Gagnamagnsnotkun Íslendinga á farsímaneti jókst um 79 prósent frá miðju ári í fyrra og fram til júníloka 2015. Á fyrri hluta síðasta árs notuðu Íslendingar um 2,5 milljónir gigabæta en á fyrstu sex mánuðum þessa árs nam notkunin um 4,5 milljónum gígabæta. Gagnamagsnotkun Íslendinga í gegnum farsímanet hefur tæplega ellefufaldast frá árinu 2010 og rúmlega fjórfaldast frá miðju ári 2012. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri hluta ársins 2015 sem birt var í gær.
Í samandregnu máli þá þýðir þetta að notendahegðun umbylst. Litlu snjalltækin sem nánast allir eru með í vasanum eru orðin lykilgátt að afþreyingu, fréttum og öðru fjölmiðlaefni óháð því hvort það sé sett fram með texta, sem sjónvarp eða hljóðvarp.
Símar eru fyrir nokkuð löngu síðan hættir að vera tól sem tveir einstaklingar nota til að tala saman, og orðnir eitthvað allt annað og miklu meira.
4G-væðingin breytir öllu
Ástæðan fyrir þessari miklu breytingu er sú að farsímatímabil fjarskiptageirans er að líða undir lok og gagnaflutningatímabilið að taka við. Tíðniheimildir fyrir 3G, fyrsta háhraðakynslóð farsímanetskerfið, voru boðnar út á Íslandi í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar netkerfi en farsímakerfi og gerði gagnaflutning mögulegan.
Næsti fasi stendur nú yfir, skrefið yfir í 4G-kerfið. Skrefið sem verður tekið upp á við með henni er stærra en margir átta sig á. Hraðinn á 4G-tengingu er tíu sinnum hraðari en í 3G og um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
4G-væðingin á Íslandi hófst af alvöru á árinu 2014 þegar fjöldi 4G-korta í símum fimmfaldaðist. Um mitt ár 2015 hafði fjöldi þeirra síðan tvölfaldast á einu ári og nú eru um 151 þúsund virk 4G-kort í íslenskum farsímum. Þau eru enn færri en 3G-kortin (230 þúsund) en með þessu áframhaldandi mun 4G vera orðið ráðandi á Íslandi innan árs.
Nova veðjaði á réttan hest
Nova nýtur þessarra breytinga umfram önnur fjarskiptafyrirtæki, svo vægt sé til orða tekið. Viðskiptavinir Nova eru nefnilega í algjörum sérflokki þegar kemur að notkun gagnamagns. Viðskiptavinir þess fyrirtækis, sem hóf starfsemi í desember 2007, og verður því átta ára um næstu mánaðarmót, notuðu um 74 prósent af öllu gagnamagni sem notað var á farsímanetinu á fyrri hluta ársins 2015. Það er svipað hlutfall og viðskiptavinir Nova voru með af heildargagnamagnskökunni árið 2014.
Það má því segja að Nova sé að uppskera eins og fyrirtækið sáði á upphafsárum sínum. Þá lagði það áherslu á að ná í gríðarlegan fjölda ungra notenda gegn því að lofa þeim fríum símtölum og sms-skeytum innan kerfis. Þetta var áður en gagnamagnsbyltingin reið yfir. Þegar það svo gerðist voru það ungu viðskiptavinirnir sem Nova hafði sankað að sér – nú ekki lengur unglingar heldur ungt fólk með kaupmátt – sem umföðmuðu þá byltingu fyrstir allra.
Síminn enn stærstur á farsímamarkaði
Síminn, stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, er enn með forystu á farsímamarkaðinum. Þ.e. hann er enn með flesta viðskiptavini í farsímaþjónustu, eða alls 149.558 talsins og 35,3 prósent markaðshlutdeild. Viðskiptavinafjöldi Símans hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarið ár. Frá lokum árs 2012 hefur viðskiptavinum Símans í farsímaþjónustu til að mynda fjölgað um 600. Á sama tíma hafa tugþúsundir nýir notendur bæst við.
Það er skiljanlegt að Síminn hafi tapað markaðshlutdeild á undanförnum árum samhliða stóraukinni samkeppni. Auk þess er fyrirtækið í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að tveir af hverjum þremur viðskiptavinum þess í farsímaþjónustu er með fasta áskrift. Það tryggir mikinn stöðugleika í notkun og tekjum.
Nova, sem sótt hefur hart að Símanum á undanförnum árum, er nú komið með 33,4 prósent markaðshlutdeild. Þótt föstum áskriftum hjá Nova fjölgi alltaf ár frá ári er það enn svo að tæplega þrír af hverjum fjórum viðskiptavinum fyrirtækisins eru með fyrirframgreidda þjónustu, svokallað frelsi. Nova er samt sem áður það fyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem tekur til sín nánast alla viðbótarnotendur sem bætast við farsímamarkaðinn á ári hverju. Frá árslokum 2012 hefur viðskiptavinum Nova til að mynda fjölgað um tæplega 30 þúsund.
Þriðji risinn á fjarskiptamarkaði er síðan Vodafone. Því hefur tekist að halda vel á áskriftarfjölda sínum á farsímamarkaði og samtals nemur markaðshlutdeild fyrirtækisins 26,8 prósentum.
365 sameinaðist Tali í desember 2014 og tók þar með yfir farsímaviðskipti síðarnefnda fyrirtækisins. Alls eru viðskiptavinir 365 í farsímaþjónustu nú um 15.500 talsins. Það er umtalsvert færri viðskiptavinir en Tal var með í árslok 2012, þegar þeir voru um 20 þúsund.
SMS á undanhaldi
Þótt fjölmargir nýir samskiptamiðlar hafi bæst við flóruna á undanförnum árum þá senda Íslendingar enn nokkuð mikið af SMS-skilaboðum. Árið 2012 voru send tæplega 216 milljónir slíkra skilaboða en þeim hafði fækkað í um 204 milljónir í fyrra. Á fyrri hluta ársins í ár voru send um 100 milljón SMS og ef sú notkun helst stöðug út árið mun notkunin dragast saman um tvö prósent milli ára.
Líklegt verður að teljast að SMS-ið mun áfram eiga undir högg að sækja, enda bjóða samskiptaforrit á vegum Facebook, Apple og fleiri slíkra upp á mun fleiri möguleika í samskiptum en SMS-in.
Þetta er fyrri hluti umfjöllunar Kjarnans um nýja skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn. Seinni hlutinn birtist síðar í dag.