Dagatalið lýgur víst ekki, hugsaði ég þegar mér varð það ljóst að bráðum eru komin tvö ár frá því ég tók við sem framkvæmdastjóri Kjarnans miðla ehf. Þessi tæpu tvö ár hafa liðið hratt. Kjarninn er enn á sínum stað en samt hefur svo margt breyst og við bætt svo miklu við okkur. Þegar ég tók við starfinu fór ég í lítið útvarpsviðtal og gantaðist með það að Kjarnafólk kæmist fyrir í einum fólksbíl. Nú dugar ekkert minna en langferðabíll, reyndar mjög lítill, en Kjarninn telur nú átta starfsmenn í fullu starfi, auk lausapenna. Við höfum stækkað og dafnað og það eru lesendur okkar sem leiða vöxtinn með sínum frjálsu framlögum til miðilsins.
Aðlögunarhæfni blaðamanna
Heimsfaraldur COVID-19 hefur sett mark sitt á samfélagið allt síðastliðið ár og verið jafnframt ákveðin prófraun fyrir fjölmiðla og fjölmiðlafólk um heim allan. Fáir blaðamenn hafa líklega séð fyrir sér að gera farsóttir að sérgrein sinni eða aðalumfjöllunarefni dag eftir dag. Enginn ætlaði sér endilega að vita allt um sýnatökupinna eða sóttvarnahótel, en starf blaðamannsins er þannig að það krefst aðlögunar. Farsótt kallar á farsóttarfréttir. Það að hér ríki faraldur kallar á það að blaðamenn tileinki sér viðfangsefnið ítarlega, geti greint ástandið, hafi dug í sér til að spyrja ráðamenn erfiðra spurninga og séu færir um að lýsa framvindu farsóttarinnar frá degi til dags, auk þess að geta varpað fram ítarlegum fréttaskýringum og samantektum inn á milli. Allt þarf þetta að vera gert á skiljanlegan og vandaðan hátt. Annars nennir enginn að lesa, hlusta eða horfa.
Líkt og gilt hefur um flest fyrirtæki undanfarið ár hefur verið snúið að gera nákvæmar áætlanir fyrir starfsemi Kjarnans í þessu árferði. Hryggjarstykkið í okkar rekstri er Kjarnasamfélagið, en það er heiti sem við notum um þann hóp fólks sem styrkir Kjarnann með mánaðarlegu framlagi. Þessi hópur kemst sem betur fer ekki í neinn venjulegan langferðabíl því hann telur nú yfir 3.000 manns og fer stækkandi. Við erum þakklát hverjum einasta úr þessu styrktarsamfélagi, enda skipta öll framlög máli, ekki síst á óvissutímum.
Eiga fréttir að vera gefins?
Vefmiðlar víðast hvar hafa tekist á við það snúna verkefni að finna út hvernig best er að fá fólk til að greiða fyrir fréttir á netinu, enda er fréttaefni dýrt efni í framleiðslu og engin leið að halda úti daglegum straumi frétta og fréttaskýringa án stöðugra tekna. Töluverð hefð er fyrir því hér á landi að fréttir á netmiðlum séu öllum opnar. New York Times og The Wall Street Journal fara hins vegar þá leið að setja upp greiðsluvegg á sínum síðum og selja rafrænar áskriftir. Kjarninn hefur ekki valið þá leið heldur notast við svipað módel og The Guardian, að hafa vefinn opinn öllum en óska eftir frjálsum framlögum lesenda. Þeir sem vilja greiða fyrir Kjarnann gera það og geta meira að segja valið sér upphæð.
Það má auðvitað velta fyrir sér hvaða leið er réttust. Fyrirfram var ekki mikil trú á módel NYT og WSJ, en þau hafa slegið hvert metið á fætur öðru í sölu áskrifta og telja nú rafræna áskrifendur í milljónum. The Guardian nálgast einnig milljón styrkjendur. Kjarninn hefur mikla trú á því að fréttir eigi að vera fyrir alla og hefur þess vegna haldið sig við það að efla styrktarsamfélagið frekar en að setja upp greiðsluvegg.
Auglýsingar eru önnur mikilvæg tekjustoð fyrir velflesta fjölmiðla hér á landi. Kjarninn fór í það nú fyrir nokkru að byggja upp eigin sölu auglýsinga, en hafði áður úthýst sölu þeirra. Við finnum fyrir því að margir auglýsendur vilja ekki að auglýsingar þeirra séu bara „einhvers staðar” á netinu, hvar sem fólk sér þær, heldur vilja sífellt fleiri leggja áherslu á að birta sitt auglýsingaefni á traustum fréttavef frekar en vefsíðum sem leggja allt í sölurnar fyrir smelli. Við höfum lengi talað um að Kjarninn sé fyrir kröfuharða lesendur og við leggjum okkur fram um að standa undir því trausti sem lesendur sýna okkur með því að heimsækja síðuna okkar og með því að styrkja okkur með framlögum. Við teljum Kjarnann að sama skapi geta verið vænlegan valkost fyrir kröfuharða auglýsendur sem vilja sín skilaboð frekar við hlið alvöru fréttaskýringa heldur en ódýrra smellubeita.
Ríkið viðurkennir erfiða stöðu
Þrátt fyrir stóraukinn lestur og heimsóknir, vöxt í styrktarsamfélagi okkar og auglýsingum þá liggur fyrir að rekstur fréttamiðils eins og Kjarnans, með áherslu á fréttaskýringar og með metnað til að hafa gæði og dýpt að leiðarljósi í allri fréttavinnslu, er oft þungur. Samkeppnin við risastóru auglýsingamiðlana eins og Google og Facebook verður alltaf ójöfn og engin leið fyrir lítinn íslenskan fjölmiðil að vera mikið með í þeirri keppni.
Staða fjölmiðla hefur verið erfið um nokkra hríð, það byrjaði ekki með COVID-19. Nefnd var stofnuð árið 2016 af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra sem skilaði skýrslu um stöðu fjölmiðla í byrjun árs 2018, þar sem hið erfiða rekstrarumhverfi fjölmiðla er tíundað og lagt til að tekið verði upp styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Nokkur stuðningur var veittur í fyrra vegna rekstrarársins 2019 en þeir styrkir voru settir undir hatt COVID-styrkja. Sjálft frumvarpið, sem byggir á tillögum nefndarinnar um árlegar endurgreiðslur á kostnaði vegna fréttaöflunar og fréttavinnslu, í anda styrktarkerfis vegna bókaútgáfu og framleiðslu kvikmynda, er enn hjá allsherjar- og menntamálanefnd alþingis. Stuðningurinn, sem þingmenn allra flokka hafa sagst vilja veita í einhverri mynd, situr enn í nefnd nú þegar komið er fram á vor árið 2021.
Fyrr í vetur fórum við Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, á fund allsherjar- og menntamálanefndar. Þangað vorum við fengin sem gestir, gegnum fjarfundabúnað, til að gera grein fyrir okkar sjónarmiðum og sýn á frumvarpið um styrki til einkarekinna fjölmiðla sem er til umfjöllunar í nefndinni. Svona gestainnkoma á nefndarfund í þinginu tekur ekki langa stund, það þarf að tala hratt og koma miklu að á skömmum tíma. Krossa svo fingur og vona að nefndarmenn hafi meðtekið og sjái það sem við, stjórnendur Kjarnans, sjáum svo skýrt:
- Það þarf að vökva sprota í fjölmiðlaumhverfinu.
- Það þarf að styrkja fjölmiðla sem leggja áherslu á fréttir og fréttaskýringar.
- Það þarf að styrkja fjölmiðla sem hafa komið sér upp sjálfbæru rekstrarmódeli.
- Það þarf að fjölga blaðamönnum, styrkirnir eiga að fara til miðla sem ráða en ekki reka.
Við fórum yfir alla þessa punkta og kannski fleiri á fundinum. En eitt gleymdist, og gleymist eiginlega alltaf, í þessari umræðu um styrki eða ekki styrki til fjölmiðla. Það er tungumálið okkar – íslenskan. Við teljum mikilvægt að gefnar séu út bækur á íslensku og að búnar séu til kvikmyndir á íslensku, enda er sú starfsemi sérstaklega styrkt með endurgreiðslum á rekstrarkostnaði. Skiptir þá ekki líka máli að það séu skrifaðar fréttir á íslensku?
Yfir 1.500 efni birt um COVID-19 á rúmu ári
Frá því faraldur COVID-19 tók nánast yfir fjölmiðlaumfjöllun í heiminum hefur ritstjórn Kjarnans, litla metnaðarfulla fréttaskýrandans sem nú fer langt með að fylla lítinn langferðabíl, skrifað 1306 fréttir eða fréttaskýringar tengdar farsóttinni og áhrifum hennar, heilsufarslegum og efnahagslegum. COVID-19 hefur að auki verið til umfjöllunar í 185 aðsendum greinum á Kjarnanum og rætt hefur verið um farsóttina í 22 hlaðvarpsþáttum. Samtals hafa birst á Kjarnanum 1.513 efni um faraldurinn á því rúma ári sem liðið er síðan hann hófst.
Engu að síður náði Kjarninn samhliða þessum COVID-afköstum að fjalla ítarlega um efnahagsmál, stjórnmál, umhverfismál, skipulagsmál og fleira auk þess að ráðast í langstærsta rannsóknarverkefni sem Kjarninn hefur tekist á við frá upphafi, umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg 1, sem nýverið hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands sem umfjöllun ársins 2020. Kjarninn vill leggja sig fram um að rýna í öll horn samfélagsins.
Víðir Reynisson á BBC?
Þegar faraldur gengur yfir sem hefur áhrif á nánast hvert einasta mannsbarn, hvert einasta ríki heims, þá kemur vel í ljós mikilvægi tungumála, mikilvægi þess að hver þjóð fái fréttir á sínu móðurmáli. Staða Íslands í þessu mengi væri eflaust ekki sérstaklega vel greind í erlendum miðlum. Enginn hefur viðlíka áhuga á áhrifum COVID-19 á íslenskt samfélag eins og hérlendir fréttamiðlar. Eða hefur einhver séð viðtal við Víði Reynisson hjá BBC eða Berlingske? Við blaðamenn þurfum að upplýsa, segja fréttir, skýra stöðuna með vönduðum úttektum og fréttaskýringum og taka viðtöl við þá sem vita meira en við og rækja þannig skyldur okkar gagnvart lesendum. Það er lífsnauðsynlegt fyrir hvert samfélag að eiga fjölbreytta og sterka fréttamiðla af ýmsum stærðum og gerðum.
Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi, um það er ekki deilt. Við vitum vel að þeir skipta máli, en finnum kannski enn meira fyrir þörfinni fyrir vandaða fjölmiðla á tímum þegar við erum sérlega fréttaþyrst, eins og til dæmis þegar farsótt herjar á heiminn. Eða þegar kemur eldgos. Eða þegar kosningar eru í nánd. Eða þegar allt þetta er í gangi í einu. Á slíkum tímum teygjum við okkur oftar eftir símanum, tölvunni eða hvaða tæki sem við notum til að ná okkur í fréttir.
Höldum áfram þótt frumvarp lúri í nefnd
Á svona tímum vill Kjarninn vera til staðar. Við ætlum okkur að styrkjast, eflast og stækka í takt við áhuga lesenda okkar. Helst viljum við fylla heila rútu af blaðamönnum, ljósmyndurum og öðru hæfileikafólki á sviði fjölmiðlunar og byggja upp sterkan Kjarna sem hefur burði til að segja fréttir af fleiri sviðum samfélagsins, skrifa enn fleiri ítarlegar fréttaskýringar og verða almennt öflugri miðill. En óvissan er líka töluverð meðan frumvarp um fjölmiðla er enn í nefnd og ráðamenn taka engar ákvarðanir um það hvernig styrkja megi innlenda fjölmiðla gagnvart ægivaldi samfélagsmiðla á auglýsingamarkaði.
Það er hins vegar ekkert annað að gera en að setja hausinn undir sig og halda áfram. Halda áfram að skrifa um COVID-19, eldgos, efnahagsmál, skipulagsmál, nýsköpun, náttúruna og annað sem lesendur okkar þyrstir í að lesa. Við á Kjarnanum viljum vinna á fjölmiðli sem gerir gagn. Við viljum að okkar umfjallanir bæti einhverju við í huga þeirra sem lesa. Við viljum að lesendur geri ríkari kröfur til okkar en annarra. Við leggjum okkur fram um að standa undir því trausti sem okkur er sýnt. Við treystum á móti á lesendur okkar, þá sömu og treysta á okkur, til að styrkja Kjarnann og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar svo áfram verði hægt að segja vandaðar fréttir og skýra út samtímann á íslensku.