Auglýsing

Þann 14. febr­úar síð­ast­lið­inn fengu fjórir blaða­menn til­kynn­ingu um að þeir hefðu stöðu sak­born­ings við rann­sókn lög­regl­unnar á Norð­ur­landi eystra. Tveir þeirra, höf­undur þess­arar greinar og sam­starfs­maður hans, eru á meðal þeirra. 

Á þeim rúmu sjö vikum sem liðnar eru frá þess­ari til­kynn­ingu hefur málið skýrst umtals­vert, sér­stak­lega þar sem einn hinna meintu sak­born­inga lét reyna á rétt lög­reglu til að kalla blaða­menn til yfir­heyrslu á þeim grund­velli sem var gef­inn. Sú veg­ferð hefur skilað því að aðgangur hefur feng­ist að rann­sókn­ar­gögnum og rök­semd­ar­færslu lög­reglu fyrir þeirri veg­ferð sem hún er í. 

Þessi gögn hafa sýnt að mála­til­bún­að­ur­inn er enn fjar­stæðu­kennd­ari en upp­haf­lega var haldið og að starfs­hættir lög­reglu, ásamt yfir­lýs­ingum hátt­settra ráða­manna, eru þannig að mann setur hljóð­an. Um er að ræða fram­ferði sem er ekki sæm­andi þró­uðu lýð­ræð­is­ríki.

Nú þegar við blasir að blaða­menn verði kall­aðir til yfir­heyrslu er til­efni til að upp­lýsa ykk­ur, les­endur Kjarn­ans, um helstu mála­vext­i. 

„Skæru­liða­deild“ opin­beruð

Málið hófst í maí í fyrra þegar Kjarn­inn og Stundin birtu umfjöllun um „Skæru­liða­deild Sam­herj­a“. Þær byggðu á gögnum úr sam­skipta­for­ritum og tölvu­póstum milli þeirra laun­uðu ráð­gjafa og starfs­manna Sam­herja sem höfðu það hlut­verk að ráð­ast að blaða­mönn­um, lista­mönn­um, stjórn­mála­mönn­um, félaga­sam­tökum og ýmsum öðr­um. Þeir sem stóðu að umfjöll­un­inni voru í lok síð­ustu viku sæmdir blaða­manna­verð­launum Blaða­manna­fé­lags Íslands fyrir rann­sókn­ar­blaða­mennsku vegna henn­ar.

Alþekkt er að vinna efni upp úr gögnum sem afhent eru í óþökk þeirra sem þau fjalla um. Það er svo hlut­verk blaða­manna að meta erindi þeirra og ákveða fram­setn­ingu. Dómur um hversu vel tekst til er í höndum ykk­ar, les­enda. 

Auglýsing
Einn þeirra sem var til umfjöll­un­ar, skip­stjór­inn Páll Stein­gríms­son sem starfar hjá Sam­herja, kærði til lög­reglu þjófnað á síma sínum og meinta eitrun sem hann taldi sig hafa orðið fyr­ir. Sú kæra beind­ist aldrei með nokkrum hætti að blaða­mönn­um. 

Níu mán­uðum síðar var fjórum blaða­mönnum samt sem áður kynnt að þeir væru með stöðu sak­born­ings í saka­mála­rann­sókn lög­regl­unnar á Norð­ur­landi eystra. Þeim er hins vegar ekki gefið að hafa framið þau brot sem Páll kærði. Fyrir liggur játn­ing aðila, sem er ekki blaða­mað­ur, á því að hafa tekið síma hans tíma­bundið ófrjálsri hendi og engar ásak­anir liggja fyrir um að blaða­menn hafi eitrað fyrir Páli. 

Í grein­ar­gerð sem skrifuð er af Eyþóri Þor­bergs­syni, aðstoð­ar­sak­sókn­ara emb­ættis lög­regl­unn­ar, og skilað var inn til hér­aðs­dóms kom þvert á móti fram að blaða­menn séu til lög­reglu­rann­sóknar vegna meintrar dreif­ingar á kyn­lífs­mynd­böndum af áður­nefndum Páli og ótil­greindri konu, eða kon­um. Mála­til­bún­að­ur­inn byggir á því að slík mynd­bönd hafi verið í þeim gögnum sem blaða­menn skrif­uðu fréttir um „Skæru­liða­deild Sam­herj­a“ ­upp úr. 

Vörn gegn ofbeldi notuð til að gera blaða­menn að sak­born­ingum

Ákvæð­unum sem blaða­menn­irnir eru ásak­aðir um að hafa brotið gegn var bætt við hegn­ing­ar­lög í fyrra. Þeim er ætlað að verja þolendur fyrir staf­rænum brotum gegn kyn­ferð­is­legri frið­helgi.

Allir stjórn­mála­flokkar sem áttu full­trúa í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd á þeim tíma stóðu saman að lög­skýr­ingu við frum­varpið við vinnslu þess þar sem til­tekið var að ákvæðin ættu ekki við „þegar hátt­­semin er rétt­læt­an­­leg með vísan til almanna- eða einka­hags­muna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tján­ing­­ar­frelsi fjöl­miðla, m.a. í þeim til­­vikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða for­­ritum sem hefur verið aflað í heim­ild­­ar­­leysi og geti varðað almanna­hags­mun­i.“ 

Með öðrum orðum var sér­stak­lega til­tekið að það ætti ekki að beita ákvæð­unum gegn blaða­mönnum í störfum sín­um. 

Ráð­herra beitir sér

Þrátt fyrir þetta ákvað Bjarni Bene­dikts­son, ráð­herra, for­maður stjórn­mála­flokks og senni­lega valda­mesti maður lands­ins síð­ast­lið­inn tæpan ára­tug, að skrifa langa stöðu­færslu til varnar aðgerðum lög­reglu og gegn blaða­mönnum dag­inn eftir að til­kynnt var um yfir­heyrsl­urn­ar. 

Hann sagði þá ekk­ert of góða til að mæta til yfir­heyrslu og að þeir hefðu ekki hug­mynd um hvaða glæpi þeir væru ásak­aðir um, þrátt fyrir að þeim hafi verið til­kynnt um hvaða ákvæðum laga þeir væru grun­aðir um að hafa brotið gegn þegar yfir­heyrslur voru boð­að­ar. 

Þar opin­ber­aði Bjarni enn og aftur hversu litla virð­ingu, þol og skiln­ing hann hefur fyrir starfi þeirra sem eiga að veita honum aðhald. Hann gerði þar engan grein­ar­mun á stöðu blaða­manna sem ein­stak­linga gagn­vart lögum og því þegar sótt er að þeim vegna starfa þeirra, þrátt fyrir að vita vel að blaða­menn njóta sér­stakrar verndar þegar þeir segja fréttir sam­kvæmt lögum sem hann sam­þykkti sjálf­ur, en ann­ars ekki. 

Ráð­herr­ann kvart­aði yfir því að engar fréttir hefðu verið fluttar „af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lög­reglan kunni að hafa undir höndum sem gefi til­efni til rann­sókn­ar.“

Minna má á að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hefur varað sér­stak­lega við því að blaða­menn fái stöðu sak­born­ings vegna starfa sinna. 

Nán­asti sam­starfs­maður yfir­manns lög­reglu beitir sér

Brynjar Níels­son, aðstoð­ar­maður dóms­mála­ráð­herra, sló svip­aðan tón og gerði um leið grín að blaða­mönn­um, sak­born­ingum í máli í virkri rann­sókn, fyrir að bera hönd fyrir höfuð sér. Síðar bætti hann við að vegið væri að störfum lög­reglu með því að gagn­rýna þau og setti sjálfan sig í hlut­verk lög­reglu­manns í útvarps­þætti þegar hann krafð­ist þess að fá upp­lýs­ingar um gögn og heim­ild­ar­menn frá fram­kvæmda­stjóra Stund­ar­inn­ar. 

Auglýsing
Annað hvort átt­uðu þessir tveir valda­miklu menn sig ekki á hversu óvið­eig­andi og hættu­legt fram­ferði þeirra er, eða þeir vita nákvæm­lega hvað þeir voru að ger­a. 

Erfitt er að segja til um hvort er meira trufl­and­i. 

Það er ágætt að til­taka, svo það sé frá, að höf­undur þess­arar greinar hefur aldrei séð kyn­lífs­mynd­bönd af Páli Stein­gríms­syni og þar af síður dreift slík­um. Þá hefur hann aldrei afritað sím­tæki á ævi sinni. Engin fyr­ir­liggj­andi gögn gefa nokkra vís­bend­ingu um ann­að. Mála­til­bún­að­ur­inn er fjar­stæðu­kennd­ur. 

Í grein­ar­gerð aðstoð­ar­sak­sókn­ara lög­reglu­emb­ætt­is­ins kom hins vegar fram að lög­regla þarf ekki rök­studdan grun um meint brot til að rann­sókn geti haf­ist og kalla fólk til yfir­heyrslu sem sak­born­inga. Aðeins „ein­faldan grun“ þurfi til. Orða­bók­ar­skil­grein­ingin á ein­földum grun er að gruna ein­hvern um eitt­hvað án þess að hafa fyrir því bein rök eða sann­an­ir. 

Gild­is­dómar aðstoð­ar­sak­sókn­ara

Grein­ar­gerðin er maka­laus lesn­ing. Hún er sam­an­safn álykt­ana, gild­is­dóma og aðdrótt­ana sem flestar eiga það sam­eig­in­legt að eiga sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Hún ber þess merki að aðstoð­ar­sak­sókn­ar­inn búi yfir miklu óþoli gagn­vart blaða­mönnum og þeirra störf­um. 

Sú til­finn­ing fékkst stað­fest þegar hér­aðs­dómur komst að þeirri nið­ur­stöðu, eftir efn­is­lega umfjöll­un, að fram­ferði lög­regl­unnar gagn­vart blaða­mönnum væri ólög­mætt. Í sam­tali við Vísi sagði hann: „Ef þú þolir ekki gagn­rýni um sjálfan sig, og það má segja það um blaða­menn líka, eiga menn bara að vera í blóma­skreyt­ing­um.“ 

Aðstoð­ar­sak­sókn­ar­inn sagði lög­regl­una telja að hún væri að sinna starfi sínu eins og hún eigi að gera en að nið­ur­staða hér­aðs­dóms þýddi „að allir sem eru skráðir með Face­book-­síð­una sína sem fjöl­miðil eru með frjálsar hend­ur. Ég ótt­ast að fleiri fari að skrá Face­book-­síðu sína hjá fjöl­miðla­nefnd.“

Í gildi eru sér­stök lög um fjöl­miðla með heilum kafla um skrán­ingu þeirra. Engin Face­book-­síða er skráður fjöl­mið­ill, enda upp­fylla slíkar ekki þær kröfur sem lögin gera til slíkrar skrán­ing­ar. Aðstoð­ar­sak­sókn­ar­inn virð­ist ekki vita þetta. Eða honum er sama um sann­leik­ann. 

Glæpur sem ekki var kærður og var ekki fram­inn

Rann­sókn­ar­gögn máls­ins sýna svart á hvítu að Páll kærði aldrei dreif­ingu á kyn­lífs­mynd­bönd­um, heldur þjófnað á síma og lík­ams­árás, vegna meintrar eitr­un­ar. Yfir­heyrslur sem þegar hafa farið fram benda til þess að Páll hafi meira að segja eytt ein­hverjum slíkum mynd­böndum út af síma sínum áður en hann afhenti lög­reglu hann til rann­sókn­ar, sem gefur til kynna að hann sjálfur hafi haft lít­inn áhuga á vit­neskju lög­reglu um til­urð mynd­band­anna. 

Það er því að frum­kvæði lög­regl­unnar að hefja rann­sókn á meintri dreif­ingu blaða­manna á kyn­lífs­mynd­bönd­um. Að rann­saka glæp sem ekki var kærður og ekk­ert í gögnum máls­ins bendir til að hafi verið fram­inn. Efast má um að slíkur áhugi hafi verið sýndur nokkrum öðrum síma­þjófn­aði í Íslands­sög­unni. Og mörg kyn­ferð­is­brot sem eru sér­stak­lega kærð af þolendum hljóta mun minni athygli lög­reglu, svo vægt sé til orða tek­ið. 

Í grein­ar­gerð aðstoð­ar­sak­sókn­ar­ans fyrir hér­aðs­dómi er gengið út frá því að lög­reglan viti hver heim­ild­ar­maður blaða­manna sé og því sé engin „þörf á að fjalla um heim­ild fjöl­miðla­manna til að vernda heim­ild­ar­menn sína“. Þetta er rang­t. 

Lög­reglan hefur ekki hug­mynd um hverjir heim­ild­ar­menn fjöl­miðla­manna eru og hún getur ekki spurt þá um slíkt, nema að hvetja fjöl­miðla­menn til að brjóta gegn ákvæði fjöl­miðla­laga um vernd heim­ild­ar­manna. Lög sem þeir munu aldrei brjóta.

Sögð hagn­ast „fag­lega og fjár­hags­lega“ á broti

Í grein­ar­gerð­inni heldur aðstoð­ar­sak­sókn­ar­inn því fram að fjöl­miðlar hafi hag­nýtt sér við­kvæma stöðu heim­ild­ar­manns­ins sem hann veit ekki hvort að sé heim­ild­ar­maður blaða­manna sem hann hefur raðað á saka­manna­bekk. „Í stað þess að staldra aðeins við og veita X stuðn­ing og hjálp, virð­ast fjöl­miðlar fara strax í að nýta sé aug­ljóst brot hans sér í hag, bæði fag­lega og fjár­hags­lega. Þeir huga ekki að því að þarna er ein­stak­lingur í við­kvæmri stöðu og sýna af sér algjört skeyt­ing­ar­leysi um líðan hans og líf.“

Nú skal það tekið skýrt fram að fjöl­miðlar hafa ekk­ert lög­bundið sálu­hjálp­ar­hlut­verk. Hlut­verk þeirra er að segja frétt­ir, veita aðhald og upp­lýsa almenn­ing, í sam­ræmi við lög, starfs- og siða­regl­ur.

Full­yrð­ing aðstoð­ar­sak­sókn­ar­ans um að fjöl­miðlar hafi nýtt sér brot til að hagn­ast „fag­lega og fjár­hags­lega“ er ekki rök­studd með neinum hætti. Enda erfitt að sjá hvernig meint dreif­ing á kyn­lífs­mynd­böndum af skip­stjóra á Akur­eyri geti skilað blaða­mönnum fjár­hags­legum hagn­að­i. 

Full­kom­lega galið er svo að halda því fram að slík dreif­ing gæti gagn­ast þeim fag­lega.

Mála­til­bún­að­ur­inn snýst um að setja blaða­mönnum ný mörk

Eftir að Hér­aðs­dómur Norð­ur­lands eystra komst að þeirri nið­ur­stöðu að athæfi lög­regl­unnar gagn­vart blaða­mönnum væri ólög­mætt, með því að taka efn­is­lega afstöðu til mála­vaxta, var mál­inu áfrýjað til Lands­rétt­ar. Ólíkt hér­aðs­dómi tók hann ekki efn­is­lega afstöðu heldur afgreiddi málið þannig að lög­regla hefði rúmar heim­ildir til að rann­saka mál. Hæsti­réttur neit­aði svo að taka málið til umfjöll­unar þegar sóst var eftir því og þar af leið­andi eru yfir­heyrslur nú yfir­vof­and­i. 

Í grein­ar­gerð aðstoð­ar­sak­sókn­ar­ans fyrir Lands­rétti opin­ber­að­ist skýrt á hvaða veg­ferð hann er: að lækka rostann í þessum blaða­mönnum að sunnan sem skrif­uðu um norð­lensku sam­fé­lags­stoð­ina Sam­herj­a. 

Auglýsing
Þar segir meðal ann­ars: „Tján­ing­ar­frelsi er óum­deil­an­lega ein af und­ir­stöðum lýð­ræð­is­þjóð­fé­lags, en á sama tíma er það meðal vand­með­förn­ustu mann­rétt­inda enda ekki hægt að njóta þess án ábyrgðar og því getur verið nauð­syn­legt að setja þessu frelsi ýmsar skorður vegna til­lits til hags­muna ein­stak­linga. Þannig er frið­helgi einka­lífs ein­stak­linga til þess fallin að tak­marka tján­ing­ar­frelsi bæði ann­arra ein­stak­linga og fjöl­miðl­anna – ein­hvers­staðar liggja mörkin og það er dóm­stóla að fjalla um það. Þess vegna er mik­il­vægt að lög­regla rann­saki mál þar sem reynir á þess mörk þannig að dóm­stólum verði gert fært að fjalla efn­is­lega um þessi mörk með hlið­sjón af öllum þeim gögnum sem aflað hefur verið við rann­sókn máls­ins.“ 

Með öðrum orðum þá snýst málið ekk­ert um þjófnað á sím­tæki. Það snýst ekki um staf­rænt kyn­ferð­is­of­beldi. Málið snýst um að lög­reglan á Norð­ur­landi eystra, með aðstoð­ar­sak­sóknar­ann í broddi fylk­ing­ar, telur það vera sitt hlut­verk að nýta þetta mál til að láta reyna á mörk tján­ing­ar­frelsis fjöl­miðla. Til að tak­marka það.

Rétt­ar­rík­ið?

Aðstoð­ar­sak­sókn­ar­inn telur illa að sér vegið að hafa ekki fengið að vera í friði frá umfjöllun með þessa veiði­ferð sína. Í nið­ur­lagi grein­ar­gerðar hans fyrir Lands­rétti seg­ir: „Það er ekki ein­falt að rann­saka saka­mál sem rekið er í fjöl­miðlum af jafn miklu offorsi og raun ber vitni. [...] Fjöl­miðlaum­fjöllun þar sem leynt og ljóst er reynt að hafa áhrif á rann­sókn lög­reglu, á ákæru­valdið og nið­ur­stöður er ekki sæm­andi rétt­ar­rík­i.“

Þar telur ger­andi sig vera þol­anda. Það sem er ekki sæm­andi rétt­ar­ríki er að fara á eftir blaða­mönnum fyrir að skrifa sannar og réttar fréttir um laun­aða ráð­gjafa og starfs­menn stór­fyr­ir­tækis sem beittu sér með skipu­lögðum hætti til að hafa lífs­við­ur­værið, æruna og orð­sporið af nafn­greindu fólki. 

Það er ekki sæm­andi rétt­ar­ríki að for­maður stærsta stjórn­mála­flokks lands­ins og valda­mesti maður þess und­an­far­inn tæpan ára­tug, ásamt nán­asta sam­starfs­manni ráð­herr­ans sem fer með yfir­ráð yfir lög­regl­unni í land­inu, beiti sér gegn blaða­mönnum með hætti sem erfitt er að túlka á annan hátt en sem hvata til að þeir verði teknir nið­ur. 

Það er ekki sæm­andi rétt­ar­ríki að blaða­menn séu gerðir að sak­born­ingum fyrir að skrifa fréttir sem áttu fullt erindi við almenn­ing, unnar í sam­ræmi við lög eftir fyr­ir­liggj­andi starfs- og siða­regl­um. Það er ekki sæm­andi rétt­ar­ríki að þeir þurfi að eyða gríð­ar­legum tíma, orku og fjár­munum í að verj­ast fárán­legum ásök­unum sem byggja hvorki á kæru né neinum sönn­un­um, heldur ein­beittum vilja til að tak­marka tján­ing­ar­frelsi þeirra.

Þetta mun mis­takast 

Ef þess­ari veg­ferð var ætlað að kæla okkur og berja niður þá skal það sagt hér með að hún mun mis­takast. Kjarn­inn mun halda áfram að segja fréttir með hags­muni almenn­ings að leið­ar­ljósi og veita þeim sem fara með mikið vald til­hlýði­legt aðhald. Skiptir þar engu hvort um er að ræða fólk sem á hund­ruð millj­arða eða þá sem kosnir hafa verið til að stýra land­inu.

Við munum mæta í yfir­heyrslur eins og aðrir borg­arar sem eru boð­aðir til slíkra. Við munum svara þeim spurn­ingum lög­reglu sem okkur er heim­ilt sam­kvæmt lögum að svara, en verja heim­ild­ar­menn sam­hliða að öllu leyti. Við erum ekki of góð til þess. En við eigum heldur ekki að sætta okkur við vald­níðslu gegn frjálsri fjöl­miðlun þegar hún birt­ist skýrt heldur mót­mæla henni af öllu afli. Sama hvort sá sem henni beitir heitir Eyþór, Bjarni, Brynjar eða eitt­hvað ann­að. 

Þið, les­end­ur, getið stutt okkur í þeirri bar­áttu með því að styrkja Kjarn­ann með föstu, mán­að­ar­legu fram­lagi eða með því að hækka núver­andi fram­lag ykk­ar. Við erum til fyrir ykk­ur. Og ætlum að vera það áfram. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari