Áform Reykjavíkurborgar, um að ná fram 670 milljóna hagræðingu í skóla- og frístundarstarfi, hefur leitt til mikils titrings og óánægju inn í skólakerfi borgarinnar, samkvæmt heimildum Kjarnans. Skólastjórnendur óttast að þessi mikla hagræðingarkrafa muni höggva beint í faglegt starf, og bitna þannig á börnum í skólum beint. Sérstaklega óttast skólastjórnendur að sérkennsla geti skorist verulega niður.
Ber hratt að
Fjárhagsáætlanir skólanna, sem þar sem skólastarfinu eru settar fjárhagslegar skorður, hafa ekki verið uppfærðar í samræmi við hraða hækkun launa kennara en á næstu þremur árum munu þau hækka um á bilinu 20 til 30 prósent, sé miðað við samninga sem undirritaðir voru í fyrra og á þessu ári. Í ljósi þess að launakostnaður er langsamlega stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri skólastarfsins, þá kemur hækkunin hratt inn í grunnrekstur, sem setur fjárhagsáætlanir úr skorðum, nema að gripið verði til niðurskurðar. Þar koma helst til greina uppsagnir á starfsfólki, og fjölgun nemenda í bekki, en slíkt vilja skólastjórnendur forðast enda víða fullskipað í skóla, sé mið tekið af almennum viðmiðum um fjölda á hvern kennarra.
Krafa um 1,8 milljarða hagræðingu
Stefnt er á að afgreiða fjárhagsáætlun fyrir næsta ár í dag, en fram hefur komið í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra að gerð sé krafa um 1,8 milljarða hagræðingu í rekstri, til þess að ná endum saman í grunnrekstrinum. Miklar launahækkanir hjá starfsfólki borgarinnar, sem samið hefur verið um, munu hafa mikil áhrif á grunnrekstur borgarinnar, og fyrirséð að verðskrár borgarinnar, þegar kemur að ýmissi þjónustu, munu vafalítið endurskoðast upp á við.
8,7 milljarða skekkja
Samkvæmt rekstrarniðurstöðu Reykjavíkurborgar á fyrstu níu mánuðum ársins þá var 2,4 milljarða króna tap af rekstrinum, en í áætlunum hafði verið gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 6,3 milljarða króna.
Rekstrarniðurstaða A-hluta starfseminnar, þar sem grunnreksturinn er, var neikvæð um 8,5 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 287 milljónir á tímabilinu. Lakari afkoma skýrist að langstærstum hluta af gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga upp á tíu milljarða króna, eða um 8,3 milljörðum króna umfram áætlum.
Grunnreksturinn samt þungur
Rekstrarniðurstaða án gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar var jákvæð um 1,5 milljarða, sem er 503 milljónum króna lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Launahækkanir, sem nú hefur verið samið um, munu síðan stöðuna enn erfiðari, og þrýsta á um hagræðingu í rekstri.
Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar byggist á uppfærðu mati á gjaldfærslu fyrir árið 2015. Þar er lagt mat á áhrif launa-, verðlags- og vaxtaþátta og að auki er gert ráð fyrir að við uppgjör lífeyrissjóða fyrir árið 2015 verði notaðar breyttar forsendur um lífslíkur sem leiða til hækkunar gjaldfærslu.
Fram hefur komið í máli Dags B. Eggertssonar, að hann vonist eftir því að það takist að koma rekstrinum á réttan kjöl, en ljóst sé að það sé krefjandi verkefni, meðal annars vegna þess að stórir liðir í kostnaði, eins og laun, séu að hækka skarpt á skömmum tíma.