Þann 14. febrúar síðastliðinn fengu fjórir blaðamenn tilkynningu um að þeir hefðu stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Tveir þeirra, höfundur þessarar greinar og samstarfsmaður hans, eru á meðal þeirra.
Á þeim rúmu sjö vikum sem liðnar eru frá þessari tilkynningu hefur málið skýrst umtalsvert, sérstaklega þar sem einn hinna meintu sakborninga lét reyna á rétt lögreglu til að kalla blaðamenn til yfirheyrslu á þeim grundvelli sem var gefinn. Sú vegferð hefur skilað því að aðgangur hefur fengist að rannsóknargögnum og röksemdarfærslu lögreglu fyrir þeirri vegferð sem hún er í.
Þessi gögn hafa sýnt að málatilbúnaðurinn er enn fjarstæðukenndari en upphaflega var haldið og að starfshættir lögreglu, ásamt yfirlýsingum háttsettra ráðamanna, eru þannig að mann setur hljóðan. Um er að ræða framferði sem er ekki sæmandi þróuðu lýðræðisríki.
Nú þegar við blasir að blaðamenn verði kallaðir til yfirheyrslu er tilefni til að upplýsa ykkur, lesendur Kjarnans, um helstu málavexti.
„Skæruliðadeild“ opinberuð
Málið hófst í maí í fyrra þegar Kjarninn og Stundin birtu umfjöllun um „Skæruliðadeild Samherja“. Þær byggðu á gögnum úr samskiptaforritum og tölvupóstum milli þeirra launuðu ráðgjafa og starfsmanna Samherja sem höfðu það hlutverk að ráðast að blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum. Þeir sem stóðu að umfjölluninni voru í lok síðustu viku sæmdir blaðamannaverðlaunum Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku vegna hennar.
Alþekkt er að vinna efni upp úr gögnum sem afhent eru í óþökk þeirra sem þau fjalla um. Það er svo hlutverk blaðamanna að meta erindi þeirra og ákveða framsetningu. Dómur um hversu vel tekst til er í höndum ykkar, lesenda.
Níu mánuðum síðar var fjórum blaðamönnum samt sem áður kynnt að þeir væru með stöðu sakbornings í sakamálarannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Þeim er hins vegar ekki gefið að hafa framið þau brot sem Páll kærði. Fyrir liggur játning aðila, sem er ekki blaðamaður, á því að hafa tekið síma hans tímabundið ófrjálsri hendi og engar ásakanir liggja fyrir um að blaðamenn hafi eitrað fyrir Páli.
Í greinargerð sem skrifuð er af Eyþóri Þorbergssyni, aðstoðarsaksóknara embættis lögreglunnar, og skilað var inn til héraðsdóms kom þvert á móti fram að blaðamenn séu til lögreglurannsóknar vegna meintrar dreifingar á kynlífsmyndböndum af áðurnefndum Páli og ótilgreindri konu, eða konum. Málatilbúnaðurinn byggir á því að slík myndbönd hafi verið í þeim gögnum sem blaðamenn skrifuðu fréttir um „Skæruliðadeild Samherja“ upp úr.
Vörn gegn ofbeldi notuð til að gera blaðamenn að sakborningum
Ákvæðunum sem blaðamennirnir eru ásakaðir um að hafa brotið gegn var bætt við hegningarlög í fyrra. Þeim er ætlað að verja þolendur fyrir stafrænum brotum gegn kynferðislegri friðhelgi.
Allir stjórnmálaflokkar sem áttu fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd á þeim tíma stóðu saman að lögskýringu við frumvarpið við vinnslu þess þar sem tiltekið var að ákvæðin ættu ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“
Með öðrum orðum var sérstaklega tiltekið að það ætti ekki að beita ákvæðunum gegn blaðamönnum í störfum sínum.
Ráðherra beitir sér
Þrátt fyrir þetta ákvað Bjarni Benediktsson, ráðherra, formaður stjórnmálaflokks og sennilega valdamesti maður landsins síðastliðinn tæpan áratug, að skrifa langa stöðufærslu til varnar aðgerðum lögreglu og gegn blaðamönnum daginn eftir að tilkynnt var um yfirheyrslurnar.
Hann sagði þá ekkert of góða til að mæta til yfirheyrslu og að þeir hefðu ekki hugmynd um hvaða glæpi þeir væru ásakaðir um, þrátt fyrir að þeim hafi verið tilkynnt um hvaða ákvæðum laga þeir væru grunaðir um að hafa brotið gegn þegar yfirheyrslur voru boðaðar.
Þar opinberaði Bjarni enn og aftur hversu litla virðingu, þol og skilning hann hefur fyrir starfi þeirra sem eiga að veita honum aðhald. Hann gerði þar engan greinarmun á stöðu blaðamanna sem einstaklinga gagnvart lögum og því þegar sótt er að þeim vegna starfa þeirra, þrátt fyrir að vita vel að blaðamenn njóta sérstakrar verndar þegar þeir segja fréttir samkvæmt lögum sem hann samþykkti sjálfur, en annars ekki.
Ráðherrann kvartaði yfir því að engar fréttir hefðu verið fluttar „af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar.“
Minna má á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur varað sérstaklega við því að blaðamenn fái stöðu sakbornings vegna starfa sinna.
Nánasti samstarfsmaður yfirmanns lögreglu beitir sér
Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, sló svipaðan tón og gerði um leið grín að blaðamönnum, sakborningum í máli í virkri rannsókn, fyrir að bera hönd fyrir höfuð sér. Síðar bætti hann við að vegið væri að störfum lögreglu með því að gagnrýna þau og setti sjálfan sig í hlutverk lögreglumanns í útvarpsþætti þegar hann krafðist þess að fá upplýsingar um gögn og heimildarmenn frá framkvæmdastjóra Stundarinnar.
Erfitt er að segja til um hvort er meira truflandi.
Það er ágætt að tiltaka, svo það sé frá, að höfundur þessarar greinar hefur aldrei séð kynlífsmyndbönd af Páli Steingrímssyni og þar af síður dreift slíkum. Þá hefur hann aldrei afritað símtæki á ævi sinni. Engin fyrirliggjandi gögn gefa nokkra vísbendingu um annað. Málatilbúnaðurinn er fjarstæðukenndur.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara lögregluembættisins kom hins vegar fram að lögregla þarf ekki rökstuddan grun um meint brot til að rannsókn geti hafist og kalla fólk til yfirheyrslu sem sakborninga. Aðeins „einfaldan grun“ þurfi til. Orðabókarskilgreiningin á einföldum grun er að gruna einhvern um eitthvað án þess að hafa fyrir því bein rök eða sannanir.
Gildisdómar aðstoðarsaksóknara
Greinargerðin er makalaus lesning. Hún er samansafn ályktana, gildisdóma og aðdróttana sem flestar eiga það sameiginlegt að eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Hún ber þess merki að aðstoðarsaksóknarinn búi yfir miklu óþoli gagnvart blaðamönnum og þeirra störfum.
Sú tilfinning fékkst staðfest þegar héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, eftir efnislega umfjöllun, að framferði lögreglunnar gagnvart blaðamönnum væri ólögmætt. Í samtali við Vísi sagði hann: „Ef þú þolir ekki gagnrýni um sjálfan sig, og það má segja það um blaðamenn líka, eiga menn bara að vera í blómaskreytingum.“
Aðstoðarsaksóknarinn sagði lögregluna telja að hún væri að sinna starfi sínu eins og hún eigi að gera en að niðurstaða héraðsdóms þýddi „að allir sem eru skráðir með Facebook-síðuna sína sem fjölmiðil eru með frjálsar hendur. Ég óttast að fleiri fari að skrá Facebook-síðu sína hjá fjölmiðlanefnd.“
Í gildi eru sérstök lög um fjölmiðla með heilum kafla um skráningu þeirra. Engin Facebook-síða er skráður fjölmiðill, enda uppfylla slíkar ekki þær kröfur sem lögin gera til slíkrar skráningar. Aðstoðarsaksóknarinn virðist ekki vita þetta. Eða honum er sama um sannleikann.
Glæpur sem ekki var kærður og var ekki framinn
Rannsóknargögn málsins sýna svart á hvítu að Páll kærði aldrei dreifingu á kynlífsmyndböndum, heldur þjófnað á síma og líkamsárás, vegna meintrar eitrunar. Yfirheyrslur sem þegar hafa farið fram benda til þess að Páll hafi meira að segja eytt einhverjum slíkum myndböndum út af síma sínum áður en hann afhenti lögreglu hann til rannsóknar, sem gefur til kynna að hann sjálfur hafi haft lítinn áhuga á vitneskju lögreglu um tilurð myndbandanna.
Það er því að frumkvæði lögreglunnar að hefja rannsókn á meintri dreifingu blaðamanna á kynlífsmyndböndum. Að rannsaka glæp sem ekki var kærður og ekkert í gögnum málsins bendir til að hafi verið framinn. Efast má um að slíkur áhugi hafi verið sýndur nokkrum öðrum símaþjófnaði í Íslandssögunni. Og mörg kynferðisbrot sem eru sérstaklega kærð af þolendum hljóta mun minni athygli lögreglu, svo vægt sé til orða tekið.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknarans fyrir héraðsdómi er gengið út frá því að lögreglan viti hver heimildarmaður blaðamanna sé og því sé engin „þörf á að fjalla um heimild fjölmiðlamanna til að vernda heimildarmenn sína“. Þetta er rangt.
Lögreglan hefur ekki hugmynd um hverjir heimildarmenn fjölmiðlamanna eru og hún getur ekki spurt þá um slíkt, nema að hvetja fjölmiðlamenn til að brjóta gegn ákvæði fjölmiðlalaga um vernd heimildarmanna. Lög sem þeir munu aldrei brjóta.
Sögð hagnast „faglega og fjárhagslega“ á broti
Í greinargerðinni heldur aðstoðarsaksóknarinn því fram að fjölmiðlar hafi hagnýtt sér viðkvæma stöðu heimildarmannsins sem hann veit ekki hvort að sé heimildarmaður blaðamanna sem hann hefur raðað á sakamannabekk. „Í stað þess að staldra aðeins við og veita X stuðning og hjálp, virðast fjölmiðlar fara strax í að nýta sé augljóst brot hans sér í hag, bæði faglega og fjárhagslega. Þeir huga ekki að því að þarna er einstaklingur í viðkvæmri stöðu og sýna af sér algjört skeytingarleysi um líðan hans og líf.“
Nú skal það tekið skýrt fram að fjölmiðlar hafa ekkert lögbundið sáluhjálparhlutverk. Hlutverk þeirra er að segja fréttir, veita aðhald og upplýsa almenning, í samræmi við lög, starfs- og siðareglur.
Fullyrðing aðstoðarsaksóknarans um að fjölmiðlar hafi nýtt sér brot til að hagnast „faglega og fjárhagslega“ er ekki rökstudd með neinum hætti. Enda erfitt að sjá hvernig meint dreifing á kynlífsmyndböndum af skipstjóra á Akureyri geti skilað blaðamönnum fjárhagslegum hagnaði.
Fullkomlega galið er svo að halda því fram að slík dreifing gæti gagnast þeim faglega.
Málatilbúnaðurinn snýst um að setja blaðamönnum ný mörk
Eftir að Héraðsdómur Norðurlands eystra komst að þeirri niðurstöðu að athæfi lögreglunnar gagnvart blaðamönnum væri ólögmætt, með því að taka efnislega afstöðu til málavaxta, var málinu áfrýjað til Landsréttar. Ólíkt héraðsdómi tók hann ekki efnislega afstöðu heldur afgreiddi málið þannig að lögregla hefði rúmar heimildir til að rannsaka mál. Hæstiréttur neitaði svo að taka málið til umfjöllunar þegar sóst var eftir því og þar af leiðandi eru yfirheyrslur nú yfirvofandi.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknarans fyrir Landsrétti opinberaðist skýrt á hvaða vegferð hann er: að lækka rostann í þessum blaðamönnum að sunnan sem skrifuðu um norðlensku samfélagsstoðina Samherja.
Með öðrum orðum þá snýst málið ekkert um þjófnað á símtæki. Það snýst ekki um stafrænt kynferðisofbeldi. Málið snýst um að lögreglan á Norðurlandi eystra, með aðstoðarsaksóknarann í broddi fylkingar, telur það vera sitt hlutverk að nýta þetta mál til að láta reyna á mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla. Til að takmarka það.
Réttarríkið?
Aðstoðarsaksóknarinn telur illa að sér vegið að hafa ekki fengið að vera í friði frá umfjöllun með þessa veiðiferð sína. Í niðurlagi greinargerðar hans fyrir Landsrétti segir: „Það er ekki einfalt að rannsaka sakamál sem rekið er í fjölmiðlum af jafn miklu offorsi og raun ber vitni. [...] Fjölmiðlaumfjöllun þar sem leynt og ljóst er reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu, á ákæruvaldið og niðurstöður er ekki sæmandi réttarríki.“
Þar telur gerandi sig vera þolanda. Það sem er ekki sæmandi réttarríki er að fara á eftir blaðamönnum fyrir að skrifa sannar og réttar fréttir um launaða ráðgjafa og starfsmenn stórfyrirtækis sem beittu sér með skipulögðum hætti til að hafa lífsviðurværið, æruna og orðsporið af nafngreindu fólki.
Það er ekki sæmandi réttarríki að formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og valdamesti maður þess undanfarinn tæpan áratug, ásamt nánasta samstarfsmanni ráðherrans sem fer með yfirráð yfir lögreglunni í landinu, beiti sér gegn blaðamönnum með hætti sem erfitt er að túlka á annan hátt en sem hvata til að þeir verði teknir niður.
Það er ekki sæmandi réttarríki að blaðamenn séu gerðir að sakborningum fyrir að skrifa fréttir sem áttu fullt erindi við almenning, unnar í samræmi við lög eftir fyrirliggjandi starfs- og siðareglum. Það er ekki sæmandi réttarríki að þeir þurfi að eyða gríðarlegum tíma, orku og fjármunum í að verjast fáránlegum ásökunum sem byggja hvorki á kæru né neinum sönnunum, heldur einbeittum vilja til að takmarka tjáningarfrelsi þeirra.
Þetta mun mistakast
Ef þessari vegferð var ætlað að kæla okkur og berja niður þá skal það sagt hér með að hún mun mistakast. Kjarninn mun halda áfram að segja fréttir með hagsmuni almennings að leiðarljósi og veita þeim sem fara með mikið vald tilhlýðilegt aðhald. Skiptir þar engu hvort um er að ræða fólk sem á hundruð milljarða eða þá sem kosnir hafa verið til að stýra landinu.
Við munum mæta í yfirheyrslur eins og aðrir borgarar sem eru boðaðir til slíkra. Við munum svara þeim spurningum lögreglu sem okkur er heimilt samkvæmt lögum að svara, en verja heimildarmenn samhliða að öllu leyti. Við erum ekki of góð til þess. En við eigum heldur ekki að sætta okkur við valdníðslu gegn frjálsri fjölmiðlun þegar hún birtist skýrt heldur mótmæla henni af öllu afli. Sama hvort sá sem henni beitir heitir Eyþór, Bjarni, Brynjar eða eitthvað annað.
Þið, lesendur, getið stutt okkur í þeirri baráttu með því að styrkja Kjarnann með föstu, mánaðarlegu framlagi eða með því að hækka núverandi framlag ykkar. Við erum til fyrir ykkur. Og ætlum að vera það áfram.