Óhætt er að mæla með stuttri heimildarmynd sem heitir Fools & Dreamers. Þar segir frá Nýsjálendingnum Hugh Wilson sem tók að sér mjög illa farið landsvæði og breytti því í náttúrulegan skóg. Nágrannar hans höfðu enga trú á verkefninu og töldu hann kjána og draumóramann en á nokkrum árum sneri hann þessu illa farna landi yfir í heilbrigt vistkerfi með upprunalegum trjám, tilheyrandi líffræðilegri fjölbreytni í plöntu, fugla-, fiska og dýralífi ásamt betri vatnsbúskap í ám, vötnum og veðurfari.
Þessi fallega saga á erindi við okkur Íslendinga því tvö stærstu verkefnin okkar í loftslagsmálum eru af sama toga. Annars vegar er það endurheimt votlendis og hins vegar uppgræðsla illa farins lands og skógrækt. Votlendi losar 9.3 milljónir tonna af CO2 ígildum og illa farið land er talið losa 4 milljónir tonna. Til að átta sig á því hversu mikið þetta er þá losa álverin og stóriðjan öll til samans tæpar 2 milljónir tonna og vegasamgöngur losa tæplega milljón tonna.
Það er nauðsynlegt að taka stór skref strax þegar kemur að loftslagsmálum því tíminn sem við höfum er mjög takmarkaður. Ein leið til að nálgast vandamálið væri að fylgja fordæmi nýsjálenska frumkvöðulsins og skapa störf fyrir vistbændur þ.e. einstaklinga sem taka að sér endurheimt vistkerfa og draga þannig úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda.
Tækifæri til að breyta forgangsröðun
Í dag greiðir hið opinbera bændum allnokkra milljarða fyrir að framleiða 9.000 tonn af kindakjöti á meðan aðeins er markaður fyrir 6.000 tonn innanlands. Einfalt ætti að vera að breyta kerfinu þannig að greitt verði fyrir að rækta upp illa farin vistkerfi í stað þess að framleiða kindakjöt sem hefur mjög stórt kolefnisspor, skaðar vistkerfin og allt of mikið er framleitt af. Þannig gætum við í samstarfi við fagstofnanir snúið vörn í sókn með því að ná aftur gróðurþekju á viðkvæm svæði, rækta upp skóga og endurheimta votlendi. Fjölmörg dæmi eru nú þegar á Íslandi þar sem framsæknir hugsjónamenn í landgræðslumálum hafa stigið stór skref til að endurheimta vistkerfi.
Áskoranir sem þarf að takast á við
Verkefnið er stórt og krefst þess að margir leggist á árarnar. Ein áskorun er sú að landeigendur sem eiga framræst land verða að taka þátt. Þrátt fyrir að vel innan við 15% framræsts lands sé nýtt til ræktunar í landbúnaði er veruleikinn í dag sá að mjög fáir landeigendur hafa endurheimt votlendi á sínum jörðum og enn er verið að framræsa votlendi. Önnur áskorun er að hluti sauðfjárbænda beitir sauðfé á illa farið land sem enga eða litla beit þolir.
Leiðir til að takast á við áskoranirnar
Lausnin á því að fá landeigendur með í slíkt átak gæti verið að mengunarbótareglan svokallaða, gildi fyrir framræst votlendi, t.d. frá og með 2026. Hún felur í sér að þeir borgi sem valda mengun, Þannig verði landeigendum framræsts votlendis gert að greiða kolefnisgjald líkt og þeir sem kaupa jarðefnaeldsneyti. En landeigendur geta komið sér undan gjaldinu með því að taka sjálfir að sér að endurheimta votlendið og fá stuðning fyrir framkvæmdina eða látið það vistbændum eftir, sér að kostnaðarlausu. En vistbóndinn myndi taka út landið gera aðgerðaáætlun og framkvæma hana í samstarfi við fagaðila.
Hin lausnin er að setja takmörk á lausagöngu búfjár og banna strax beit á þeim svæðum sem ekki þola beit.
Margfaldur ávinningur
Innleiðing vistbænda gæti haft sérstaklega jákvæð áhrif á dreifðar byggðir landsins þar sem áskoranir í endurheimt vistkerfa eru miklar. Ávinningurinn er margfaldur; meira vatn og líf í ár og læki, líffræðilegur fjölbreytileiki, færri sár/skurðir í landslaginu, stærri skógar, meiri fuglalíf, fleiri fiskar og umfram allt annað, margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda og margföld meiri binding í gróðri.
Höfundur er frambjóðandi Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.