Yfir landsmönnum hangir vandi sem fæstir áttuðu sig á að væri til staðar, og enn færri áttuðu sig á hversu stór hann væri. Þar er átt við úrslausn hins svokallaða ÍL-sjóðs, sem fyrir liggur að muni tapa 200 milljörðum króna á núvirði. Einhver þarf að taka það tap á sig. Eins og stendur er það ríkissjóður, en ríkisstjórnin reynir nú að velta stærstum hluta þess yfir á aðra.
Staðreyndir málsins eru þessar: Árið 2004 ákváðu stjórnvöld að fara vissa vegferð með Íbúðalánasjóð. Hún fólst í breyttum útlánum og fjármögnun hans, aðallega til að geta staðið við kosningaloforð Framsóknarflokksins um að sjóðurinn myndi lána almenningi 90 prósent íbúðalán. Í fyrsta lagi var húsbréfakerfið lagt niður og íbúðabréfakerfið tekið upp með beinum peningalánum. Í öðru lagi var hámarkslánsfjárhæð hækkuð mikið og veðhlutfall almennra lána sjóðsins hækkað úr 65 í 90 prósent. Í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birt var sumarið 2013, sagði einfaldlega: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“
Frumvarpið sem hrinti þessari ógæfu af stað var lagt fram á þingi 22. mars 2004. Ýmsir vöruðu við því að ráðist yrði í þessa breytingu, meðal annars Seðlabanki Íslands. Í umsögn hans sagði orðrétt: „Ef upp kæmi sú staða að samkeppni við íbúðalánasjóð þrýsti niður vöxtum fasteignafjármögnunar gæti sjóðurinn lent í vanda. Lántakendur hans skuldbreyttu í ódýrari lán en skildu sjóðinn eftir með óbrúað gat sem ekki yrði með góðu móti fjármagnað með vaxtahækkun, þar sem hærri vextir sjóðsins leiddu til minni áhuga lántaka og hugsanlegs flótta úr sjóðnum. Ef sjóðurinn færi siðan að í samræmi við ætlan frumvarpsins og gripi til uppgreiðsluálags myndu vaxtakjör leiða til þess að lánveitingar stöðvuðust alfarið.“
Pétur Blöndal heitinn, tryggingastærðfræðingur og þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þingræðu sinni: „Menn þurfa að átta sig á þessu og ganga með galopin augun af því að þeir eru að taka á sig mjög mikla skuldbindingu fyrir ríkissjóð og ég vara við því.“
Allt kom fyrir ekki. Frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust með 34 greiddum atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins þann 27. maí 2004. Á meðal þeirra sem sögðu já þennan örlagaríka dag eru fjórir þingmenn sem enn sitja á þingi. Þeir eru Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, sem báðir eru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og berjast mögulega um formennsku í Sjálfstæðisflokknum um komandi helgi, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá þingmaður Sjálfstæðisflokks en nú formaður Viðreisnar.
Mikill vandi gerður verri
Það sem Seðlabankinn varaði við raungerðist nánast strax. Á árunum 2004 til 2006 voru lán greidd upp fyrir 112 milljarða króna. Samt hélt sjóðurinn, af einhverri óskiljanlegri ástæðu, áfram að gefa út skuldabréf, alls fyrir 69 milljarða króna, þótt honum vantaði alls ekki pening til að lána fólki í íbúðalán. Sjóðurinn sat því uppi með 181 milljarð króna í lausu fé sem engin þörf var fyrir á lánamarkaði með takmarkaðar leiðir til að ávaxta það fé þannig að það stæði undir lántökukostnaði. Hluta af þessum peningum ákvað sjóðurinn að lána til samkeppnisaðila sinna á lánamarkaði sem leiddi til þess að flótti lántaka frá Íbúðalánasjóði jókst enn frekar.
Í kjölfar hrunsins réðust ríkisstjórnir líka í allskyns aðgerðir fyrir skuldara, sem leiddu til tugmilljarða afskrifta hjá Íbúðalánasjóði og jók enn á vanda hans. Þar má auðvitað helst nefna Leiðréttinguna, með 72,2 milljarða króna niðurgreiðslu á höfuðstól þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, og skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði til niðurgreiðslu á höfuðstól íbúðalána. Þetta voru ákvarðanir sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, leidd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni, tóku.
Á árunum 2010 til 2016 voru teknir um 100 milljarðar króna á verðlagi dagsins í dag úr ríkissjóði og settir inn í Íbúðalánasjóð til að hann færi ekki á hausinn. Þetta er þegar orðið tap skattgreiðenda. Þeirra sem lifa og anda í dag og þeirra sem munu lifa í framtíðinni.
Samhliða voru erlendir eigendur íbúðabréfa þvingaðir til að selja þau með afföllum með lagasetningum og gjaldeyrisútboðum.
Ríkissjóður tekur risalán hjá sjóði sem heyrir undir ráðherra
Þrátt fyrir að skýrsla rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, þar sem staða hans sem tifandi tímasprengju fyrir almenning í landinu er máluð upp í skærum litum, hafi verið birt árið 2013 var ekki gripið til aðgerða fyrr en 2019. Þá var sjóðnum skipt upp í tvennt. Áframhaldandi starfsemi, til dæmis lánveitingar á félagslegum forsendum, voru færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Afgangurinn, tímasprengjan sem fólst í eldra lánasafni sjóðsins til almennings, fékk nafnið ÍL-sjóður. Í lögum um úrvinnslu eigna og skulda hans sem samþykkt voru á Þorláksmessu 2019, sagði að markmið þeirra væri að „lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs.“ Eigið fé hans var þá þegar neikvætt um 180 milljarða króna. Sá sem fer með yfirstjórn yfir ÍL-sjóði samkvæmt lögunum er fjármála- og efnahagsráðherra.
Svo var ekkert gert til að vinna úr stöðu sjóðsins í næstum þrjú ár. Þess í stað ákvað ríkissjóður að nota ÍL-sjóð sem lánasjóð til að borga fyrir hallann sem skapaðist í kórónuveirufaraldrinum. Fyrst gaf ríkið út skuldabréf í janúar 2021 upp á 102 milljarða króna sem bar 0,87 prósent verðtryggða vexti og er á gjalddaga í ársbyrjun 2032 og lét ÍL-sjóð kaupa. Ári síðar var gefið út annað skuldabréf, nú upp á 88 milljarða króna, sem ber 0,52 prósent verðtryggða vexti og er á gjalddaga í ársbyrjun 2029.
Samhliða leiddu aðgerðir ríkis og Seðlabanka Íslands, sem fólu meðal annars í sér framlengingu á skattfrjálsri nýtingu séreignarsparnaðar til að borga niður íbúðalán og lækkun á stýrivöxtum niður í 0,75 prósent, í sér að fleiri íbúðalán ÍL-sjóðs voru greidd upp. Nú eru þau einungis 20 prósent af eignum hans.
Engin góð lausn
Vegna alls ofangreinds er staðan þannig að ÍL-sjóður á einungis eignir til að borga af skuldum sínum út árið 2033. Þá er rúmur áratugur eftir af lengsta skuldabréfaflokknum sem gefinn var út. Fyrir liggur að það vantar 200 milljarða króna á núvirði til að sjóðurinn geti staðið við þær skuldbindingar sem hann stofnaði til 2004.
Vegna þessa boðaði Bjarni Benediktsson til blaðamannafundar fyrir rúmri viku og sagðist ætla að spara ríkissjóði 150 milljarða króna með því að annað hvort ná samkomulagi við eigendur íbúðabréfanna um að gefa eftir eignir sínar, eða með því að knýja fram slit sjóðsins með lagasetningu fyrir árslok. Þá yrði tap ríkissjóðs aðeins 47 milljarðar króna, en ekki 200.
Það er rétt sem Bjarni Benediktsson hefur sagt að það er engin góð lausn á þessu máli. Árlegt áætlað tap er 18 milljarðar króna á ári, eða 1,5 milljarðar króna á mánuði. Það þarf einhver að axla þetta tap.
Um hræðilegan afleik er að ræða sem á rætur sínar í pólitískri tækifærismennsku eins flokks að tryggja sér atkvæði í kosningum og annars að tryggja sér áframhaldandi völd fyrir næstum tveimur áratugum síðan. Sömu flokkar höfðu skömmu áður einkavætt bankakerfi á svipuðum forsendum sem lagði grunninn að vítisvél sem sprakk yfir almenning í landinu í október 2008 með tilheyrandi verðbólgu, gengisfalli, atvinnumissi, kaupmáttarrýrnun og eignatilfærslu. Halda þurfti Íslandi í fjármagnshöftum til ársins 2017 til að hreinsa upp afleiðingarnar. Margir landsmenn hafa aldrei jafnað sig.
Strámannapólitík gengur í endurnýjun lífdaga
Á haftatímabilinu varð til strámannapólitík sem í fólst að búa til óljósan andstæðing þjóðarinnar í flestum málum. Aðallega vonda útlendinga. Óljósan hóp kröfuhafa sem hægt væri að sameina þjóðina um að hafa andúð á. Þessari aðferðafræði var beitt til heimabrúks, með miklum pólitískum árangri, í Icesave og í viðræðum vegna uppgjörs á slitabúum föllnu bankanna, sem lauk með samkomulagi árið 2015. Lykilatriði í þessari popúlísku nálgun var að stilla íslenskri þjóð og þeim sem voru að sækja hagsmuni sína upp sem andstæðingum. Að strámaðurinn óbilgjarnir útlendingar væri að reyna að setja klyfjar á heimili og framtíðarkynslóðir landsins til að græða peninginn.
Nú er þessi aðferðafræði að ganga í endurnýjun lífdaga í umræðu um skuldbindingar ÍL-sjóðs. Í svari við fyrirspurn Kristrúnar Frostadóttur, verðandi formanns Samfylkingarinnar, um málið á miðvikudag sagði Bjarni Benediktsson að hún væri að segja að strjúka þyrfti fjármálaöflunum í landinu, kröfuhöfunum, og að fjármálamarkaðirnir verði ávallt að vera í forgangi. „Ég er hér til að mæla fyrir framtíðarkynslóðir þessa lands sem eiga það ekki skilið að við útvíkkum ríkisábyrgð sem var skýrt skilgreind einföld ríkisábyrgð, engin sjálfskuldarábyrgð.“
Vandamálið við þennan málflutning er að þeir sem Bjarni segist vera að verja eru þeir sem hann ætlar að uppistöðu að láta axla kostnaðinn af því að slíta ÍL-sjóði. Um 80 prósent af íbúðabréfunum sem eru orsök þess að ÍL-sjóður er skapa tap upp á 200 milljarða króna eru í eigu lífeyrissjóða, sem er í eigu almennings. Á meðal annarra eigenda þessara bréfa eru til dæmis Styrktarsjóður hjartveikra barna. Þetta eru nýju vondu og óbilgjörnu kröfuhafarnir.
Getur haft neikvæð áhrif á lánskjör ríkissjóðs
Málið er líka stærra en bara hvar tapið endar. Þegar íbúðabréfin voru gefin úr voru þau með AAA-lánshæfiseinkunn, þá bestu sem hægt er að fá. Á leikmannamáli þýðir það að nánast útilokað átti að vera útgefandinn, Íbúðalánasjóður, myndi ekki standa við skuldbindingar sínar. Ástæða þess að bréfin fengu svona góða einkunn var einföld: það var ríkisábyrgð á þeim. Í útgáfulýsingu sagði hreint út að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið gjaldþrota vegna þessa.
Hvernig sem litið er á málið þá er verið að breyta leikreglunum eftir á. Í ljósi þess að íslenskir lífeyrissjóðir eru neyddir með lögum til að kaupa meira og minna allt sem þeir geta keypt hér innanlands í ljósi stærðar sinnar, þar með talið ríkisskuldabréf, þá verður að teljast líklegt að þeir muni ekki taka fullyrðingum um ríkisábyrgð jafn alvarlega og hingað til. Það getur leitt til þess að lífeyrissjóðir telji aukna áhættu vera af því að lána ríkinu pening, eða að taka þátt í verkefnum sem ríkið ætlar þeim að fjármagna, nema að reikna inn í það áhættuálag.
Almenningur borgar úr hægri vasanum eða þeim vinstri
Þessi saga er sorgarsaga pólitískra axarskafta. Ítrekaðra axarskafta sem framkvæmd hafa verið fram á síðasta dag. Allskonar stjórnmálamenn, úr allskonar flokkum, bera ábyrgð á þeim.
Afleiðingin er sú að almenningur mun þurfa að borga, annað hvort úr hægri vasanum eða þeim vinstri. Það er ekki verið að spara neinum neitt. Það er ekki verið að bjarga neinu. Það er verið að reyna að takast á við vandamál sem fengið hefur að vaxa af miklu ábyrgðarleysi frá árinu 2013, þrátt fyrir vitneskju um að það myndi alltaf á endanum springa í andlitið á okkur. Fyrir vikið er vandinn nú stærri en hann var. Það að reyna að gera lífeyrissjóði og hjartveik börn að strámanni til að ráðast á breytir engu þar um.
Þessi vandi hefur verið falin fyrir okkur. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp segir til að mynda að samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál væru skuldir ríkissjóðs 38,6 prósent af landsframleiðslu ef tekið væri tillit til ÍL-sjóðs, en ekki 33,4 prósent líkt og hún er sögð vera. Þetta er eins og að stæra sig af því hversu góð skuldastaða heimilis er en sleppa því að telja bílalánið með.
Ofan á allt saman hefur vont mál verið gert miklu verra með því að draga úrlausn þess inn í það verðbólguumhverfi sem nú er. Í fjárlagafrumvarpinu segir að há verðbólga undanfarna mánuði hafi hækkað höfuðstól skulda þrátt fyrir afborganir.
Úrlausn þessa máls verður alltaf sársaukafull. Almenningur tapar alltaf.
Eina pólitíska ábyrgðin sem verður öxluð verður framkölluð í kjörklefanum í næstu kosningum. Ef landsmenn muna þá enn eftir því hverjir það voru sem settu okkur í þessa stöðu.