Þeir eru oft nefndir í fjölmiðlum og kallaðir ólígarkar. Hvað í ósköpunum er nú það?
Ólígarkí er komið úr grísku, myndað af tveimur orðum: oligos sem merkir fáir og arkhes stjórnandi. Ólígarkí merkir þar með fámennisstjórn, fáveldi og vísar til fámenns hóps sem hefur sérstöðu, hefur komist í álnir með vafasömum hætti eins og rússnesku ólígarkarnir, sem stálu öllum helstu innviðum lands síns þegar Sovétríkin hrundu. Þeir komu svo á því sem á grísku er kallað kleptókratí og myndað af tveimur orðstofnum: klepto - ég stel og orðinu kratos - stjórn. Á íslensku eigum við orðið þjófræði. Rússlandi nútímans er stýrt af fáum, ofurríkum þjófum. Þar er ekkert lýðræði heldur bara þjóf- og fáræði.
Pútín bjó við þröngan kost sem barn. Fjölskyldan bjó í lítilli íbúð í fjölbýlishúsi. Þar var hvorki heitt vatn né baðherbergi, illa lyktandi klósett og stöðugar deilur. Hann varði mestu af tíma sínum í að elta rottur í stigaganginum, segir hann sjálfur í viðtalsbókinni, First Person, þar sem þrír rússneskir blaðamenn ræða við hann. Hann var fátækur, smávaxinn, undirmálsdrengur, sem varð fyrir einelti og vann sig út úr því með því að ná tökum á slagsmálum og knésetja kvalara sína. Afar skiljanlegt í hörðum heimi. En svo var hann kominn í leyniþjónustuna fyrir eða um tvítugt og var þar þangað til hann smaug um allt í hinu fallna ríki og komst til meiri og meiri valda. Hann hefur því aldrei - og þá meina ég ALDREI - búið við lýðræði, frjálsar kosningar, mannréttindi, heldur alla sína ævi við þjóðfélag, þar sem beitt var ofbeldi, pyntingum, eitrunum, aftökum og lygum - miklum lygum og blekkingum. Hann þekkir ekki Vesturlönd og þau gildi sem þar liggja til grundvallar velferð og friði. Nei, hann skilur ekki slíkt.
Einn helsti hugmyndafræðingur hans er löngu látinn, en hann lét flytja líkamsleifar hans, heim til Rússlands frá Sviss, þar sem hann dó í útlegð, og fer nú reglulega að gröf hans í Rússlandi með blóm og vitnar í hann í ræðum þegar hann reynir að tjá sína eigin hugmyndafræði um vald og stjórn á landinu. Þessi Rússi hét Ivan Ilyin (1883-1954) og var einn helsti hugmyndafræðingur fasismans.
Hvers vegna eru lífskjör betri í sumum löndum og meiri virðing borin fyrir mannréttindum meðan önnur hallast að harðstjórn? Árið 2018 gaf bandarískur rithöfundur og prófessor í sagnfræði við Yale háskólann, Timothy Snyder, út ritgerð þar sem hann greindi hinn rússneska trúar- og stjórnmálafræðing, Ivan Ilyin. Ilyin mótaði hinar frumspekilegu eða metafísísku og siðferðislegu eða mórölsku réttlætingar fyrir alræði og fékk ráðamönnum framtíðarinnar í Rússlandi í hendur skipulag af ekta fasistaríki, ekta fasísku Rússlandi.
Snyder líkir kenningum Ilyins, eins og þau hafi sprottið upp úr samtali Rússa, Satans og Guðs og þannig hafi fasisminn í raun orðið til. Ilyin var enginn venjulegur kristinn maður. Hann trúði því að Guð hefði skapað heiminn og ætlað sér að ljúka verkinu, en hafi sleppt upprunasyndinni lausri og falið hana í skömm.
Í augum Ilyins eykur nútímasamfélagið, með sínum fjölbreytileika og borgaralegum réttindum, mannlegum hugsunum og tilfinningum, vald Satans á meðan Guð er í útlegð. Ilyin leit ekki á söguna sem röklega útskýringu fyrir samtímann, heldur svívirðilega, merkingarlausa og synduga. Hinsta von hans var réttlát þjóð sem fylgja mundi leiðtoga sínum inn í pólitískt alræði, sem svo verður að einum ódauðlegum, lifandi veruleika.
Hin sameinandi meginregla heimsins er hið eina góða í alheimi og allar leiðir að því marki eru réttlætanlegar. Takið eftir að hér helgar tilgangurinn meðalið.
Á þennan hátt þróaði Ivan Ilyin kenningu sína um rússneskan fasisma. Meginhugtakið var „lög“ eða „lögleg meðvitund.“ Þessar hugmyndir tóku einhverjum breytingum eftir rússnesku byltinguna (1917-1923). Fyrir hana trúði Ilyin því að lögin mundu hjálpa Rússum að sameinast alheimsvitundinni og breyta Rússlandi í nútímalegt ríki. Og eftir byltinguna, varð hann viss um að sérstök meðvitund - „sál“ - ekki „hugur“- mundi gera Rússum kleift að líta á einræðisvaldið sem lögmál.
Rússneska ríkjasambandið varð til eftir hrun Sovétríkjanna, löngu eftir dauða Ilyins, en ríkið hefur þó ekki enn staðfest að með lögum skuli land byggja og að sú skuli vera undirstaða stjórnvalda. Að öðru leyti fylgja rússnesk yfirvöld hugmyndafræði Ilyins nákvæmlega og á skapandi hátt. Samkvæmt kenningum hans voru það stór mistök að koma ekki á reglunni um að valdið skuli hvíla á lögum. Það leiddi til þess sem kalla má samvisku Rússa á 20. öld. Á yfirstandandi öld hafa rússneskir leiðtogar notað hugmyndir Ilyins til að gera efnahagslegan ójöfnuð að þjóðardyggð.
Pútín, núverandi forseti Rússlands, notar hugmyndir Ilyins um landapólitík (geopolitics) á þann hátt að beina sjónum fólks frá innri vandamálum Rússlands og að spillingu í útlöndum. Á grunni kenningar Ilyins verður gagnrýnin að einskonar trúarofstæki, sem telur Rússlandi ógnað af spilltum þjóðum; Bandaríkjunum, Úkraínu og Evrópu.
Ilyin dáði Mussolini og var vonsvikinn að Ítalir hefðu fundið upp fasismann en ekki Rússar.
Hann heimsótti Mussolini og leit svo á að hugrakkir menn gætu breytt afmynduðum veruleika heimsins, með hugrökkum aðgerðum. Að hans áliti báru orð Jesú: „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd“ (Mt 7.1) vott um „misheppnaðan Guð með glataðan son.“ Öfugt við þetta gæti dyggðugur maður greint á milli góðs og ills og bent á andstæðinga sem þyrfti að tortíma.
Ilyin trúði því að sérhver dagur væri dómsdagur og að þeir sem ekki dræpu óvini sína, þegar þeim gæfist tækifæri til, yrðu sjálfir dæmdir. Og þangað til Guð kæmi aftur, var það Ilyin, sem ákvað hverjir þessir óvinir væru.
Að „elska óvini“ sína merkti einmitt öfugt. Í augum Ilyins skipti kærleikurinn öllu. Kristindómurinn var leið fyrir réttsýnan heimspeking til að beita ofbeldi í nafni kærleikans. Hann réttlætti morð á útlendingum svo að þjóð gæti hafið alræði, sem gæti síðar fengið Guð til sín á ný.
Ilyin studdi ekki bolsévisma þar sem hann fól ekki í sér lækningu fyrir ófullkominn heim, heldur gerði lítið annað en að auka sóttina. Þess vegna þarf að setja af Sovésk og Evrópsk yfirvöld með eldsnöggu valdaráni.
Hugmyndafræði Pútíns hvílir á þessum kenningum og þær eru ekki fagrar eða til þess fallnar að bæta líf manna, hvorki í Rússneska ríkjasambandinu, né á nokkru öðru byggðu bóli í heimi hér.
Hugmyndafræðin er beinlínis hættuleg og djöfulleg í senn.
Hljóðupptöku með lestri höfundar á greininni má finna með því að smella hér.