Þeim sem voru með nettengingu hjá 365 fækkaði á fyrri helmingi ársins 2015. Um síðustu áramót voru þeir um 15.551 talsins en hafði fækkað niður í 14.558 um mitt þetta ár. Um helmingur netttenginga á Íslandi eru hjá Símanum.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn sem birt var í gær.
Viðskiptavinum Hringdu fjölgaði mikið
Staða Símans og Vodafone á íslenskum nettengingamarkaði er mjög sterkt, en Nova, sem náð hefur miklum árangri á farsímamarkaði, býður ekki upp á landlínutengingar. Um helmingur allra slíkra tenginga í landinu er hjá Símanum og 29 prósent hjá Vodafone.
Það fyrirtæki sem bætir hlutfallega flestum tenginum við sig undanfarin misseri er þó Hringdu. Um mitt ár í fyrra voru viðskiptavinir þess 4.186 talsins en voru í lok júní 2015 orðnir 6.028. Það er aukning um 44 prósent á einu ári.
365 miðlar hófu að bjóða upp á fjarskiptaþjónustu með síma og interneti í haustið 2013. Fjarskiptafyrirtækinu Tali var síðan rennt inn í 365 í desember 2014. 365 er einnig stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins. Það rekur fjölda sjónvarpsstöðva, útvarpsstöðva, næst mest lesna vefmiðil landsins og mest lesna dagblað landsins.
365 miðlar leggja mikið upp úr því að vöndla saman sölu á neti, heimasíma, GSM og sjónvarpsáskriftum með hagstæðum tilboðum. Þessir vöndlar eru síðan auglýstir af miklum krafti á miðlum fyrirtækisins. Það virðist hins vegar ekki hafa skilað aukningu í seldum internettenginum. Þvert á móti fækkar þeim viðskiptavinum sem eru með tengingar hjá 365 á fyrri hluta þessa árs. Um síðustu áramót voru þeir 15.551 en voru 14.558 í lok júní.
Sex af hverjum tíu „boxum“ hjá Símanum
Í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar er nú birt í fyrsta sinn yfirlit yfir heildarfjölda áskrifenda með sjónvarp yfir IP-net. Þ.e. hvernig „sjónvarpsboxin“ skiptast á milli þeirra aðila sem bjóða viðskiptavinum sínum upp á að vera með sjónvarp í gegnum nettengingar. Þeir aðilar eru tveir, Síminn og Vodafone og þeir virðast hafa skipt markaðnum nokkuð bróðurlega á milli sín á undanförnum árum. Síminn er með um 60 prósent markaðshlutdeild en Vodafone um 40 prósent. Og þannig hefur staðan verið árum saman.
Þar skiptir ugglaust miklu máli að ekki er hægt að tengjast sjónvarpi Símans í gegnum ljósleiðaranet, sem byggst hefur upp á undanförnum árum, heldur bara sjónvarpi Vodafone. Þess í stað býður Síminn upp á svokallað ljósnet, sem tengist inn í heimili í gegnum kopartaug. Vodafone er enda með um 61 prósent markaðshlutdeild í ljósleiðaratengingum. Þar hefur 365 bætt töluvert við sig og er nú með 16 prósent hlutdeild. Hringdu er síðan með 11,7 prósent hlutdeild. Tvær af hverjum þremur ADSL-tengingum landsins eru hins vegar hjá Símanum.
Meiri harka færist í sjónvarpsmarkaðinn
Ljóst er að mun meiri harka er að færast í þennan hluta fjarskiptamarkaðarins nú en áður hefur verið, enda neysluvenjur fólks gjörbreyttar frá því sem áður var. Nú er öll áhersla á hliðrað efni, ekki línulegt, og þessi rótgrónu fjarskiptafyrirtæki eru bæði farin að bjóða upp á mikið magn af efni til kaups í gegnum sjónvarpsviðmót sitt. Þau viðmót hafa til að mynda tekið algjörlega við hlutverki myndbandsleiga sem áður voru á hverju horni á Íslandi. Nú leigir fólk myndir með því að ýta á takka á fjarstýringu frá Símanum eða Vodafone.
Auk þess á Síminn sjónvarpsstöðina SkjáEinn. Fyrirtækið steig stórt skref í baráttunni á sjónvarpsmarkaði í byrjun október þegar línuleg dagskrá SkjásEins var opnuð, öflugri (og kostnaðarsamri) vetrardagskrá var rúllað fram og áskrift að SkjáEinum gerð að áskrift í gagnvirkni efnisveitu. Með þessu herjaði Síminn á nútímasjónvarpsmarkað.
Áhorf á línulega dagskrá SkjásEins hefur tekið kipp upp á við eftir að þessar breytingar voru kynntar og ljóst að sá fríi valkostur sem frír SkjárEinn er mun hafa töluverð áhrif í baráttunni við 365 miðla um áskrifendur.
Mikil velta en töluverð fjárfesting
Fjarskiptageirinn á pípurnar sem mynda grunninn að mestu byltingu sem heimurinn hefur upplifað frá iðnbyltingunni. Það er bæði arðsamt og kostnaðarsamt.
Í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar er birt yfirlit yfir bæði heildartekjur af fjarskiptastarfsemi og þá fjárfestingu sem átt hefur sér stað í geiranum.
Tekjur af fjarskiptastarfsemi voru 26.280 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2015 og jukust um 3,3 prósent á milli ára. Haldist þessi hlutfallslega hækkun út árið verða heildartekur geirans um 54 milljarðar króna í ár, eða tæplega sex milljörðum krónum hærri en þær voru árið 2012.
Breytingarnar sem orðið hafa á undanförnum árum hafa hins vegar einnig kallað á mikla fjárfestingu. Á árunum 2012 til 2014 námu fjárfestingar í fjarskiptastarfsemi samtals rúmum 20 milljörðum króna. Á fyrstu sex árum ársins í ár námu þær 3,7 milljörðum króna.
Þetta er seinni hluti umfjöllunar Kjarnans um nýbirta skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn. Fyrri hlutann má lesa hér.