Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur fallið um 6,13 prósent, þegar þetta er skrifað, en markaðir loka í Bandaríkjunum um klukkan 21:00 að íslenskum tíma. Þá hefur hlutabréfaverð á öllum helstu mörkuðum heimsins fallið mikið í dag, eða að meðaltali á bilinu tvö til þrjú prósent. Nasdaq-vísitalan í Bandaríkjunum hefur fallið um þrjú prósent og Shanghai-vísitalan í Kína um 3,55 prósent.
Hér á landi lækkaði vísitalan einnig mikið, annan daginn í röð. Lækkunin var 2,72 prósent en öll félögin sextán lækkuðu. Mesta lækkunin á einstöku félagi var hjá Icelandair, um 3,62 prósent í viðskiptum upp á 1.380 milljónir króna.
Titringur vegna versnandi stöðu
Í Wall Street Journal segir að helsta ástæða lækkunarinnar á mörkuðum í dag, og síðustu daga, megi rekja til þess að fjárfestar óttist að kínverska hagkerfið sé að gefa verulega eftir, miðað við það sem áður var talið, og að heimsbúskapurinn gæti verið að leið inn í erfiðleikatímabil og óstöðugleika. Þar spilar meðal annars inn í, að minnkandi eftirspurn á mörgum lykilmörkuðum heimsins, hefur leitt til fjármagnsflótta frá verðbréfamörkuðum með tilheyrandi lækkunum.
Miklar lækkanir á hrávörumörkuðum á undanförnum mánuðum - þar sem lækkun á hráolíutunnunni úr 115 Bandaríkjadölum niður fyrir 30 Bandaríkjadali á einungis fimmtán mánaða tímabili hefur vakið mesta athygli - hafa einnig haft mikil áhrif stöðu einstakra hagkerfa. Þannig hafa hagkerfi Rússlands, Brasilíu og Nígeríu farið illa út úr miklum verðlækkunum á markaði að undanförnu, og í tilfelli Brasilíu er talið að staðan í landinu eigi eftir að versna mikið á þessu ári, áður en hún batnar á nýjan leik.
Gull hækkar
En eins og oft þegar hlutabréfa hrynja í verði, og fjárfestar byrja að selja bréf og færa fjármagn í öruggara skjól, þá hækkar verð á gulli. Í dag hefur gull hækkað um tæplega tvö prósent, og nemur hækkunin það sem af er ári rúmlega fimm prósentum.