Bæjarráð Reykjanesbæjar telur ekki rétt að mæla með tilboði Alterra Power, áður Magma Energy, í skuldabréf sem útgefið var af sænsku dótturfélagi Magma þegar félagið keypti hlut í HS Orku. Skuldabréfið er nú í eigu Fagfjárfestasjóðsins ORK en ekki er hægt að selja það án samþykkis Reykjanesbæjar. Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar sem haldinn var 22. desember síðastliðinn var tilboðið kynnt fyrir bæjarráði og var það niðurstaða þess að ekki væri rétt að mæla með því að tilboðinu yrði tekið.
Ekki er tilgreint hvers hátt tilboðið er en það er dagsett 10. desember síðastliðinn en samkvæmt heimildum Kjarnans var það lítillega hærra en fyrri tilboð Alterra. Tilboðið var lagt fram af fjármálafyrirtækinu Arctica Finance fyrir hönds Magma Energy Sweden ab., sænsks félags í eigu Alterra Power. Þetta er fjarri þvi í fyrsta sinn sem Alterra reynir að kaupa skuldabréfið til baka. Fagfjárfestasjóðnum ORK, sem er rekinn af Rekstrarfélagi Virðingar og er fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fagfjárfestum, barst einnig tilboð frá í júní síðastliðnum og annað í byrjum nóvember. Öll tilboð í skuldabréfið hafa gert ráð fyrir miklum afföllum.
Reykjanesbær seldi skuldabréfið 2012
ORK keypti skuldabréfið af Reykjanesbæ árið 2012 og var söluverðið þá sagt 6,3 milljarða króna. Samkvæmt tilboðinu sem lagt var fram í nóvember, og var tilkynnt um til Kauphallar Íslands, vildi Alterra Power greiða fyrir skuldabréfið með nýju skuldabréfi til tólf ára að verðmæti 5.350 milljónir króna.
Það átti að vera í bandaríkjadölum, vextir þess að vera 5,5 prósent og það tryggt með veði í 21,7 prósent hlut í HS Orku. Alls á Alterra 66,6 prósent hlut í orkufyrirtækinu á móti félaginu Jarðvarma slhf., sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða.
Likt og áður sagði var nýja tilboðið, sem er dagsett 10. desember, lítillega hærra en það sem var lagt fram í nóvember. Það var þó ekki nógu hátt til að Reykjanesbær teldi forsvaranlegt að breyta afstöðu sinni gagnvart sölu á bréfinu.
Og ORK-sjóðurinn getur ekki selt bréfið án þess að óska eftir afstöðu Reykjanesbæjar til tilboðsins áður en því er tekið. Ástæðan er sú að skuldabréfið var upphaflega notað sem gjald fyrir hlut í HS Orku sem rann til Reykjanesbæjar þegar hlutur sveitafélagsins var seldur til Geysis Green Energy og síðar Magma Energy (nú Alterra Power). Reykjanesbær seldi síðan skuldabréfið til ORK í ágúst 2012.
Í frétt sem birtist á vef sveitarfélagsins vegna þessa árið 2012 var sagt að söluverðið, 6,3 milljarða króna, myndi skiptast þannig að ORK greiddi strax 3,5 milljarða króna í peningum og um 500 milljónir króna í markaðsskuldabréfum. Auk þess kom fram í samkomulagi milli kaupanda og seljanda að lokagreiðsla ætti að fara fram í október 2017, þegar skuldabréfið væri á gjalddaga.
Virði kröfu hefur hríðlækkað
Virði þessarrar kröfu, sem er ein helsta eign Reykjanesbæjar, hefur hríðlækkað síðan að þetta samkomulag var gert.
Í ársreikningi sveitarfélagsins vegna ársins 2014 vekur endurskoðandi þess athygli á að óvissa sé um virði þeirrar langtímakröfu. Í skýringum reikningsins segir að áætlaðar eftirstöðvar stöluverðsins hafi verið 1.970 milljónir króna um síðustu áramót. Þar kemur hins vegar fram að mikil óvissa ríki um hvert endanlegt virði kröfunnar sé, m.a. vegna álverðsþróunar. Því var krafan færð niður um 637 milljónir króna og eftirstöðvar hennar bókfærðar á 1.333 milljónir króna. Í langtímaáætlun Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir að bókfært virði kröfunnar fáist greitt á gjalddaga þann 1. október 2017
Í greiningu sem KPMG gerði fyrir rúmu ári á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar sagði að líklega væri erfitt að selja kröfuna nema með miklum afföllum „vegna þeirrar óvissu sem er um verðmæti þess, enda hefur skuldabréfið sjálft verði selt til ORK og eftir stendur krafa sem tekur mið af endanlegu uppgjöri skuldabréfsins“.
Skelfileg skuldastaða Reykjanesbæjar
Reykjanesbær er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur þess undanfarin ár hefur verið afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014 var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Í lok síðasta árs skuldaði það 41 milljarð króna og skuldirnar voru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinlínis í andstöðu við lög.
Í október síðastliðnum sendi sveitarfélagið tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem sagði að nauðsynlegt væri að það næði samkomulagi við „helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda[...]Náist ekki samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarfélagsins og stofnana þess verður samkvæmt sveitastjórnarlögum óskað eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn“.
Skelfileg skuldastaða Reykjanesbæjar
Reykjanesbær er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur þess undanfarin ár hefur verið afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014 var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Í lok síðasta árs skuldaði það 41 milljarð króna og skuldirnar voru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinlínis í andstöðu við lög.
Í október síðastliðnum sendi sveitarfélagið tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem sagði að nauðsynlegt væri að það næði samkomulagi við „helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda[...]Náist ekki samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarfélagsins og stofnana þess verður samkvæmt sveitastjórnarlögum óskað eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn“.
Enn hefur ekki náðst samkomulag við kröfuhafa Reykjanesbæjar og samkvæmt frétt RÚV sem birt var 15. desember er enn langt í land.