Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur það grundvallaratriði að umboðsmanni Alþingis verði gert kleift að starfa faglega og að embættið fái nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnum verkefnum sínum með þeim hætti sem hann telur fullnægjandi.
Nefndin telur einnig að sú forgangsröðun sem umboðsmaður sýndi í lekamálinu, og opinber birting á bréfum til ráðherra, sem forystumenn ríkisstjórnarinnar hnýttu í við meðferð málsins, hafi verið eðlilegt verklag. Hún telur það vera grundvallaratriði að umboðsmanni verði tryggð 15 milljóna króna aukafjárveiting til að geta ráðist í frumkvæðismál sem séu „mikilvægur þáttur í starfi umboðsmanns og því hlutverki sem hann gegnir í að auka réttaröryggi borgaranna.“
Þetta kemur fram í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014, sem birt var í dag. Athygli vekur að einhugur er í nefndinni. Allir nefndarmenn, sem koma úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi, skrifa undir álitið. Líka þeir sem tilheyra stjórnarflokkunum tveimur.
Stendur til að skera niður en nefndin vill auka framlög
Samkvæmt fyrirliggjandi breytingartillögu á fjárlagafrumvarpi næsta árs verða framlög til embættisins skorin niður um 13 milljónir króna frá upprunalegu fjárlagafrumvarpi, og er það rökstutt með því að húsnæðiskostnaður embættisins muni lækka. Sú tillaga var lögð fram í byrjun desember.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, mætti hins vegar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í nóvember, áður en breytingartillagan var lögð fram, til að gefa skýrslu um starfsemi
embættisins á árinu 2014. Þar kom m.a. fram að frumkvæðismálum hefði fækkað
verulega hjá embættinu undanfarin ár vegna aukins málafjölda og álags. Nokkur
frumkvæðismál bíða afgreiðslu en ekkert
slíkt mál hefur formlega verið
tekið fyrir á þessu ári en verið er að ljúka einu máli. Í áliti nefndarinnar
segir: „ Umboðsmaður lagði á fundinum áherslu á að það er Alþingis að
ákveða hvaða umfang sé á starfsemi umboðsmanns og að ef vilji er til þess að
unnt sé að sinna frumkvæðismálum þurfi að auka fjármagn til umboðsmanns með 15
millj. króna aukafjárveitingu. Nefndin telur í ljósi þess hve frumkvæðismál eru
mikilvægur þáttur í starfi umboðsmanns og því hlutverki sem hann gegnir í að
auka réttaröryggi borgaranna sé það grundvallaratriði að embættið fái
fjárveitingu til að geta sinnt þessu mikilvæga verkefni.“
Forystumenn ríkisstjórnarinnar gagnrýndu umboðsmann harðlega
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi vinnubrögð umboðsmanns Alþingis harðlega í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í ágúst 2014, nokkrum mánuðum áður en hún sagði af sér embætti vegna lekamálsins. Í yfirlýsingu hennar sagði meðal annars að bréf sem umboðsmaður hafði sent henni daginn áður vegna lekamálsins, og hann birti daginn eftir opinberlega, væri fullt af aðdróttnunum og tengingum sem hafi bent til þess að Tryggvi hefði þegar mótað sér skoðun í málinu.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, deildu einnig á umboðsmann fyrir að birta umrætt bréf opinberlega, en í því var að finna afhjúpandi frásögn Stefáns Eiríkssonar, þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, af ítrekuðum afskiptum og þrýstingi sem Hanna Birna beitti hann vegna lögreglurannsóknar á lekamálinu. Bjarni gerði „alvarlegar athugasemdir“ við birtingu bréfsins.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ræðir í áliti sínu um samhengi fjárveitinga til umboðsmanns Alþingis og stöðu framkvæmdarvaldsins í tengslum við frumkvæðisathugun á lekamálinu svokallaða sem hafði grundvallaráhrif í stjórnsýslunni. Í áliti hennar segir að við meðferð málsins „hnýttu forustumenn ríkisstjórnarinnar í forgangsröð umboðsmanns og opinbera birtingu á bréfum til ráðherra en það var litið til annarra embætta á Norðurlöndum við það verklag. Nefndin telur það eðlilegt verklag sérstaklega þegar litið er til þess að umboðsmaður hefur engin þvingunarúrræði heldur er gengið út frá því að framkæmdarvaldshafar og stjórnsýslan öll veiti umboðsmanni þær upplýsingar sem hann óskar eftir. Nefndin tekur því fram að það er grundvallaratriði að umboðsmaður fái nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnum verkefnum sínum með þeim hætti sem hann telur fullnægjandi.“
Því er ljóst að nefndin lýsir sig ósammála þeirri gagnrýni sem sett var fram á umboðsmann Alþingis af forystumönnum ríkisstjórnarinnar í ágúst 2014.
Einhugur þvert á flokka
Í janúar birti umboðsmaður niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar segir hann að ráðherrann, sem þá hafði þegar sagt af sér embættið, hafi gengið langt út fyrir valdsvið sitt í málinu. Hún hafi haft ítrekuð og mikil afskipti af rannsókn lekamálsins, sem snérist um leka þáverandi aðstoðarmanns hennar, Gísla Freys Valdórssonar, á upplýsingum um um hælisleitendur til valinna fjölmiðla. Gísli Freyr hlaut átta mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir lekann í nóvember 2014.
Tryggvi kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í kjölfarið til að fara yfir lekamálið, niðurstöðu sína og svara spurningum nefndarmanna. Þar sagði hann m.a.: „Kerfið virkaði, þetta mál sýnir það.“
Karl Garðarsson,
þingmaður Framsóknarflokksins, sat á þessum tíma í nefndinni, en gerir það ekki
lengur. Hann gagnrýndi umboðsmann Alþingis fyrir að birta opinberlega bréf sitt
til Hönnu Birnu, þar sem samskipti hennar við Stefán Eiríksson voru rakin, og
sagði: „Þarna varstu farinn að reka málið í fjölmiðlum“. Tryggvi
svaraði því til að það væru upplýsingalög í gildi í landinu sem segðu til um
að almenningur hefði rétt á því að vita af þessum samskiptum og sjá hvernig
þeim væri háttað.