Kynslóðirnar sem sáu fyrstu Star Wars myndirnar í bíó sem börn undirbúa sig nú til að fara með börnin sín, eða jafnvel barnabörnin, í kvikmyndahús í dag eða á næstu dögum til að berja nýjustu myndina í þessum vinsælasta geimævintýrabálki sögunnar augum. Flestir bera barnslega von í brjósti að myndin verði afturhvarf til gömlu myndanna þriggja og eins fjarri Jar Jar Binks-lituðu vonbrigðunum sem George Lucas, hugmyndasmiður Star Wars, bar á borð fyrir áhangendurna á árunum 1999 til 2005.
Þær vonir hafa fengið byr undir báða vengi með þeim stiklum sem sýndar hafa verið úr myndinni, og þeim dómum sem þegar hafa verið birtir. Ljóst er að Disney, sem keypti réttinn að Star Wars af Lucasfilm árið 2012, ætlar sér sannarlega að spila á þá fortíðarþrárstrengi til að ná til baka fjárfestingu sinni í verkefninu. Fregnir herma raunar að von sé á einni mynd á ári næstu sex árin ásamt breiðustu vörulínu af leikföngum sem nokkru sinni hefur verið gefin út.
Pólitík í vetrarbraut langt langt í burtu
Vegna þess að Star Wars nær til svo margra, og hefur náð að verða aðdráttarafl fyrir nýjar og nýjar kynslóðir áratugum saman, þá er auðvitað búið að greina myndirnar niður í öreindir. Ein af skemmtilegri umræðum sem hægt er að finna um þennan gervi-geimheim snýst um pólitíkina í vetrarbrautinni langt, langt í burtu. Seinni trílogían, sem átti að gerast á undan fyrri trílogíunni, snérist að stóru leyti um þessar pólitísku átakalínur sem áttu sér stað innan Vetrarbrautarlýðveldisins (e. Galactic Republic) sem varð til þess að það breyttist í í Vetrarbrautarheimsveldið (e. Galactic Empire) og leiddi til þess að andspyrnubandalagið (e. Rebel Alliance) var myndað sem mótafl.
Stjórnskipan innan þessara bákna hefur þótt nokkuð óskiljanleg og Seth Masket, aðstoðarprófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Denver sagði við npr-útvarpsstöðina í vikunni að hann efaðist um að George Lucas skildi hana sjálfur. Masket, sem hefur skrifað um stjórnmál Star Wars árum saman, segir að það sé erfitt að ímynda sér að það stjórnkerfi sem kynnt er til leiks í myndunum myndi endast í þúsund daga, og hvað þá þúsundir ára eins og lagt er upp með í myndunum.
En í mjög stuttu máli snérist þessi fyrsti kafli, sem sýndur var við mjög misjafnar vinsældir um síðustu aldarmót, um hvernig öldungardeildarþingmaðurinn Palpatine sölsar undir sig völd löggjafavaldsins og breytir lýðveldinu í einræðisherrarekið heimsveldi og sjálfan sig að keisara þess. Í geimnum.
Er góða liðið vonda liðið?
Fyrir þá sem ólust upp með myndum 4-6, sem frumsýndar voru öðru hvorum megin við árið 1980, var engin vafi um hver væri hin pólitíska staða í þeim. Annars vegar er andspyrnuhreyfingin með sína Jedi-riddara og góða Máttinn (e. the Force) í sínu liði og hins vegar er Vetrarbrautarheimsveldið með þá sem hafa umfaðmað myrkrarhluta Máttsins í aðalhlutverki. Þessar andstæður birtast auðvitað skýrast í feðgunum Luke Skywalker, hinum bjarta, hárblásna og góða frelsara andspyrnuhreyfingarinnar, og Anakin Skywalker/Darth Vader, svarta hjálm- og skikkjuklædda hálfmanninum sem er einn þekktasti holdgervingur þess illa sem fyrirfinnst í kvikmyndasögunni. Þær birtast einnig í leiðtogum mannanna tveggja. Annar er litli, græni, skakktalandi, krúttdvergurinn Yoda á meðan að hinn er hin gultennta og hættuklædda andstyggð keisarinn Palpatine. Báðir bera útlitslega með sér að vera augljóslega góðir eða vondir.
En er þetta svona klippt og skorið? Um það er alls ekki eining. Þegar önnur myndin í seinni trílogíunni var sýnd árið 2002 skrifaði Jonathan V. Last fræga grein í the Weekly Standard þar sem hann færði rök fyrir því að þessu væri raunar öfugt farið: Heimsveldið væru góðu gæjarnir en andspyrnuhreyfingin þeir vondu. Hann hélt því meðal annars fram að Palpatine hefði sölsað undir sig völd til þess að viðhalda friði og stöðugleika í vetrarbrautinni, eftir að lýðveldið var farið að missa tökin undir stjórn skriffinna og hinna sjálfumglöðu Jedi-riddara sem fá Mátt sinn í erfðir eins og fínt konungsborið fólk. Markmið heimsveldisins væri ekki að gera alla íbúa vetrarbrautarinnar að þrælum sínum eða að breiða út eitthvað óskilgreint illt. Það væri að viðhalda reglu.
Sigur andspyrnuhreyfingarinnar, sem verður að veruleika eftir stórkostlega geimorrustu og dauða bæði Palpatine og Svarthöfða, felur hins vegar í sér að völdin yfir vetrarbrautinni færast frá hinu miðstýrða regluveldi yfir til svæðisbundinna héraðsstjóra, sem hafa aðgang að her og geimskipum, til að halda almúganum á hverju svæði fyrir sig í skefjum. Þetta kraðak er síðan með óljós tengsl við endurreist konungsveldi þar sem Leia prinsessa er táknrænn leiðtogi.
Last líkti ástandinu í vetrarbrautinni við Sómalíu skömmu eftir aldarmót: landi stjórnað af staðbundnum stríðsherrum sem heyra ekki undir neinn og þurfa ekki að svara fyrir verk sín. Í myndunum sé aldrei lögð fram nein skýr stefna um hverskonar stjórnskipun eigi að taka við þegar heimsveldi Palpatine hefur verið fellt. Þess í stað blasi við stjórnskipunarleg ringulreið.
Niðurlagið í greininni er svona: „Þetta gerir andspyrnumennina – hetjur Lucas – að tilkomulitlum hópi stjórnlausra konungssinna sem eyðileggja vetrarbrautina svo Leia prinsessa geti fengið kórónuna sína aftur“.
Auðvitað átti að sprengja Alderaan
Sonny Bunch skrifaði mjög áhugaverða framhaldsgrein sem byggir á sömu hugmyndafræði í The Washington Post í október síðastliðnum. Þar leggur hann út frá því að heimsveldið hafi verið í fullum rétti þegar það sprengdi Alderaan, heimaplánetu Leiu prinsessu, í fyrstu Star Wars-myndinni sem var sýnd.
Engar forsendur séu fyrir því að taka orð Leiu, njósnara andspyrnuhreyfingarinnar og þekkts uppreisnarleiðtoga, um að Alderaan hafi verið vopnlaus og friðsöm pláneta og því ekki haft neitt hernaðarlegt mikilvægi trúanleg. Þvert á móti rekur Bunch nokkrar lygar hennar í gegnum myndirnar og kemst að þeirri niðurstöðu að heimsveldið hafi verið í fullum rétti við að sprengja hernaðarlegt skotmark í loft upp. Sú sýn sem Lucas hafi boðið upp á í myndinni, að árásin á plánetuna væri hreint illskuverk, sé fyrst og fremst áróðursbragð.
Er Star Wars hryðjuverkaáróður?
Ein skemmtilegasta greiningin á Star Wars sem sett hefur verið fram á þessum grunni birtist síðan á vefnum Decider fyrir nokkrum dögum. Þar er því haldið fram að margt í þroskaferli Luke Skywalker í gegnum myndirnar sé mjög sambærilegt því sem hryðjuverkamenn öfgatrúarafla í nútímanum ganga í gegnum. Fyrsta trílógía Star Wars sé í raun saga Luke Skywalker frá eðlilegheitum til öfgafullrar róttækni.
Þegar Luke er fyrst kynntur til sögunnar er hann munaðarlaus sveitastrákur sem á varla nokkra vini og býr hjá frænda sínum og frænku en langar í geimherinn. Í grein Decider er bent á að Luke hafi ekki orðið geimhryðjuverkamaður á einni nóttu, en að hann hafi búið yfir öllum þeim kostum sem nýliðasafnarar hryðjuverkasamtaka leita að. Anthony Stahelski lýsir þeim kostum ágætlega í handbók heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna. Þar segir hann að væntanlegir hryðjuverkamenn hafi tilhneigingu til að:
- Koma frá fjölskyldum þar sem faðirinn er ekki
til staðar (eins og Luke)
- Eigi í vandræðum með að mynda sambönd utan
heimilisins (eins og Luke)
- Laðast að hópum sem bjóði upp á viðurkenningu og bræðralag (eins og andspyrnuhreyfingin)
Decider greinir líka lærimeistara Luke, hinn geðþekka Obi -Wan Kenobi. Í greininni er hann sagður trúarofstækisbrjálæðingur sem sé þekktur fyrir að taka unga drengi undir sinn verndarvæng til að kenna þeim öfgakennda túlkun á Mættinum. Bent er á að hryðjuverkasamtök leggi oftar en ekki alla áherslu á að slíta á öll tengsl nýliða sinna við aðra hópa og að einangra þá. Það er nákvæmlega það sem gerist þegar Obi –Wan hittir Luke og segir honum að hann verði að yfirgefa fjölskyldu sína til að fylgja honum. Til að tryggja þá niðurstöðu lýgur hann meira að segja að Luke að keisarinn hafi myrt föður hans, sem er auðvitað ekki rétt. Hann lifði góðu lífi á bakvið svörtu grímuna.
Að lokum má nefna að sú þjálfun sem Luke fór í hjá Yoda litla, sem var blanda af líkamlegri herþjálfun og stækri trúarinnrætingu, minnir mjög á þjálfunarbúðir öfgafullra hryðjuverkamanna. Svo voru bestu vinir hans og samstarfsmenn liðhlauparnarnir og smyglararnir Han Solo og Chewbacca.
Því má vel velta fyrir sér, á grundvelli þeirrar greiningar sem Decider setur fram hvort Star Wars myndirnar séu ekkert annað en illa dulbúinn áróður hryðjuverkasamtaka. Eða kannski eru menn bara farnir að ofhugsa skemmtilegustu geimfantasíu allra tíma og reyna að túlka hana sem eitthvað allt annað en hún er.