formi skattafsláttar vegna nýtingu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Sú upphæð sem miðlað er í gegnum vaxtabótakerfið hefur dregist saman um 75 prósent og var 2,3 milljarðar króna í hitteðfyrra.
Þegar „Leiðréttingin“ var kynnt til leiks var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson orðinn varaformaður Framsóknarflokksins, auk þess sem hann var ráðherra í ríkisstjórn.
Þegar viðbótin „Fyrsta fasteign“ bættist við nokkru síðar var Sigurður Ingi forsætisráðherra, stóð á stóra sviðinu í Hörpu og kynnti aðgerðina. Samstarfsflokkurinn var sem fyrr Sjálfstæðisflokkur.
Félagslegur pýramídi á hvolfi
Nú ætlar ríkisstjórn sem inniheldur bæði Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk, og marga lykilleikendur í þeim breytingum sem gerðar voru á húsnæðisstuðningi 2014 til 2016, að skipa starfshópa til að laga afleiðingar þeirra kerfa sem ríkisstjórnin sömu flokka komu á. Þeir sem kveiktu eldana ætla að slökkva þá.
Með því má segja að til sé orðið einhverskonar pólitísk eilífðarvél. Stjórnmálamenn búa til vandamál og eyða síðan miklum tíma og fjármunum í að reyna að leysa þau.
Með þeim í ríkisstjórn situr flokkur, Vinstri græn, sem hafa ekkert gert í að vinda ofan af þessum afleiðingum í þau næstum fimm ár sem þau hafa leitt ríkisstjórn.
Sá flokkur talaði aðeins öðruvísi um þessar ákvarðanir þegar hann var í stjórnarandstöðu.
Núverandi formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra var málshefjandi að umræðu um „Leiðréttinguna“ á þingi snemma árs 2017. Hún sagði aðgerðina hafa verið ójafnaðaraðgerð. „Leiðréttingin var ekki aðgerð til að jafna kjör.“
Í sömu umræðu sagði Steingrímur J. Sigfússon, sem var formaður Vinstri grænna frá 1999 til 2013 og sat á þingi þangað til í fyrrahaust, að fjármunir hefðu verið teknir úr ríkissjóði og notaðir til tekjuhæstu einstaklinganna í samfélaginu. „Ráðstöfun opinberra fjármuna verður að standast kröfur um jafnræði og sanngirni og það gerði þessi aðgerð ekki. Hún er félagslegur píramídi á hvolfi.“
Nú, heilum átta árum eftir að öfugi félagslegi píramídinn var smíðaður og 100 milljörðum króna hefur verið úthlutað í húsnæðisstuðning, að mestu til þeirra sem þurftu ekkert á honum að halda, á að bregðast við.
Fyrir þá sem þurftu raunverulega á stuðningi ríkisins að halda á þessu tímabili er það allt lítið allt og seint.