Í nýrri skýrslu mannúðarsamtakanna Oxfam, sem byggir meðal annars á tölum frá Credit Suisse, sem birt var í dag kemur fram að nú sé ríkasta eitt prósent fólks í heiminum orðið ríkara en öll restin til samans. Á árinu 2015 var staðan þannig að 62 einstaklingar –einum færri en sitja á Alþingi Íslendinga – áttu samtals jafn mikinn auð og sá helmingur mannkyns sem á minnst, eða samtals 3,6 milljarðar manna.
Á Íslandi er þessi þróun einnig að eiga sér stað. Á árinu 2014 fór helmingur alls nýs auðs sem varð til á Íslandi til þess fimmtungs landsmanna sem hafði hæstar tekjur. Þær tölur eru likast til vanmetnar og líklega hefur auður þess hóps vaxið mun meira en þær gefa til kynna. Ýmis gögn styðja það, til dæmis sú staðreynd að ríkasta eitt prósent landsmanna, alls um 1.890 manns, þénuðu um helming allra fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2014.
62 einstaklingar eiga 229 þúsund milljarða króna
Oxfam hefur um árabil gefið úr skýrslu í janúar sem sýnir efnahagslega misskiptingu í heiminum. Megin stef hennar í þetta skiptið er að misskiptingin hefur náð nánast súrrealískum hæðum, sem endurspeglaðst í því að nokkrir tugir einstaklinga er orðið ríkara en helmingur mannkyns samanlagt, og að bilið er að aukast hraðar en jafnvel svartsýnustu menn áttu von á.
Þessi þröngi hópur einstaklinga, alls 62 einstaklingar, hefur aukið auð sinn um 44 prósent síðan á árinu 2010. Hann á nú 1,76 þúsund milljarða dala, eða 229 þúsund milljarða íslenskra króna. Auður þessarra 62 einstaklinga hefur því vaxið um 65 þúsund milljarða króna á fimm árum.
Á sama tíma hefur auður þess helmings jarðarbúa sem á minnst af eignum dregist saman um 41 prósent, eða um 130 þúsund milljarða króna. Þetta eru stjarnfræðilegar tölur og erfitt fyrir flesta að setja þær í samhengi. Það er þó til að mynda hægt að benda á að landsframleiðsla Íslendinga árið 2014 nam 1.989 milljörðum króna, eða 0,8 prósent af eignum ofangreindra 62 einstaklinga.
Brauðmolakenningin virkar ekki
Í skýrslu Oxfam kemur fram að frá aldarmótum hefur sá helmingur jarðarbúa sem á minnst fengið til sín um eitt prósent af þeim auð sem orðið hefur til á síðastliðnum 15 árum. Helmingur þess viðbótarauðs hefur ratað til þess eins prósents einstaklinga í heiminum sem eru ríkastir.
Brauðmolakenningin, um að aukin auður þeirra ríkustu hafi jákvæð áhrif á lífsgæði og auðssöfnun allra hinna, virðist því ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Skýrsluhöfundar segja að aukin efnahagslegur ójöfnuður grafi undan efnahagslegri og félagslegri samheldni.Áhrif þessa sístækkandi bils séu sérstaklega alvarleg hjá fátækasta fólki heims. Oxfam bendir á að þótt fjöldi heimsbúa sem sé undir fátækrarmörkum hafi dregist saman á tíunda áratug síðustu aldar, samhliða mikilli aukningu í auðsöfnun þeirra ríkustu, þá sé það ekki rökstuðningur fyrir því að brauðmolakenningin virki. Samtökin benda á að ef misskipting hefði ekki aukist á tíunda áratugnum þá hefði um 200 milljónir manns til viðbótar ekki lent undir fátækrarmörkum. Ef meirihluti þess hagvaxtar sem varð í heiminum á tímabilinu hefði lent í vösum fátækra þá hefði fjöldi þeirra sem hefðu getað náð yfir fátækramörk vaxið í um 700 milljónir.
Málið sé því einfalt. Stærstu sigurvegararnir í þeim kapitalíska leik sem leikinn er í hagkerfum heimsins eru ríkustu þátttakendurnir í honum.
Misskipting auðs eykst líka hratt á Íslandi
Það er ekki bara út í hinum stóra heimi sem auður hinna ríku er að vaxa hratt. Þótt dregið hafi saman í launamun milli stétta hins íslenska samfélags þá gleymist oft að umtalsverður hluti þjóðarinnar er alls ekkert launafólk, heldur eignafólk. Það hefur tekjur sínar af því að ávaxta þær eignir og kaupa nýjar, sem geta mögulega ávaxtast í framtíðinni. Þegar horft er á þann nýja auð sem verður til á Íslandi árlega, út frá þeim tölum sem aðgengilegar eru opinberlega hérlendis, kemur í ljós að eignarfólkið er að taka til sinn þorra hans.
Í lok september 2015 greindi Kjarninn frá því að sá fimmtungur Íslendinga sem hafði hæstar tekjur á árinu 2014, alls tæplega 40 þúsund manns, jók hreina eign sína um 142,2 milljarða króna á því ári. Tæpur helmingur aukningar á auði íslenskra heimila á því ári féll í skaut þessa hóps.
Tekjuhæsta tíund landsmanna, 19.711 manns, sá auð sinn vaxa um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Á sama tíma óx hrein eign þess helmings þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar, alls um eitt hundrað þúsund manns, um 72 milljarða króna, eða 16,2 milljarða króna minna en ríkasti hluti þjóðarinnar.
Ríkasta eitt prósentið þénar helming fjármagnstekna
Kjarninn greindi síðan frá því í nóvember í fyrra að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna, alls 1890 manns, þénaði 42,4 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2014. Alls námu fjármagnstekjur sem einstaklingar og samskattaðir greiddu á því ári 90,5 milljörðum króna og því fékk þessi litli hópur samtals 47 prósent þeirra tekna í sinn hlut. Um tvær af hverjum þremur krónum sem ríkasta prósent landsmanna þénar er vegna fjármagnstekna. Þetta má lesa úr staðtölum skatta vegna ársins 2014 sem birtar hafa verið á vef embættis ríkisskattstjóra.
Fjármagnstekjur eru tekjur sem einstaklingar hafa af fjármagnseignum sínum. Þ.e. ekki launum. Þær tekjur geta verið ýmis konar. Til dæmis tekjur af vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Ljóst er að auður þessa hóps, sem er allra virkastur á Íslandi á verðbréfamarkaði, hefur aukist mjög á árinu 2015. Hlutabréf hækkuðu nefnilega gífurlega í verði á síðasta ári.
Á árinu 2015 hækkaði úrvalsvísitalan, sem er samsett af þeim átta félögum sem hafa mestan seljanleika á Nasdaq Iceland-hlutabréfamarkaðnum, um 43 prósent. Markaðsvirði félaga sem skráð eru á markaðinn jókst um 340 milljarða króna, úr 634 milljörðum króna í 974 milljarða króna. Ljóst er að góður hluti þeirrar virðisaukningar lenti hjá ríkasta prósenti Íslendinga.