Það gustar um Fáfni Offshore, íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla á norðlægum slóðum. Fyrir rúmu ári síðan kepptust íslenskir fjárfestar, aðallega lífeyrissjóðir, um að fjárfesta fyrir milljarða króna í fyrirtækinu. Síðan þá hefur verðhrun á olíumörkuðum orsakað að eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem Fáfnir Offshore veitir er nánast engin og tugum skipa sem sinna henni hefur verið lagt. Fáfnir hefur tvívegis frestað afhendingu á öðru skipi sínu og það fyrra, Polarsyssel, er einungis með eitt verkefni, birgðaflutninga og öryggiseftirlit fyrir sýslumanninn á Svalbarða í níu mánuði á ári. Og samkvæmt nýjustu fregnum virðist það verkefni vera í uppnámi.
Stjórn Fáfnis Offshore brást við ástandinu í desember með því að reka Steingrím Erlingsson, forstjóra og stofnanda Fáfnis Offshore, úr starfi. Sú ákvörðun hefur mælst misvel fyrir.
En staðan er hins vegar sú að ástandið á mörkuðum og óvissa um eina tekjuberandi verkefni Fáfnis Offshore, samninginn við sýslumanninn á Svalbarða, hefur sett tilurð fyrirtækisins í uppnám. Og milljarða króna fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða í mjög áhættusömu verkefni í raunverulega hættu.
Dýrasta skip Íslandssögunnar
Fáfnir Offshore á skipið Polarsyssel, sem kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða um birgðaflutninga og öryggiseftirlit. Upphaflega gekk sá samningur út á að sýslumannsembættið hefði skipið til umráða að lágmarki í 180 daga á ári, eða sex mánuði. Hina sex mánuði ársins stóð til að nota skipið í verkefni tengdum olíu- og gasiðnaðinum í Norðursjó. Þau verkefni hafa hins vegar horfið undanfarið ár, samhliða mikilli lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu. Í júní 2014 var heimsmarkaðsverð á tunnu af Brent-olíu 115,9 dalir. Nú kostar hún um 37 dali og hefur því lækkað um 68 prósent á tæpu einu og hálfu ári.
Í október síðastliðnum var gerður nýr samningur við sýslumannsembættið á Svalbarða. Hann tryggir Polarsyssel verkefni í níu mánuði á ári. Þessi samningur er eina verkefni Fáfnis Offshore sem stendur og því gríðarlega mikilvægur.
Fáfnir Offshore ætlaði sér stóra hluti. Í nóvember 2014 var Steingrímur Erlingsson, þá forstjóri og stofnandi fyrirtækisins, viðmælandi á fræðslufundi VÍB, sem er hluti af Íslandsbanka. Þar sagði hann meðal annars að Fáfnir Offshore stefndi að því að vera með 3-4 skip í rekstri á næstu árum. Fundurinn hefur verið fjarlægður af netinu.
Lífeyrissjóðir með milljarða fjárfestingu
Á grunni þessarrar miklu bjartsýni náði Fáfnir Offshore sér í umtalsverða fjárfestingu með sölu á hlutafé. Í desember 2014 keypti Akur fjárfestingar, framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða, sjóðsstýringarfyrirtækis Íslandsbanka, 30 prósent hlut í Fáfni Offshore fyrir 1.260 milljónir króna. Helstu eigendur sjóðsins eru þrettán lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og VÍS. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi Akurs með 19,9 prósenta hlut. Þar á eftir kemur Gildi – lífeyrissjóður með 15 prósent. Íslandsbanki á 14 prósenta hlut en aðrir hluthafar tíu prósent eða minna.
Áður höfðu ýmsir fjárfestar komið að félaginu, meðal annars stjórnarformaðurinn Bjarni Ármansson, fyrrum bankastjóri Glitnis, í gegnum fjárfestingafélag sitt Sjávarsýn. Þá á félag tengt Havyard ship skipasmíðaverksmiðjunni, sem smíðar bæði skip Fáfnis Offshore, hlut í félaginu. Það á Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, sjóðsstýringarfyrirtækis Landsbankans, líka, en sjóðurinn á 23,1 prósent hlut í Fáfni Offshore.
Upplýsingar um hverjir eigi í Horni II eru að mestu ekki opinberar. Kjarninn hefur hins vegar upplýsingar um að stærstu eigendur í Horni II séu Gildi lífeyrissjóður (18,17 prósent), Lífeyrissjóður Verzlunarmanna (18,17 prósent), Landsbankinn (7,66 prósent), Vátryggingarfélag Íslands (4,68 prósent) og sjö aðrir lífeyrissjóðir (samtals 32,53 prósent). Aðrir eigendur, alls 18 talsins, eiga samtals 18,26 prósent hlut. Kaupverðið sem Horn II greiddi fyrir sinn hlut í Fáfni var aldrei gefið upp en ef það hefur verið svipað því sem Akur greiddi þá nemur það tæpum einum milljarði króna.
Því er ljóst að þessir tveir sjóðir, að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hafa fjárfest fyrir vel yfir tvo milljarða króna í Fáfni Offshore fyrir rúmu ári síðan.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hrunið
Síðan að þessi fundur var haldinn hefur markaðurinn sem Fáfnir Offshore starfar á hrunið. Tugum skipa sem gerðu út á þennan markað, sem alþjóðlega nefnist „Offshore“-markaðurinn, hefur verið lagt vegna þess að það eru ekki verkefni til staðar fyrir þau og oliuborpöllum í Norðursjó hefur fækkað mikið. Ástæðan er sú að olíuverð hefur lækkað svo mikið að það svarar ekki kostnaði að vinna olíuna úr þeim lindum sem þar er að finna.
Offshore-borpöllum í Norður-Ameríku hefur einnig fækkað skarpt á þessu tímabili. Frá nóvember 2014 og til loka sama mánaðar í ár fækkaði þeim úr 54 í 30.
Fáfnir Offshore tapaði 3,4 milljónum norskra króna á árinu 2014, eða um 52 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Velta félagsins í fyrra var 33,2 milljónir norskra króna, eða rúmlega hálfur milljarður íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Fáfnis Offshore fyrir árið 2014.
Kjarninn greindi frá því í byrjun desember að afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu Fáfnis Offshore, hafi verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars á næsta ári en samkvæmt nýju samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS, sem skrifað var undir í byrjun þessa mánaðar, mun afhending þess frestast fram til júnímánaðar 2017.
Heimildir Kjarnans herma að ástæða frestunarinnar á afhendingu á nýja skipinu sé einföld: ástandið á olíumarkaði hefur leitt til þess að engin verkefni séu til staðar fyrir skip eins og Fáfni Viking.
Nokkrum dögum síðar var Steingrimi Erlingssyni sagt upp störfum sem forstjóra fyrirtækisins. Bjarni Ármannsson, stjórnarmaður í Fáfni Offshore, staðfesti það við Fréttablaðið en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um ástæðu uppsagnarinnar. Heimildir Kjarnans herma að miklir samstarfserfiðleikar hafi verið milli stjórnar Fáfnis Offshore og Steingríms undanfarið. Steingrímur, sem á enn 21 prósent hlut í fyrirtækinu, stofnaði Fáfni Offshore árið 2012.
Svalbarðasamningur í uppnámi?
Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, hefur fylgst vel með Fáfni Offshore og þeirri þróun sem átt hefur sér stað á markaðnum sem fyrirtækið starfar á. Hann skrifaði grein í gær um stöðuna sem vakið hefur mikla athygli.
Í grein sinni segir Ketill að það hafi verið mikil gæfa fyrir Fáfni Offshore að hafa náð að landa langtímasamningnum við sýslumanninn á Svalbarða. „ Það má án efa fyrst og fremst þakka frumkvöðlinum að baki fyrirtækinu, Steingrími Erlingssyni. Sem tókst að ná þeim samningi þrátt fyrir mikla þekkingu Norðmanna sjálfra á þessari þjónustu og fjölmörg norsk fyrirtæki sem hana bjóða. Það að Íslendingur skuli hafa náð þessum samningi á Svalbarða má reyndar teljast viðskiptalegt afrek.“
Ketill segir að ljóst hafi þó verið að tryggð sex mánaða vinna á ári væri ekki nóg til að tryggja jákvæðan rekstur á Polarsyssel. Það hafi því verið gleðitíðindi fyrir hluthafa fyrirtækisins þegar Steingrímur landaði nýjum samningi við sýslumanninn á Svalbarða í haust sem í fólst að Polarsyssel sinnti verkefnum fyrir hann í níu mánuði á ári í stað sex. Með því hafi verið stígið stórt skref í að koma rekstri Polarsyssel í var.
Síðan segir Ketill: „Samkvæmt heimildum Orkubloggarans úr norsku stjórnsýslunni er þessi nýi samningur þó ekki alveg skotheldur ennþá. Því þó svo kveðið hafi verið á um fjárframlag til sýslumannsembættisins á Svalbarða í norska fjárlagafrumvarpinu, vegna 9 mánaða leigu, virðist nú raunveruleg hætta á því að samningurinn falli niður. Vegna hinnar óvæntu nýlegu ákvörðunar stjórnar Fáfnis að segja framkvæmdastjóranum Steingrími Erlingssyni, fyrirvaralaust upp störfum og skilja fyrirtækið eftir án hæfs leiðtoga og með afar óljós markmið um framtíðina.“
Kjarninn hafði sambandi við Bjarna Ármannsson, einn stærsta eiganda Fáfnis Offshore og stjórnarmann í fyrirtækinu, til að spyrja hann út í málið. Hann er staddur erlendis og benti á Jóhannes Hauksson, stjórnarformann félagsins. Jóhannes starfar hjá Íslandssjóðum og stýrir þar framtakssjóðnum Akri, einum stærsta eiganda Fáfnis. Kjarninn hefur ekki náð sambandi við í Jóhannes í dag.
Í Fréttablaðinu í morgun sagði Jóhannes að hann vildi ekki tjá sig um málefni Fáfnis að öðru leyti en að sagt verði frá nýjum forstjóra þegar búið verður að ráða hann. Þangað til mun Rúnar Steinn Ragnarsson sinn starfinu samhliða starfi fjármálastjóra.
Íslandsbanki á einnig mikið undir
Ljóst er að staðan hjá Fáfni, og raunar staðan almennt á þjónustumarkaði fyrir ólíuiðnaðinn í Norðursjó, veldur áhyggjum víðar en hjá lífeyrissjóðum landsins. Íslandsbanki á einnig mikið undir. Fyrir utan að eiga beinan fjórtán prósent hlut í Akri tók bankinn þátt í sambankaláni upp á 475 milljónir norskra króna, um sjö milljarðar króna á gengi dagsins í dag, til norska skipafélagsins Havila til að endurfjármagna fjögur skip félagsins sem þjónusta olíuiðnaðinn þar í landi. Alls á Havila 27 skip og miðað við þá eftirspurn sem er eftir þjónustuskipum í Norðursjóð –en hún er nánast engin – má ljóst vera að Havila gæti lent í vandræðum.
Kim André Uggedal, sérfræðingur hjá Fearnley Scurities, sagðist til að mynda ekki sjá margt bjart framundan á hinum svokallaða spot-markaði fyrir þjónustuskip olíuiðnaðarins í Norðursjó á næsta ári, í nýlegu samtali við vefinn Maritime.no. Hann segist ekki viss um að Havila muni lifa af niðursveifluna.