IFS metur virði
hlutafjár HB Granda nú um 66,8 milljarða króna eða 36,8 krónur á hlut. Markaðsgengið í dag er 40. Þetta kemur fram í nýrri verðmatsgreiningu frá IFS á HB Granda, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Virðismatið lækkar frá því í ágúst, „aðallega vegna lægri sölutekna og lægri framlegðarhlutfalla en við reiknuðum með“ segir í verðmatsgreiningunni.
Rússabannið slæmt fyrir fyrirtækið
Í síðasta virðismati IFS var talið að sölutekjur af uppsjávarfiski kæmu til með að lækka þar sem meira yrði sett í bræðslu vegna viðskiptabannsins í Rússlandi, sem er mikilvægur markaður fyrir HB Granda, ekki síst vegna sölu á makríl þangað.
Í verðmatinu kemur fram að bæði sölutekjur og framlegðarhlutföll uppsjávarfisks hafi lækkað meira en reiknað hafði verið með. „IFS býst hinsvegar við betri afkomu vegna botnfisks þar sem við áætlum að verð á botnfiski hafi hækkað áfá um 6,3 prósent á þessum fjórðungi. IFS telur að verð á botnfiski komi til með að hækka um 6,3 prósent á árinu 2016 og magn aukist einnig. Markgengi okkar til tólf mánaða er það sama og markaðsgengi í dag og mælum við með sölu,“ segir í verðmatsgreingunni.
Lágt olíuverð hjálpar til
Olíuverð hefur farið hratt lækkandi undanfarin misseri, einkum síðustu fimmtán mánuði. Það fór hæst í um 115 Bandaríkjadali á tunnuna, ef miðað er við hráolíu, en hefur að undanförnu sveiflast í kringum 40 Bandaríkjadali.
Í verðmatsgreiningunni er gert ráð fyrir að olíuverð haldist áfram lágt sem komi til með að þrýsta upp framlegðarhlutföllum í rekstrinum. „Við reiknum með því að nýju skipin styðji frekar við framlegðarhlutföll á spátímabilinu. IFS reiknar með að framlegð af botnfiski verði tæp 35 prósent á spátímabilinu og uppsjávarfisks tæp 38 prósent,“ segir í verðmatsgreiningunni.
Traustur rekstur
HB Grandi hefur átt sín bestu rekstrarár í sögu félagsins, undanfarin ár, og hefur afkoma verið góð, á flesta mælikvarða. Á fyrstu níu mánuðum ársins var EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir) 52,8 milljónir evra, eða sem nemur 7,4 milljörðum króna, og hækkaði um tæplega fimmtán prósent frá sama tímabili í fyrra.
Stærsti eigandi HB Grandi er Vogun hf., félag í meirihlutaeigu Kristjáns Loftssonar, með 33,5 prósent hlut. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti eigandinn með 11,6 prósent hlut og Hampiðjan kemur þar á eftir með 8,67 prósent hlut.