Áður höfum við fjallað um stöðu plöntukynbóta á Íslandi og þeim miklu tækifærum sem felast í eflingu þeirra. Hér setjum við fram tillögur til þess að efla fæðuöryggi með opinberri fjárfestingu í kornrækt. Efling kornræktar hér á landi myndi bylta landbúnaðinum, skapa nýjar atvinnugreinar og renna stoðum undir byggð í dreifbýli.
Innlend kornrækt
Korn var ræktað á fyrstu öldum íslandsbyggðar en lagðist nær algjörlega af frá fimmtándu öld fram á þá tuttugustu. Kornrækt hefur aldrei verið lykilþáttur í fæðuöflun þjóðarinnar en hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu áratugum. Mikilvægasta korntegundin hér á landi er bygg en einnig eru ræktaðir hafrar og hveiti hér landi í litlum mæli.
Fæðuöryggi hefur verið í umræðunni eftir að skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) um fæðuöryggi á Íslandi kom út þann 11. febrúar síðastliðinn. Ein af niðurstöðum skýrslunnar var að Íslendingar eru háðir innflutningi á ýmsum vörum til landbúnaðarframleiðslu en einnig landbúnaðarafurðum erlendis frá, þar á meðal kornvöru. Stór hluti af fóðurkorni er innfluttur og næstum allt korn til manneldis. Ekki er víst að hægt sé að reiða sig á stöðugt framboð korns erlendis frá til frambúðar þar sem loftslagsbreytingar ógna fæðuframboði á heimsvísu. Grettistaki hefur verið lyft í eflingu fæðuöryggis undanfarna áratugi í löndunum í kringum okkur.
Finnar eru svo gott sem sjálfum sér nógir í hveiti, rúgi og höfrum og eru raunar stórútflytjendur á haframjöli. Norðmenn settu sér markmið um að framleiða eigin kornvörur og eru nú orðnir sjálfum sér nógir um hafra og rækta stóran hluta af því fóðurhveiti sem notað er í Noregi. Þessi markmið náðust með sameiginlegu átaki til að efla kornrækt með kynbótum og eflingu markaðarins. Við ættum að líta til árangurs þessara frændþjóða okkar.
Til að efla fæðuöryggi á Íslandi með kornrækt þarf kynbætur á helstu korntegundum fyrir íslenskar aðstæður og að skapa markað fyrir afurðirnar. Að okkar mati er ekki nóg að gera annað hvort, og hvort tveggja krefst opinberar fjárfestingar.
Kornsamlag
Við leggjum til að hið opinbera styðji við stofnun kornsamlags hér á landi að norrænni fyrirmynd. Á Norðurlöndum eru samvinnufélög í eigu bænda, til dæmis Felleskjøpet í Noregi og DLG í Danmörku, sem kaupa korn af bændum og selja til kaupenda. Ekkert slíkt félag er starfandi á Íslandi. Við leggjum til að íslenskt kornsamlag verði samvinnufélag, en það gæti líka verið sjálfseignarstofnun eða hlutafélag í eigu Bændasamtaka Íslands og ríkisins. Hlutverk kornsamlagsins væri að kaupa, þurrka, geyma og selja korn til sérhæfðra fyrirtækja í fóðurgerð og matvælaframleiðslu sem byggja sína framleiðslu núna mest á erlendu hráefni. Slíkt kornsamlag er forsenda fyrir stöðugum kornmarkaði. Eins og staðan er þurfa íslenskir kornbændur að afla sér þekkingar og allra aðfanga til ræktunar, verkunar, geymslu og markaðssetningar á sínu korni. Við slíkar aðstæður verður ekki byggður upp öflugur iðnaður með innlenda kornvöru, ekki frekar en ef kúabændur þyrftu að framleiða, vinna, pakka og selja sína mjólk sjálfir frá hverjum bæ, eða ef sjómenn seldu fiskinn “beint úr bátnum”. Slík starfsemi verður alltaf hliðargrein frá kjarnastarfsemi greinarinnar.
Kornsamlag gæfi út verðskrá, eins og aðrar afurðastöðvar, og hagaði kaupverði eftir gæðum. Kornsamlagið hefði svo til sölu korn til matvælaiðnaðarins eða fóðurframleiðenda eftir gæðakröfum iðnaðarins.
Þegar fram reiðir gæti kornsamlagið framleitt sáðvöru af íslenskum korntegundum og selt innlendum dreifingaraðilum í samkeppni við erlenda framleiðendur. Tekjur af sáðvöruframleiðslunni gætu nýst í kynbótastarf eða annað þróunarstarf í greininni. Íslenskt kornsamlag starfrækti miklar korngeymslur, sem stuðla að fæðuöryggi þjóðarinnar. Innlend sáðvöruframleiðsla eflir einnig fæðuöryggi og sjálfstæði þjóðarinnar þar sem bændur væru þá ekki háðir erlendum fyrirtækjum um sáðvöru. Markmiðið með þeim fjárfestingum hins opinbera sem við leggjum til er ekki aðeins að auka fæðuöryggi þjóðarinnar og efla íslenskan landbúnað, heldur einnig að skapa sjálfbært félag sem þarf ekki á opinberum fjárframlögum að halda og heldur áfram að skapa hagsæld fyrir samfélagið til framtíðar.
Við leggjum ekki til að ríkið skipti sér mikið af starfsemi félagsins en við teljum nauðsynlegt að hið opinbera styðji við stofnun þess, marki því hlutverk, og setji mögulega sérstök lög um starfsemina. Félagið yrði styrkt á upphafsárum sínum með fjárframlögum eða endurgreiðslum úr ríkissjóði með það markmið að búa til umhverfi fyrir kornrækt sem er sambærilegt því sem bændur á Norðurlöndum búa við. Við teljum að kornræktin væri best sett í sambærilegu umhverfi og er í löndunum í kringum okkur, en þörf er á að ríkið taki frumkvæði til þess að koma markaðnum í það horf.
Kynbótamiðstöð
Okkar tillaga er að stjórnvöld setji á laggirnar kynbótamiðstöð fyrir Ísland, með skýr markmið um kynbætur með fjárstuðning frá ríkinu. Slík miðstöð gæti verið hýst innan LbhÍ og nyti góðs af þeirri þekkingu, aðbúnaði og rannsóknum sem þar er innanborðs. Fyrirmynd að svona stofnun er í Svíþjóð, þar sem sérstök plöntukynbótastofnun er rekin innan sænska landbúnaðarháskólans (SLU), með fjárframlagi frá sænska ríkinu.
Ársskýrslur kynbótamiðstöðvarinnar yrðu opinberar þar sem gerð yrði grein fyrir ávinningi hvers árs. Að tíu árum liðnum væri eðlileg arðsemiskrafa að verkefnið hefði skilað einu yrki fyrir hverja korntegund sem íslenskum bændum stæði til boða að rækta. Eftir því sem kynbótum í korntegundunum reiðir fram munu gæði og öryggi uppskerunnar aukast, verð til bænda hækka, kostnaður við framleiðsluna minnka og eftirspurn aukast.
Kynbæturnar gætu miðað að því að auka magn, gæði og stöðugleika uppskeru við íslenskar aðstæður. Til að byrja með gæti fjármagnið numið 20 milljónum á ári fyrir hverja tegund og kynbótastarf hafist í helstu korntegundum, til dæmis byggi, höfrum og hveiti. Þar að auki mætti bæta við olíurepju til þess að tryggja öryggi í lífolíuframleiðslu, ásamt kynbótum í fjölærum fóðurgrastegundum eins og rýgresi og vallarfoxgrasi.
Þó að kynbótaverkefni þurfi að aðlagast hverri tegund fyrir sig er talsverður möguleiki á samlegðaráhrifum milli verkefna og því eðlilegt að þau séu hýst hjá sama aðila. Þekkingin og vinnan er afar sérhæfð og því færi vel að einn opinber aðili héldi utan um gögn og útreikninga fyrir kynbótastarf í landinu. Samstarf við Skógræktina um kynbætur nytjatrjátegunda væri því skynsamlegt. Að auki gæti komið til greina að kynbæta skrautjurtir, yndisgróður og landgræðslujurtir fyrir íslenskar aðstæður. Þá gæti kynbótamiðstöð einnig haft samstarf við samtök bænda um kynbætur húsdýra. Lykilatriði er að auka menntun á sviði kynbóta, og hafa öflugt samstarf við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir ásamt öflugu innlendu samstarfi.
Áskorun til stjórnvalda
Við höfum orðið varir við að ýmsir stjórnmálamenn, sem og talsmenn bænda, hafa talað fyrir eflingu kornræktar á undanförnum árum. Þróunin hefur þó verið sú að um það bil helmings samdráttur hefur orðið í greininni á síðasta áratug. Í skýrslum hefur verið bent á skortinn á fjármunum til kynbótastarfs, og vöntun á kornmarkaði, en lítið hefur verið gert til að bæta úr þeim málum. Þá eru niðurgreiðslur til íslenskrar kornræktar enn umtalsvert lægri að upphæð en sambærilegir styrkir í Evrópusambandinu.
Bændur og ráðamenn ættu að huga að stofnun kornsamlags og ná samkomulagi um fyrirkomulagið meðal bænda og annara hagaðila. Félagið myndi síðan að aflokinni fýsileikagreiningu stofnsetja þurrkunar-og geymslustöðvar sem einfalt væri að stækka með aukinni framleiðslu.
Að okkar mati verður að koma til þeirra fjárfestinga sem við leggjum til hér ef ráðamenn vilja efla íslenska kornrækt. Báðar fjárfestingarnar eru jafn nauðsynlegar og óaðskiljanlegur hluti af lausninni. Vitaskuld má deila um útfærslur á framkvæmdinni, en án fjárfestingar til eflingar kornmarkaðar, og fjárfestingar í kynbótum, er nær öruggt að kornræktin verði jaðargrein, einkum stunduð af áhuga eða dregin áfram af ástríðu bænda. En bændur geta ekki lengur dregið plóginn einir í þessu máli. Þörf er á að hið opinbera marki stefnu í kornræktar- og fæðuöryggismálum, og ráðist í þær fjárfestingar sem eru nauðsynlegar svo kornræktin megi dafna.
Höfundar: Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri í jarðrækt við Landbúnaðarháskóla Íslands og Egill Gautason, doktorsnemi í kynbótafræðum við Árósaháskóla.