Til stendur að byggja um þúsund fermetra hótel og allt að átta ferðaþjónustuhús á Hellnum í Snæfellsbæ. Um er að ræða jörðina Gíslabæ sem var seld nýjum eigendum haustið 2019. Allt land á Hellnum er í einkaeigu og skiptist það niður í svæði fyrir verslun og þjónustu, íbúðabyggð, sumarhúsabyggð og landbúnaðarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Snæfellsbæjar sem var samþykkt sumarið 2018. Til þess að af þessum framkvæmdum geti orðið, þarf að breyta aðalskipulaginu og breyta svæði fyrir íbúðabyggð, í svæði fyrir verslun og þjónustu. Ákvörðun Snæfellsbæjar um að standa að þessari uppbyggingu sem að margra mati er þarflaus og til skaða, byggir m.a. á tengslum við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.
Umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 18. júlí 2019, aðeins um ári eftir að gildandi aðalskipulag var samþykkt, að leyfa skipulagsbreytingar á jörðinni Gíslabæ ef ákveðnir aðilar keyptu jörðina: „Nefndin gefur landeiganda leyfi til að fara i deiliskipulagsferli með það í huga að nýtingarhlutfall sé nærri 0,25.” Aðilinn sem sendi fyrirspurnina er félagið N18 með heimilisfang í Reykjavík en forsvarsmaður þess er með lögheimili við Vík í Mýrdal og rekstur á því svæði í formi þess sem til stendur að reisa á Hellnum. Ekkert er athugavert við að slíkur aðili sendi inn fyrirspurn um viðhorf við hugmyndum sínum en það er flest allt athugavert við það hvernig stjórnendur Snæfellsbæjar hafa brugðist við, alveg frá því að umhverfis- og skipulagsnefnd bókaði: „Tekið er jákvætt í fyrirspurn varðandi notkun sem er í samræmi við greinargerð með aðalskipulagi í öllum megin dráttum.” Ekki er þó tiltekið hvað er þar undanskilið. Þegar N18 sendi fyrirspurnina til Snæfellsbæjar var sérstaklega talað um ákveðna lóð sem tilheyrir Gíslabæ og liggur á sjávarbakkanum um miðbik Hellna. Lóðin er tilgreind fyrir verslun og þjónustu og í greinargerð með gildandi aðalskipulagi segir um hana: „Við ströndina er heimilt að gera upp gamalt hús og reka þar kaffihús, veitingastað eða aðra þjónustu sem samrýmist byggð á svæðinu. Auk þess er heimilt að reisa þar starfsmannaíbúðir vegna ferðaþjónustu.“ (bls. 26). Ekki er heimild fyrir gistihúsi þarna og því er það ein af ástæðunum fyrir því að farið var í ferli það sem nú stendur yfir.
Ströndin við Arnarstapa og Hellna var friðlýst árið 1979 að frumkvæði heimafólks og umrædd lóð stendur á bjargbrún um 12-13 m frá friðlýstri ströndinni. Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu líkt og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og þannig eru þjóðgarðurinn og plássið Hellnar tengd, auk þess sem á Hellnum er næsta byggð við þjóðgarðinn að sunnanverðu. Gestastofa þjóðgarðsins var fyrstu árin á Hellnum en er nú á Malarrifi sem er innan þjóðgarðs. Eins og flestir vita í dag, er tilgangur friðlýsinga að „vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Með friðlöndunum er tekið frá land fyrir eðlilega framvindu náttúrunnar, útivist og upplifun manna á náttúrunni”, eins og segir á vef Umhverfisstofnunar.
Í gildandi aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 kemur fram í umhverfismati, en það umhverfismat framkvæmdi skipulagsráðgjafi Snæfellsbæjar, Hildigunnur Haraldsdóttir, sem nú sér um umræddar skipulagsbreytingar og ætti því að þekkja sínar eigin niðurstöður: „Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur mikið aðdráttarafl og hefur ferðamönnum fjölgað mikið á síðustu árum. Nauðsynlegt er að bregðast við, til að komast hjá of miklum ágangi á viðkvæmum svæðum.“ (bls. 81). Um stöðu Hellna varðandi byggða- og umhverfismál segir: „Þar má búast við miklum og ófyrirséðum umhverfisáhrifum af þenslu byggðar ef ekki verður haldið vel utan um uppbyggingaráform.“ (bls. 82). Einnig: „Á Hellnum er allt land í einkaeign. Þar er gert ráð fyrir umfangsmiklum uppbyggingarsvæðum og vinnur það gegn sjálfbærri þróun“ (bls. 83). Og ennfremur: „Hellnum er tilhneiging til að halda í þensluhugmyndir í samræmi við gildandi aðalskipulag og í dreifbýlinu er stefnan sett á mun meiri uppbyggingu en áður var. Bæjaryfirvöld þurfa að vakta þessi svæði sérstaklega og gæta þess að stórbrotinni náttúru og umhverfisgæðum verði ekki fórnað að óþörfu.“ (bls. 83, feitletrun er í frumtexta).
Það er því í fullkominni andstöðu við markmið og niðurstöður sem koma fram í gildandi aðalskipulagi að á Hellnum sé staðið að frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu, það er varað við þenslu og ósjálfbærum hugmyndum en sveitarfélagið stendur sjálft að því með yfirgangi og misbeitingu valds gegn íbúum og hagsmunaaðilum í sveitarfélaginu, að troða slóðina fyrir lukkuriddara í enn einum hótelrekstrinum.
Á Hellnum ætti fyrst og fremst að gefa svigrúm fyrir aukna búsetu og langtíma dvöl í sátt við svæðið og staðarandann, umhverfið og náttúruna og standa gegn „þensluhugmyndum“ viðskiptafólks með skammtíma hagsmuni að leiðarljósi. Þar er einmitt tækifæri til að huga að vaxandi mannlífi með umhverfið í huga enda var það tilgangur með sáttmála þeim sem var gerður árið 2018 í formi gildandi aðalskipulags sem íbúar og hagsmunaaðilar komu að en sveitarfélagið svíkur nú á svo ómerkilegan hátt, örstuttu síðar. Í stefnu bæjarstjórnar í aðalskipulagi stendur: „Lögð er áhersla á vitundarvakningu um landslag og verndun þess. Leitað er leiða til að geta tekið á móti vaxandi umferð um svæðið, án þess að umhverfið verði fyrir skaða. Tekið verði tillit til þolmarka íbúa.“ Það er svo sannarlega ekki verið að gera með þeim uppbyggingaráformum í massaferðaþjónustu sem nú eru á borði og í boði Snæfellsbæjar. Og þessi spjöll eru að hluta unnin í nafni þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á afmælisári hans.
Umhverfisstofnun á ekki að láta stjórnvöld í Snæfellsbæ, skipulagsráðgjafa Snæfellsbæjar né „gullgrafara“ sem virða að vettugi vilja íbúa og hagsmunaaðila á Hellnum, nota Þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem skálkaskjól fyrir það sem ég vil kalla skipulagsofbeldi, í andstöðu við sjálft aðalskipulag sveitarfélagsins.
Höfundur rekur samkomuhúsið á Arnarstapa.