Hinn svokallaði bankaskattur, 0,376 prósent af öllum skuldum fjármálafyrirtækja, hefur ekki verið aflagður þrátt fyrir að slitum á búum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans sé nú að mestu formlega lokið. Þegar fjárlög voru lögð fram í haust kom fram að skatturinn ætti að skila 26,8 milljörðum króna í ríkissjóð. Í lokaútgáfu fjárlaga, sem lá fyrir síðustu helgi fyrir jól, er búið að taka tillið til þess að 17 milljarða króna greiðsla frá slitabúunum muni ekki skila sér.
Þess í stað mun skatturinn skila 9,8 milljörðum króna. Uppistaðan af þeirri upphæð mun koma frá þremur stærstu viðskiptabönkum landsins: Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka sem munu fleyta honum, að minnsta kosti að hluta, yfir á viðskiptavini sína. Ríkið mun eiga tvo af þessum bönkum að öllu leyti á næsta ári auk þess sem það á 13 prósent hlut í Arion banka. Því er ríkið nú að mestu að skattleggja bankaeignir sem það á sjálft með þeim afleiðingum að lánakjör sem bjóðast almenningi eru verri en ella.
Brúaði fjárlagagat og jók tekjur fyrir leiðréttingu
Bankaskatturinn var fyrst lagður á af ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í árslok 2010. Í frumvarpinu stóð að markmið laganna væri tvíþætt: „annars vega að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóðs vegna hruns íslenska fjármálakerfisins, hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra vegna þeirrar kerfisáhættu með tilheyrandi kostnaði sem áhættusöm starfsemi þeirra getur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið.“ Skattprósentan var ákveðin 0,041 prósent. Þegar þessi skattur var lagður á voru slitabú föllnu bankanna undanskilin greiðslu hans.
Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kynnti áform sín um skuldaleiðréttingu á völdum verðtryggðum húsnæðislánum fyrir um 80 milljarða króna í nóvember 2013 kom í ljós að ríkissjóður myndi fjármagna þær. Til að auka tekjur sínar svo hægt yrði að standa undir þessum aukna kostnaði átti að hækka hinn sérstaka bankaskatt enn meira og láta hann auk þess ná til fjármálafyrirtækja í slitaferli. Á endanum var hann hækkaður úr 0,041 prósent skulda fjármálafyrirtækja í 0,376 prósent. Þessi hækkun, sem var afgreidd á Alþingi í desember 2013, skilaði því að skatturinn var 36,5 milljarðar króna á árinu 2014.Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2015 átti hann að skila 34,7 milljónum króna í kassann í ár. Því hefur bankaskatturinn nú þegar skilað ríkissjóði 71,2 milljörðum króna.
Rúmlega 40 milljarðar koma í reiðufé
Þegar slitabú föllnu bankanna breytast í venjuleg eignarhaldsfélög eftir að nauðasamningar þeirra eru frágengnir munu þau eðlilega hætta að greiða umræddan skatt. Það gerist auðvitað eftir að þau greiða hin svokölluðu stöðugleikaframlög til ríkissjóðs.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga, sem birt var í kjölfar þess að fjárlögin voru afgreidd út úr nefndinni til samþykktar nokkrum dögum fyrir jól, kemur fram að ríkið muni tekjufæra samtals 348,3 milljarða króna vegna stöðugleikaframlaganna. Þar munar langmest um 95 prósent hlut í Íslandsbanka sem metinn er á 184,7 milljarða króna. Samkvæmt því verðmati er búist við að Íslandsbanki, að meðtöldum þeim fimm prósent hlut sem ríkið heldur þegar á, seljist fyrir meira en sem nemur eigin fé hans, en það er um 193 milljarðar króna.
Það virðast fáir hafa trú á því á fjármálamarkaðnum að slík sala sé raunhæf. Stærstu lífeyrissjóðir landsins, sem eru líkast til eina innlenda blokkin sem hefur getu til að kaupa stóran banka sem stendur, hafa til að mynda verið tilbúnir að greiða 0,6 til 0,8 af bókfærðu eigin fé þeirra.
Önnur stærsta eignin sem ríkinu verður afhend er 84 milljarða króna skuldabréf frá slitabúi Kaupþings með veði í Arion banka. Það greiðist væntanlega ekki fyrr en bankinn hefur verið seldur en nýir stjórnendur Kaupþings munu fá allt að þrjú ár til að gera það.
Í vandræðum með að borga framlagið
Svo þarf náttúrulega að taka tillit til þess að slitabúin greiða ekki lengur bankaskatt, og það mun lækka tekjur ríkisins um 17 milljarða króna. Auk þess verður ríkið af vaxtatekjum af víkjandi lánum en fær á móti auknar arðgreiðslur frá Íslandsbanka og vaxtatekjur af skuldabréfinu frá Kaupþingi. Allt í allt lækkar þetta stöðugleikaframlögin um 9,4 milljarða króna. Þau verða því samtals 338,9 milljarðar króna. Af þeirri upphæð mun 41,8 milljarðar króna berast í greiðslum nú. Þ.e. beinhörðum peningum. Afgangurinn er í formi eigna.
Því er alls ekki svo að ríkissjóður fái mörg hundruð milljarða króna innspýtingu í reiðufé um komandi áramót. Þvert á móti.
Raunar berast fregnir af því að slitabúin séu í vandræðum með að greiða framlögin sem þó á að greiða. Ástæðan sé sú að það félag ríkismeginn sem eigi að taka við þeim sé ekki enn tilbúið til að gera það. Því munu fyrstu greiðslur, og yfirfærsla eigna, að öllum líkindum ekki eiga sér stað fyrr en í janúar, þrátt fyrir að slitabúin hefðu verið tilbúin að greiða þau fyrir áramót.
Almenningur er að borga bankaskattinn
Nú er ljóst að þorri þess kostnaðar sem lenti á ríkinu við hrunið verður greiddur upp þegar stöðugleikaframlögunum verður komið í verð. Því á sú forsenda upprunalega bankaskattsins ekki lengur við. Auk þess má setja mikinn fyrirvara við þá skýringu að skatturinn dragi úr áhættusækni bankanna. Fremur má segja að hann hvetji til hennar, þar sem skatturinn gerir bönkunum erfiðara fyrir að skila viðunandi afkomu af undirliggjandi rekstri.
En bankaskatturinn er líka risastórt neytendamál, að minnsta kosti ef útskýringar viðskiptabankanna eru teknar trúanlegar. Þegar Lífeyrissjóðir landsins hófu að bjóða miklu betri kjör á íbúðalánum en viðskiptabankarnir á árinu sem er að líða bentu þeir m.a. á að lífeyrissjóðir þyrftu ekki að borga bankaskatt.
Í einkasamtölum segja stjórnendur bankanna að þeir gætu boðið almenningi betri kjör ef þeir væru ekki að borga þessa skatta. Bankaskatturinn er til að mynda 0,376 prósent skattur á allar skuldir bankanna. Því sé hann beinlínis álag ofan á útlán. Með öðrum orðum er almenningur að borga bankaskattinn - sem notaður hefur verið til að skila ríkissjóði afgangi undanfarin ár – að minnsta kosti að hluta. Samtals greiddu Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn átta milljarða króna í bankaskatt í fyrra, munu greiða annað eins í ár og uppistöðuna af 9,8 milljörðum króna sem hann á að skila í ríkissjóð á næsta ári. Stjórnendur bankanna, og hagsmunasamtök þeirra, hafa gagnrýnt skattlagninguna harðlega, bæði í einkasamtölum og opinberlega.
Þar sem afgangur á rekstri ríkissjóðs yrði neikvæður á næsta ári án bankaskattsins, og án einskiptistekna vegna stöðugleikaframlagsins, þá verður að teljast afar óliklegt að stjórnvöld ætli sér að fella hann úr gildi í nánustu framtíð. Jafnvel þótt hann skili almenningi verri lánakjörum og hærri greiðslubyrði.