Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og heilbrigðisráðherra, skilaði minnihlutaáliti úr kjörbréfanefnd áður en kosið var um staðfestingu kjörbréfa á Alþingi í gær. Þar kemur fram að niðurstaða hennar sé að rétt væri að ógilda kosningarnar í Norðvesturkjördæmi og kjósa þar á ný. Almenningur þurfi ótvírætt að geta treyst því að tryggt sé að vilji kjósendanna hafi verið leiddur í ljós.
Ástæðan er sú að kjörstjórn í kjördæminu braut kosningalög. Þar skiptir mestu að kjörgögn voru ekki innsigluð og að formaður kjörstjórnar eyddi hálftíma einn með þeim óinnsigluðu kjörgögnum áður en hann ákvað að telja þau aftur og fá aðra niðurstöðu en við upphaflega talningu. Þess utan gat fólk gengið inn og út úr salnum þar sem atkvæðin voru geymd á milli talninga. Afleiðing þessa er að engin vissa er til staðar um hvort hluti þeirra þingmanna sem fengu kjörbréf sitt afhent í gær séu réttkjörnir eða ekki.
Ógjörningur að fullyrða hvort átt hafi verið við atkvæði
Álit Svandísar er vandað og röksemdarfærsla hennar sterkt. Þar segir meðal annars að réttaröryggisreglum laga um kosningar til Alþingis, og undirliggjandi meginreglum, sem lúta að innsiglun atkvæða og því að enginn sé í einrúmi með óinnsigluðum atkvæðum, sé hvort tveggja „ætlað að tryggja að ekki sé unnt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga í reynd“ en „ekki síður að ekki sé unnt að bera brigður á niðurstöðuna.“
Í áliti Svandísar segir líka að ekki sé unnt að útiloka með vissu að framangreindir annmarkar hafi haft áhrif og annmarkarnir feli í sér brot á þeim ákvæðum kosningalaga sem ætlað sé að tryggja að unnt sé að ganga úr skugga um rétta talningu og að almenningur geti treyst því að svo hafi verið. „Verður því, í ljósi meginreglu um að með kosningum skuli lýðræðislegur vilji kjósenda leiddur í ljós, að úrskurða kosninguna ógilda og boða til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi.“
Ekkert „bendi til þess“ að átt hafi verið við gögn
Alls 42 þingmenn gáfu lítið fyrir þetta og staðfestu síðari talninguna á Alþingi í gær. Það var gert með öllum greiddum atkvæðum þeirra flokka sem fengu kosninganiðurstöðu sem hentar þeim pólitískt. Þar er um að ræða stjórnarflokkanna þrjá sem eru í þann mund að innsigla áframhaldandi hentugleikahjónaband sitt og Flokk fólksins, sem styrkti stöðu sína á þingi verulega í síðustu kosningum. Auk þess hlaut tillagan stuðning beggja þingmanna Miðflokksins, en áheyrnarfulltrúi hans, sem er líka formaður flokksins, í undirbúningsnefnd kjörbréfa var reyndar búin að sýna hvaða skoðun hann hafði á þessu máli með því að mæta ekki á einn fund nefndarinnar. Annar þingmanna Miðflokksins sem greiddi atkvæði með þessari niðurstöðu komst inn á þing sem jöfnunarmaður á grundvelli endurtalningarinnar. Hann var sá eini þeirra fimm sem það á við um sem ákvað að kjósa með eigin staðfestingu á kjörbréfi.
Fyrr um daginn var Birgir Ármannsson, formaður undirbúningskjörnefndar, spurður á þingi hver niðurstaðan í Norðvesturkjördæmi hefði raunverulega verið. Birgir svaraði því til að meirihlutinn í nefndinni teldi að úrslit kosninganna hefðu birst í þeim tölum sem yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis skilaði landskjörstjórn eftir endurtalningu. „Að teknu tilliti til þeirra smávægilegu frávika sem við fundum við ítarlega yfirferð allra kjörgagna sem gefa ekki tilefni til þess að úrslit kosninganna hafi með neinum hætti breyst.“ Ekkert sem benti „til þess að átt hafi verið við gögnin á þessu tímabili og við byggjum okkar niðurstöðu á því.“
Fagmaður fenginn til að drepa málinu á dreif
Það læðist að manni sá grunur að tveggja mánaða starf undirbúningsnefndar fyrir afhendingu kjörbréfa hafi fyrst og síðast verið yfirvarp svo Vinstri græn og kerfisflokkarnir tveir gætu tekið sér góðan tíma í að finna lægsta samnefnarann í lykilmálum sem þeir þurfa að lenda með einhverjum hætti í stjórnarmyndunarviðræðum. Helst þannig að hver geti túlkað textann hvernig sem hentar til heimabrúks. Alls liðu 140 dagar frá síðasta þingfundi í júli og fram að þeim fyrsta á þessu kjörtímabili, sem fór fram fyrr í vikunni. Löngu hafi verið búið að ákveðna hver niðurstaðan um úthlutun kjörbréfa ætti að vera.
Um leið dró úr spennu vegna hinnar réttilega véfengdu niðurstöðu kosninga. Í tvo mánuði hafði almenningur verið vanin við þá hugmynd að það væri bara best að gera eins og valdinu þóknast og margir löngu búnir að snúa sér að næstu dægurþrætum.
Tækifærismennskan varð enn og aftur ofan á
Á þessum vettvangi var kallað eftir því byrjun október að þetta mál myndi ekki falla í pólitískar skotgrafir. Sérstaklega mættu sigurvegarar kosninga ekki nálgast málið út frá því sjónarmiði að verja sinn árangur og láta sem að þetta breyti ekki niðurstöðum kosninga eða sé bara óheppilegt. Tækifærismennska ætti ekkert heimili í þeim aðstæðum sem hafa skapast. Þeir sem myndu grípa til hennar gerðu lítið annað en að staðfesta hversu smáir, þröngsýnir og sérhagsmunamiðaðir einstaklingar þeir séu.
Hér væri trúverðugleiki kosninga undir. Stjórnmálamönnum bæri að taka það mjög alvarlega. Það gerði flestir þeirra því miður ekki.
Í því samhengi er rétt að hafa það í huga að lengd á ekkert sammerkt með gæðum. Þótt nefndin hans Birgis hafi starfað í tvo mánuði, fundað í á fjórða tug skipta, farið í oft í ferðir í kjördæmið og skilað skýrslu upp á 91 blaðsíðu þá er það ekki staðfesting á því að vinna nefndarinnar hafi verið góð. Raunar má færa rök fyrir því að hún hafi brugðist verulega, með því að taka þann tíma sem hún tók í að komast að engri annarri niðurstöðu en þeirri sem Ingi Tryggvason, formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, kynnti síðdegis sunnudaginn 26. september eftir að hafa brotið gegn kosningalögum.
Fullkomið fúsk
Hér hljóta flestir að átta sig á því að niðurstaðan sem var samþykkt í gær, og skipar löggjafarsamkundu þjóðarinnar á komandi kjörtímabili, er fullkomið fúsk. Þeir sem kusu með henni gerðu það vegna þess að niðurstaðan hentaði þeim. Engin gerði það af fullvissu um að framkvæmd kosninga hafi verið í lagi. En þetta fólk rökstyður afstöðu sína fyrir sjálfu sér með því að skýr brot á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi hafi ekki haft áhrif á endanlega niðurstöðu kosninga.
Í stað þess að byggja niðurstöðuna á því sem gerðist – að brotið var gegn kosningalögum með skýrum og staðfestum hætti með þeim afleiðingum að úrslit kosninga eru með réttu véfengjanleg – þá var ákveðið að færa sönnunarbyrðina yfir á þá sem gerðu athugasemd við þetta. Þeir þurftu að sanna að Ingi Tryggvason eða einhver annar hefði átt við kjörgögnin í stað þess að aðstæðurnar sem sköpuðust, og fela í sér að enginn vissa er til staðar um hvort einhver hafi svindlað eða ekki, væru nægjanlegar til að taka ekki seinni talninguna gilda. Sönnunarbyrðinni var snúið á haus.
Á Íslandi hafa nú verið samþykkt kjörbréf 63 þingmanna án þess að fyrir liggi nokkur vissa um hvort hluti þeirra séu réttkjörnir. Niðurstaðan, og rökstuðningurinn sem er settur fram fyrir henni, leiðir til þess að óvissa er um hvort það þurfi yfir höfuð að fara eftir kosningalögum við framkvæmd kosninga ef meirihluti þingmanna er ánægður með framsetta niðurstöðu. Þetta er óumdeilanleg staðreynd. Meltið hana aðeins.
Þeir sem gera ekki athugasemdir við þetta bera ekki mikla virðingu fyrir lýðræðinu heldur móta afstöðu sína á grundvelli eigin hagsmuna.
Og bera ábyrgð á því að traust til kosninga á Íslandi hefur verið rofið.