Þegar Wardell Stephen Curry II kom inn í NBA-deildina, árið 2009, voru miklar vonir bundnar við hann, en fáir höfðu þó trú á því að hann gæti orðið að leiðandi leikmann í deildinni, leiðtoga, sigurvegara og framúrskarandi leikmanni. Hann er fæddur 1988 í Akron Ohio, en alinn upp að mestu í Charlotte, og var því liðlega tvítugur þegar fyrstu skrefin í deildinni voru stigin.
Frá fyrsta tímabili hefur hann fengið að bera mikla ábyrgð. Hann spilaði 36,1 mínútu í leik, af 48 mínútna heildartíma, á fyrsta tímabili 2009/2010, skoraði 17,5 stig, 46,5 prósent hittni í stökkskotum innan þriggja stiga línunnar (FG) og fyrir utan þriggja stiga línuna var hann með 43,7 prósent hittni. Lið Golden State Warriors (GSW), sem Curry hefur leikið með allan sinn feril, var frekar slakt í upphafi, vann aðeins 23 leiki af 82. Fyrir leikmann á fyrsta tímabili, í slöku liði, þá eru þetta afburðatölur, og ekki síst til marks um að þarna sé óvenjulega góð skytta á ferð. Í fyrravor tryggði liðið sér svo titilinn, í fyrsta skipti í fjörutíu ár, með Curry fremstan meðal jafningja. Á sex árum hefur liðið orðið betra og betra, samhliða uppgangi þessa magnaða leikmanns.
Frábær frammistaða
Á þessu tímabili, þar sem engin bönd hafa haldið Curry, spilar hann 34 mínútur að meðaltali í leik en skorar að meðaltali tæplega þrjátíu stig í leik, eða 29,7 stig, og hittir áfram í tæplega öðru hverju skoti; 51,1 prósent hittni í stökkskotum innan þriggja stiga línunnar og 44 prósent hittni í þriggja stiga skotum. Allan ferilinn, sex tímabil í röð, hefur hann verið með hittni vel yfir 40 prósent fyrir utan og innan þriggja stiga línuna, þrátt fyrir að vera yfirleitt að glíma við stranga gæslu ýmissa varnarafbrigða liða í deildinni. Það má einfaldlega ekki gefa honum opið skot.
Miklar framfarir
Óhætt er að segja að Curry hafi sannað að hann er enginn venjulegur leikmaður, nokkuð fljótt. En framfarir hans hafa verið með miklum ólíkindum, og þá sérstaklega á síðustu tveimur tímabilum. Sjálfur segir hann að lykillinn að árangri hans sé agi, agi og aftur agi. Hann æfir meira en aðrir hjá Golden State, að sögn forsvarsmanna liðsins. Hann einfaldlega leggur meira á sig.
Sjálfur talar hann mikið um að trúin á Jesú krist og Guð almáttugan hjálpi honum að halda æfingunum góðum, auk þess sem hann hafi mikinn stuðning frá eiginkonu sinni og stórfjölskyldu. Allir leggist á eitt við að gera honum mögulegt að æfa mikið svo hann geti stanslaust bætt sig. „Ég á þér allt að þakka, þú ert mín stoð og stytta,“ sagði hann við eiginkonu sína, tárvotur, í ræðu þegar hann tók við verðlaunum sem mikilvægasti leikmaður deildarinnar.
Hann eyddi flestum orðum í ræðunni í að hrósa þeim sem höfðu gert honum mögulegt að æfa mikið og rækta hæfileika sína, ekki síst föður sínum, Dell Curry, sem spilaði í sextán tímabil í röð í NBA deildinni, þar af ellefu ár með Charlotte Hornets. Dell var góður leikmaður, þegar hann var upp á sitt besta, sem var tímabilið 1993 til 1994. Hann skoraði þá 16,3 stig að meðaltali í leik, og þótt harður af sér og ákveðinn. Á ferlinum skoraði hann rúmlega ellefu stig í leik, og spilaði 21 mínútu að meðaltali í hverjum þeirra. Það eru tölur sem leikmenn geta verið stoltir af eftir langan feril í deild þeirra bestu.
Feðgarnir ólíkir
Helstu styrkleikar Dell, ákveðni og harka, voru eiginleikar sem sonur hans þótti ekki vera með, þegar hann hóf leik í NBA-deildinni, en í dag þykir stöðugleiki og einbeiting – sem haldast oft hendur við ákveðni og hörku, í jákvæðum skilningi – í bland við náttúrulega hæfileika, vera hans helstu styrkleikar. Afburðaskytta er hann vissulega, og líklega ein sú besta í sögu deildarinnar, en hann hefur bætt sig mikið á þeim sviðum þar sem hann þótti vera með veikleika í upphafi. Það hefur hann gert með þrotlausum æfingum, líkamlegum og tæknilegum.
Á síðasta tímabili var hann besti leikmaður deildarinnar, og tók við viðurkenningu sem MVP, eða mikilvægasti leikmaður deildarinnar. Viðurkenningin er að venju veitt þegar úrslitakeppnin stendur sem hæst, en eftir magnað einvígi Golde State Warriors og Cleveland Cavaliers, þar sem LeBron James er við stýrið í vörn og sókn, þá unnu Curry og félagar. Liðsheild GSW er ógnarsterk en það er Curry sem er með þræðina í hendi sér. Það er erfitt að stoppa mann sem getur hitt úr flestum færum, og er að upplagi óeigingjarn og spilar fyrir liðið.
Ethan Sherwood Strauss, einn af föstum pistlahöfundum ESPN, tók viðtal við aðstoðarþjálfara Golden State Warriors, Ron Adams, í apríl í fyrra, þegar Curry var að eiga hvern stjörnuleikinn á fætur öðrum. Það héldu honum engin bönd. Það sem þótti merkilegast, var að hann var farinn að spila stórkostlega vörn, og vera skeinuhættur við að stela boltum og líka að verja stöðu sína.
Aðeins tveimur vikum eftir að Steve Kerr og Ron Adams tóku við sem þjálfarar Golden State Warriors boðuðu þeir Curry og hádegisfund, og sögðu að hann yrði að stíga upp í varnarleik sínum. Ef hann vildi verða bestur, sem Kerr og Adams töldu að hann bæði gæti og vildi, þá yrði hann að hlýða varnarskipunum og hlífa sér hvergi. „Þetta var ekki sérlega erfið sala,“ sagði Kerr, og en hann segir Curry þrífast á áskorunum.
Kominn í hóp þeirra bestu
Á undraskömmum tíma breyttist Curry úr því að vera stórkostleg skytta og sóknarmaður, í að verða afgerandi alhliða varnar- og sóknarmaður. Það er meira en að segja það, að ná þeirri stöðu. Fáir leikmenn hafa náð þeim gæðum í leik sinn eins og Curry er að sýna þessa dagana, og eru menn eins og Michael Jordan og Kobe Bryant, þegar þeir voru að spila sem best, nefndir í sömu andrá og þessi frábæri leikmaður. LeBron James er síðan hans helsti keppinautur, enda stórkostlegur alhliða leikmaður sömuleiðis.
En ólíkt James er Curry með sérstaka eiginleika, enda er hann ekki heljarmenni að burðum og nær ekki árangri með kraftmiklum troðslum eða „látum“, eins og oft fylgja James. Ekki skal þó gert lítið úr mögnuðum alhliða hæfileikum James, sem fyrir löngu eru búnir að skila honum í allra fremstu röð.
Curry er einna best lýst sem óútreiknanlegum. Enginn veit hvað getur gerst þegar hann kemur með boltann upp völlinn. Hann er stórkostlegur einn og móti einum, og skilur varnarmenn oftar en ekki eftir á rassinum - algjörlega ósjálfbjarga eftir að hafa ekki ráðið við hraða fótavinnu - áður en hann tekur þægilegt skot. Til þess að lágmarka möguleikana á því að sú staða skapist, það er að Curry sé að mæta sínum varnarmanni einn og móti einum, þá beita lið oft varnarafbrigðum þar sem hann er þvingaður í erfið skot, eða erfiðar aðstæður. En GSW liðið hefur góða leikmenn til að taka við keflinu þegar Curry getur ekki verið með það, og hann hikar ekki við að laga leik sinn að því þegar aðrir leikmenn liðsins þurfa að blómstra.
Enginn er gallalaus, en...
Enginn er gallalaus, og Curry hefur sína galla eins og aðrir. Ef hann væri meiri að burðum og með ógnarkraftinn frá Lebron James, þá væri hann líklega fullkomlega óstöðvandi. En það er andlegur styrkur hans sem er kannski það sem skilur hann frá mörgum öðrum. Hann er vinnuþjarkur með mjúkt skot, eldsnöggar hreyfingar og hugarfar sigurvegarans.
En eins og Curry spilaði körfubolta allt árið í fyrra, þá verður ekki annað séð en að hann sé nú þegar búinn að taka frá margar síður í sögu NBA-deildarinnar sem einn af þeim allra bestu, þökk sé mikilli vinnusemi, aga, náttúrulegum hæfileikum og vilja til að takast á við nýjar áskoranir. Hann hefur alltaf bætt sig milli ára, og það ætti ekki að koma neinum á óvart ef hann myndi bæta við fleiri meistarahringjum í sitt safn.