Skuldir Pressunnar ehf., sem á 70 prósent hlut í DV, jukust úr tæpum 69 milljónum króna í 271,7 milljónir króna á árinu 2014. Félagið, sem er að stærstum hluta í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar, eignaðist ráðandi hlut í DV seint á því ári. Samhliða aukinni skuldasöfnun jókst bókfært virði eigna félagsins umtalsvert. Það þrefaldaðist á árinu 2014. Þetta kemur fram í ársreikningi Pressunnar sem birtur var í vikunni. Þar kemur ekki fram hverjir lánveitendur félagsins eru né hvenær lán þess eru á gjalddaga.
Keyptu DV haustið 2014
Haustið 2014 áttu sér stað mikil átök um yfirráð yfir DV. Feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, ásamt samstarfsmönnum sínum, höfðu þá átt og stýrt DV um nokkurt skeið en fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu víða til að standa undir þeim rekstri, meðal annars hjá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Þeim kröfum var síðan breytt í hlutafé sem dugði til að taka yfir DV. Í átökunum kom maður að nafni Þorsteinn Guðnason fram fyrir hönd þeirra krafna. Ólafur M. Magnússon, fyrrum stjórnarmaður í DV, sagði í samtali við Kjarnann í október 2014 að menn tengdir Framsóknarflokknum hefðu viljað kaupa DV. Framkvæmdastjóri flokksins hafnaði því í kjölfarið í yfirlýsingu.
DV var skömmu síðar selt til hóps undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Kaupin voru gerð í nafni félags sem heitir Pressan ehf. Kaupverðið hefur ekki verið gert opinbert.
Eigendur Pressunnar ehf. eru að stærstu leyti félög í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar, samstarfsmanns hans í fjölmiðlarekstri til margra ára. Þeir eiga samtals tæplega 40 prósent í félaginu. Auk þess á áðurnefndur Þorsteinn Guðnason 18 prósent hlut, Sigurður G. Guðjónsson lögmaður á tíu prósent, Jón Óttar Ragnarsson á ellefu prósent, Steinn Kári Ragnarsson á tíu prósent og Jakob Hrafnsson, bróðir Björns Inga, á átta prósent.
Félagið skilaði ársreikningi fyrir árið 2014 fyrr í þessari viku, eða í byrjun árs 2016. Samkvæmt reglum um ársreikninga ber að skila ársreikningum í síðasta lagi átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Hann hefði því átt að berast fyrir lok ágústmánaðar. Viðurlög við slíkum drætti eru þó ekki mikil. Ársreikningaskrá skorar á félög að bæta úr vanskilum sínum og gefur þeim frest til að gera það. Ef félagið vanrækir að skila innan þess frests leggur ársreikningaskrá 250 þúsund króna sekt á. Samkvæmt ummælum stjórnenda Pressunnar þá skiluðu þeir sínum ársreikningum áður en til álagningar sektar kom.
Eignir þrefaldast - skuldir fjórfaldast
Samkvæmt ársreikningi jukust eignir Pressunnar mjög á árinu 2014. Þær nær þrefölduðust, fóru úr 110 milljónum króna í 322 milljónir króna. Eignir Pressunnar eru nánast að öllu leyti óefnislegar.
Þorri aukningar í eignum Pressunnar er í formi áhættufjármuna, sem er óefnisleg eign. Þeir jukust úr 0 í 144,4 milljónir króna á árinu 2014. Áhættufjármunir geta meðal annars verið eignarhlutar og lán tengdra félaga, eignarhlutir í öðrum félögum, önnur lán eða lán til eigenda, hluthafa og stjórnenda. Þessi liður sýnir því að minnsta kosti bókfært virði DV, sem Pressan keypti á árinu 2014, og mögulega einhver lán.
Skuldir félagsins hækkuðu einnig umtalsvert á árinu 2014. Langtímaskuldir sem voru engar í árslok 2013 voru orðnar 148 milljónir króna í lok árs 2014. Auk þess tvöfölduðust skammtímaskuldir Pressunnar og voru orðnar 124 milljónir króna í lok árs. Því skuldaði félagið samtals 272 milljónir króna í lok árs 2014, sem er fjórum sinnum meira en þær 68 milljónir króna sem félagið skuldaði í lok árs árið áður. Ekki kemur fram í ársreikningnum hvenær þessi lán eru á gjalddaga.
Að hluta til seljendalán
Engar opinberar upplýsingar eru til um hvaðan umrædd lán komu að öðru leyti en það að Björn Ingi Hrafnsson hefur upplýst um að hluti af kaupverðinu á DV hafi verið greitt með seljendaláni frá þeim sem breyttu kröfum sínum í hlutafé í miðlinum þegar hann var tekinn yfir haustið 2014.
Þá staðfesti Arnar Ægisson, sem er framkvæmdastjóri Pressunnar, við Vísi í fyrrasumar að þær skammtímaskuldir sem Pressan var með í lok árs 2013, rúmlega 60 milljónir króna, hafi verið yfirdráttur frá MP banka, sem í dag heitir Kvika.
Það gerði hann í kjölfar þess að systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir voru handteknar fyrir að hafa reynt að fjárkúga Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Í fjárkúgunarbréfi þeirra hótuðu þær að gera opinberar upplýsingar sem áttu að koma ráðherranum illa. Þær snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan ehf. hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka þegar félagið keypti DV. Sigmundur Davíð hefur hafnað því að hann hafi fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson og að hann hafi komið að kaupum á DV á nokkurn hátt. Björn Ingi hefur sagt að forsætisráðherra hafi ekki fjármagnað kaup Pressunnar á DV og að hann eigi ekki hlut í blaðinu.
Skilaði hagnaði á árinu 2014
Pressan skilaði hagnaði árið 2014 upp á 11,5 milljónir króna. Engar upplýsingar eru í ársreikningnum um hverjar rekstrartekjur félagsins voru á árinu 2014. Uppistaðan í auknu veltufé frá rekstri virðist vera tilkomin vegna nýrra lána sem Pressan fékk á árinu 2014 og gerir það að verkum að handbært fé frá rekstri er 184 milljónir króna.
Pressan greiddi samtals um 32 milljónir króna í laun og launatengd gjöld á árinu 2014. Miðað við að átta ársverk voru unnin hjá félaginu á umræddu ári er kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda hjá þeim um 332 þúsund krónur fyrir hvert þeirra á mánuði.
Annað félag innan fjölmiðlasamsteypunnar, Vefpressan ehf., skilaði einnig ársreikningi í vikunni. Vefpressan er það félag sem skráð er hjá fjölmiðlanefnd sem eigandi flestra vefmiðla fjölmiðlaveldisins. Þar segir að Vefpressan sé móðurfélag Pressunnar.is og Bleikt.is. Auk þess á Vefpressan, samkvæmt fyrirtækjaskrá, fyrrum móðurfélag netmiðilsins Eyjunnar, sem heitir Eyjan media. Nýtt móðurfélag hans, Eyjan miðlar, var sett á fót árið 2014 og hefur aldrei skilað ársreikningi. Það félag er í eigu Pressunar ehf., sama félags og á 70,73 prósent hlut í DV ehf., útgáfufélagi DV.
Vefpressan hagnaðist um 27,8 milljónir króna á árinu 2014 og eignir þess voru metnar á 224 milljónir króna í lok þess árs. Þær jukust um 53 milljónir króna á árinu. Skuldir félagsins jukust um 25 milljónir króna á árinu 2014 og stóðu í 193 milljónum króna í lok þess.