Ríkisstjórn Íslands ákvað fyrir helgi að „styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra með margvíslegum aðgerðum,“ en áætlað er að aðgerðirnar muni kosta 316 milljónir króna. Markmiðið með aðgerðunum er „að skapa þjóðhagslegan ávinning og aðstæður svo góðum framtíðarstörfum á svæðinu fjölgi.“
Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin samþykkti að farið verði í byggja allar á tillögum landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra, norðvesturnefndinni, sem skilaði tillögum til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í fyrra. Sigmundur fagnaði þessari ákvörðun fyrir helgina, sagði hana eðlilegt framhald af aðgerðum víða um land í þeim tilgangi að styrkja byggð í landinu öllu.
Ríkisstjórnin segir líka að Norðurland vestra hafi ekki notið góðs af sértækum aðgerðum stjórnvalda á undanförnum árum, ólíkt Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi, auk þess sem fjórir ívilnunarsamningar vegna nýfjárfestinga á Suðurnesjum hafi verið gerðir. Sitt sýnist þó hverjum um þessa fullyrðingu, til dæmis hefur framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða bent á að aðgerðirnar á Vestfjörðum hafi verið í vegasamgöngum og ofanflóðavörnum, en ekki til að auka atvinnumöguleika.
Atvinnuleysið minnst á Norðurlandi vestra
Tilgangurinn með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að snúa við neikvæðri byggðaþróun á svæðinu og efla mannlíf. Íbúum þar hefur fækkað talsvert og hagvöxtur er minni en víða annars staðar.
Samkvæmt tillögunum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt er áætlað að til verði 30 ný störf á Norðurlandi vestra. Hvergi á landinu er atvinnuleysi minna en á Norðurlandi vestra. Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun mældist atvinnuleysið þar 1,2 prósent í nóvember, á meðan atvinnuleysi á landsbyggðinni í heild er 2,4 prósent. Mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum, 3,4 prósent.
Samkvæmt tölunum frá Vinnumálastofnun var meðalfjöldi atvinnulausra á Norðurlandi vestra 41 einstaklingur í nóvember, en í lok mánaðarins voru 55 einstaklingar án vinnu á svæðinu.
Af þessum 55 einstaklingum voru langflestir, eða 32, í sveitarfélaginu Skagafirði. Átta voru atvinnulausir á Skagaströnd og átta í Húnaþingi vestra. Þá voru fimm atvinnulausir á Blönduósi og tveir í Húnavatnshreppi. Ef litið er til atvinnuleysistalna eftir landshlutum á þessum tíma undanfarin tíu ár hefur það alltaf mælst minnst eða næstminnst á Norðurlandi vestra.
Fjórðungur í opinberri þjónustu
Í nýrri skýrslu sem gerð var fyrir Byggðastofnun og kom út fyrr í þessum mánuði kemur fram að á Norðurlandi vestra voru 26% framleiðslunnar í störfum í opinberri þjónustu, eða rúmur fjórðungur. Hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu er til samanburðar 16%. Hvergi var hlutfall opinberrar þjónustu hærra en á Norðurlandi vestra árið 2013.
Í sömu skýrslu kemur fram að tveir landshlutar skeri sig úr þegar hagvöxtur landshluta er skoðaður, en það eru Norðurland vestra og Vestfirðir. Á báðum stöðum var hagvöxtur frá aldamótum og til ársins 2013 undir tíu prósentum, en alls staðar annars staðar var hann yfir 10 prósentum.
Þegar árin 2009 til 2013 eru skoðuð er hins vegar munur á þessum tveimur landshlutum, þar sem framleiðsla dróst einna mest saman þar, um 11%, á meðan vöxtur var á Norðurlandi vestra um 4%.
Fólksfækkun hefur einnig verið í þessum tveimur landshlutum milli áranna 2000 og 2013 samkvæmt áðurnefndri skýrslu Byggðastofnunar, og einnig þegar mannfjöldatölur frá Hagstofu Íslands eru skoðaðar fram til þessa árs. Hins vegar hefur íbúum á Vestfjörðum fækkað meira heldur en íbúum á Norðurlandi vestra. Íbúar á Vestfjörðum voru 6.497 talsins í upphafi þessa árs og hafði fækkað um 1.145 einstaklinga frá árinu 2000. Íbúar á Norðurlandi vestra voru hins vegar 6.723 og hafði fækkað um 735 á sama tímabili.
Af hverju þessi nefnd á sama tíma og sóknaráætlanir?
Nefndin var skipuð af forsætisráðherra í maí 2014, og í hana settust Stefán Vagn Stefánsson, Héðinn Unnsteinsson, Sigríður Svavarsdóttir, Unnur Valborg Hilmarsdóttir og Valgarður Hilmarsson. Öll voru sveitarstjórnarfólk á svæðinu nema Héðinn, sem kom inn sem starfsmaður ráðuneytisins.
Tilvist og starfsemi norðvesturnefndarinnar hefur verið gagnrýnd, ekki síst fyrir það að hún er sértæk fyrir Norðvesturland og ekki sambærilegar nefndir að störfum fyrir aðra landshluta. Þó kemur fram í skýrslu nefndarinnar að skipan hennar sé fyrsta skrefið í átt til úttektar á svæðum sem hafi átt við meiri erfiðleika að etja en önnur svæði.
Hún starfar einnig á sama tíma og sóknaráætlanir fyrir alla landshluta eru í gildi. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra skrifuðu undir slíkar sóknaráætlanir fyrir alla landshlutana í febrúar á þessu ári.
Sóknaráætlanirnar gilda fyrir árin 2015 til 2019, en sóknaráætlanir höfðu áður verið í gildi í þrjú ár, þ.e. frá því í tíð síðustu ríkisstjórnar. Markmiðið með sóknaráætlunum var að færa aukna ábyrgð á útdeilingu fjármagns til landshlutasamtaka sveitarfélaga og „einfalda framlög til einstakra landshluta, gera þau gegnsærri og láta þau í auknum mæli taka mið af hlutlægum mælikvörðum varðandi stöðu svæðisins.“ Mikið af því sem kemur fram í skýrslu norðvesturnefndarinnar er byggt á vinnu sem þegar hafði verið unnin af Byggðastofnun í tengslum við sóknaráætlanir landshluta.
Líka vilji fyrir álveri
Tillögurnar sem ríkisstjórnin samþykkti að ráðast í á svæðinu eru af ýmsum toga. Til dæmis á að búa til nýja starfsstöð þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins á Sauðárkróki, auka umfangið á starfsstöð Minjastofnunar Íslands á Sauðárkróki og koma á laggirnar miðstöð fyrir frumkvöðla í matvælavinnslu. Þá á að efla starfsemi Fæðingarorlofssjóðs, kanna hvort hægt sé að flytja eitt skip Landhelgisgæslunnar á Sauðárkrók og ráðast í ýmis viðhaldsverkefni.
Þá er einnig vilji til þess innan stjórnarinnar að álver rísi í landshlutanum. Sigmundur Davíð var viðstaddur undirritun viljayfirlýsingar um fjármögnun slíks álvers í sumar, en hún fór fram í ráðherrabústaðnum. Klappir Development vilja reisa 120 þúsund tonna álver við Hafurstaði í Skagabyggð, og China Nonferrous Metal Industry's Foreign Engineering and Construction (NFC) ritaði undir viljayfirlýsingu um að fjármagna bygginguna. Áætlanir þeirra gera ráð fyrir 240 varanlegum störfum í álverinu og allt að 800 tímabundnum við bygginguna. Það er hins vegar ljóst að orka liggur ekki á lausu fyrir slíkt verkefni auk þess sem álverð og staðan á þessum mörkuðum almennt er langt frá því að vera hagstæð.
Engu að síður fengu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 30 milljónir króna vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðis þar samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, en samtökin höfðu óskað eftir 70 milljónum við fjárlaganefnd í haust.
Meiri miðstýring og óskýr aðferðafræði
Sá landshluti sem stendur verr en Norðurland vestra þegar kemur að hagvexti og fólksfækkun er Vestfirðir. Þegar greint var frá niðurstöðum norðvesturnefndarinnar fyrir ári síðan vöktu þær ekki síst hörð viðbrögð á Vestfjörðum. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, kallaði strax eftir því að sambærileg nefnd yrði sett á laggirnar fyrir eflingu á Vestfjörðum. „Við sjáum að þessir landshlutar, Norðvesturland og Vestfirðir, eru bæði landshlutar sem hafa átt mjög í vök að verjast og það sem Vestfirðir hafa svo umfram eru mjög erfiðar samgöngur, þannig að það er svona eins og að byrja næst neðst að byrja á Norðvesturlandi.“ Friðbjörg Matthíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða og forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, furðaði sig einnig á tillögunum og hafði áhyggjur af aðferðafræðinni sem var viðhöfð með skipan nefndarinnar.
Og nú þegar búið er að ákveða verkefni sem ráðist verður í sagði Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, að stefna stjórnvalda sé ekki skýr. „Maður sér ekki alveg hvaða aðferðafræði stjórnvöld ætla að beita í byggðamálum, er það með svona beinum, miðstýrðum aðgerðum eða ætla menn að efla landsvæðin í að taka ákvarðanir á eigin forsendum og fylgja því eftir,“ sagði hann við RÚV. Annars staðar á landsbyggðinni væri unnið eftir sóknaráætlunum og landshlutasamtök sveitarfélaga hefðu lagt áherslu á að sú vinna yrði efld, en það hefur ekki verið gert. Vinna eins og í norðvesturnefndinni væri mun miðstýrðari heldur en sóknaráætlanirnar.