Afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu íslenska félagsins Fáfnis Offshore, hefur verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars á næsta ári en samkvæmt nýju samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS, sem skrifað var undir í gær, mun afhending þess frestast fram til júnímánaðar 2017. Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Fáfnis Offshore, staðfestir þetta í samtali við Kjarnann. Á meðal þeirra sem hafa fjárfest háum fjárhæðum í Fáfni Offshore eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Fáfnir Offshore sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla auk annarra verkefna á norðlægum slóðum. Framkvæmdastjóri og einn stærsti eigandi félagsins er Steingrímur Erlingsson, en hann stofnaði félagið árið 2012.
Hrun á heimsmarkaðsverði = engin verkefni
Heimildir Kjarnans herma að ástæða frestunarinnar á afhendingu á nýja skipinu sé einföld: ástandið á olíumarkaði hefur leitt til þess að engin verkefni séu til staðar fyrir skip eins og Fáfni Viking, sem á að þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó. Í júní 2014 var heimsmarkaðsverð á tunnu af Brent-olíu 115,9 dalir. Nú kostar hún 40,74 dali og hefur því lækkað um 65 prósent á tæpu einu og hálfu ári.
Fáfnir Viking á að verða tvinnskip sem verður meðal annars knúið rafmagni. Skipið fékk umhverfisverðlaun á Offshore Support Journal ráðstefnunni fyrr á þessu ári.
Fáfnir Offshore á einnig skipið Polarsyssel, sem var kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða um birgðaflutninga og öryggiseftirlit. Upphaflega gekk sá samningur út á að sýslumannsembættið hefði skipið til umráða að lágmarki í 180 daga á ári, eða sex mánuði. Hina sex mánuði ársins stóð til að nota skipið í verkefni tengdum olíu- og gasiðnaðinum í Norðursjó. Þau verkefni hafa hins vegar horfið undanfarið ár, samhliða hinni miklu lækkum á heimsmarkaðsverði á olíu.
Í október síðastliðnum var því gerður nýr samningur við sýslumannsembættið á Svalbarða. Hann tryggir Polarsyssel verkefni í níu mánuði á ári. Þessi samningur er eina verkefni Fáfnis Offshore sem stendur.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga mikið undir
Í nóvember 2014 var Steingrímur Erlingsson, framkvæmdastjóri Fáfnis Offshore, viðmælandi á fræðslufundi VÍB, sem er hluti af Íslandsbanka. Þar sagði hann meðal annars að Fáfnir Offshore stefndi að því að vera með 3-4 skip í rekstri á næstu árum. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að neðan.
Skömmu eftir að VÍB tók viðtal við Steingrím, nánar tiltekið í desember 2014, var tilkynnt að Akur fjárfestingar, framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða, sjóðsstýringarfyrirtækis Íslandsbanka, hefði keypt 30 prósent hlut í Fáfni Offshore fyrir 1.260 milljónir króna. Helstu eigendur sjóðsins eru lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og VÍS.
Áður höfðu ýmsir fjárfestar komið að félaginu, meðal annars stjórnarformaðurinn Bjarni Ármansson, fyrrum bankastjóri Glitnis, í gegnum fjárfestingafélag sitt Sjávarsýn. Þá á félag tengt Havyard ship skipasmíðaverksmiðjunni, sem smíðar bæði skip Fáfnis Offshore, hlut í félaginu. Það á Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, sjóðsstýringarfyrirtækis Landsbankans, líka. Helstu fjárfestarnir í Horni II eru íslenskir lífeyrissjóðir. Horn II á í dag 23,1 prósent hlut í Fáfni Offshore.
Tugum skipa hefur verið lagt
Þjónustmarkaður fyrir olíuiðnaðinn í Norðursjó hefur hrunið undanfarið rúmt ár. Tugum skipa sem gerðu út á þennan markað, sem alþjóðlega nefnist „Offshore“-markaðurinn, hefur verið lagt vegna þess að það eru ekki verkefni til staðar fyrir þau og oliuborpöllum í Norðursjó hefur fækkað mikið. Ástæðan er sú að olíuverð hefur lækkað svo mikið- það hefur lækkað úr 116 dölum í 40 dali á einu og hálfu ári – að það svarar ekki kostnaði að vinna olíuna úr þeim lindum sem þar er að finna.
Offshore-borpöllum í Norður-Ameríku hefur einnig fækkað skarpt á þessu tímabili. Frá nóvember 2014 og til loka sama mánaðar í ár fækkaði þeim úr 54 í 30.
Fáfnir Offshore tapaði 3,4 milljónum norskra króna á síðasta ári, eða um 52 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Velta félagsins í fyrra var 33,2 milljónir norskra króna, eða rúmlega hálfur milljarður íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Fáfnis Offshore fyrir árið 2014.