Heildarendurskoðun þjónustu fyrir eldra fólk á vegum þriggja ráðuneyta, fjármála- heilbrigðis- og félagsmála, Samtaka sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara sem hófst í júni á þessu ári og taka mun fjögur ár, getur haft í för með sér mestu breytingu á flestum þjónustuþáttum félagslegrar þjónustu og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk sem gerð hefur verið til þessa. Verkefnið heitir Það á að vera gott að eldast. Þótt framkomnar hugmyndir séu afar fjölbreyttar má þó segja að ekkert á þessum sviðum sé nýtt undir sólinni, svo lengi hafa menn talað um nauðsyn þeirra breytinga. Stóra hugtakið í allri þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin og það sem fyrir liggur á næstu misserum er samþætting. Og aftur samþætting.
Stöðunni hefur verið lýst í einfaldri mynd eftirfarandi: Læknirinn, hjúkrunarkonan og félagsþjónusta sveitarfélaganna tala ekki saman. Síðan koma afar fjölbreytt millistig í samskiptum fjölmargra aðila sem þarfnast samþættingar. Makalausast er fyrir okkur sem komum að þessari vinnu í verkefnisstjórn að hitta fjöldann allan af fólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem öll segja það sama: Við erum búin að vera að tala á þessu nótum samþættingar í fjöldamörg ár, en ekkert hefur gerst. Lengst hefur sú þróun komist í Reykjavík þar sem segja má að aðstæður séu einfaldastar, en víða á landsbyggðinni eru gríðarstór þjónustusvæði sem verkefnið er ekki auðvelt.
Að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi
Viljayfirlýsing um þetta verkefni allt var undirrituð í sumar af félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanni Landsambands eldri borgara.
Markmiðið er að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi og mikilvægt er því að samþætta þjónustuna, bæði til að auka lífsgæði og tryggja að þjónustukerfi hér á landi ráði við vænta fjölgun eldra fólks á næstu árum.
Nú þegar liggur fyrir aðgerðaráætlun sem lögð verður fyrir Alþingi sem tillaga til þingsályktunar eftir áramót. Aðgerðaáætluninni er ætlað að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru og ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt. Gert er ráð fyrir að gildistími aðgerðaáætlunar taki til tímabilsins 2023-2027. Jafnframt er stefnt að því að staða aðgerða og framgangur þróunarverkefna verði gerð aðgengileg og skýr meðal annars til að auðvelda eftirfylgni.
Þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu
Á árinu 2023 hefjast skilgreind þróunarverkefni á 4-6 svæðum á landinu þar sem félags- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er eldra fólki í heimahúsi er samþætt, undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn.
Markmið aðgerðarinnar er eldra fólk fái markvissa og samfellda þjónustu heim samkvæmt faglegu mati.
Dagdvöl er fólki afar mikilvæg og er sérstök áhersla lögð á hana í aðgerðaráætluninni. Þróa á þetta úrræði þannig að fleiri eigi kost á þjónustu dagdvala í þeim tilgangi að auka og viðhalda virkni í daglegu lífi. Einnig að fresta sem lengst þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili með því að aðlaga þjónustuna þannig að hún komi betur til móts við þarfir eldra fólks sem býr heima og fjölskyldur þeirra. Lögð verði áhersla á skilgreint og öflugt samstarf á milli dagdvala og heimaþjónustu.
Ein upplýsingagátt fyrir allt landið
Of langt mál er að telja upp alla þætti aðgerðaráætlunarinnar, en t.d. er lagt er til að tekið verði upp samræmt matstæki og aðgangur að upplýsingum milli þjónustuaðila og ein gátt fyrir allar beiðnir um heimaþjónustu og dagdvöl, ein upplýsingagátt fyrir allt landið varðandi upplýsingar um þjónustu og réttindi eldra fólks, efla almenna upplýsingaráðgjöf og sérhæfðan stuðning fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra, stórauka -öldrunarráðgjöf og síðast en ekki síst vitundarvaking um heilbrigða öldrun með því að draga úr félagslegri einangrun, aldursfordómum og auka þekkingu meðal almennings á mikilvægi alhliða heilsueflingar, samveru og samskipta milli kynslóða ásamt því að vekja fólk til umhugsunar um hvernig það geti sem best tryggt sig farsælu lífi á efri árum.
Upplýsingar eru afar mikilvægur þáttur í allri þessari vinnu, en það hefur margoft komið fram í máli bæði stjórnmálamanna og þeirra sem vinna í heilbrigðis – og félagsþjónustu að mikið af þeirri þjónustu sem um ræðir er þegar til í einhverri mynd, en upplýsingar og samþættingu skorti. Það verður því mikill fengur í einni upplýsingagátt fyrir allt landið varðandi upplýsingar um þjónustu og réttindi eldra fólks.
Að hægt verði að nálgast, með einföldum hætti, upplýsingar, viðeigandi umsóknareyðublöð og almenna ráðgjöf um allt það sem varðar þjónustu við eldra fólk bæði félags- og heilbrigðisþjónustu. Hægt verði að nota netspjall eða símtal gerist þess þörf.
Umfjöllun um heimili fólks er þýðingarmikill þáttur í aðgerðaráætluninni og þar er að finna tillögu um að til verði til opinber skilgreining á heimili fyrir eldra fólk, sérstakur vinnuhópur fari yfir hugmyndir um ný búsetuúrræði og lagt er til að hægt verði að styrkja fólk til þess að gera nauðsynlegar breytingar á húsnæði sínu til þess að geta búið lengur við öryggi og þægindi.
Þessi aðgerðaráætlun liggur nú inni á samráðsgátt stjórnvalda þar sem allir eru hvattir til þess að segja sitt álit. Tillaga til þingsályktunar verður svo lögð fram á vorþingi.
Verður eitthvað úr þessu? Von að spurt sé. Það liggja fyrir fjölmargar skýrslur og álitsgerðir um málefni eldra fólks sem flestar rykfalla í skúffum. Að mínu viti hefur hér hins vegar farið af stað umræða og tillögugerð þar sem ekki verður aftur snúið. Verkefnisstjórn hefur hitt fjölda fólks í heilbrigðis- og félagsþjónustu bæði í þéttbýli og á landsbyggð, kynnt verkefnið fyrir þingflokkum og fjölda hagaðila og alls staðar mætt miklum áhuga og jafnvel spenningi yfir því að nú skuli loksins eiga að fara að gera það sem talað hafi verið um í áratugi og allir verið sammála. Að það eigi að vera gott að eldast.
Höfundur er formaður Landssambands eldri borgara.