Í framtíðinni verður litið til stríðins í Úkraínu sem hluta af hnattrænum átökum tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Þegar á það er horft í því ljósi verður sumt skiljanlegra þótt það dragi ekki úr þeim viðbjóði sem við finnum til.
Stríðið stendur á milli tveggja ríkja en líkt og með hernaðarátök kalda stríðsins er það hluti af stærri heild. Víglínur skera ekki aðeins á milli ríkja og stórvelda heimsins heldur líka á milli andstæðra afla í stjórnmálum innan ríkja. Samlíkingar við kalda stríðið eru varasamar því aðstæður í heiminum eru allar aðrar nú en þá. Baráttan snýst líka um aðra hluti. En líkt og í kalda stríðið eru þetta þó átök sem hanga saman og ná til alls heimsins í senn. Vesturlönd unnu kalda stríðið en núverandi átök gætu orðið þeim erfiðari. Það er við fleiri að eiga, heimurinn er miklu samtengdari, fleiri ríki eru að verða firna öflug og Vesturlönd eru ekki eins og þau voru. Átökin nú eru líka miklu flóknari.
Það sem skýrist á næstu vikum
Við vitum ekki hvernig stríðið fer en vitum að hrakfarir rússneska hersins hafa verið slíkar að Pútín þarf nú að glíma við reiði og spennu innan hersins og valdaklíkunnar í Kreml. Almenningur trúir þó enn áróðursvélum valdhafa og því á Pútín enn ekki í vandræðum með almenningsálitið.
Þeir miklu bardagar um austanverða Úkraínu sem nú eru í aðsigi munu ráða miklu um framhaldið, bæði hvað varðar möguleika til að skapa lýðræðislegt og blómlegt þjóðfélag í Úkraínu og eins hvað varðar áhrif stríðsins á valdakerfi Rússlands að ekki sé nefnd staða Rússlands í alþjóðakerfinu sem gæti styrkst með sigri en stórlega veikst með áframhaldandi hrakförum.
Vald hjá Vestrænum almenningi
Ein allra stærsta spurningin snýr þó að almenningi á Vesturlöndum. Það er tæpast ofmælt að afstaða evrópskra kjósenda getur ráðið mjög miklu um hver megináhrif stríðsins verða á þróun álfunnar og alþjóðakerfisins á næstu árum. Þá er ekki spurt um með hverjum fólk vill standa í hita leiksins - því var strax svarað og af festu sem kom á óvart - heldur er spurt um hvaða úthald venjulegir kjósendur hafa til mjög kostnaðarsamra aðgerða gegn stjórnvöldum í Moskvu. Úthaldið gæti reynst minna en nú sýnist því fórnirnar verða raunverulegar í mörgum ríkjum ESB, ekki síst í lykilríki álfunnar, Þýskalandi en einnig í nokkrum verr stæðum ríkjum Evrópu. Verðbólga mun vaxa í álfunni vegna stríðsins, mörg hundruð þúsunda munu missa vinnuna og kreppuástand mun skapast í sumum iðngreinum. Þetta er ekki síst vegna þess að gas er mikið notað í iðnaði Þýskalands og fleiri ríkja.
Samheldni en stórar gjár
Innrás Putíns fyllti ESB nýjum þrótti, gaf Nató sterkari tilfinningu um tilgang og stappað stjórnmálamönnum í Evrópu meira saman en nokkuð annað á síðari árum. Gengi Orbans og Le Pen í kosningum að undanförnu minnir hins vegar á gjár sem enn eru til staðar í álfunni. Þær gjár og átökin innan evrópskra samfélaga eiga líka sumpart svipaðar rætur og vaxandi ólga í alþjóðakerfinu.
Rússland, Kína og evrópskur almenningur
Kínverski kommúnistaflokkurinn byggir sína framtíðarsýn á heimsmálin á kenningum um hraða hnignun og sundrungu Vesturlanda og þá sérstaklega Evrópu. Þetta er ekki leyndarmál, Xi, forseti Kína þreytist ekki á að benda á þetta. Það sama má segja um Pútín og hirðina í kringum hann. Til miðju í þessum kenningum er sannfæring um öra pólitíska hnignun Evrópu og Bandaríkjanna, vaxandi sundrungu innan Evrópusambandsins og minnkandi samvinnu yfir Atlantshafið. Trump og hans lið er sönnunargagn númer eitt í þessum umræðum, sundrung í Evrópu númer tvö og lítil hernaðarútgjöld Evrópuríkja númer þrjú. Hvorki Vesturlönd í heild né Evrópusambandið sérstaklega eru þá sagðar raunverulegar einingar í alþjóðamálum vegna sundrungar á milli ríkja og innan einstakra landa.
Við hin spilltu
Önnur hlið þessara kenninga snýst um menningarlega hnignun Vestursins. Í þeim hugmyndaheimi er fólk sagt spillt af eftirlæti, óhófi og menningarlegri lausung sem meðal annars birtist í dekri við minnihlutahópa, eins og múslima, útlendinga og samkynhneigða. Fólk á Vesturlöndum er sagt of eigingjarnt og upptekið af sjálfu sér til að hafa áhuga á sameiginlegri sýn a hagsmuni þjóða sinna. Mússólíni sagði raunar eitthvað svipað árin fyrir 1939.
Vinsældir Pútíns í Evrópu
Xi hefur ekki orðið vinsæll á Vesturlöndum, hann er líklega of fjarlægur til þess. Pútín hefur hins vegar orðið það útá svipaða orðræðu. Þótt margir vilji gleyma því nú hefur Pútin verið í mörgum löndum vestursins einn allra dáðasti útlendi stjórnmálamaðurinn. Aðdáunin hefur ekki síst verið almenn á meðal þeirra sem hatast við ESB og vestrænt frjálslyndi en þó hefur líka ólíklegasta fólk í lýðræðisríkjum Vesturlanda mært hann á síðustu árum. Kannski er það vegna þreytu á lýðræðinu eða vegna dulinnar andúðar á margbreytileikanum og baráttu minnihlutahópa.
Hinir niðurlægðu rísa upp
Hlusti menn á Pútín kemur í ljós að hann telur stríðið í Úkraínu vera stríð hins niðurlægða Rússlands gegn vestrænni ásælni og áhrifum. Fyrir Xi er Kína nú loksins að ná sér eftir aldalanga auðmýkingu og niðurlægingu af hendi Vesturlanda. Fyrir Modi á Indlandi eru hindúar nú loksins að rísa upp eftir niðurlægingu fimm hundruð ára, fyrst frá hendi hins útlenda og íslamska Múghal ríkis og síðar breska heimsveldisins. Fyrir Erdogan er niðurlægingu Tyrkja í kjölfar sundrungar Ottómanríkisins loks að linna. Og þannig mætti áfram telja allt frá Suður-Ameríku til Miðausturlanda, Pakistan, Íran, Afghanistan og Suðaustur Asíu. Menn skyldu ekki gleyma því að mikið af þessari reiði á sér eðlilegar skýringar. Yfirgangur og ofbeldi Vesturlanda, fyrst einkum Spánar, Bretlands og Frakklands og síðar Bandaríkjanna gegn þjóðum í öðrum heimshlutum hefur öldum saman verið eitt helsta einkenni alþjóðakerfisins.
Á alþjóðavísu snýst popúlismi og þjóðernishyggja líka mest um uppreisn hinna niðurlægðu. Um leið verður til afsökun þeirra betur settu fyrir andstöðu við mannréttindi og efnahagslegar umbætur. Því spannar uppreisnin allt róf stjórnmálanna og er oft studd af forréttindahópum og hentar þeim vel sem hagnast á lokun samfélaga og pólitískri úthlutun gæða.
Líka á Vesturlöndum
Uppreisn gegn niðurlægingu hefur líka einkennt stjórnmál vestrænna ríkja síðustu ár. Þar eru hinir auðmýktu og niðurlægðu fólkið sem tapaði á heimsvæðingunni og endaði í staðinn í menningarlegri, pólitískri og efnahagslegri samkeppni í sínu eigin landi við milljónir útlendra innflytjenda.
Fólk finnur sig heldur ekki aðeins niðurlægt í efnahagslegum skilningi á tímum heimsvæðingar og markaðshyggju. Líklega er enn sárari sú auðmýking sem fólk oft sætir frá þeim sem líta niður á það fyrir skoðanir þess sem eru sagðar lýsa einföldum og fordómafullum hugmyndaheimi og skilningsleysi á réttlætiskröfum margs kyns minnihlutahópa. Enda fer því fjarri að fylgi við popúlisma sé bundið við þá sem hafa tapað í efnahagslegum skilningi.
Stríðið hefur dregið úr þeirri miklu aðdáun sem Pútín hefur notið víða á Vesturlöndum enda sér þarna í hina hroðalegu rökrænu endastöð pólitískrar þjóðernishyggju. Hvort fylgi við popúlisma minnkar á hins vegar eftir að koma í ljós.
Það mun fara eftir því hvernig pólitík verður boðið uppá í einstökum löndum. Þörf fólks fyrir samfélag þar sem það finnur sig heima og þar sem virðing er borin fyrir því hefur ekki dvínað og mun ekki gera það. Þetta eru eðlilegar mannlegar þarfir og þær þarf að virða. Menningarleg auðmýking fólks sem hugsar með hefðbundnari hætti en þeir framsæknu á engan rétt á sér frekar en niðurlæging minnihlutahópa.
Markmið Rússlands og Kína
Pútín gæti enn knúið fram einhvern hernaðarsigur í Úkraínu. Hann mun þó hvorki ná landinu öllu né halda stórum hlutum þess til langframa. Sennilega var beint hernám Úkraínu heldur aldrei hans markmið.
Í huga Pútíns skiptir mestu að Úkraína nái ekki að verða að óþolandi fyrirmynd fyrir rússneskan almenning um opið, lýðræðislegt og blómstrandi samfélag. Það markmið er enn innan seilingar fyrir Pútín sérstaklega ef samstaðan í Evrópu brestur.
Niðurstaðan sem Kína vildi helst er einhvers konar takmarkaður sigur Rússa, sem gæti dugað til að niðurlægja Vesturlönd og draga úr samstöðu þeirra. Þótt það sé umdeilt má finna rök fyrir því að Kína vilji um leið að stríðið veiki Rússland. Markmið Kínverja með Rússland til lengri tíma er að það verði nægilega sterkt til að veita Vesturlöndum viðnám í Evrópu en nógu veikt efnahagslega og einangrað alþjóðlega til að eiga ekki aðra kosti en að selja sín hráefni til Kína og leita þar pólitísks skjóls.
Stríðið snýst líka um Rússland
Stríðið snýst núna um Úkraínu. Þegar til lengri tíma er litið snýst það ekki síður um Rússland. Um leið og markmið Kína er að Rússland verði að horfa til austurs og vera stórlega háð Kína hljóta markmið Evrópuríkja að vera öfug. Þau þurfa að snúast um að finna einhverja leið fyrir þetta mikla og merkilega evrópska menningarríki aftur til okkar álfu. Þar á Rússland heima og án þess verður Evrópa ekki heil.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.