Fyrstu fimm árin, allt frá getnaði, eru mikilvæg einstaklingnum, sem og samfélaginu í heild sinni. Þau styðja við og móta þroska einstaklingsins, og marka hæfni hans og úrræði ævilangt. Það hefur sýnt sig í rannsóknum (t.d. rannsóknum nóbelsverðlaunahafans James Heckman) að með því að styðja vel við þessi fyrstu ár, að fjárfesta strax í góðum aðbúnaði í ævi einstaklingsins, og með snemmtækri íhlutun, verði unnt að spara og endurheimta allt að 10% af kostnaði. Þannig verður einstaklingurinn betur í stakk búinn út í samfélaginu, með bættum árangri í skóla og frístundum, minni þörf á viðbótarstuðningi síðar meir, meiri þátttöku á vinnumarkaði, ásamt beinum sparnaði í félags- og heilbrigðiskerfinu.
Þegar skoða á hvaða fjárfestingar og íhlutanir geta skipt máli, er margt að líta til. Við það mat þarf þó einnig að taka mið af erfðum, upp að ákveðnu marki, en fyrst og fremst umhverfinu.
Talið er að umhverfið hafi gríðarleg áhrif á mótun einstaklingsins, og sérstaklega barna. Börn eru viðkvæmari fyrir umhverfinu og meira útsettari fyrir efnum í umhverfinu en við fullorðnu. Þau er með viðkæmara tauga-, ónæmis- og æxlunarkerfi, sem og úthreinsikerfi (Hildur Harðardóttir, UST 2021). Rannsóknir hafa tengt veru barna í myglu og raka, sem og önnur óæskileg áhrif frá umhverfi, við ýmis konar heilsufarsvandamál. Þar má til dæmis nefna eyrnabólgur, blóðnasir, óværð, meltingartruflanir, astma, útbrot, flensulík einkenni, einbeitningarskortur, skemmdir á miðtaugakerfi, og einhverfulík einkenni (Sidney Baker og William Shaw, 2020, Hyvonen, Lohi, Rasanene, ofl, 2021). Þolendur og foreldrar ungra barna hafa líst óteljandi öðrum einkennum, svo sem svefntruflunum, endurteknum sýkingum, bjúg, augnsýkingum, streptókokkum, sár eða útbrot á bleyjusvæði, fæðuofnæmi, óróleiki, kækir, skapsveiflur, þreyta, ADHD hegðun ofl.
Það ætti að vera flestum augljóst að barn sem stríðir lengi við eitthvað af ofangreindum einkennum, kemur að öllum líkindum til með að þurfa aðstoð síðar meir – hvort sem er í félags,- skóla eða heilbrigðiskerfi.
Það ætti ekki að vera neinum bjóðandi að þurfa tilneydd að glíma við erfiðar aðstæður í umhverfinu til lengri tíma, yfir meirihluta dagsins, í krefjandi aðstæðum við leik, nám og þroska - og hvað þá börnum.
Skólamál í Reykjavíkurborg, einkum miðsvæðis, eru í lamasessi. Skólum hefur verið bagalega viðhaldið, úttektir á húsnæði eru seint og ófaglega tilfarnar, inngrip ekki nægilega afdráttarlaus, upplýsingar af skornum skammti og húsnæðisskortur verulegur. Það þrengir að skólalóðum og börn eru sett út á malbikið.
Stór hópur þolenda myglu og raka verður að velja vel í hvaða skóla þau senda börnin sín, og hvar þau velja sér búsetu, og er valkostum í þeim efnum sífellt að fækka. Þessi hópur hefur glímt við veikindi og barist fyrir endurheimt barna sinna. Hvers konar umhverfisáreiti getur kveikt aftur á einkennum, t.d. gamlar eða illa viðhaldnar byggingar, lekir gluggar eða þök, ilmefnanotkun við hreinlæti og þrif, notkun annarra óæskilegra efna, aukaefni í mat, takmarkað aðgengi skólalóðar að náttúru, ofl. Þessi hópur er ekki tilbúinn að taka fleiri sénsa með börnin sín, og krefst þess að börnunum verði gert kleift að njóta vafans.
Hvernig á að mæta þörfum þessa hóps sem kjósa að búa miðsvæðis, og gefa þeim kost á að velja sér heilnæmt heimili og skóla, nálægt vinnu sinni og baklandi? Hvernig á að stuðla almennt að vellíðan og heilbrigði barnanna okkar allra, og að beinum sparnaði inn í þjóðfélagið?
Nú hefur legið fyrir í einhvern tíma áform um byggingu nýs leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis í Skerjafirði. Margir foreldrar bíða spenntir, og með öndina í hálsinum eftir þeim framkvæmdum. Nýlegt viðtal við innviðaráðherra í fjölmiðlum, bendir þó til þess að þessi nýja byggð brjóti gegn samkomulagi ríkisins og Reykjavíkur? Slíkt grefur undan samþykktu deiliskipulagi sem hefur verið birt almenningi, og stofnar áformum um nýjan skóla í hættu.
Ef ósætti ríkir um fyrirhugaða framkvæmd, hvers vegna ekki að reyna að finna lausnir? Hvers vegna ekki að minnka fyrirhugaða byggð í Skerjafirði og endurskipuleggja, og leggja megináherslu á að koma skólanum upp? Ríkisstjórn og innviðaráðherra geta varla sett sig á móti þeim framkvæmdum? Það þarf að forgangsraða, það þarf að meta hagsmuni barna fremst og leysa skólamálin, og það hlýtur að vera mikilvægara en aðþrengdur flugvöllur? Það þarf að finna hvar samstaða getur myndast, í stað endalausra öfga og andstæðna. Ef ráðherra, ríkisstjórn og borgarstjórn geta ekki mætt þörfum almennings og þörfum barna okkar, og ef ráðherra leggst gegn uppbyggingu skóla í Skerjafirði, þá þarf nauðsynlega, og það fljótt, að finna skólahúsnæði öðrum stað miðsvæðis.
Þetta mál þolir enga bið. Og þeir bútasaumar sem hafa átt sér stað á flestum skólalóðum með viðbyggingum á kostnað útisvæðis, til dæmis í Vesturbæjarskóla og Hagaskóla, eru ekki raunhæfur kostur.
Höfundur er lögfræðingur og forkona SUM - samtaka um áhrif umhverfis á heilsu.