Árið 2021 fellur sjálfsagt seint í hóp skemmtilegustu eða líflegustu ára í mannkynssögunni. Það held ég eigi við hvort sem átt er við Vesturland, þar sem ég starfa, landið allt eða heimsbyggðina alla. Kóvid var einhvern veginn alltumlykjandi, beint eða óbeint. Ferðatakmarkanir og þar af leiðandi kreppa í ferðaþjónustu, vöruskortur, vandræðagangur í flutningum, menning var hvorki fugl né fiskur og félagsstarf lamað. En samt er það svo að vandræðum á sumum sviðum fylgja tækifæri á öðrum. Ég kýs að líta til tækifæranna.
Engum blöðum er um það fletta að hæfni fólks í tækni hefur aukist. Nú hafa allir lært á hin ýmsu samskiptaforrit og samfélagsmiðla, en ókrýndir sérfræðingar á því sviði eru vissulega nemendur framhaldsskólanna sem sumir hafa nú eytt meirihluta náms til stúdentsprófs heima í stofu, framan við skjáinn í kósígallanum. Þá sjaldan þegar þeir hitta jafnaldra sína kafroðna þeir og verða vandræðalegir. Ekki fengið að hittast á böllum eða í félagsstarfi yfirleitt. Með hækkandi sól og minnkandi kóvid þurfum við fullorðna fólkið að hvetja unga fólkið til aukins félagsstarfs og samskipta án þess að tölvur eða símar séu þar milliliðir. Að öðrum kosti eykst enn frekar hættan á að þau dagi uppi í foreldrahúsum!
Segja má að kóvid hafi gefið allri umræðu um fjórðu iðnbyltinguna vængi. Það mun gerast hraðar en við jafnvel æskjum að nútímavæða hina og þessa starfsemi, fækka störfum og auka arðsemi eigenda fyrirtækjanna. Það er því styttra í borgaralaun en við höldum.
Hér á Vesturlandi hafa margar atvinnugreinar blómstrað á árinu. Jafnvel meira en mörg undanfarin ár. Nú er álverð í hæstu hæðum og þess nýtur stærsti vinnustaður landshlutans; Norðurál á Grundartanga. Þar undirbúa menn nú stækkun verksmiðjunnar og byggja nýjan steypuskála þar sem ál verður fullunnið fyrir kröfuharða viðskiptavini úti í heimi. Samhliða stækkun mun störfum fjölga. Stóriðjan kallar á aukna raforku en þá kemur dálítið babb í bátinn. Í ljós kemur að við Íslendingar höfum virkjað of lítið í langan tíma og flutningskerfið er þar að auki komið að fótum fram. Sú staðreynd að knýja verði loðnubræðslu í vetur með olíu er skýrt dæmi um að við höfum sofnað á verðinum í uppbyggingu einna mikilvægustu innviða okkar. Miklu betur hefur gengið að koma fjarskiptum í lag, þótt glompur sé þar enn að finna í símasambandi. Lagning ljósleiðara hefur gert það að verkum að nú er miklu raunhæfara en áður að tala um störf án staðsetningar. Fólk leitar úr þéttri höfuðborg út á land af því það er hægt og af því það er skynsamlegt. Ekki síst vegna þess að sífellt fleiri meta kosti landsbyggðarinnar, víðáttuna, hreina loftið, tæra vatnið og náttúrufegurðina. Allt mótsagnir við hugtakið þéttari byggð. Nú má ekki einu sinni Bústaðavegurinn vera í friði! Þetta leiðir til þess að landsbyggðin á mikið inni og þess sjást nú þegar merki að fólksflóttinn frá höfuðborgarsvæðinu er hafinn. Selfoss er hástökkvari í fólksfjölgun, en einnig aðrar nágrannabyggðir höfuðborgarsvæðisins, eins og Reykjanes, Hveragerði, Ölfus og Akranes. Á þessu ári var kynnt nýtt skipulagt svæði fyrir heilsárs búsetu í hinu fagra Húsafelli. Skemmst er frá því að segja að lóðirnar og óbyggð hús á þeim seldust upp á nokkrum dögum. Þar hófst því í vor verkefni sem fullbúið mun kosta um fimm millarða króna. Þetta verkefni er skýrt dæmi um vilja fólks til að flytja út á land til búsetu og starfa og segja skilið við biðina í endalausum bílaröðum.
Þrátt fyrir heimsfaraldur þarf fólk áfram að nærast. Þar sem við erum matvælaþjóð hefur það komið sér vel að hér veiðist úrvalsfiskur sem aldrei fyrr. Við höfum fylgst með því hvernig fiskverð hefur hækkað á árinu og útgerðir, stórar sem smáar, bera sig vel. Meira að segja fannst mér strandveiðisjómenn brosa breiðar í sumar og síðsumars fengu þeir meira að segja smávegis aukningu á kvóta. Nú er fram undan stærsta loðnuvertíð í tvo áratugi. Ekki þarf að ræða hversu mikla þýðingu það hefur fyrir fjölmarga útgerðarstaði hringinn um landið. Meira að segja má búast við uppgripum á Akranesi við frystingu síðar í vetur þegar belgfull loðnan gengur vestur fyrir land til hrygningar. Á þessum forna útgerðarstað er útvegur að öðru leyti nánast liðinn undir lok, því miður. Sjálfur flutti ég á Akranes fyrir tveimur áratugum og náði að upplifa skottið á þessari blómlegu útgerð sem einkenndi Skagann. Maður fann og heyrði dynkina þegar togararnir mjökuðust inn fyrir hafnarkjaftinn til löndunar. Höfnin iðaði af lífi og í fiskvinnslunni voru á annað hundrað einstaklingar að störfum. En svo var kvótinn seldur úr plássinu og hnignun hófst strax upp úr því. Framseljanleiki veiðiheimilda frá útgerðarstöðum, saga sem víða um land hefur markað djúp spor, gerðist hér einnig.
Landbúnaður er nú að taka stórstígari breytingum en góðu hófi gegnir. Samþjöppun er mikil í mjólkurframleiðslu og framleiðsluréttur flyst í aðrar sýslur. Gjarnan þær sýslur þar sem þolinmótt fjármagn er til staðar svo hægt sé að styðja bændur við kvótakaup. Hér á Vesturlandi eigum við því miður ekki fjársterkt kaupfélag og því leitar kvótinn annað og sveitirnar verða tómlegri. Sauðfjárrækt heldur sömuleiðis áfram að dragast saman, hér eins og annars staðar á landinu. Kaupliðinn vantar því miður í atvinnugreinina og því ekki við öðru að búast en dragi úr ættliðaskiptum. Líklega mun afkoman í greininni ekki batna að nýju fyrr en framleiðslan verður búin að dragast enn meira saman og mun ná ákveðnu jafnvægi við eftirspurnina hér innanlands. Öll þessi breyting hefur að sjálfsögðu gríðarleg áhrif á þau héruð sem byggt hafa líf sitt og afkomu af landbúnaði í áranna rás. Breytingarnar taka því á meðan þær standa yfir – allt þar til nýjar byggjast upp. Annað tekur við.
En þrátt fyrir breytingarnar er ég sannfærður um að fjórða iðnbyltingin gefur stærstu tækifærin á landsbyggðinni. Störf án staðsetningar eru lykillinn að þeim breytingum sem nú þegar eru byrjaðar. Fólksflóttinn til höfuðborgarsvæðisins mun snúast við. Kannski erum við einmitt komin á þann punkt í Íslandssögunni, hver veit?
Ég óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar, ást og friðar.
Höfundur er ritstjóri Skessuhorns, héraðsfréttablaðs Vesturlands.