Það er ekki sama hver það er sem vill kaupa LEGO kubba frá framleiðandanum. Að minnsta kosti ekki ef marka má viðbrögð fyrirtækisins við einhverri stærstu pöntun sem LEGO hefur nokkru sinni fengið. LEGO vildi ekki selja kínverska listamanninum Ai Weiwei tvær milljónir leikfangakubba sem hann hugðist nota í listaverk.
Kínverski listamaðurinn Ai Weiwei er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna heims. Á lista breska tímaritsins Artreview yfir hundrað áhrifamestu persónur samtímans í myndlistarheiminum skipar Ai Weiwei annað sætið.
Ai Weiwei er fæddur í Beijing árið 1957. Faðir hans, skáldið Ai Qing (1910- 1996) var árið 1958, ásamt eiginkonu sinni og tveimur sonum, sendur í útlegð til norðaustur Kína, sakaður um hægri áróður. Ári síðar var fjölskyldan flutt nauðug til Xinjinang héraðs í norðvesturhluta Kína. Þar vann fjölskyldufaðirinn ýmis konar erfiðisvinnu og á árum menningarbyltingarinnar 1966 – 1976 starfaði hann við hreingerningar. Árið 1979, þegar aðstæður í Kína voru breyttar, var Ai Qing, og fjölskyldan, frjáls ferða sinna og flutti til Beijing. Móðir Ai Weiwei lést á útlegðarárunum, faðir hans giftist aftur og eignaðist tvær dætur. Á efri árum hlotnaðist Ai Qing ýmis heiður og er meðal virtustu ljóðskálda Kínverja.
Lærði teiknimyndagerð
Árið 1978 innritaðist Ai Weiwei í Kínversku kvikmyndaakademíunaí Beijing og lærði teikninmyndagerð. Þremur árum síðar, að námi loknu, lá leið hans til New York þar sem hann bjó og starfaði til ársins 1993 en þá flutti hann til baka til Beijing. Í New York kynnst Ai Weiwei mörgum þekktum listamönnum og hafði jafnframt fengið mikinn áhuga fyrir arkitektúr og byggingalist.
Þegar þarna var komið var Ai Weiwei orðinn þekktur listamaður í heimalandi sínu en fékk að starfa óáreittur að list sinni þótt ýmislegt sem hann lét frá sér fara þóknaðist ekki beinlínis kínverskum stjórnvöldum.
Ólympíuleikvangurinn
Þegar framkvæmdir við Ólympíuleikvanginn í
Beijing hófust var Ai Weiwei sérlegur ráðgjafi svissnesku arkitektastofunnar Herzog & de Meuron sem hannaði leikvanginn sem fékk
nafnið Hreiðrið. Þessi arkitektastofa er mjög þekkt og virt og það að þar á bæ
skyldu menn leita til Ai Weiwei segir meira en mörg orð um þann sess sem hann
hafði öðlast.
Þegar leið á
fyrsta áratug aldarinnar gerðist Ai Weiwei æ gagnrýnni á stefnu kínverskra
stjórnvalda. Eftir jarðskjálftann mikla í Sichuan héraði árið 2008 var hann í
fararbroddi þeirra sem gagnrýndu yfirvöld og embættismenn fyrir spillingu, ekki
síst varðandi byggingu skólahúsa sem hrundu eins og spilaborg. Enginn veit með
vissu hve margir létust af völdum skjálftans en þeir skiptu tugum þúsunda.
Milljónir misstu heimili sín.
Ai Weiwei handtekinn
Aukinnar
óþolinmæði í garð Ai Weiwei gætti nú meðal kínverskra stjórnvalda. Í september árið
2009 gekkst hann undir aðgerð vegna æðagúlps í heila en skömmu áður hafði hann
sætt barsmíðum lögreglu við yfirheyrslur vegna skýrslu sem hann og margir aðrir
gerðu um Sichuan jarðskjálftann.
Í nóvember
árið 2010 var Ai Weiwei handtekinn og settur í stofufangelsi. Yfirvöld létu
jafnframt tveimur mánuðum síðar rífa vinnustofu sem hann hafði byggt í
Shanghai, á þeirri forsendu að hann hefði ekki haft tilskilin leyfi. Allt þetta
vakti athygli víða um heim og kínversk stjórnvöld sættu mikilli gagnrýni. Daginn
eftir að vinnustofan var rifin var Ai Weiwei sleppt úr fangelsi. Afskiptum kínverskra yfirvalda var þó ekki lokið. Vorið
2011 var hann aftur handtekinn og haldið í einangrun í þrjá mánuði, að sögn
yfirvalda vegna óreiðu í skattamálum. Þegar honum var sleppt var honum jafnframt bannað að fara úr landi, og vegabréf sitt og
frelsi til að ferðast úr landi fékk hann ekki fyrr en í júlí síðastliðnum. Kínversk
skattayfirvöld töldu að hann skuldaði mikla skatta en á örfáum vikum hafði, víða
um heim, safnast fé til að greiða þá skuld sem jafngilti um það bil 240
milljónum íslenskra króna. Í millitíðinni hafði hann fengið stöðu
gestaprófessors við Listaháskólann í Berlín og býr nú til skiptis þar og í
Beijing.
LEGO kubbarnir
Í fyrra var sett upp á Alcatraz eyjunni við San Fransisco sýning á 176 andlitsmyndum af pólitískum föngum og andófsmönnum. Myndirnar voru gerðar úr meira en milljón legokubbum sem listamaðurinn hafði keypt, með milligöngu dansks listaverkasala, beint frá LEGO fyrirtækinu sem var fullkunnugt um til hvers kubbarnir voru ætlaðir.
Sýningin var sett upp af bandarísku samstarfsfólki Ai Weiwei sem þá sat enn vegabréfslaus í Kína. Hún vakti mikla athygli og stjórnendur Þjóðlistasafnsins í Melbourne í buðu Ai Weiwei að setja upp hliðstæða sýningu, myndefnið ástralskt baráttufólk fyrir tjáningarfrelsi og mannréttindum. Danski milligöngumaðurinn, sem áður er getið, hafði samband við LEGO og fékk þau svör að hann gæti keypt eins margar milljónir kubba og hann þyrfti.
Babb í bátinn
Þegar til átti að taka og fara að huga að pöntun á kubbunum var skyndilega annað hljóð í LEGO strokknum. LEGO tilkynnti að fyrirtækið gæti ekki styrkt verkefni sem bæru pólitískt yfirbragð. Danski milligöngumaðurinn svaraði að verið væri að panta kubba, sem yrðu borgaðir, ekki væri verið að biðja um að fá þá ókeypis. En LEGO hefur endurtekið fyrri svör en jafnframt sagt að hver sem er geti keypt kubba og gert við þá hvað sem viðkomandi sýnist.
Þegar blaðamaður Politikens sendi tölvupóst til LEGO og spurði hvort hann gæti keypt milljón legokubba, í ýmsum litum, var spurt hvað hann hygðist gera við þá. "Kemur LEGO það eitthvað við?” spurði blaðamaður en hefur ekki fengið svör enn sem komið er. Blaðamaðurinn hafði líka samband við danskar leikfangaverslanir og spurðist fyrir um kaup á milljón kubbum. Verslanirnar vísuðu á LEGO, þær seldu ekki kubba í lausu í milljónatali.
Af hverju bregst LEGO svona við?
Kubbamálið hefur vakið mikla athygli og um það verið fjallað í fjölmiðlum víða um heim. Danski utanríkisráðherrann, Kristian Jensen, hefur í viðtölum sagt að vitaskuld ráði LEGO því hverjum það selji kubba og hverjum ekki. Enginn deilir svosem um það. En danskir fjölmiðlar og fjölmargir aðrir telja að skýringin sé augljós: LEGO sé einfaldlega hrætt um að styggja kínverska ráðamenn enda hafi forsvarsmönnum LEGO verið sagt, undir illa dulbúinni rós, að það muni bitna harkalega á LEGO selji fyrirtækið þessum pólitíska andófsmanni kubba.
Mörgum sem hafa tjáð sig um málið þykir þetta afar vandræðalegt fyrir LEGO og Ai Weiwei hefur sagt það dapurlegt að fyrirtæki eins og LEGO setji viðskiptasjónarmið ofar mannréttindum. LEGO hefur að undanförnu lagt síaukna áherslu á að auka söluna í Asíu. Í undirbúningi er, og leyfi fengið, til að opna Legoland (svipað og er í Billund á Jótlandi) í Shanghai og fyrir skömmu tók LEGO í notkun stóra kubbaverksmiðju í Jiaxing.
Hvað með sýninguna í Melbourne
Talsmaður Ai Weiwei sagði í viðtali við danskt dagblað að sýningin yrði að veruleika. Óneitanlega væri það nokkuð umhendis að kaupa kubbana í verslunum en sagði jafnframt að nú væru kubbasendingar farnar að streyma til Ai Weiwei, bæði á heimili hans í Beijing og í Berlín. Mikill fjöldi fólks hefur líka haft samband við Þjóðlistasafnið í Melbourn til að fá upplýsingar um hvert það geti sent kubba, eða peninga til kubbakaupa.