Við erum fljót að gleyma. En líka afar fljót að læra og tileinka okkur nýja siði. Á fyrstu mánuðum síðastliðins árs geysaði sem endranær nokkurra mánaða óveðursstormur en að þessu sinni með Ómíkron hvirfilbyl í ofanálag. Samkomubann, fjarlægðarmörk í lengri kantinum og miklar takmarkanir á hversdeginum. Atvinnulífið var að kafna. Heimavinna er eitt en þegar reka átti fyrirtæki sem treysti á staðbundna mætingu þá var staðan bleksvört. Við þolum ekkert margar vikur án þess að framleiða og neyta í takt. Í ofanálag braust út stríð í bakgarði Evrópu. Í fyrstu vorum við reið, móðguð, hissa, hrædd, hristum hausinn og hvað næst? En þegar leið á árið kom í ljós að stríðið í Úkraínu er afar strategískt með þann einbeitta tilgang að skerða lífskjör mörg hundruð milljónir manna. Stríðið er orku-, matar- og efnahagsstríð fyrir utan að vera hefðbundinn hernaður. Það var einstakt að fylgjast með Íslendingum fara af stað eftir erfið ár heimsfaraldurs Kóvíð og nýta sumar og haustmánuði vel þrátt fyrir að stríðið í Úkraínu hefði mikil neikvæð áhrif á allt okkar umhverfi. Við fengum sem betur fer gott ferðamannasumar sem varði langt fram eftir ári, ekki síst vegna veðurblíðu haustsins. Flest allar atvinnugreinar hafa fengið skell bæði vegna COVID og stríðsástandi – ef við ættum að veita landsmönnum verðlaun fyrir síðasta ár væri „Gott viðhorf“ sigurvegarinn þar sem það á við. Það kemur okkur í gegnum flest sem á reynir.
Valið um grundvallarmannréttindi
Síðasta ár sýndi glögglega hversu mikil áhrif búseta getur haft á líf fólks. Ef ég hefði búið í ákveðnum ríkjum Bandaríkjanna hefði ég misst réttinn á yfirráðum yfir eigin líkama og þurft að lúta lögmálum sem væru mér bæði óhagstæð og andstæð; hefði ég búið í Úkraínu hefði fjölskylda mín að öllum líkindum sundrast, maðurinn minn og 18 ára drengirnir okkar hefðu orðið eftir til að verja landið og sjálfsagða tilveru þess, en ég og yngri börnin okkar hefðum lagst á vergang og verið bundin þráðum örlaganorna. Hvort fjölskyldan myndi sjást aftur væri óráðið með öllu. Það er stutt síðan ég hefði misst öll mín réttindi til að vinna, mennta mig og ferðast að vild ef ég hefði búið í Afganistan. Tólf ára sonur minn hefði meiri réttindi og möguleika en ég í lífinu, byggjum við þar. Skjótt skipast veður í lofti.
Við sem mannkyn höfum margoft barist fyrir réttindum sem við teljum sjálfsögð í dag og má þar nefna lýðræði, tjáningarfrelsi og jafnrétti. Barist með lífum okkar. Síendurtekið. Grundvallarmannréttindi eru ekki náttúrulögmál, þau þarf að velja. Ójafnrétti er jafnmikið val og jafnrétti. Það virðist hnýtt í örlagaþræði að við verðum sem mannkyn að velja aftur og aftur og aftur. Í því felst vegferðin Lífið. Okkur er ætlað að læra með því að gera – og velja.
Að velja öruggt umhverfi
Árið speglaði orð, hegðun og hugsanir okkar í atvinnulífinu. Við viljum öruggt umhverfi í vinnunni og í samfélaginu almennt. Við viljum eiga jöfn tækifæri, geta tjáð okkur, skapað og verið við sjálf. Þetta krefst þess að við æfum okkur í að iðka Fjölbreytni, Inngildingu (e. Inclusion) og að við náum að búa til rými fyrir hvort annað til að vaxa og dafna í stað þess að skerða eða hefta hvort annað með ímyndaðri samkeppni. Næstu misserin verðum við á fullu að AF-læra hegðun og hugsun hraðar en við búumst við. Leggja frá okkur takmarkandi hugsun, orðfæri og hegðun og hleypa sköpunargleði að. Sjálfbærnivegferðin þrýstir á að við tileinkum okkur skjótt nýja siði, þar á meðal hvernig heilbrigt atvinnulíf lítur út. Þegar búa á til nýjar venjur er hægt að byrja á báðum endum – hvað við viljum og hvað við viljum ekki. Við verðum að hafa stjórn á því sem hægt er og það erum við sjálf. Veljum að hugsa, tala og hegða okkur jákvætt og hvetjandi því að ganga í gegnum breytingar er krefjandi, við erum á mismunandi stað stödd og misvel búin til að takast á við þær. Gott viðhorf mun alltaf hjálpa til og jafnvel skera úr um hvernig til tekst.
Dæmi um það sem mun breytast skjótt er t.d. hversu margar vaktir við viljum hafa í lífinu og hver á að sjá um þær, hvar við eigum kost á að vinna og hvernig, hvenær veljum við Raun/Raf samskipti, neysluhegðun mun taka stakkaskiptum sem og meðhöndlun á hráefnum, viðhorf okkar til okkar sjálfs, annarra og umheimsins. Það er meira en að segja það að ætla að breyta heiminum en það er stóra sameiginlega verkefni samtímans. Mikilvægt að vanda valið og æfa sig í sífellu.
Að velja rétt
Samkvæmt sumum breytingafræðum tekur þrjár vikur eða um 21 dag að festa nýja venju í sessi. Er þá hægt að breyta heiminum á þremur vikum? Ef við öll ákveðum að gera það? Í fyrsta lagi þurfum við að vera sammála og má þá vísa til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Við getum tileinkað okkur þau sameiginlegu markmið, æft okkur og iðkað eftir bestu getu. Í öðru lagi þá getum við, þurfum og hreinlega verðum að velja grunnmannréttindi í hvívetna – fyrir framtíð okkar allra. Í þriðja lagi þarf að bera virðingu fyrir því að við erum stödd í alþjóðaþorpinu og þar eru ekki allar götur jafnstórar, öll hús jafn vel byggð og umtalsverð stéttaskipting á meðal íbúa. Ólíklegt er að allur sá strúktúr geti breyst á þremur vikum en þó líklegra ef við leggjum frá okkur lýðbreytur líkt og aldur, kyn og uppruna og komum fram við hvort annað eins og það sem við erum – eitt kyn með ólíka búsetu.
Það er bara eitt kyn – Mannkyn
Það er búsetubreytan sem þarf að huga að. Að stuðla að friði í heiminum sleitulaust er grundvöllur gæfuríkrar framtíðar og grundvallar virði mannlegrar tilveru. Að hjálpa hvort öðru til að glíma við ólíkar aðstæður styrkir Þorpið og er grunnstoð þess. Að vera leiðandi og mótandi með góðu fordæmi er gulls ígildi. Ísland á að vera fremst meðal þjóða, iðka sjálfbærni á afburðamælikvarða með öllu því sem tilheyrir. Sjálfbærnivegferðin felur í sér lykilinn að framtíðinni. Hér er Ísland sem endranær með forskot – við erum smá og kná, kröftug, hugrökk, óhrædd, óhefluð, dugleg, með gott viðhorf og til í að framkvæma ótrúlegustu útfærslur saman til að ná góðri niðurstöðu. Við erum fljót að gleyma en hér var sungið og dansað saman í Innilegu helgi eftir helgi með Hólí Bí (Helga Björns), staðið í mismunandi löngum röðum út um borg og bæ og fjölmennt í Laugardalshöll svo mánuðum skipti í baráttu við smáveiruna.
Hins vegar erum við afar fljót að læra og tileinka okkur nýja siði. Í samblandi við þrautseigju, kraft og framúrskarandi viðhorf eru okkur allir vegir færir. Tökum ábyrgð á eigin hugsunum, orðum og hegðun og verum leiðandi og mótandi í alþjóðaþorpinu. Fyrir hið eina sanna kyn – mannkynið.
Höfundur er fjárfestir, eigandi Vinnupalla og formaður FKA.