Velta 365 dróst saman á árinu 2014 um tæplega 400 milljónir króna, skuldir fyrirtækisins jukust um tæpan milljarð króna og samtals tapaði það 1,4 milljarði króna þrátt fyrir að 445 milljónir króna hafi verið greiddir inn í nýtt hlutafé. Tapið hefði reyndar orðið hærra ef ekki hefði verið fyrir uppsafnað skattalegt tap því tap 365 fyrir tekjuskatt nam rúmlega 1,6 milljarði króna. Það er svipuð upphæð og 365 hagnaðist samtals um síðustu fjögur árin á undan.
Þá á enn eftir að færa endurálagningu skatta upp á 372 milljónir króna í rekstrarreikning 365, en sú endurálagning var staðfest af yfirskattanefnd í júlí síðastliðnum.
Sameining 365 og IP-fjarskipta, móðurfélags Tals, hefur þó skilað fyrirtækinu miklu skattahagræði. Skattainneign þess fór úr 31 milljón króna árið 2013 í 725 milljónir króna í lok síðasta árs og yfirfæranlegt skattalegt tap óx úr 2,3 milljörðum króna í 4,3 milljarða króna. Ástæðan er að mestu sú að Tal tapaði iðulega miklu fé og safnaði því upp nýtanlegu skattalegu tapi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi 365 vegna ársins 2014.
Samt sem áður er 365 að undirbúa sig undir skráningu í Kauphöll Íslands. Miðað við veltu yrði 365 minnsta skráða rekstrarfyrirtækið á markaði ef þau áform ganga eftir. Helstu eigendur 365 eru félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttir (77,8 prósent) og Auður 1 fagfjárfestasjóður (18,6 prósent). Þá á Ari Edwald, fyrrum forstjóri 365 og núverandi forstjóri Mjólkursamsölunnar, 2,4 prósent hlut í fyrirtækinu.
365 selur nettengingar,símaáskriftir og er auk þess stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins. Á meðal miðla sem 365 á er Stöð 2, Vísir.is, Bylgjan og Fréttablaðið.
Nýtti sér skattalegt tap upp á 279 milljónir
Sala 365 dróst saman á síðasta ári, fór úr um 10,5 milljörðum króna í um 10,1 milljarð króna, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi sameinast fjarskiptafyrirtækinu Tali um mitt árið og fjölgað þar með viðskiptavinum sínum í farsíma- og nettengingaþjónustu umtalsvert. Póstþjónustan, sem sér m.a. um að dreifa Fréttablaðinu, var hins vegar ekki með inni í sölutölum fyrir árið 2014 þar sem fyrirtækið var selt til nýrra eigenda á því ári.
Á sama tíma jókst kostnaðarverð seldrar þjónustu. Samanlagt orsakaði þetta að framlegð 365 dróst saman úr 3,7 milljörðum króna í 2,8 milljarða króna. Innifalið í þeim tölum eru fyrirframinnheimtar tekjur í árslok 2014. Þær eru vegna fyrirframgreiddra kreditkorta, fyrirframinnheimtra auglýsinga og fyrirframgreiddra áskriftatekna, samtals að fjárhæð 561 milljónir króna.
365 er afar skuldsett félag. Á árinu 2014 greiddi það samtals 705 milljónir króna í fjármagnsgjöld og þar af fóru 568 milljónir króna í vexti. Samtals hækkuðu vaxtaberandi skuldir 365 úr 2,7 milljörðum króna í 3,6 milljarða króna og heildarskuldir fóru úr 7,9 milljörðum króna í 8,9 milljarða króna. Í fréttatilkynningu sem 365 sendi frá sér í síðustu viku kom fram að fyrirtækið hafi nýlega ákveðið að „fara í útboð með öll bankaviðskipti sín og þar með undirbúa félagið betur fyrir mögulega skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. Í kjölfarið valdi félagið að ganga til samninga við Arion banka. Fjármagnskostnaður félagsins minnkar verulega frá árinu 2014“.
Apogee, félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, greiddi inn
445 milljónir króna í nýtt hlutafé inn í 365 á síðasta ári. Þrátt fyrir þá innspýtingu
tapaði fyrirtækið rúmlega 1,6 milljörðum króna fyrir skatta, sem er svipuð
upphæð og samanlagður bókfærður hagnaður þess á árunum 2009 til 2012 var. Þar af var rekstrartap tæpur einn milljarður króna.
365 nýtti sér hins vegar 279 milljónir króna í skattalegt tap og það lækkaði heildartap fyrirtækisins niður í um 1,4 milljarða króna.
Á síðasta ári greiddi 365 248 milljónir króna til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækisins. Þá greiddi fyrirtækið 86 milljónir króna vegna „launa, verktakagreiðslna, ráðgjafalauna og leigu til tveggja hluthafa og tengdra aðila“. Greiðslur til þessarra tveggja hluthafa vegna launa, verktöku og ráðgjafar numu því um 7,2 milljónum króna á mánuði.
Niðurfærsla á dagskrárbirgðum 682 milljónir
Í tilkynningu sem 365 sendi var út á föstudag sagði að stór hluti tapsins, alls um 1,1 milljarður króna, væri vegna endurskipulagningarkostnaðar. Í ársreikningum segir að þorri þeirrar upphæðar sé vegna niðurfærslu á dagskrárbirgðum, samtals 682 milljónir króna. Niðurfærslan sé framkvæmd vegna breytinga á meðhöndlun birgða dagskrárefnis. Þær eru nú flokkaðar sem „skammtímaeign eða langtímaeign eftir því hvenær heimilt er að sýna dagskrárefnið, framselja eða leigja á VOD leigu. Þar sem samningar við birgja innifela ekki takmörkun á hvenær efni er sýnt þá flokkast nú allar dagskrárbirgðir sem skammtímabirgðir“.
Óefnislegar eignir jukust samt sem áður um 352 milljónir króna í fyrra og námu 6,6 milljörðum króna um síðustu áramót. Alls eru 58 prósent af öllum eignum 365 óefnislegar, en þær eru að mestu viðskiptavild.
Eigið fé 365 um síðustu áramót var um 2,5 milljarðar króna um síðustu áramót, að meðtöldu hlutafé upp á 2,2 milljarða króna. Allar eignir félagsins eru veðsettar sem trygging fyrir endurgreiðslu lána og hömlur eru á viðbótarlántökur og fjárfestingar. Lánasamningar fela einnig í sér ákveðin fjárhagsskilyrði.
Í ársreikningnum stendur að stjórnendur 365 telji fyrirtækið „rekstrarhæft í fyrirsjáanlegri framtíð þrátt fyrir lágt veltufjárhlutfall og hafa lagt fram áætlanir um það“.
Viðsnúningur á árinu 2015
Í tilkynningunni kom einnig fram að viðsnúningur hafði orðið í rekstri á fyrri hluta ársins 2015. Þá hafi fyrirtækið hagnast um 106 milljónir króna. Sala hefði aukist um 24 prósent á þeim tíma og numið 5,6 milljörðum króna, sem er um 20 prósent meira en árið á undan.
Ekki var tilgreint hvaðan þær tekjur koma en í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar, sem birt var í síðustu viku, kom fram að þeim sem voru með nettengingu hjá 365 fækkaði á fyrri hluta ársins 2015 um tæplega eitt þúsund. Viðskiptavinum í farsímaþjónustu fjölgaði á móti um rúmlega eitt þúsund frá miðju ári 2014 en fyrirtækið er með 3,7 prósent hlutdeild á þeim markaði. Í ársreikningi 365 er ekki tilgreint hversu margir áskrifendur eru að áskriftastöðvum 365, en á meðal þeirra eru Stöð 2 og íþróttastöðvar hennar.
Lestur Fréttablaðsins, víðlesnasta dagblaðs landsins, hefur dregist mikið saman á undanförnum árum. Það sem af er árinu 2015 hefur lesendum þeirra fækkað úr því að vera 53,2 prósent landsmanna í 50,01 prósent.
Þurfa að greiða 372 milljónir í vangreidda skatta
Til viðbótar við ofangreint þarf 365 að greiða 372 milljónir króna vegna endurálagningar skatta.
Endurálagninguna má rekja aftur til nóvember 2008 þegar félag sem hét Rauðsól, og var þá í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (eiginmanns Ingibjargar Pálmadóttur), keypti alla fjölmiðla 365 af 365 ehf. á 1,5 milljarð króna og með yfirtöku á hluta af skuldum félagsins. Gamla 365 ehf., sem var endurnefnt Íslensk afþreying ehf., fór í þrot og kröfuhafar þess töpuðu 3,7 milljörðum króna.
Þann 3. apríl 2014 sendi ríkisskattstjóri boðunarbréf til 365 þar sem fram kom að fyrirtækinu hefði ekki verið heimilt að nýta sér skattalegt tap sem myndaðist hjá félaginu Rauðsól ehf. áður en það sameinaðist 365, og draga það frá skattgreiðslum, líkt og fyrirtækið hafði þá gert árum saman.
Endurálagningin byggir á túlkun skattayfirvalda á því hvað megi gera þegar svokallaðir öfugir samrunar eiga sér stað. Þá kaupir félag, í þessu tilfelli Rauðsól ehf., rekstrarfélag með skuldsetri yfirtöku, og sameinar síðan félögin tvö. Rekstarfélagið er þá farið að greiða skuldirnar sem stofnað var til þegar það var keypt. Þetta kallast öfugur samruni.
Mörg fyrirtæki á Íslandi hafa litið svo á að við slíka sameiningu séu vaxtagjöld af lánunum sem tekin voru vegna svona samruna séu frádráttarbær frá skatti. Skattayfirvöld hafa verið þessu ósammála og Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu í Toyota-málinu svokallaða að skilningur þeirra sé réttur. Í því máli reyndi Toyota á Íslandi að fá endurálagningu skattayfirvalda hnekkt fyrir dómi, en Hæstiréttur sýknaði íslenska ríkið.
Skúli Eggert Þórðason, ríkisskattstjóri, hefur sagt í fjölmiðlum að hann líti á dóminn sem fordæmisgefandi og að hann gæti haft áhrif á mörg íslensk fyrirtæki sem hefðu farið í gegnum öfugan samruna. Húsasmiðjan hefur til að mynda þegar greitt um 700 milljónir króna vegna þessa, búið er að enduráleggja milljarða króna á Icelandair Group, Ölgerðina og Símann. Síminn tapaði máli gegn íslenska ríkinu vegna þessa fyrir héraðsdómi í lok október.
Skattaskuldin ekki gjaldfærð
365 hefur nýtt sér skattalegt tap sem myndaðist hjá Rauðsól ehf., sem í dag heitir 365 miðlar ehf., og dregið vaxtagjöld af lánum sem notuð voru til að kaupa fjölmiðla 365 í nóvember 2008 frá skattgreiðslum. Í ársreikningi fyrirtækisins vegna ársins 2013 stóð að ef málið myndi tapast gæti það „haft veruleg áhrif á eiginfjár- og langtímastöðu félagsins“.
365 hefur ekki sætt sig við endurálagninguna og kærði ákvörðun hennar til yfirskattanefndar. Þann 9. júlí 2015, á síðari hluta þess árs, komst hún að þeirri niðurstöðu að endurálagningin væri réttmæt og að 365 skuldaði 372 milljónir króna í skatta.
Þessa upphæð hefur 365 ekki gjaldfært í rekstrarreikningi, þar sem fyrirtækið telur niðurstöðu yfirskattanefndar vera ranga og ætlar með málið fyrir dómstóla. Í ársreikningi þess segir samt sem áður að 365 hafi „samið við innheimtumann ríkissjóðs um dreifingu viðbótarskattlagningarinnar og vinnur að samkomulagi um fjármögnun hjá fjármálastofnunum vegna framangreindra viðbótargreiðslna".