Frá miðju ári 2008 hafa stýrivextir í Bandaríkjunum verið 0,25 prósent. Grundvallarröksemdin fyrir lágum vöxtum í þetta langan tíma, það er rúmlega sjö ár, er sú að hagkerfið þarf á „súrefni“ að halda til að geta náð viðspyrnu eftir erfiðleikana sem fylgdu fjármálakreppunni sem náði hámarki á árunum 2007 til 2009. Líkja má vaxtastefnunni undanfarin ár við hjálpardekk á hjóli, þar sem ódýrt fjármagn og örvunaraðgerðir seðlabankans hafa stutt við fjármálakerfi og verðbréfamarkaði í uppbyggingu, eftir djúpa kreppu. Þegar vaxtahækkunin á sér stað, vilja margir meina að alvara lífsins taki við á fjármálamörkuðum, og þá muni koma í ljós, smátt og smátt, hversu sterkur alþjóðabúskapurinn er í reynd.
Seðlabanki Bandaríkjanna, með Dr. Janet Yellen seðlabankastjóra í broddi fylkingar, heldur síðasta vaxtaákvörðunarfund sinn á árinu dagana 15. til 16. desember, og mun þá skýrast hvort það er tilefni til þess að hefja vaxtahækkunarferil eða ekki. Þessi atburður markar tímamót fyrir hinn alþjóðavædda viðskiptaheim enda Bandaríkjadalur útbreiddasta og stærsta mynt heimsins. Um mitt þetta ár var 63,8 prósent af heildargjaldeyrisforða heimsins í Bandaríkjadal. Næst á eftir kemur evra en 20,5 prósent af gjaldeyrisforða þjóðríkja.
Innanlands og utan
Sjónarmiðin sem Seðlabanki Bandaríkjanna þarf að taka tillit til eru mörg. En í grófum dráttum má skipta þeim í þau sem teljast til hagfræðilegra þátta innanlands annars vegar, og síðan atriða sem tengjast þróun efnahags- og stjórnmála utan Bandaríkjanna. Þar getur verið snúið að vega hagsmuni og meta.
Viðspyrnan hafin
Alveg frá því í byrjun árs 2009, þegar Barack Obama tók við sem forseti af George W. Bush, hefur stærsta verkefni stjórnvalda verið endurreisn efnahagsins. Á skömmum tíma fór atvinnuleysi upp í tæplega 10 prósent, árið 2010, og almennur slaki einkenndi efnahaginn. Frá þeim tíma hefur leiðin legið upp á við. Atvinnuleysi er komið niður í fimm prósent og hagvaxtartölur þykja góðar, og horfur stöðugar. Hagvöxturinn verður líklega á bilinu tvö til þrjú prósent á þessu ári, og samsetning hans þykir æskileg.
Þjóðarskuldir Bandaríkjanna halda þó áfram að hækka, en þær nema í daga 18,7 trilljónum Bandaríkjadala. Reglulega hafa sprottið upp deilur í Bandaríkjaþingi vegna þess að skuldaþakið þarf að hækka, svo að rekstur hins opinbera geti haldið áfram. Til þessa hefur ávallt verið samþykkt að hækka skuldaþakið, þannig heldur áfram sú staða sem telja má vera eyðslu um efni fram. Opinberar skuldir í Bandaríkjunum nema nú tæplega 75 prósent af árlegri landsframleiðslu.
Mikil ávöxtun á verðbréfamörkuðum
En því er ekki að leyna að lágvaxtaumhverfið undanfarið ár hefur skapað um margt sérstakar aðstæður á verðbréfamörkuðum. Vísitala Nasdaq hlutabréfamarkaðarins hefur meira en þrefaldast á fimm árum, og gengi margra einstakra félaga hefur verið langtum betra. Sá fjárfestir sem keypti hlutabréf sem tengd voru ávöxtun vísitölunnar fyrir 100 milljónir árið 2010 á tæplega 330 milljónir í dag. Það telst góð ávöxtun á fimm árum.
Sérfræðingar hafa margir hverjir velt því fyrir sér, hvort hið langa lágavaxtaumhverfi hafi haft þau áhrif, að bóla hafi myndast á hlutabréfamarkaði hér í Bandaríkjunum. Ódýrt sé að taka áhættu með lántöku, og endurfjármögnun sé auðveld. Þetta geti blindað mönnum sýn, þegar fjármagnskostnaður byrjar að hækka, eins og nú er stefnt að. Seðlabanki Bandaríkjanna telur þó að nægileg efirspurn sé í grunnhagkerfinu til þess að mæta þeim skammtímaáhrifum sem hækkun vaxta geti haft á fjármálamarkaði. Hefðbunin lántaka heimila, svo sem húsnæðislán, bílalán og viðhaldslán, muni verði ekki dýrari við 0,25 prósent stýrivaxtahækkun, nema þá í undantekningartilvikum. Frekar eru það fyrirtæki, sjóðir og þjóðríki sem munu finna beint fyrir hækkun fjármagnskostnaðar, en óbeinu áhrifin er það sem helsta óvissan ríkir um. Hugsanlega gæti vaxtahækkun stuðlað að færslu fjármagns af hlutabréfamarkaði inn á skuldabréfamarkað, í ljósi hærri vaxta, en vandi er þó um slíkt að spá.
Þrýst á um að halda vöxtum niðri
Wall Street Journal, sem þekkt er fyrir vönduð skrif um gang mála á fjármálamarkaði, segir að fjárfestar telji nær öruggt að stýrivextir verði hækkaðir úr 0,25 prósent í 0,5 prósent síðar í mánuðinum. Samkvæmt könnun blaðsins meðal hagfræðinga voru um 80 prósent þeirra á því að Seðlabankinn myndi skaða orðspor sitt ef vextir yrðu ekki hækkaðir, í ljósi yfirlýsinga sem helstu stjórnendur bankans, þar á meðal Yellen sjálf, hafa gefið út. Þegar hún ræddi við nefndarmenn efnahagsnefndar Bandaríkjaþings, í síðasta mánuði, mátti heyra á henni að undirbúningur vegna vaxtahækkunar væri langt kominn. Eða í það minnsta voru orð hennar túlkuð á þann veg, meðal helstu álitsgjafa og sérfræðinga á mörkuðum hér í Bandaríkjunum.
Strax í byrjun ársins gaf Yellen út þá yfirlýsingu, á líklega yrðu vextir hækkaðir á þessu ár, og gaf flest til kynna að það yrði um mitt ár. Í raun hafa hagtölur í Bandaríkjunum ekki mikið breyst frá þeim tíma, nema þá til hins betra. Atvinnuleysi minnkað og grunnstoðir hagkerfisins styrkst.
Á meðan út í heimi
Það sem helst hefur þótt snúið fyrir Seðalbanka Bandaríkjanna í aðdraganda vaxtahækkunarferilsins er að meta hver áhrifin verða í hinum ýmsu löndum heimsins, sem hafa mikilla hagsmuni að gæta í Bandaríkjadal, meðal annars vegna opinbera skulda í Bandaríkjadal. Mörg nýmarkaðsríki ganga nú í gegnum mikla erfiðleika, einkum olíuframleiðsluríki og þau sem eiga mikla hagsmuni undir sölu hrávara inn á Kínamarkað. Olíuverð hefur lækkað hratt á undanförnu áru, og fleiri hrávörur einnig. Þetta hefur leitt til efnahagshruns í stórum löndum eins og Brasilíu, með 200 milljónir íbúa, og Nígeríu, þar sem búa 187 milljónir manna. Brasilía er stærsta ríki Suður-Ameríku og Nígería fjölmennasta ríki Afríku.
Hækkun fjármagnskostnaðar á skuldbindingum í Bandaríkjadal getur hafta alvarlegar afleiðingar fyrir ríki í viðkvæmri stöðu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hvatt Seðlabanka Bandaríkjanna til þess að fara varlega í vaxtahækkunum, og huga vel að stöðu mála í heimsbúskapnum, í ljósi þess að stýrivextir séu afar áhrifamiklir þegar kemur að flæði fjármagns á alþjóðamörkuðum. Hún væri viðkvæm, meðal annars vegn stríðsátaka, óróa í stjórnmálum og vaxandi erfiðleika hjá mörgum hrávörustórveldum. Þá væri komnar fram vísbendingar um minnkandi eftirspurn í Kína, og ef slík þróun heldur áfram þá gæti að haft mikil áhrif á þróun mála í heiminum öllum.
Hvað með áhrifin á Ísland?
Mitt á milli Ameríku og Evrópu er Ísland að rísa upp eftir mikinn öldudal í kjölfar efnahagshrunsins. Hagvöxtur mældist 4,6 prósent á fyrstu níu mánuðumársins, sem er með því mesta sem gerist meðal þróaðra ríkja í augnablikinu, og atvinnuleysi er með minnsta móti, eða 3,8 prósent. Þá mælist verðbólga tvö prósent og stýrivextir með þeim allra hæstu í heimi, 5,75 prósent.
Ísland hefur gert upp skuldir sínar í Bandaríkjadal við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og framundan eru aðgerðir til að losa um fjármagnshöft, eins og kunnugt er.
Ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna um að hækka vexti, hvort sem það gerist á síðasta vaxtaákvörðunardegi ársins eða í byrjun næsta árs, hefur líklega ekki bein áhrif á efnahag Íslands. Áhrif á alþjóðlega fjármálamarkaði gætu verið þó nokkur, einkum þegar kemur að vaxtakjörum og aðgengi ríkja að fjármagni. Mestu áhrifin felast þó líklega í skilaboðum um að mestu erfiðleikarnir, sem rekja má til fjármálakreppunnar á árunum 2007 til 2009, séu að baki.
Að mörgu leyti stendur Ísland vel um þessar mundir, í samanburði við aðrar þjóðir, og þarf ekki að kvíða því að vaxtakostnaður vegna skulda í Bandaríkjadal hækki og verði íþyngjandi, eins og mörg önnur ríki. En eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á, getur vaxtahækkunin í Bandaríkjunum kallað fram áhrif sem erfitt er að sjá fyrir. Og þar er allt alþjóðamarkaðssvæðið undir.