Framlög
danska ríkisins til reksturs leikhúsa, safna og tónlistarhúsa verða skorin
niður um 600 milljónir danskra króna (11.4 milljarðar íslenskar krónur) á næstu fjórum
árum. Danski menningarmálaráðherrann vill sömuleiðis að Danska útvarpið, DR,
fari í "megrunarkúr", en meirihluti dönsku þjóðarinnar er á annarri skoðun. Niðurskurður
til menningarmála og megrunarkúr heyrðust ekki nefndir fyrir kosningar segja
stjórnarandstæðingar.
Í ræðu sinni við setningu danska þingsins 6. október sagði Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra að Danmörk væri gott land, meðal þeirra bestu í heimi og það gætu Danir verið sammála um. Hann sagði jafnframt að ríkisstjórn sín, sem tók við eftir kosningarnar sl. sumar stæði frammi fyrir mörgum erfiðum viðfangsefnum. Ráðherrann boðaði aðhald á mörgum sviðum en lagði líka áherslu á að nú væri bjartara framundan í dönsku efnahagslífi.
Fyrsta stóra verkefni þingsins á hverju hausti er fjármálafrumvarpið. Þar birtast áherslur ríkisstjórnarinnar og þegar þær liggja fyrir gleðjast sumir en aðrir verða fyrir vonbrigðum. Sú ríkisstjórn sem nú situr leggur, samkvæmt frumvarpinu, mesta áherslu á heilbrigðismál, málefni aldraðra og skattalækkanir.
Minni framlög til leikhúsa og safna
Meðal þeirra sem ekki sjá ástæðu til að gleðjast yfir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru forstöðumenn dönsku ríkislistasafnanna og Konunglega leikhússins. Þeir fá að finna fyrir sparnaðarkutanum. Bertel Haarder menningarmálaráðherra hefur sagt í viðtölum að það sé skylda sín að fylgja ákvörðun ríkisstjórnarinnar en allir flokkar á þinginu samþykktu þennan hluta fjárlagafrumvarpsins, að Einingarlistanum undanskildum. Ráðherrann sagðist í viðtali við dagblaðið Politiken vona að bæði söfn, leik- og tónlistarhús verði eftir sem áður fær um að sinna því sem hann nefndi kjarnastarfsemi. "Það er þó engan veginn öruggt að þetta verði hægt" sagði ráðherrann.
Jørn Langsted sérfræðingur í
menningarhagfræði og fyrrverandi prófessor við Árósaháskóla segir hinsvegar að
það sé alveg öruggt að niðurskurðurinn hafi mikil áhrif. Hann segir það
fráleitt að ímynda sér að söfnin, leik- og tónlistarhúsin geti skorið burt
eitthvað "fitulag". Slíkt hafi aldrei verið til staðar í þessum stofnunum og niðurskurðurinn
þýði einfaldlega færri leiksýningar, sýningar ríkissafnanna færri og
fábreyttari og tónleikum fækki.
Þjóðminjasafnið dregur saman seglin
Undir Danska Þjóðminjasafnið, Nationalmuseet heyra samtals tólf söfn, flest þeirra sérsöfn, og auk þess allmörg skip. Ókeypis aðgangur hefur til þessa verið að öllum söfnum sem undir Þjóðminjasafnið heyra og ekki stendur til að þar verði breyting á. Höfuðstöðvar safnsins og jafnframt stærsta einstaka safnið er í miðborg Kaupmannahafnar, skammt frá Kristjánsborgarhöll.
Yfirstjórn Danska þjóðminjasafnsins hefur þegar gripið til aðgerða. Flotasafnið á Kristjánshöfn verður sameinað hersögusafninu við Kristjánsborg, sérsýningum ýmis konar verður hætt eða slegið á frest og í athugun er hvort sá tími sem söfnin eru opin á degi hverjum verður styttur, en þau eru flest eða öll lokuð á mánudögum. Einn af yfirmönnum Þjóðminjasafnsins sagði það dapurlegt að safnið skyldi neyðast til að draga saman seglin en ekki yrði hjá því komist. Hann vakti jafnframt athygli á að á síðasta ári komu fjórtán og hálf milljón gesta á dönsk söfn, rúmlega helmingurinn á opinberu söfnin. Hann benti líka á að gestir væru ákaflega ánægðir með opinberu söfnin, á sérstakri matsvog fengu þau 8.49 í meðaleinkunn hjá gestunum, skalinn er frá 0 -10.
Færri sýningar á Konunglega
Konunglega leikhúsið hefur um margra ára skeið glímt við rekstrarvanda. Höfuðorsakir þess vanda eru tvær. Önnur, og kannski meginskýringin, er þjóðargjöfin Óperuhúsið á Hólminum. Sjóður í eigu Mærsk-Møller fyrirtækisins, kenndur við skipakónginn A.P Møller og eiginkonu hans Chastine, færði dönsku þjóðinni Óperuna, eins og húsið heitir, að gjöf en sjóðurinn hafði áður keypt svæðið þar sem húsið stendur. Óperan var tekin í notkun með mikilli viðhöfn árið 2005. Þáverandi stjórn Konunglega leikhússins, en Óperan hluti þess frá upphafi, sagði þá strax að gjöfin væri höfðingleg og það bæri að þakka en benti jafnframt á að rekstur óperuhúss kostaði mikið fé. Ef Óperan ætti að rísa undir nafni og bjóða eigendum sínum, dönsku þjóðinni, vandaðar og góðar sýningar yrði Konunglega leikhúsið að fá aukið rekstrarfé. Þær óskir stjórnarinnar voru ekki uppfylltar nema að mjög takmörkuðu leyti og á allra síðustu árum hefur Óperan orðið að draga saman seglin, fækka uppfærslum og sýningum, setja upp fámennari verk. Auk Óperunnar, með sína tvo sali, rekur Konunglega gamla leikhúsið við Kóngsins Nýja Torg og Skuespilhuset við Nýhöfnina, með þremur sölum.
Þegar
nýráðnum leikhússtjóra Konunglega bárust niðurskurðarfréttirnr til eyrna varð
honum að orði að kannski væri bara einfaldast að selja gömlu leikhúsbygginguna
við Kóngsins Nýja Torg. Ef hagkvæmni ætti að vera leiðarljósið lægi það í augum
uppi. Leikhússtjórinn vissi auðvitað að slíkt kæmi aldrei til greina en sagði
þetta sjálfsagt fyrst og fremst til að vekja athygli á stöðu leikhússins og
skapa umræður. Í umræðum á danska þinginu lagði menningarmálaráðherrann áherslu
á að þrátt fyrir niðurskurð og sparnað vonaðist hann til að leikhúsið héldi
áfram uppi öflugri starfsemi og nefndi árin 2011 0g 2012 sem viðmiðun. Leikhúsfræðingur
sem dagblaðið Berlingske ræddi við sagði svona tal marklaust "Afleiðingarnar af
niðurskurðinum verða ódýrari og einfaldari sýningar, það veit ráðherrann,
skynugur maður, mætavel". Í umræðum á þinginu lagði Bertel Haarder áherslu á að
leikhúsið sinnti betur en verið hefur landinu öllu og nefndi auk þess
möguleikann á að fá sérstaka styrktaraðila að einstökum verkefnum. "Ágætis
hugmyndir sem hljóma vel en ekki endilega mjög raunhæfar" sagði áðurnefndur
leikhúsfræðingur um þessi orð ráðherrans.
Hvaða leiðir Konunglega leikhúsið hyggst fara til að mæta niðurskurðarkröfunum kemur væntanlega í ljós á næstu mánuðum.
Danska útvarpið og megrunarkúrinn
Það er ekki ný bóla að deilt sé um Danska útvarpið, Danmarks Radio eins og það heitir. Í daglegu tali kallað DR. Þeir flokkar sem telja sig hægra megin við miðju danskra stjórnmála hafa löngum verið háværastir í gagnrýni sinni. Sumir úr þeirra hópi telja DR alltof vinstrisinnað í fréttaumfjöllun sinni þótt aldrei hafi beinlínis verið sýnt fram á slíkt. Aðrir, og þeir eru fleiri í hópi stjórmálamanna, sem segja DR einfaldlega orðið allt of stórt á dönskum fjölmiðlamarkaði. Örar breytingar á fjölmiðlanotkun, ekki síst sjónvarpi veki líka spurningar um hvort ríkisfjölmiðillinn þurfi að vera jafn stór á markaðnum og raun ber vitni.
DR rekur nú sex sjónvarpsrásir og átta útvarpsrásir. Bertel Haarder menningarmálaráðherra telur þessa stærð merki um einokunartilburði. Í fyrra gerði þingið samkomulag um rekstur DR til næstu fjögurra ára, semsagt til árins 2018. Þar er kveðið á um þjónustuhlutverk og fjármögnun DR, og einnig um hlutverk TV2, sem er sömuleiðis í eigu danska ríkisins en er að stórum hluta fjármagnað með auglýsingatekjum. Menningarmálaráðherrann segir að hann geti ekki gert neinar breytingar á fjármögnun og rekstri DR, sé bundinn af samkomulaginu frá því í fyrra en beindi því til stofnunarinnar að huga að breytingum áður en næst verður gengið frá rekstrarsamkomulagi. Nokkrir þingmenn stjórnarflokksins Venstre og Danska Þjóðarflokksins hafa að undanförnu talað um að réttast væri að taka upp samkomulagið frá því í fyrra, með sérstöku undantekningarákvæði í því skyni að minnka umfang DR, ekki síst sem netmiðils. Mogens Jensen talsmaður Sósíaldemókrata í fjölmiðlamálum hefur bent á að slíkt tal sé fyrst og fremst í nösum viðkomandi þingmanna, og algjörlega órökstutt.
Auk þess hafi þessir þingmenn sjálfir staðið að fjögurra ára samkomulaginu í fyrra. Annars sé þetta innantómt tal, því ef beita eigi undantekningarákvæðinu um breytingar þurfi allir flokkar á þinginu að samþykkja það segir Mogens Jensen og fyrir því sé enginn vilji hjá stærsta flokki landsins, Sósíaldemókrötum. Það sé líka athyglisvert að þessir þingmenn sem nú tali um breytingar á DR hafi ekki minnst á slíkt einu orði, frekar en niðurskurð til menningarmála, fyrir kosningar enda viti þeir að slík sjónarmið eigi lítinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar.
Danska þjóðin vill óbreytt eða öflugra DR
Dagblaðið Berlingske gerði fyrir nokkrum dögum viðtæka könnun um viðhorf landsmanna til DR. Þar kom fram að meirihluti svarenda er mjög ánægður með DR og vill að það starfi áfram með svipuðum hætti og nú eða styrki sig enn frekar í sessi. Margir bentu á að það væri fyrst og fremst DR að þakka að danskir sjónvarpsmyndaflokkar skuli njóta jafn mikilla vinsælda og virðingar í löndum sem raun ber vitni.